Glórulaus fjármálastjórn vinstri manna...

Það hefur lengi verið aðalsmerki við vinstri óstjórnir, hvort sem það er í sveitarstjórnum eða ríkisstjórn, að fjármálastjórn þeirra eru algjörlega glórulaus. Hvergi hefur það líklega sannast betur hjá sveitarstjórnum en á Álftanesi, þótt skuldasöfnun Reykjavíkurborgar á tímum R-listans hafi einnig slegið öll met og Hafnarfjörður virðist einnig ramba á barmi gjaldþrots. Sé litið til landsmálanna minnist maður sérstaklega þeirra miklu skulda er vinstri stjórnirnar upp úr 1970 skildu eftir sig. Ekki virðist núverandi ríkisstjórn standa sig eitthvað betur, því hún dregur svo lappirnar hvað aðra tekjuöflun en skattahækkanir varðar, að tekjustofnar ríkisins munu seint jafna sig. Það er augljóst að á meðan ríkisstjórnin kemur ekki atvinnulífi landsins aftur á fulla ferð mun það tekjufall, sem ríkissjóður varð fyrir á síðasta ári, ekki lagast neitt svo um muni. Lausnirnar á halla bæjarsjóða eða ríkissjóðs eiga frekar að felast í því að endurreisa, bæta og auka tekjustofna, frekar en að skera niður nauðsynlega opinbera þjónustu, líkt og nú er verið að gera. 

Líklega munu vinstri menn nú benda á þau vandræði, sem Orkuveita Reykjavíkur, Kópavogur og Reykjanesbær eru í til að verja sig og sína. Því er til að svara að vandræði þessara bæjarfélaga eru af allt öðrum toga sprottin en vandræði þeirra sveitarfélaga, sem hér er um ræðir. Í þessum sveitarfélögum er í sjálfu sér ekki bruðli um að kenna, heldur ytri aðstæðum, s.s. kreppunni miklu. Vandræði orkuveitunnar má að nær öllu leyti rekja til hrunsins svokallaða og hugsanlega aðeins of djarfrar fjárfestingarstefnu. Ábyrgðin á hruninu og fjárfestingarstefnunni dreifist á nokkra flokka í landsmálum, en ekki borgarstjórn Reykjavíkur. Vandamál Kópavogs liggja í því að gífurleg eftirspurn var eftir lóðum á hinum frjálsa markaði og var bæjarstjórnin aðeins að sinna sínu hlutverki að anna þessari spurn eftir byggingarlóðun. Reykjanesbær segir svipaða sögu varðandi kostnað vegna hálfkláraðra nýbygginga, en að auki bætast við þau miklu áföll, sem bæjarsjóður hefur orðið fyrir hvað tekjuhliðina varðar. Það virðist nefnilega oft gleymast í umræðunni að tveir stærstu tekjustofnarnir hafa hrunið saman, en þar á ég að sjálfsögðu við þær staðreyndir að Varnarliðið er farið og sömu sögu má segja um þann mikla fiskikvóta, sem einu sinni var í bæjarfélaginu. Á hvorugu þessara bakslaga á meirihluti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ sök.


mbl.is Þyrfti að skera niður um 70%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Ábyrgðin á hruninu og fjárfestingarstefnunni dreifist á nokkra flokka í landsmálum"

Góður! Einkavæðing bankanna, útþennsla kerfisins og lokun hrun þess sem steypti öllu landinu í kreppu er skilgetið afkvæmi Sjálfstæðisflokksins og ber hann lang mesta ábyrgð í þeim efnum (þó aðrir flokkar geti ekki firrt sig allri ábyrgð). Ábyrgð sem flokkurinn hefur ávalt neitað að axla.

Ástæðan fyrir ástandinu í Reykjanesbæ er ekki það að Varnarliðið fór, heldur sú atvinnustefna bæjarins var að treysta um of á einn atvinnuveitanda (sem var erlendur her í þokkabót!) sem ljóst var að gæti hætt allri starfsemi sinni mjög fljót þegar og ef hann einhliða kysi svo. Það var síðan raunin. Það var fyrst og fremst mistök í stefnumótun bæjarins sem orsakaði bakslagið þar.

Karma (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 08:42

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Rakst á þessa grein sem Sigrún Magnúsdóttir skrifaði 1994. Þar er skýrt frá fjármálasnilld sjálfstæðismanna í R-vík.  Það vita allir sem eitthvað fylgjast með að DO lagði fjárhag borgarinnar í rúst.

"Skuldir Hafnfirðinga hafa vaxið um 50% á yfirstandandi kjörtímabili. Á sama tíma hafa skuldir Reykjavíkur vaxið um 100%." Sjálfstæðismenn geta ekki lengur talað um góða fjármálastjórn í Reykjavík. Þeir hafa stjórnað borginni óslitið frá 1982, á þeim tíma hafa skuldir borgarsjóðs fjórfaldast. Á þessu kjörtímabili eða frá 1990 hafa skuldirnar tvöfaldast. Tekjur borgarsjóðs eru hinsvegar ívið meiri (1990­1992) á bak við hvern borgarbúa en t.d. afmælisárið 1986 (sjá meðfylgjandi súlurit).

Davíð lagði á flótta

Hvernig stendur þá á þessari rosalegu þróun? Hún liggur í stjórn og vanhæfni sjálfstæðismanna. Bruðl og óráðsía fyrri ára á þar mikla sök, enda yfirgaf borgarstóri nr. 1 á þessu kjörtímabili, Davíð Oddsson, stól borgarstjóra þegar hann loks skynjaði hvernig hann var búinn að leika fjárhag borgarinnar. Því miður hafa eftirmenn hans í sæti borgarstjóra hvorugur ráðið við það verkefni að rétta við fjárhag borgarinnar.

Markús og milljarðurinn

Markús Örn Antonsson var ekki glöggur á tölur og varð uppvís að því að ofmeta skuldir borgarinnar um þúsund milljónir. Borgarstjóri nr. 3, Árni Sigfússon, skilur ekki fjárhagsáætlun borgarinnar og er ber að því að vita ekki hvað í henni stendur. Það gerðist á borgarstjórnarfundi í byrjun apríl. Þó er fjárhagsáætlun það stjórntæki sem á að reka borgina eftir. Þetta eru ekki traustvekjandi stjórnendur.

Samanburður við Hafnarfjörð

Sjálfstæðismenn vitna til bágborins fjárhags Hafnfirðinga. Ekki mæli ég honum bót en þótt skuldir Hafnfirðinga séu miklar varð þar þó ekki þvílík kollsteypa og í Reykjavík. Skuldir Hafnfirðinga hafa vaxið um 50% á yfirstandandi kjörtímabili. Á sama tíma hafa skuldir Reykjavíkur vaxið um 100%. Ég efast um að í nokkru sveitarfélagi á Íslandi hafa sigið svo á ógæfuhliðina á þessu kjörtímabili.

Hvers vegna nefna sjálfstæðismenn ekki Seltjarnarnes, sem dæmi um illa rekið sveitarfélag? Peningaleg staða þeirra er þó mun lakari en Hafnfirðinga. Það skyldi þó aldrei vera vegna þess að þar er sama Sjálstæðiseinveldið og í Reykjavík?

Munum að það eru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem stjórna bæði borg og ríki.

Höfundur er borgarfulltrúi og skipar 1. sæti Reykjavíkurlistans.

Sigrún Magnúsdóttir

Þórir Kjartansson, 16.12.2009 kl. 08:49

3 identicon

álftanes er dautt. Íbúarnir drukknuðu í sundlauginni. Best er að leggja pleisið niður.

Óli (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 08:57

4 Smámynd: Björn Heiðdal

Ægilega er þetta aumt hjá þér Guðbjörn.  Sjálfstæðisflokkur = gott og gáfað fólk með mikla hæfileika.  Aðrir = bjánar og fífl sem ekki kunna með peninga að fara.

Til að svara þessu rugli er best að benda á þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað landinu lengur en elstu unglingar muna.  Niðurstaðan er stærsta gjaldþort heimssögunnar sem erlendir fjölmiðlar vitna óspart í.  

Bruðl og sukk hefur síðan verið regla en ekki undantekning við rekstur sveitarfélaga sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað.  T.d. að leigja til lengri tíma af einkafélögum húseignir á yfirverði.  Er það góð fjármálastjórn?

Björn Heiðdal, 16.12.2009 kl. 09:00

5 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Já, vinstri menn eru fífl segirðu. Það er munur eða 18 ára stjórn Sjálfstæðisflokksins á Íslandi, drýpur ekki smjör af hverju strái eftir þá glæsilega tímabil.

Varðandi Álftanes vil ég benda þér á að þessar miklu framkvæmdir við íþróttamannvirki, sem er það sem er að setja sveitarfélagið fjárhagslega á hliðina, var samþykkt einróma í Bæjarstjórn Álftaness, sem sagt með fullu samþykki Sjálfstæðismanna.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 16.12.2009 kl. 09:10

6 identicon

Það er nú þunnur þrettándi að kenna vinnstri mönnum um hvernig komið er fyrir Álftanesi. Það vita það allir að það fyrirfinnst ekki vinnstrimaður í því sveitarfélagi, nema það sé skilgreining sjálfstæðismanna á vinnstrimanni "sá sem ekki er flokksbundinn sjálfstæðismaður" Hver og einn einasti Álftnesingur er frjálshyggjumaður, í það minnsta á ég ennþá eftir að hitta einhvern sem flokkast á annan hátt og þekki ég þá þónokkra.

Svo má benda á það að það var nú aðallega óstjórn Geirs Harde og Davíðs sem leiddi til þessa árangurs á Álftanesi :) þar sem bankahrunið hækkaði skuldir sveitarfélagsins um 1 milljarð.

Merkilegt hvað blámenni eru þöglir um formannsræfilinn sinn núna sem gripinn hefur verið að braski og sendir almenningi reikninginn og svo "foringjann" sem nú er búið að afhjúpa sem vanhæfan vanvita sem hefur kostað þjóðina þrefalt það sem Icesave kemur til með að kosta okkur en gjaldþrot seðlabankans er einsdæmi í mannkynssögunni og kemur til með að kosta skattgreiðendur 400 milljarða þegar upp er staðið, sá reikningur er ástæða skattahækkana og niðurskurðar sem nú er framundan en ekki Icesave. Ekki gleyma því heldur að Icesave er tilkomið vegna sömu manna sem og annarra sjálfstæðismanna.

Viltu endurtaka það sem þú varst að segja með fjármálastjórn vinnstri manna ?

Johann Helgason (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 09:31

7 identicon

Þegar einn flokkur er búinn að gjöreyðileggja fjárhag lands síns með jafn kyrfilegum hætti og Sjálfstæðisflokkurinn, ættu fylgismenn hans að vera hófsamir í skítkasti á aðra aðila sem hvergi hafa komið að klúðrinu. Það sama á við við um bæjarfélög.

Jón (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 09:33

8 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessaður Guðbjörn.

Og hvítþvotturinn er hafin hvað varðar slæma stöðu hér í Reykjanesbæ, en þó gott að heyra að þú einn Sjálfstæðismanna í bænum viðurkennir þó að staðan sé slæm. Stór hluti kvótans sem var hér áður er hér ennþá, en bara unnin annarstaðar.

Varnarliðið er löngu farið og meirihlutinn hefur vitað það allan tímann að sá tekjustofn er horfinn, en heldur þó áfram að skuldsetja bæinn eins og enginn væri morgundagurinn.

Við verðum sjálfir í okkar heimilshaldi að taka fasteignaskuldirnar með og þær bindingar sem þeim eru samfara. Miðað við þær greiðslur sem við komum til með að greiða á næsta ári í leigu sem eru nærri 1,5 milljarðar þegar allt er talið, og að við reiknum með að þeir samningar sem þar að baki liggi eigi að meðaltali 25 ár áftir þá virðast  bara þær skuldbindingar vera um það bil 35 milljarðar sem eru víst ekki skuldir eða skuldbinding í augum meirihlutans. þar ofan á bætast skuldir vegna hafnarinnar sem skv núverandi aðstæðum falla á bæjarsjóð eftir tæpa 13 mánuði  og fleiri æfingar sem viðhafðar hafa verið. Ef við veljum að fara sömu leið og til að mynda viðhöfð er á Álftanesi að taka allar skuldir og skuldbindingar sem bærinn stendur á bak við þá er eignastaðan ca 22milljarðar skv viðsnúningsyfirlýsingunni en skuldir og skulbindingar vel rúmlega 40 milljarðar, margir myndu segja að þar væri komið að þolmörkum og vel rúmlega það. Enda ekkert lengur til að selja nema hlutur okkar í HS Veitu, sem ég held að fáir aðrir en fjármálsnillingar meirihlutans hafi áhuga á, enda ekki reiknað með að slík starfsemi skil arði til eigenda sinna.

Hannes Friðriksson , 16.12.2009 kl. 11:12

9 identicon

Þetta er eiginlega bara hlægilegt. Ég svara þessu hér: http://blog.eyjan.is/grimuratlason/2009/12/16/keisarinn-er-allsber/ 

Grímur Atlason (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 13:00

10 identicon

Sveitarstjórnarstigið á Íslandi hefur lengi verið leikvöllur vanhæfra popúlista sem kunna ekki að fara með peninga. Vinstri/hægri aðgreining hefur aldrei skipt máli í því samhengi.

Það er orðið tímabært að leggja sveitarfélögin niður í núverandi mynd og hugsa hreppapólitíkina upp á nýtt. Ágætt verkefni fyrir stjórnlagaþing.

Bjarki (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 16:10

11 identicon

Thú veldur miklum vonbrigdum med thessum furdulega pistli.  Oft hefur thú verid mjog málefnalegur, en thessi titill fyrir nedan allar hellur,  midad vid thad sem hefur gerst á Íslandi.  Sammála sídasta raedumanni, um ad stjórnmál og fjármál á Íslandi er ekki haegt ad flokka nidur í haegri vinstri.  Fáránleg einfoldun og einmitt eitt af adalvandamálunum í dag, alltaf thessar skotgrafir.

Thú veist betur en thetta.

Kristín Hildur Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 17.12.2009 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband