Okkur vantar andlega uppörvun en ekki þessa stanslausu neikvæðni ...

VetrarvedurÉg er vægast sagt orðinn þreyttur á þessum stanslausu yfirlýsingum Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur, að næsti vetur verði hræðilega erfiður. Það er landsmönnum fyllilega ljóst, að næsti vetur verður óskemmtilegur, þótt ekki væri nema vegna reynslunnar af síðasta vetri. Að tuða um þetta sí og æ gerir ástandið ekki betra. Ég er alls ekki að biðja um að ríkisstjórnin fegri ástandið, en fyrr má nú aldeilis fyrr vera. Öll þjóðin gengur um með kvíðahnút vegna þessa og ríkisstjórnin virðist ekki vera að gera neitt, nema þá kannski að tala ástandið enn meira niður, eins og ekki sé nóg komið af því? Þótt ég sé sjálfstæðismaður óskaði ég þessari ríkisstjórn velfarnaðar. Við þurfum öll á því að halda, að þessari ríkisstjórn takist vel upp með verkefni sín - þjóðarhagur er undir. Vissulega fór stjórnin vel af stað, þegar hún samþykkti aðildarviðræður að ESB, sem er eitthvað sem við hefðum átt að gera þegar árið 2000, þegar við vorum tilbúin í það. Nei, það sem við þurfum er einhver sem sameinar þjóðina á þessum erfiðu tímum og talar í hana kjark og þor til að takast á við viðfangsefnin, sem eru ærin. Við höfum nóg af úrtölu- og svartsýnismönnum á blogginu og úti í þjóðfélaginu, þótt ekki tali ríkisstjórnin og þingmenn allt norður og niður. Slíkt er ekki háttur alvöruleiðtoga þjóða, sem eru í stórum vanda! Stjórnarherrar, sem halda að þeir geti byggt þetta land upp með neikvæðri umræðu vaða í villu. Slíkir valdhafar skaða þjóðina meira en þeir gagnast henni og gera grafalvegt ástand enn verra!

FyrirgefningMikilvægt er að rannsóknarnefndir og sérstakur saksóknari klári vinnu sína sem fyrst, en vandi sig samt engu að síður við vinnuna. Þjóðin mun heldur ekki finna ró í sínum beinum og sálarfrið fyrr en þau mál hafa verið gerð upp og skýrð á mannamáli fyrir henni. Þjóðin mun heldur ekki vera þeirrar skoðunar, að réttlætinu hafi verið fullnægt fyrr en þeir sem ábyrgð bera á því hvernig komið er fyrir henni hafa svarað fyrir gjörðir sínar. Þetta gildir jafnt um stjórnmálamenn, embættismenn, bankamenn og viðskiptajöfra. Að þessu loknu verður þjóðin að fyrirgefa minniháttar misgjörðir og eyða verður þeirri tortryggni, sem við finnum fyrir allsstaðar í þjóðfélaginu. Að lokum - og vonandi sem fyrst - verðum við einnig að fyrirgefa stærri yfirsjónir fyrrnefndra aðila. Það verður hins vegar ekki mögulegt fyrr en þeir sjá hvað þeir hafa gert af sér og hafa beðið þjóðina opinberlega afsökunar á því. Sá tími virðist því miður - eins og er - langt undan. Það mun taka okkur mun lengri tíma að komast út úr þeirri alvarlegu efnahagslegu og andlegu kreppu, sem við fyrirfinnum okkur í, ef við ætlum halda áfram á vegferð tortryggni og haturs út í náungann. Þjóðfélagssáttmáli sá er samfélag okkar byggir allt á er byggður á trausti og engu öðru en trausti.  Maður sem er fullur af hatri og óbeit á sjálfum sér og öðrum er sjálfum sér verstur og samfélag sem byggir á vantrausti og hatri er slæmt þjóðfélag og ekki aðeins fátækt af veraldlegum auði, heldur einnig andlegum auði. Munum að lokum, að fyrirgefningin gerir okkur sjálfum meira gagn en þeim sem er fyrirgefið.


mbl.is Upplausn hér verði Icesavelögum hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Guðbjörn 

Hvað kostar það okkur Íslendinga að vera inn þessu ESB- bákni, ef við berum okkur saman við Breta sem greiða orðið 31.2 millónir punda (1,3*24) á dag ? 

“Every household will have to pay £257 towards the EU next year after ... for giving a large chunk of British taxpayers' money to the EU for no return..” www.dailymail.co.uk/.../Every-home-pay-257-years-EU-budget.html  

“...People don't realise, that the costs of Britain is 1.3 million pounds per hour..” http://dotsub.com/view/d25a9402-c339-4603-af2b-5449e4dd4d1b

Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 12:04

2 Smámynd: Kári Friðriksson

Vel mælt Guðbjörn. Kjöftum krónuna upp. Jákvæð umræða og bjartsýni er það sem við þurfum á að halda. Hafðu það gott.Kári Friðriksson,tenor.

Kári Friðriksson, 6.9.2009 kl. 14:32

3 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Sammála Guðbjörn. Stjórnmálamenn verða að stappa stáli i fólk,  en ekki endalaust mála skrattann á vegginn. Því miður virðist svartagallsraus orðinn lenska hjá öllum stjórnmálaflokkunum og enga glætu að sjá í svartnættinu. Það síast út í samfélagið. Umræðan um Icesave og ESB er síðan farin að minna á galdrafár.  Það er kannski tími kominn til að stofna jákvæða flokkinn.  

Lárus Vilhjálmsson, 6.9.2009 kl. 14:50

4 identicon

Ætli fólki, sem er að missa allt ofan af sér...standi ekki slétt á sama hvort umræðan er jákvæð eða neikvæð, allt þetta kjaftæði er ekkert að gera neitt fyrir þetta fólk hvort eð er 

Anna Grétarsdóttir (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 16:38

5 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Góður pistill Guðbjörn og orð í tíma töluð, eða þannig

Ingimundur Bergmann, 6.9.2009 kl. 17:14

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Allir:

Ég hef sjálfur lent í miklum vandræðum í lífinu, m.a. þurft að skipta um starf eftir að hafa hent milljónum í að mennta mig og eftir hafa starfað þar í um áratug. Hefði ég lagst í rúmið og vorkennt mér eða kennt Almættinu, öllum öðrum og sjálfum mér um hvernig fyrir mér var komið, hefði ég aldrei komist aftur á strik. Stuttu síðar missti ég vinnuna og lagðist þá ekki heldur niður og vorkenndi mér bara. Ég var hins vegar með jákvætt og gott fólk í kringum mig sem studdi mig í hvívetna og það gerði gæfumuninn!

Anna:

Það er meira til í heiminum en steypa!

Það er misskilningur hjá þér, að jákvæð umræða breyti engu. Það munu margir missa íbúðir og bíla á næstu mánuðum og árum. Þess fólki verður að hjálpa eins og hægt er, þótt eflaust margir muni segja að þeim hafi ekki verið hjálpað nóg.

Jákvæð umræða og jákvæður andi gerir þá erfiðu tíma sem framundan eru léttbærari. Jákvæð umræða er einnig betri fyrir atvinnulífið, því hún hvetur til meiri hugmyndaauðgi og úr læðingi leysist jákvæð orka, sem við þurfum á að halda meira en nokkru öðru! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 7.9.2009 kl. 07:40

7 Smámynd: Jón Sveinsson

Heil og sæl öllsömul og hugsum jákvætt.

Bros og létt fas í garð allra er vísir að framför hvort sem þið trúið því eða ekki öll erum við misjöfn en innst ynni erum við eins í þeim efnum, þó stjórnvöld séu eins og skrattinn sjálfur þá látum við þau ekki troða okkur í svaðið þó þau séu þar,Heilsumst og brosum til hvors annars. LIFUM HEIL.

Jón Sveinsson, 7.9.2009 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband