Spurningalisti ESB - enskukunnátta embættismanna - Björn Bjarnason og Svartfjallaland

Það er gaman að fylgjast með áhyggjum ESB andstæðinga af enskukunnáttu embættismanna stjórnarráðsins og undirstofnana þess. Sama fólk virðist hafa gífurlegar áhyggjur af því, að 1000 manns verði ráðnir í eitt ár hjá ríkinu til að svara spurningalistunum er bárust íslenskum stjórnvöldum fyrir nokkrum dögum. Í byrjun var reynt að gera spurningarnar sjálfar tortryggilegar, en til vitnis um gagnsæja stjórnsýslu Evrópusambandsins skýrði Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, frá því í hátíðarsal Háskóla Íslands, að hann sæi því ekkert til fyrirstöðu, að spurningarnar yrðu birtar almenningi á vefnum. Það var ekki að sökum að spyrja, að spurningarnar voru orðnar aðgengilegar almenningi síðdegis sama dag. Eftir að hafa fylgst með ESB stjórnsýslunni í nokkur ár, má segja að þessi ákvörðun komi mér ekki sérstaklega á óvart, því flest mál - nema kannski mál er varða öryggi aðildarríkjanna - eru aðgengileg á netinu og hægt að fylgjast þar með framgangi þeirra (http://europa.eu).

Þetta gagnsæi passaði ekki andstæðingum ESB aðildar og hafa þeir því nú breytt um "taktík" og vilja sjá svör íslensku stjórnsýslunnar við spurningum sambandsins. Sem stjórnsýslufræðingur vona ég að sjálfsögðu að leyfilegt verði að birta sem flest svör íslensku stjórnsýslunnar við spurningum sambandsins, þótt einhver svör verði ekki hægt að birta, t.d. svör er varða ýmsa eftirlitsþætti tollgæslunnar. Sem opinber starfsmaður get ég að sjálfsögðu ekki tjáð mig um svör míns embættis við þeim spurningum, sem að okkur er beint af fjármálaráðuneytinu. Mér hlýtur þó að vera leyfilegt að skýra frá því, að spurningarnar eru alls 40 talsins, svo sem sjá má í 29. kafla spurningalistans, sem fjallar um Tollabandalagið (e. Customs Union). Svörin við þessum spurningum verða vafalaust misjafnlega löng og ég á alveg eins von á því að nokkrar spurninganna lendi á mínu borði. Satt best að segja fæ ég ekki séð, að ein einasta þessara 40 spurninga muni vefjast fyrir starfsmönnum tollstjóra. Ég á von á að það taki 10-15 starfsmenn u.þ.b. 2-3 daga að svara þessum 40 spurningum. Kaflarnir, sem sendir voru Íslendingum, voru alls 33. Ef við gerum ráð fyrir að sama tíma taki að svara hinum 32 köflunum er reiknidæmið einfalt: 33 kaflar x 15 starfsmenn x 3 dagar  = 1485 dagar.

Þetta jafngildir því u.þ.b. 7 ársverkum en ekki 1000 ársverkum, líkt og Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, þingmaður og borgarfulltrúi, benti nýlega á í bloggi sínu. Sjö ársverk hjá ríkisstarfsmönnum af því "kalíberi", sem þarf til að geta svarað spurningum af þessu tagi og á ensku kosta líklega: 7 ár x 9 milljónir (laun + launatengd gjöld). Þetta gerir alls um 56 milljónir króna. Auðvitað fellur til einhver viðbótarkostnaður, t.d. vegna þýðinga. Hins vegar er ljóst, að flest ráðuneyti og undirstofnanir þeirra hafa nú þegar látið þýða helstu lög og reglugerðir er gilda á þeirra verksviði, t.d. vegna samskipta á grundvelli EES samkomulagsins og annarra erlendra samskipta auk þess sem ráðuneyti og undirstofnanir þeirra hafa velflest enska útgáfu af heimasíðum sínum.

Við fyrstu sýn virðast spurningar Evrópusambandsins að mínu mati ákaflega skynsamlegar og bera með sér, að þeir sem spyrja hafa mikla innsýn í viðkomandi málaflokka. Ég get þó að sjálfsögðu best dæmt um tolla- og skattamál. Það er kannski ekki að undra, að embættismenn ESB séu þar á heimavelli, þar sem tollabandalagið er ein af meginstoðum Evrópusambandsins. Ég get ímyndað mér - út frá spurningunum, sem bárust tollstjóra - , að svör tollstjóra verði á bilinu 50-70 síður. Ef við við gerum ráð fyrir að svör annarra stofnana verði álíka löng er útkoman: 33 kaflar x 70 síður = 2310 síður  en ekki 50.000 síður líkt og Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, þingmaður og borgarfulltrúi, benti á í bloggi sínu í gær.

Ég vil jafnframt benda Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra, þingmanni og borgarfulltrúa, á að það var lýðveldið Ísland, sem var að sækja um aðild að Evrópusambandinu, en ekki Evrópusambandið, sem var að biðja lýðveldið Ísland að gerast aðili að Evrópusambandinu. Það má vel vera að Björn og félagar séu ekki sáttir við það, en þetta var niðurstaða Alþingis. Það er því fullkomlega eðlilegt, að Íslendingar sendi svör sín á vinnumáli Evrópusambandsins - ensku. Að auki vil ég benda Birni á að íslenskir embættismenn í fagráðuneytum og undirstofnunum fagráðuneyta eru alvanir að eiga í samskiptum við Evrópusambandið og stök aðildarríki þess, m.a. vegna EES samningsins. Að auki er stjórnsýsla Íslands í stanslausum samskiptum við margar alþjóðastofnanir og önnur ríki heimsins og nær öll slík samskipti fara fram á ensku. Af þessum sökum eru ráðuneytin og undirstofnanir þess að mínu mati fullfær um að svara spurningum á sínu sérsviði á enskri tungu.

Nú þekki ég ekki til tungumálakunnáttu Björns Bjarnasonar. Hann er vissulega lögfræðingur af gamla skólanum og þá voru velflestar námsbækur á íslensku. Björn hefur því líklega ekki hlotið mikla þjálfun í lestri eða skriftum á öðrum tungumálum en íslensku í háskólanámi sínu. Samkvæmt heimasíðu Alþingis, sem að mínu mati má treysta, hefur Björn Bjarnason verið félagi í International Institute for Strategic Studies í London frá 1973 og sat í nefnd um öryggis- og varnarmál Íslands auk þess að sitja í utanríkismálanefnd á árunum 1991-1995 (form. 1992-1995). Að auki sat Björn Bjarnason í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins, sem hann af skiljanlegum ástæðum hefur ekki flaggað mikið. Þessu til viðbótar kemur fram að Björn Bjarnason hefur birt á íslensku og öðrum málum rit og tímaritsgreinar um öryggismál Íslands og Norðurlanda auk rita um önnur utanríkismál og stjórnmál, auk fjölda blaðagreina. Það má vel vera að Björn hafi talað íslensku eða jafnvel forníslensku á fundum sínum erlendis, þegar hann var borgarfulltrúi, þingmaður eða ráðherra og samið ritsmíðar sínar á íslensku og þá fengið einhvern til að snara þeim yfir á enska tungu eða önnur tungumál, þegar því var að skipta. Það má einnig vel vera, að allar viðræður íslenskra ráðamanna fyrr og síðar hafi farið fram á íslensku og að túlkar hafi síðan séð um hin eiginlegu samskipti - líkt og maður sá í Sovétríkjunum sálugu, Bandaríkjunum eða í Kína og í viðræðum sem fram fara nú í Norður-Kóreu eða á Kúbu, þar sem menn virðast einungis tala sitt heimamál. Ég bara veit það ekki? Ummæli Björns á heimasíðu hans bera að mínu mati vott um heimóttarskap og hroka og minna mig óneitanlega á Jónas frá Hriflu, sem var þó ágætur tungumálamaður. Ef Björn Bjarnason er að tala fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins er sá flokkur - minn flokkur - að þróast í furðulega átt!

Að bera Ísland saman við Svartfjallaland - líkt og Björn Bjarnason gerir á heimasíðu sinni - er fjarstæðukennt, enda lýsti það land yfir sjálfstæði 3. júní árið 2006. Af þessum sökum eru flestar stofnanir þess ríkis rétt rúmlega 3 ára gamlar. Enskukunnátta í Svartfjallalandi - líkt og í öðrum löndum Austur-Evrópu - er frekar takmörkuð. Samstarf ríkja Austur-Evrópu við ríki Vestur-Evrópu og alþjóðastofnanir var þar til fyrir nokkrum árum einnig mjög takmarkað. Þetta gildir sérstaklega um ríkið Svartfjallaland á Balkanskaganum, þar sem það var hluti af Serbíu, sem var líkt og flestir vita einangrað á alþjóðavettvangi í kjölfar átakanna á Balkanskaga. Svartfjallaland hefur engu að síður unnið kraftaverk í skipulagningu, eða réttara sagt endurskipulagningu stjórnsýslunnar, eftir sjálfstæði frá Serbíu og gerst aðili að ótal milliríkjasamningum og alþjóðastofnunum. Evrópusambandið hefur hjálpað til við þessa vinnu. Ég sinnti sérfræðistörfum fyrir Alþjóðatollastofnunina (e. World Customs Organization) í Svartfjallalandi fyrir nokkru síðan og þekki því allvel til þar í landi og undirbúningi þessa lands fyrir ESB aðild. Ég hélt satt best að segja að Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, þingmaður og borgarfulltrúi og sjálfskipaður sérfræðingur í utanríkismálum, vissi af slíkum staðreyndum og hefði kynnt sér málin betur. Slíkar yfirlýsingar eru honum ekki líkar og ekki til sóma, því hann kynnir sér málin yfirleitt í þaula.

Ég bið andstæðinga ESB aðildar - einnig Björn Bjarnason - að taka sér Olli Rehn, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, til fyrirmyndar, þegar hann bað andstæðinga ESB aðildar jafnt sem stuðningsmenn að halda sig við staðreyndir málsins en ekki einhverjar kjaftasögur. Sem sjálfstæðismaður ætlast ég til þess af fyrrverandi ráðherra, þingmanni og bæjarfulltrúa flokksins, að hann sé málefnalegur, jafnvel þótt hann sé andstæðingur Evrópusambandsaðildar og sé "aðeins" að blogga fyrir austan fjall! Það eru til fyrrverandi ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem halda sig við rök í umræðum um mál Evrópusambandsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég held að ég sé örugglega meiri "sjálfstæðismaður" en þú Guðbjörn þótt ég sé hættur að kjósa íhaldið!

Haukur Nikulásson, 12.9.2009 kl. 00:13

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Haukur:

Það má bara vel vera að þú sért enn meira á "flokkslínunni" í Evrópumálum en ég. Ég er hins vegar hægri maður fram í fingurgóma. Ég er hvorki þeirrar skoðunar að kapítalisminn sé "dauður" eða ef því er að skipta "laskaður".

Á sama tíma og ég gagnrýni Björn Bjarnason fyrir ómálefnalega orðræðu í Evrópumálum, viðurkenni ég fúslega að enginn hefur meira vit á varnarmálum en hann. Björn Bjarnason stóð sig líklega best af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, bæði sem dóms- og kirkjumálaráðherra á árunum 2003-2009 og þó alveg sérstaklega sem menntamálaráðherra á árabilinu 1995-2002.

Ég hef lengi verið einn af aðdáendum Björns Bjarnasonar vegna þess hversu skeleggur hann alltaf er og málefnalegur, en í ESB umræðunni bregst honum stundum bogalistin. Það er líklega af því að þetta er honum mikið hjartans mál, já, tilfinningamál!

Þrátt fyrir það má maður aldrei gleyma gagnrýnni hugsun í umræðum slík mál! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.9.2009 kl. 08:10

3 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Það var ekki lýðveldið Ísland sem sótti um aðild að þessu kommabandalagi þar sem lýðræði þekkist ekki,ef það er svona mikið lýðræði í þessu kommabandalagi afhverju þurfum að taka upp allar þessar reglugerðir og bönn sem þau setja upp hér á landi og og þetta sjengen sem er að fara mjög illa með þjóðina vegna aukinna glæpa og aukin kostnaður á almenning í sköttum vegna þess að við erum ekki sjálfstæð lengur og getum ekki sett þessa glæpamenn uppí næstu vél og sent heim !!! nei kommabandalagið bannar það.Það voru nokkrir kommar og sossar sem sóttu um aðild að þessu kommabandalagi ekki þjóðin og það er ekki lýðræði.En þar sem ert svona hrifin af þessu sukkbandalagi fær maður varla gáfuleg svör frá enda geta aðildarsinnar ekki talað um sannleikan um ESB.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 12.9.2009 kl. 09:07

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Marteinn:

ESB hefur aldrei og verður aldrei "kommabandalag".

Sambandið var stofnað af markaðssinnuðum hægri mönnum og þeir hafa lengst af - og ráða enn - ferðinni innan sambandsins.

Ef gagnrýna má ESB fyrir eitthvað - sem ég sem hægri maður geri auðvitað ekki - er það, að stefna sambandsins hafi verið of hægri sinnuð!

En þetta vita menn auðvitað ekki ef þeir kynna sér ekki málin og þrífast á lygum og sleggjudómum! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.9.2009 kl. 09:22

5 identicon

Mér finnst þetta skynsamlegt yfirlit hjá þér Guðbjörn, þ.e. um svörin við spurningum ESB. (Innanflokksádeilan í síðari hluta færslunnar er áhugaverð, en kemur mér ekki við). Ég sjálfur starfa á sviði þar sem löggjöf ESB hefur að mestu verið tekin upp. Þar eru því svörin mjög einföld. Í flestum tilvikum fylgjum við löggjöfinni að fullu og því ekkert tilefni til málalenginga og útskýringa. Því til viðbótar hefur æfingin aukið mönnum yfirsýn, og orðið til að draga ýmislegt fram í dagsljósið sem betur má fara. Íslensk stjórnsýsla er að mörgu leyti veikburða og margt af ákvörðunum fyrri ára eru illa skjöluð. Þessum 7 ársverkum er því vel varið.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 09:57

6 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Takk fyrir góðan og upplýsandi pistil Guðbjörn. Eins og sést af sumum athugasemdunum hér fyrir ofan, þá er andstaðan við ESB oft meira byggð á trú en rökhugsun, en manni hefur verið kennt að trúarbrögð skuli virða hvort sem maður er sáttur við þau eða ekki.

Ingimundur Bergmann, 12.9.2009 kl. 10:10

7 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ómar:

Já, líklega verða svörin styttri en ég geri ráð fyrir.

Tollamálin eru utan EES samningsins og hér gilda íslensk lög og reglugerðir. Ég get tekið undir það með andstæðingum að mér þykir lagaumhverfi ESB varðandi tollamál ansi löng og ítarleg.

Okkar tollalög nr. 88/2005 eru 63 síður og 196 lagagreinar. Helstu reglugerðir um tollamál eru nr.1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru, sem er í 64 greinum á 36 síðum  og nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi, sem er í 64 greinum á 21 síðu.

Tollalög ESB eru um 140 síður að lengd og aðeins framkvæmdareglugerð sambandsins er upp á 815 síður. Að auki gildir heill hellingur að reglugerðum um tollamál upp á nokkur hundruð síður. Þarna er því vel í lagt og maður spyr sig hvernig við getum rekið - að mínu mati - ágætis tollstjóraembætti með mörgum sinni styttri löggjöf?

Þetta eru alvöru rök gegn aðilda að ESB, þ.e.a.s. hversu flókin stjórnsýslan er innan sambandsins. Rök sem mæla með þessu flókna regluverki eru einnig til. Auðvitað er regluverkið flóknara fyrir 500 milljónir manna í 27 ríkjum, heldur en í 320.000 manna litlu ríki. Það segir sig sjálft að taka þarf tillit til hagsmuna margra ríkja, atvinnugreina o.s.frv., sem ekki þarf að setja um reglur hér á landi. 

Einnig verður maður að viðurkenna, þegar maður skoðar lög ESB ,að lögin eru hreint út sagt ítarlegri og vandaðri en hjá okkur. Reglugerðin útskýrir allt í smáatriðum og þannig er stjórnsýslunni sett skýrari mörk en hjá okkur varðandi tollframkvæmdina. Það tryggir samræmdari, nákvæmari og þar með betri tollframkvæmd, meira réttaröryggi fyrir borgarann og fyrirtæki og skýrari reglur fyrir starfsmenn tollsins.

Allt hefur þetta kosti og galla og um þetta má deila og rökræða. Ég nenni hins vegar ekki að taka þátt í rökræðum um ósannindi, lygar, dylgjur og kjaftasögur með og á móti ESB. Við skulum byggja umræðum á rökum og hafa hana skynsamlega og lausa við óþarfa tilfinningar.

Ingimundur:

Algjörlega sammála þér! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.9.2009 kl. 13:25

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Leiðrétting á villu:

Reglugerð 1100/2006 er í 76 greinum á 21 síðum og rgl. nr. 630/2008 er í 64 greinum og á 16 síðum.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.9.2009 kl. 13:28

9 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Það mátti svo sem vita það að þú svaraðir með útúrsnúning enda er það eina sem aðildarsinnar geta gert.Getur þú ekki svarað hreint út hvaða lýðræði þú talar um innan ESB ???? þegar við verðum að sitja og standa einsog ESB segir,ég spyr er það lýðræði????Og þú sem tollari ættir nú að vita það að við missum okkar fríverslunarsamninga ef við göngum í ESB er það lýðræði????Við getum ekki sett brotamenn af erlendum uppruna úr landi af því að ESB bannar það er það lýðræði ??????Hvers vegna talið þið aldrei um slæmu hliðarnar á ESB????Hvaða hagsmuni eruð þið að verja?? allavega ekki hagsmuna hins almenna borgara hér á Íslandi sem vill hafa lýðræði.......

Marteinn Unnar Heiðarsson, 12.9.2009 kl. 18:29

10 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Marteinn:

Upphrópanir og spurningamerki! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.9.2009 kl. 19:58

11 identicon

 Björn  Bjarnason  er góður enskumaður. Á því leikur ekki nokkur  vafi. Mér finnst það hinsvegar  málflutningur á ystu nöf , að ekki sé meira sagt,, þegar kvartað  er yfir því að okkur séu  sendar  spurningar á ensku og óskað eftir  svörum á ensku.  Þetta  sýnir kannski betur en margt annað   algjör  rökþrot andstæðinga ESB umsóknar. Þeir verða að vera málefnalegir, ef  þeir  vilja að  við tökum mark á  því sem þeir segja.

Eiður (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 20:06

12 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Eiður:

Auðvitað er Björn Bjarnason mjög góður enskumaður.

Það sem ég er að gagnrýna er einmitt það sem þú kemur inn á og svo að menn hafi efasemdir um að embættismenn ráðuneyta og undirstofnana hafi til að bera enskukunnáttu til að svara spurningum á þeirra sérsviði. Auðvitað geta þeir það og ef ekki eru þá aðrir innan embættanna, sem geta aðstoða. Síðan verða svörin örugglega lesin yfir af nokkrum aðilum innan stofnana og ráðuneyta til að tryggja að þau séu rétt.

Rökþrot er einmitt rétta orðið! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.9.2009 kl. 20:20

13 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Takk enda átti ég ekki von á öðru svari frá aðildarsinna.Enda er þetta mál sem þið viljið ekki ræða enda eruð þið gungur :)

Marteinn Unnar Heiðarsson, 13.9.2009 kl. 11:19

14 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Marteinn:

Þakka þér fyrir innlitið og málefnalegan málflutning!

Það verða einhverjir að vera gungur og einhverir taka síðan að sér það hlutverk að vera hugumstórir - ekki satt! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.9.2009 kl. 14:36

15 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Þakka þér sömuleiðis Guðbjörn Og kannski var gunga stórt orð og afsakaðu það en maður er bara orðin svektur á allri þessari elitu umræðu um það hvað allt sé gott í ESB en aldrei rætt um það slæma.

Hafðu góðan dag :)

Marteinn Unnar Heiðarsson, 13.9.2009 kl. 15:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband