Á að "haarda" málið fram í febrúar - munu andstæðingarnir segja ...

Hvaða ástæður liggja að baki frestunar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins nú korter í 12? Fundinum sem landsmenn allir - og þó sérstaklega sjálfstæðismenn - hafa beðið eftir mánuðum saman? Ég þekki minn eigin flokk nógu vel til þess að vita, að þær ástæður, sem nefndar eru, eru ekki endilega þær réttu. Er flokkurinn svona afskaplega ákvarðanafælinn eða er hann haldinn "krónískri" frestunaráráttu? Þetta slyðruorð þurfum við að reka af okkur sem allra fyrst, því það er orðið okkur fjötur um fót!

Ef halda á Landsfund núna í lok janúar er það einmitt hárrétt tímasetning ef fara á í kosningar í vor. Fundurinn á að ákvarða framtíðarstefnu flokksins og afstöðu hans til ESB aðildar. Hvernig eigum við að haga okkur næsta mánuðinn í byrjun kosningabaráttu án skýrrar stefnu og án þessa að vita hver forusta flokksins verður í næstu kosningum? Kosningabaráttan byrjar nefnilega strax í dag!

Með því að fresta fundinum um mánuð verður þeim, sem hyggja á framboð, hvort sem það er til formanns eða varaformanns flokksins eða til Alþingis, gert erfiðara fyrir. Eru einhverjir kannski að tryggja stöðu sína af því að þeir hafa heyrt af öflugu mótframboði? Eða á að róa grasrótina með því að koma með gömlu tugguna enn einu sinni, að ekki megi rugga bátnum svona rétt fyrir kosningar og við ætlum bara að halda okkur við fyrri forystu, þar sem tíminn sé svo naumur og breytingar séu svo áhættusamar?

Þessi frestun leggst illa í mig persónulega og lagðist illa í félaga mína á fjölmennum og fjörugum aðalfundi hjá  Sjálfstæðisfélaginu Njarðvíkingi í gærkvöldi. Á þeim fundi var forusta flokksins og ríkisstjórnin öll mikið gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi sitt í aðdraganda bankakreppunnar og stefnu- og aðgerðarleysi sitt eftir hrun bankanna. Það má í raun vart á milli sjá, hvort ríkisstjórnin stóð sig verr fyrir eða eftir hrun bankanna, þótt hæla megi þeim fyrir fyrstu tvær vikurnar eftir hrunið. Fólk spurði eðlilega hvort að "haarda" ætti málið fram í febrúar? Ef flokksmenn tala svona, hvað segja þá andstæðingar okkar og það í byrjun kosningarbaráttu!

 

  • Við sjálfstæðismenn viljum breytingar og þær strax!
  • Tala þarf til þjóðarinnar og útskýra hvað er á seiði á máli sem þjóðin skilur
  • Skipta þarf út forystu flokksins og inn þurfa að koma tiltölulega ferskir einstaklingar
  • Endurnýja þarf þingflokkinn að stórum hluta í kosningum í vor og til þess þarf prófkjör
  • Víkja verður úr embætti stjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits auk annarra spilltra embættismanna
  • Skýra þarf framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins og endurnýja verður stefnu flokksins í anda hinnar klassísku Sjálfstæðisstefnu
  • Flokkurinn þarf að kynna skýra og einfalda aðgerðaáætlun um hvernig við ætlum að koma okkur út úr kreppunni 
  • Taka þarf afstöðu til ESB aðildarviðræðna eða annarra kosta, s.s. einhliða upptöku annars gjaldmiðils
  • Skerpa verður á þrískiptingu valdsins: auka völd Alþingis, efla aðhald með framkvæmdavaldinu, auka sjálfstæði dómsvaldsins

 

Ef við sjálfstæðismenn tökum á ofangreindum atriðum er möguleiki að flokkurinn komist úr þeirri lægð, sem við óneitanlega erum í, strax í vor. Þannig gætum við endurheimt traust þjóðarinnar og þar með okkar raunfylgi okkar upp á 35-40%.

Aðgerðaleysið mun leiða okkur beina leið í fylgi Framsóknarflokksins fyrir "uppreisn".

Eftir hverju er verið að bíða - Godot?

Á leiklistarvefnum er eftirfarandi lýsing á leikriti Samule Becketts, "Beðið eftir Godot":

 

Vladimir og Estragon, tveir flækingar hittast á sama stað á hverjum degi, hjá trénu við sveitaveginn og bíða eftir Godot. Þeir vita samt varla hver Godot er né til hvers þeir ætlast af honum. Enda kemur hann aldrei, en sendir dreng á hverjum degi með skilaboð um að hann komi örugglega á morgun. Pozzo kemur líka, umrenningur af öllu fínna tæi og hefur þræl, Lucky sem hlýðir smæstu bendingu húsbónda síns og jafnvel hugsar upphátt samkvæmt skipun. Vladimir og Estragon reyna að stytta stundirnar við að hugleiða lífið og tilveruna rifja upp ævi sína, sem gengur illa, og skipuleggja sjálfsmorð sem reynist þeim ofviða. Svo þeir bíða. 

 

 

 


mbl.is Landsfundur færður nær kosningum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Að fylgjast með Sjálfstæðisflokknum er eins og að horfa á Bergmann mynd í slómó. Með kínversku tali. Ég skil ekki bofs og kleprarnir eru farnir að flýja.

Villi Asgeirsson, 23.1.2009 kl. 09:31

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll

Margt hefur gerst frá því þú sendir inn þessa grein í morgun.

Það breytir samt ekki kjarnanum í því sem þú segir. Allt þetta sem þú nefnir þarf Sjálfstæðisflokkurinn að gera ef hann á að endurvinna stöðu sína sem sterkasta afl á hinum pólitíska vettvangi.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.1.2009 kl. 14:08

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Auðvitað er það áfall að formaðurinn sé með illkynja æxli, en innihald greinarinnar stendur óhaggað og þeir punktar, sem ég set fram.

Það er synd að Geir Haarde þurfi að kveðja stjórnmálavettvanginn á þennan hátt, en fyrrverandi formaður flokksins gerði í raun slíkt hið sama.

Staðreynd er að forystuskipti hefðu átt sér stað, hvort sem Geir hefði veikst eður ei. Undanfarna daga hafa farið fram þreifingar á fylginu við Geir og þær sýndu svo ekki var um villst að hann hefði að öllum líkindum verið felldur í formannskjöri á Landsfundi í næstu viku. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 23.1.2009 kl. 17:46

4 identicon

Sæll Guðbjörn, ég er þér fyllilega sammála. Spennandi að sjá hverjir verða ofaná í formanninum. Ég sé mögulega kandidata eins og Hönnu Birnu, Árna og Þór Sigfússyni (viljum samt ekki missa Árna úr Reykjanesbæ), Kristján Þór og fl. Bjarni Ben er vandaður og frambærilegur en ég held að flokks aristókrati eins og hann eigi erfitt með að laða að fylgi núna nema gallharðra sjálfstæðismanna. Þorgerður hefði komið sterk nema vegna tengsla sinna við Kaupþings. Eigum fullt af fínu fólki en þurfum að feta svolítið í fótspor Framsóknar til að tryggja hag flokksins og þjóðarinnar. Greinilegt er að fólk vill breytingar og er kominn með illan bifur á núverandi ráðherrum sem tákngerfingum fyrir allt sem aflaga fór. Almenningur tortryggir allt og alla. Flokkurinn þarf að róa lífróður. Margir góðir í varaformanninn líka s.s. Ásta Möller, Guðfinna, Kristján, Bjarna Ben og fleiri.

Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 19:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband