Opinberir aðilar eiga ekki að stunda áhætturekstur á kostnað skattborgara

StraumsvíkNokkur gagnrýni hefur komið fram vegna sölu Reykjanesbæjar á hluta sínum í HS orku og kaup bæjarins í HS veitum og landi á Reykjanesi og Svartsengi. Nær öll gagnrýni sem ég hef séð er á litlum rökum reist og byggir á misskilningi. Það sem mesta furðu vekur er að sumir fjölmiðlar skuli ekki kynna sér málið betur, heldur skuli þeir frekar éta upp órökstuddar fullyrðingar um málið, sem ekki standast við nánari skoðun. Hvað aðkomu Grindvíkurbæjar varðar, þá hefur það bæjarfélag staðið í samningaviðræðum við HS orku í allan vetur, en ekki komist að samkomulagi um verð landsins innan þeirra bæjarmarka. Þegar samningar náðust ekki var því fullkomlega eðlilegt að HS orka snéri sér til annarra aðila, sem gerðu sér grein fyrir verðmæti landsins. Árni Sigfússon bæjarstjóri hefur marglýst því yfir að Grindvíkingum sé velkomið að kaupa það land, sem er innan þeirra bæjarmarka. Þrátt fyrir að bæjarstjórn Reykjanesbæjar sé umhugað um gott samstarf við Grindavík eru hvorki bæjarstjórnarfulltrúar eða ég, sem íbúi Reykjanesbæjar, til í að gefa bæjarfélaginu, sem er mikils virði.


Bláa lóniðAlrangt er að verið sé að selja HS á undirverði, því bæjarfélagið er að fá 2007 „góðærisverð“ fyrir fyrirtækið, en það verð er langt yfir svokölluðu „matsvirði“. Sumir bæjarbúar virðast halda að við séum að kaupa „röradraslið“ en hin raunverulegu verðmæti verði eftir í HS orku. Þegar sveitarfélögin á Reykjanesi og í Hafnarfirði seldu sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja lagðist ég eindregið gegn því að Reykjanesbær gerði slíkt hið sama. Skoðun mín var og er að hitaveitur og rafmagnsveitur eigi að vera í meirihlutaeigu opinberra aðila, að eitt af grundvallarhlutverkum sveitarfélaga sé einmitt að þjónusta sína íbúa hvað varðar heitt og kalt vatn og rafmagn. Rökin fyrir þessu eru að sveitarfélögin eigi að tryggja fullt öryggi í sölu og þjónustu til íbúa og hafa stjórn á þeirri þjónustu. 
Með þessum samningi er ekki verið að einkavæða auðlindirnar – líkt og margir halda fram –, heldur er verið að tryggja opinbert eignarhald íslensks sveitarfélags á auðlindunum. Löggjafinn var mér auðsjáanlega ekki sammála, því að í fyrra voru samþykkt á Alþingi lög, sem Össur Skarphéðinsson fyrrverandi iðnaðarráðherra hafði forgöngu um, er heimiluðu orkufyrirtækjum – innlendum sem erlendum – að eignast náttúruauðlindir landsins. Ég á mér hins vegar skoðanabræður í meirihluta Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, er lýstu yfir afdráttarlausum vilja til að koma auðlindum HS í eigu bæjarins og því hlýt ég að fagna. Reykjanesbær hefur nú þegar sýnt vilja í verki og keypt landið undir virkjununum og þann auðlindarétt sem því fylgdi af HS orku. Landið hefur síðan verið leigt HS orku til 65 ára, en mögulegt er að lengja leigusamninginn um 65 ár, ef báðum aðilum stendur hugur til. Á 15-20 árum hefur leigan greitt upp kaupverðið á öllu landinu og í 40-50 ár nýtur bærinn síðan tekna af auðlindinni í takt við hversu mörg megavött nást á svæðinu. Þetta er að mínu mati hin ákjósanlegasta lausn.


HS orkaMargir hafa áhyggjur af verðhækkunum á orku til íbúa Reykjanesbæjar. Af þessu hef ég minni áhyggjur en áður, því nú eru engin rekstrar- eða eignatengsl milli HS fyrirtækjanna og því hverfandi líkur á hagsmunaárekstrum stjórnenda, sem vinna bæði fyrir bæinn og einkaaðila úti í bæ. Allar verðbreytingar á heitu og köldu vatni og rafmagni þurfa hvort eð er að hljóta samþykki yfirvalda. Að auki er um fullkomna samkeppnisvöru að ræða hvað rafmagnið áhrærir, en eðli málsins samkvæmt er því miður ekki hægt að segja það sama um heitt og kalt vatn. Hækki HS orka rafmagnið á okkur íbúa Reykjanesbæjar, er okkur í lófa lagið að leita eftir tilboðum til Orkuveitu Reykjavíkur, Orkusölunnar(Rarik), Norðurorku og Orkubús Vestfjarða, því allir þessir aðilar eru að selja rafmagn á markaði. Heita og kalda vatnið er hins vegar undir verðlagseftirliti hins opinbera líkt og tíðkast um slíkt víða annarsstaðar í heiminum og veitufyrirtækið í meirihlutaeigu opinbers aðila, sem tryggir mikið og gott aðhald.


OrkaVið Íslendingar erum í miklum vanda um þessar mundir og ljóst að hluti lausnar vandamálsins felst í meiri nýtingu auðlinda landsins til atvinnuuppbyggingar og gjaldeyrissköpunar. Þetta á ekki síst við um Reykjanesið, þar sem atvinnuleysi er risastórt vandamál. Erfitt hefur reynst að fjármagna framkvæmdir HS á undanförnum mánuðum og önnur orkufyrirtæki hér á landi eiga við sama vanda að etja. Ljóst er að engin stór breyting verður á erlendum lánamörkuðum næstu misserin gagnvart Íslandi, en nýlegt mjög lélegt lánshæfismat Landsvirkjunar staðfestir þetta enn frekar. Eina færa leiðin til fjármögnunar orkufyrirtækja er því í gegnum beina fjármögnun eigenda fyrirtækisins. Ekkert sveitarfélag á landinu er svo stöndugt um þessar mundir, að það ráði við slíka fjármögnun og það sama gildir um íslenska banka og einkaaðila. Af þessum sökum er aðeins mögulegt að tryggja fjármögnun með eignaraðild erlendra aðila svo hægt verði að standa við þær orkuskuldbindingar, sem við þurfum að uppfylla fyrir álver og kísilverksmiðju í Helguvík og gagnaver á gamla varnarsvæðinu.


Árni SigfússonOrkuframleiðsla er áhættusöm atvinnugrein og gildir þar einu hvort um rafmagnsframleiðslu eða olíuframleiðslu er að ræða – orkuverð sveiflast einfaldlega mjög mikið. Þetta á sérstaklega við um raforkuframleiðslu fyrir orkufrekan iðnað, þar sem rafmagnsverð tengist oft verði á framleiðsluvörunni. Öðru máli gegnir um rekstur veitustarfsemi, sem inniheldur ekki marga rekstrarlega óvissuþætti. Reykjanesbær tapaði á sl. ári rúmlega fjórum milljörðum króna á HS og Orkuveita Reykjavíkur tapaði um 70 milljörðum á sama tíma. Allt þetta tap er borgað af skattgreiðendum í Reykjanesbæ og Reykjavík. Það er skoðun mín, að borgarinn eigi ekki að greiða í sköttum sínum fyrir tap einkafyrirtækja, hvort sem um er að ræða álver, kísilverksmiðjur, gagnaver, einkabanka eða fyrirtæki útrásarvíkinga. Ég vona að lesendur séu mér sammála um þetta. Af þessari ástæðu gleðst ég ekki aðeins yfir því að fyrirtækið HS orka hafi verið selt á góðu verði, heldur einnig yfir því að vera laus við þessa áhættufjárfestingu – nóg er nú samt lagt á skattborgara á þessum síðustu og verstu tímum.


Einhverjir halda því fram, að Geysir Green Energy muni njóta betri kjara í viðskiptum við okkur í framtíðinni en við gagnvart þeim. Við nánari skoðun stenst þessi fullyrðing þó ekki og með nokkrum rökum má halda fram að sennilega verði þessu öfugt farið í framtíðinni. Reykjanesbær kaupir land af HS orku með skuldabréfi á 5% vöxtum en selur hlut til Geysis með 7% áætluðum meðalvöxtum, en 3,5% lágmarksvöxtum. Reykjanesbær lagði til að vextir tengdust þróun álverðs og við því var orðið. Álverð er í algjöru lágmarki nú um stundir og nær öruggt að það hækkar umtalsvert á næstu árum, sem tryggir hagstæðari vexti fyrir bæinn en fyrir GGE. Fari svo illa að álverð lækki enn meir myndi það þýða taprekstur fyrir HS orku – og hefði þannig þýtt tap fyrir Reykjanesbæ ef hann hefði ekki selt hlut sinn í því fyrirtæki.

Víkjum að síðustu aðeins að söluvirðinu. Reykjanesbær seldi sinn eignarhluta í HS orku fyrir 13.1 milljarð króna, en kaupir um leið HS veituhlutann fyrir 4,3 milljarða króna og að auki land við Svartsengi og á Reykjanesi fyrir 940 milljónir króna. Kaupverðið er greitt við þannig að bein útborgun strax er 1,9 milljarðar kr. og 625 milljónir munu síðan koma í bæjasjóð í mars á næsta ári. Þá eru 6,3 milljarðar greiddir með skuldabréfi til 7 ára, með 7% áætluðum meðalvöxtum en 3,5% lágmarksvöxtum.


Við erum öll dálítið tortryggin þessa dagana og þegar við sjáum svona góðan samning hugsum við með okkur að þetta sé of gott til að vera satt. Þetta er hins vegar satt og ekkert smátt letur að sjá. Ég óska því Árna Sigfússyni, bæjarstjórninni, Reyknesingum og landsmönnum öllum til hamingju með þennan frábæra samning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband