Fjölmiðlafrumvarpið, auðjöfrarnir og stjórnmálamennirnir

Það er hreint út með ólíkindum, hvernig snúið er út úr sumum hlutum og hvernig hlutir eru stundum gerðir tortryggilegir og aðrir miklaðir og dásamaðir. Þarna er vald fjölmiðla gífurlega mikið, þótt ekki vilji ég gera lítið úr almannarómi. Bestu dæmi um slíkt eru fjölmiðlafrumvarpið og útrásin.

Ég áttaði mig á því fyrir um ári síðan að líklega væri ekki allt með felldu á Íslandi, þótt ekki hafi ég átt von á þessum skelli. Ég var hins vegar sammála ráðamönnum, að þegar þarna var komið, var lítið annað að gera en að halda sér vel og biðja til Guðs að allt færi ekki til andskotans. Það er skemmst frá því að segja að allt fór til andskotans og lengra til. Þegar leita á sökudólga eftir katastrófu sem þessa reyna allir að leiða athyglina frá sér.

Ríkisstjórnin yppir öxlum og bendir á alþjóðakreppuna. Eðlilegt er að stjórnarandstaðan krefjist afsagnar ríkisstjórnarinnar. En hvar er krafa flokksmanna stjórnarflokkanna um svör frá sínum mönnum - heiðarleg svör en ekki útúrsnúninga. Hvar eru kröfurnar um að forystu stjórnarflokkanna sé hreinlega skipt út, að menn axli ábyrgð á sínum gjörðum, hvort sem það eru sjálfstæðismenn, framsóknarmenn eða kratar!

Alþingi bendir á ríkisstjórnina, alþjóðakreppuna og útrásarvíkingana og kemst upp með það! Hversvegna er Alþingi ekki spurt um þátt þess í þessari kreppu og þeirra ábyrgð? Hvar var löggjöfin um þessi máli, þar sem krosseignatengslin og önnur óeðlileg viðskipti voru hreinlega bönnuð?

Fjármálaeftirlitið á hversu litla peninga þeir höfðu og lélega löggjöf. Hvers vegna bentu þeir ekki á hættuna, sem gæti skapast - hina raunverulegu hættu á að við færum á hausinn? Hversvegna bentu þeir ekki á að löggjöfin hér á landi væri stórgölluð?

Seðlabankinn segist hafa margvarað ríkisstjórnina við og að eftirlitið sé mestmegnis hjá Fjármálaeftirlitinu, en hvar voru viðvaranir hans að finna í opinberum gögnum eða ræðum og þá er ég að tala um alvöru viðvaranir en ekki eitthvað undir rós? Hversvegna bentu þeir ekki á að löggjöfin hér á landi væri stórgölluð? Og hversvegna studdu þeir ekki kröfu Fjármálaeftirlitsins um auknar fjárveitingar?

Viðskiptaráðuneyti - ráðuneyti bankamála - bendir á Fjármálaeftirlitið og segist treysta sínum undirstofnunum. Ég hélt það væri verkefni ráðuneyta að fylgjast með því að undirstofnanir væru að vinna vinnuna sína eða þannig var mér kennt í námi mínu í stjórnsýslufræðum.

Fjármálaráðuneytið segir málaflokkinn ekki heyra undir sig, sem er formlega rétt skýring sé litið til verkefna ráðuneytisins, en samt einkennilegt að menn þar á bæ skuli ekki hafa sé neitt athugavert við þróun mála.

Slíkar spurningar verða ekki lagðar fram og útskýringin er einföld. Það eru sameiginlegir hagsmunir ríkisstjórnarinnar, alþingismanna, annarra stjórnmálamanna, ráðuneyta, eftirlitsstofnana, auðjöfra og þeirra sem fyrir þá unnu og fjölmiðla, sem eru, voru eða verða í eigu þeirra sömu auðmanna og áttu þá, að sannleikurinn komi ekki ljós að réttu spurningarnar sé ekki lagðar fyrir þessa aðila.

Enginn veit hversu mög símtöl menn á borð við Reyni Traustason fá þessa dagana frá auðjöfrum, starfsmönnum þeirra eða spilltum stjórnmálamönnum. Mikla ábyrgð á því hvernig okkur er fyrir komið í dag bera þeir, sem stóðu á móti fjölmiðlafrumvarpinu á sínum tíma. Berlega hefur komið í ljós, að við sem studdum fjölmiðlafrumvarpið vissum nákvæmlega hvað við vorum að gera.

Heldur landslýður að mögulegt hefði verið að koma í gegnum Alþingi og ríkisstjórn og fá samþykki fjölmiðla/auðjöfra á lögum, sem hefðu bannað krosseignatengsl og aðra lögleysu, sem aðeins er leyfð á Íslandi? Svar mitt er einfalt: aldrei. Hér þarf að sópa út af Alþingi, ráðuneytum og eftirlitsstofnunum. Bara til að það sé á hreinu, þá er ég hvorki stjórnleysingi, kommúnisti eða sósíalisti, heldur flokksbundinn íhaldsmaður í Sjálfstæðisflokknum, sem er ofboðið.

Hér þarf að koma skikki á hlutina!


mbl.is Upptaka af útskýringum ritstjóra DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heldur þú að forseti vor nagi sig í handarbökin fyrir að hafa stutt

garún (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 08:16

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Já, og ég held að fleiri stjórnmálamenn nagi sig í handarbökin fyrir stuðning sinn og náið samband við aðra auðjöfra.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.12.2008 kl. 13:25

3 Smámynd: Ólöf de Bont

Heyr heyr kæri vinur, gæti ekki verið meira sammála.

Ólöf de Bont, 16.12.2008 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband