Steingrímur setur skoðananabræður sína á spenann - hvað er bak við ystu Sjónarrönd ?

Háskóli ÍslandsLíklega tala engir meira um "spillingu" og "nepótisma" en Vinstrigræn og þar á Steingrímur J. Sigfússon örugglega metið. Ég hef ítrekað haldið því fram að þrátt fyrir að ég sé kannski ekki oft sammála Steingímri, þá sé ég þeirrar skoðunar að Steingrímur sé sæmilega heiðarlegur, svona miðað við aðra stjórnmálamenn. Ég er ekki alveg jafn viss í minni sök lengur!

 

KárahnjúkarÍ kvöldfréttum Ríkisútvarpsins heyrði ég af einhverri skýrslu, þar sem fram kom að arðsemi orkufreks iðnaðar væri um það bil helmingur þess, sem væri af annarri atvinnustarfsemi í landinu. Mér fannst þetta merkileg frétt, þar sem ég hef verið svo einfaldur að halda því fram að orkufrekur iðnaður sé einmitt eitt af því, sem komi okkur út úr þessari bannsettri kreppu. Ég verð að viðurkenna að ég efaðist um bráðabirgða niðurstöðu skýrslunnar og því ákvað ég að skoða hverjir væru í þessari þriggja manna nefnd, sem Steingrímur J. Sigfússon skipaði í stuttu eftir að hann tók við völdum í fjármálaráðuneytinu.

SjónarröndÍ ljós kom að fyrirtækið Sjónarrönd ehf sá um skýrslugerðina. Ég "gúglaði" það fyrirtæki og eftir að hafa skoðað heimasíðu fyrirtækisins sá ég ekki að þeir hefðu mikla reynslu í vinnu af þessu tagi. Í frétt RÚV kom reyndar í ljós að fyrirtækið hafði gert skýrslu um svipuð mál fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands. Nú, eftir að hafa séð að fyrirtækið, sem í hlut átti, hafði ekki mikla reynslu á þessu sviði, en hafði þó unnið eina skýrslu fyrir "Náttúruverndarsamtökin" sagði mér mitt "tollaranef", að hér væri ekki allt með felldu.  Ég ákvað að "gúgla" vísindamennina að baki þessari skýrslu, en skv. fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins eru það þessir herramenn: Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur, dr. Sigurður Jóhannesson hagfræðingur, dr. Ásgeir Jónsson lektor við Háskóla Íslands og dr. Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

StraumsvíkÉg var að reyna að spara tíma og setti því inn nöfn hvers manns fyrir sig og síðan orðið "stóriðja", en það var til að sjá hvað mennirnir hefðu skrifað um þetta efni á netinu. Í ljós kom að þeir allir voru meira og minna bendlaðir við skrif um þessi mál, bæði á bloggi og annarsstaðar. Það sem ég fann í fljótu bragði sýndi mér að skoðun þeirra á málinu hefur verið mjög skýr í nokkurn tíma, eða að lítill sem enginn hagnaður væri af stóriðju. Það var engum blöðum um það að fletta að þarna voru á ferðinni "vísindamenn", sem voru mjög andvígir orkufrekum iðnaði. Niðurstaðan sem birtist í dag birtist eiginlega í öllum þeirra fyrri skrifum og því megum við búast við endanlegri niðurstöðu mjög fljótlega.

Helstu bráðabirgðaniðurstöður nefndarinnar voru skv. fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins þessar:


  • Arðsemi af fjármagni bundið í orkuvinnslu rúmlega helmingi minni að jafnaði en í annarri atvinnustarfsemi að stóriðju og fjármálastarfsemi undanskilinni.

  • Arðsemi íslenskra orkufyrirtækja talsvert lakari en orkufyrirtækja í Bandaríkjunum og Evrópu.
    Í Evrópu og Bandaríkjunum standast orkufyrirtæki arðsemiskröfu betur en aðrar atvinnugreinar, en á Íslandi gera þau það þriðjungi verr.

  • Kostnaður vegna kaupa á kolefniskvótum getur haft umtalsverð áhrif á arðsemi orkufrekra fyrirtækja sem losa gróðurhúsalofttegundir.

  • Miðað við líklegan náttúrukostnað af dæmigerðum virkjanaframkvæmdum er þjóðhagsleg arðsemi þeirra sennilega umtalsvert minni en hefðbundnir arðsemisreikningar gefa til kynna.

  • Fyrirferð stóriðju jókst mjög í hagkerfinu fram á árið 2008. Ný álver tóku til starfa og verð á áli og orku hækkaði mikið um tíma. Þá hafa framkvæmdir við stóriðju kynt undir þenslu á vinnumarkaði undanfarin ár. Miklar sveiflur eru í þessum geira. Í júní 2009 er verð á áli og rafmagni frá stóriðju rétt rúmur helmingur þess sem var á sama tíma í fyrra í dollurum talið. Tekjur íslenskra orkufyrirtækja minnka að sama skapi og niðursveifla í efnahagslífinu verður meiri en ella.

Ég er samt hræddur um að nefndin verði að skoða hækkanir á álverði undanfarnar vikur áður en þeir birta endanlega niðurstöður, en þessi frétt var á vef Morgunblaðsins í dag:

 

Álverð hefur rokið upp síðustu dagana og var komið yfir 1.920 Bandaríkjadali tonnið á málmmarkaðnum í Lundúnum (LME) í gær. Álverð hefur aðeins einu sinni áður orðið svo hátt ef litið er til undanfarinna ára. Heimsmarkaðsverð á áli var að meðaltali um 1.700 dalir fyrir tonnið á síðasta ári og hafði verðið ekki verið jafnhátt í níu ár eða frá árinu 1995. 

 

Ekki ætla ég að efast um að þessir ágætu stóriðjuandstæðingar hafi komist að þessari niðurstöðu á öðrum en "hávísindalegum" forsendum og beitt bestu aðferðafræði, eða efist þið ágætu lesendur nokkuð um það?

Bara til gamans hvet ég ykkur til að skoða ummæli Þorsteins Siglaugssonar hagfræðings um Landsvirkjun frá því í vor á heimasíðu hans. Ennfremur eru ummæli hans um Palestínumenn - sem ég er svo sem að hluta til sammála - mjög merkileg, þótt ekki væri nema vegna þess hvað þau samræmast vel stefnu ákveðins stjórnmálaflokks á vinstri vængnum. Þá er gaman að skoða ummæli hans um hvalveiðar, en hann virðist ekki vera mjög hlynntur þeim. Kemur það manni á óvart!

Kannski verður næsta skýrsla þeirra félaga um arðsemi hvalveiða. Ég held ég geti nú þegar getið mér til um niðurstöðu hennar.

Við skulum minnast orða Páls Skúlasonar, heimspekings og fyrrverandi rektors Háskóla Íslands, um gagnrýna hugsun: 

 

Gagnrýnin er sú hugsun sem felst ekki á neina skoðun nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni.

 


mbl.is 150 starfa við hvalskurðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gústaf Níelsson

Hvaðan kemur þér sú skoðun Guðbjörn að "Steingrímur sé sæmilega heiðarlegur, svona miðað við aðra stjórnmálamenn"? Af orðum þínum má ráða að efinn læðist að þér, en hafðu til viðmiðunar gamla og góða reglu. Aldrei að treysta kommúnistum. Sannleikurinn er sá að kommúnistar eru mestu sjónhverfinga- og loftfimleikamenn stjórnmálanna, en þeir misstu heimsveldið sitt, og ótrauðir munu þeir reyna að byggja upp nýtt. Hinn frjálsi heimur þarf alltaf að vera á varðbergi.

Gústaf Níelsson, 28.7.2009 kl. 22:58

2 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Guðbjörn - þessi skýrsla, hljómar eins og skemmtilegur skeynipappír.

Að sjálfsögðu, verður henni hampað, hvar sem umræður um þessi mál koma upp.

------------------------------

Ábending, sem ef til vill beinist að þér, "but from interest of consistency" þá þarf maður að beina punktinum um gagnrýna hugsun einnig að sjálfum sér. 

Það getur nefnilega verið þannig, að maður sjálfur sé brotlegur, þegar á sér í hlut eitthvert manns eigin hjartans mál.

Nefnilega, mjög erfitt að vera hlutlaus um eitthvað, sem manni er mjög annt um, að ná fram.

------------------------------

Ég er að vísa til, ESB málsins. Spurninguna um aðild.

Það má eiginlega segja, að þú hafir akkúrat, komið fram með rökin fyrir því, ef skipt er um málaflokk sem á í hlut, hvers vegna ég tek röksemdum sprenglærðra spekinga um málefni ESB, með nokkrum fjölda saltkorna, sem hafa mjög lengi komið fram sem mjög eindregnir og einlægir talsmenn þess að við göngum í ESB.

Ábending þín, að ofan, má einnig skoðast með svipuðum rökum, sem ábending um að taka rökum þeirra með nokkurri varúð, vegna sennilegs skorts á hlutleysi.

----------------------------------------------

Þetta á eiginlega við um, sérhvert skipti þega á í hlut, eitthvað sem er manni mikið hjartans mál.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 29.7.2009 kl. 00:16

3 Smámynd: Andri

Magnað. Ég hugsaði einmitt það sama og þú Guðbjörn. En lét það eiga sig að gúggla mig til um málið - fannst þetta eiginlega of augljóst :)

Einhvern tímann, þegar umræður um Kárahnjúka og álverið á Reyðarfirði stóðu sem hæst, var viðtal í útvarpi við "alvöru kommúnista" (að eigin sögn) að austan sem skildi ekkert í þessum Steingrími Joð. Honum fannst það ekki geta verið sönnum kommúnista sæmandi að vera á móti stóriðju eða öðrum verksmiðjuiðnaði - enda væru slík störf algjört grundvallaratriði til að láta kommúnistastefnuna ganga upp!

Þetta var svolítið skemmtilegur fýr og opnaði augun mín fyrir þessu sem þú kemur inná í inngangnum hjá þér; að Steingrímur sé kannski alveg eins hreinn og beinn og maður hefði haldið. Getur verið að þetta hafi alla tíð snúist um valdgræðgi frekar en hugsjón? Sýnir sig kannski best í ESB umræðunni... Og er hann þá nokkuð betri en hver annar þingmaður - þrátt fyrir allar þessar predikanir, eins og kallinn á kassanum, öll þessi ár??

- - -

Annars hljóta þessi 150 störf við hvalskurð að koma skelfilega illa við ríkisstjórnina sem er á móti veiðunum og rembist við að gera allt til að láta ekki slá á lakkskóna fyrir "vini" okkar innan ESB til að greiða fyrir aðildarumsókninni þeirra (nota bene: Umsóknina þeirra - ekki okkar!).  ;)

Andri, 29.7.2009 kl. 02:58

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gústaf:

Ég hef alltaf vantreyst sanntrúuðum kommúnistum, það er ekki vandamálið. En eftir liðinn vetur var maður einhvernvegin með óbragð í munninum eftir styrkjamálin í kringum minn eigin flokk og Samfylkinguna. Að auki voru VG ekki viðriðnir útrásina og misheppnaða einkavæðingu bankanna, svo maður var aðeins farinn að hugsa að þeir væru náttúrlega með stórfurðulega og hættulega stefnuskrá, en líklega væru þetta nú samt heiðarlegir og vel meinandi menn. Það er nú að koma í ljós að svo er alls ekki og sama rassgatið undir þeim og öðrum!

Einar Björn:

Ég vantreysti Brussel að mörgu leyti minna en sumum á Alþingi, en það þýðir ekki að ég sé ekki á varðbergi gagnvart þeim!

Ég sendi þessa sendingu til baka og bið andstæðinga ESB einnig um hóflega notkun á gagnrýnni hugsun í allir rökræðu um sambandið!

Andri Örn:

Já, þarna sérðu að í þessu atriði og nær öllum öðrum er ég nú á flokkslínunni, en það þýðir ekki að ég bakki í ESB málunum.

Ég vil láta reyna á hvað við fáum út úr þessum aðildarviðræðum og sé samningurinn ásættanlegur, mun ég greiða honum mitt já atkvæði!

Þeir sem nýkomnir eru frá Reyðarfirði, Eskifirði, Egilsstöðum, Norðfirði og Fáskrúðsfirði sjá hvað Kárahnjúkar og Reyðarál hafa gert fyrir Austfirði. Sjón er sögu ríkari!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.7.2009 kl. 07:27

5 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þ.e. ábending, sem allir þurfa að hafa í huga.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 29.7.2009 kl. 10:39

6 Smámynd: Huckabee

Átti viðskipti við samgönguráðherra SJS 1989 varðandi sölu á flugskýli sem var selt félagi fyrir 90% lægra verð en brunabótamat þess þrátt fyrir áhuga annarra á kaupum.Þáverandi flugmálastjóri lagði mikla áherslu á sölu til ákveðins aðila  í flugrekstri sem veðsetti skýlið fyrir 12 falt kaupverð sem greitt var með skuldabréfi. Það vakti athygli að þetta var samþykkt hjá samgönguráðuneyti og fjármálaráðuneyti ÓGR. Ástæðan kann að vera verk án útboðs við Þórshafnarflugvöll sem faðir SJS hafði með höndum ?  Nokkuð augljóst er eftir að SJS komst til áhrifa á nýjan leik að hann er engin engill frekar en margir sem hafa  verið á launum hjá hinu opinbera mest allt sitt líf.

Það er vandlifað  á íslandi

Huckabee, 29.7.2009 kl. 14:20

7 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Guðbjörn

 ,,Þegar borin er saman arðsemi í orkugeiranum í mismunandi löndum, þurfa allar forsendur fyrir samanburðinum að vera augljósar svo almenningur geti lagt mat á niðurstöðurnar.

Vatnsaflsver kosta mikið í byggingu en lítið í rekstri. Þau ættu því að koma illa út varðandi ROIC eða return on invested capital.

Kjarnorkuver kosta líka mikið í uppsetningu en einnig mikið í rekstri. Lágt ROIC

Kola- og olíuorkuver kosta lítið í uppsetningu en mikið í rekstri. Hátt ROIC

Mér sýnist hlutfall orkuveitnanna skýra allavega að hluta muninn á ROIC. Í Bandaríkjunum er mest kol og olía, þar af leiðandi stærst ROIC. Í Evrópu er meiri kjarnorka og vatnsorka. Á Íslandi er nær einungis vatnsorka og minnst ROIC.

Getur verið að skýrslan sýni einungis að kola-, olíu- og gasorkuver gefi hátt ROIC en að kjarnorka og öll umhverfisvæn orka gefi lágt ROIC?

Þessa skýrslu þarf að lesa betur það sem ég er búinn að sjá þar er vitnað í skýrslu sem notuð er og búið er að hrekja sem illa unna.

Það væri ágætt að geta skoðað hvernig íslensk vatnsaflsver eru í samanburði við önnur vatnsaflsver.

Við skulum ekki gleyma þegar þetta fólk reiknaði út arðsemi af stækkun Alcan og gaf út skýrslu þá var sú arðsemi reiknuð út að annað kæmi í staðin eitt hvað annað sem kemur aldrei einungis til að fá þær forsemdir og niður stöður sem högnuðust þeim er báðum um skýrsluna og sýna neikvæða mynd andstæðingum uppbyggingar atvinnustarfsemi á Íslandi á sama tíma vegsömuðu þetta fólk bankana og útrásarvíkingana og þar lægi framtíð lands og þjóðar.

Ég spyr er hægt að treysta svona mönnum hvað finnst ykkur.?

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 29.7.2009 kl. 18:43

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Einar:

Mæltu heilastur!

Huckabee:

Já, ég er nú búinn að vera í vinnu hjá ríkinu megnið af lífinu, bæði hér, Þýskalandi og í Sviss! Ég vil nú ekki að sá stimpill sé á öllum opinberum starfsmönnum að þeir séu eitthvað óheiðarlegri en annað fólk eða að Vinstrigræn séu óheiðarlegra fólk en annað fólk. Það sem fer þó mest í taugarnar á mér er þegar sagt er að sjálfstæðismenn séu upp til hópa óheiðarlegri en annað fólk!

Sigurjón/Rauða ljónið:

Já, við grandskoðum skýrsluna þegar hún kemur fram og rífum hana í okkur ef að hún er ekki sannleikanum samkvæm! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.7.2009 kl. 19:29

9 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Svona til viðbótar:

Hvar eru allir stóriðjuandstæðingarnir núna?

Einhvern tíma hefðu þeir nú gert sér mat úr þessari bráðabirgðaniðurstöðu!

Getur verið að fólk þyrsti í vinnu núna og gjaldeyri? 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.7.2009 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband