Hvað vakir fyrir andstæðingum aðildarviðræðna?

ESB FANIMaður ætti í raun að fagna þessari frétt, en þótt ég sé ekki beinlínis fús til að viðurkenna það opinberlega, þá læðist óneitanlega að mér sá illi grunur - og þetta segi ég eftir áralöng samskipti við andstæðinga ESB innan Sjálfstæðisflokksins - að hér sé jafnvel um leikfléttu að ræða hjá flokkseigendafélögum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar, sem bæði eru andsnúin aðild, til að hægja á umræðunni.

FálkinnÉg vil þó ekki mála skrattann á vegginn í þessu máli, þar sem ég er eiginlega þeirrar skoðunar að Framsóknarflokkurinn hafi verið nokkuð ærlegur á sínum landsfundi, þegar þeir samþykktu að fara í aðildarviðræður með ströngum skilyrðum. Einnig er ég þeirrar skoðunar að Bjarni Benediktsson sé heiðarlegur maður og grandvar og láti ekki tilleiðast í slíkan loddaraskap. Því verðum við sennilega að láta þá félaga njóta vafans og gefa þeim tækifæri til að kynna sitt mál áður en þeir verða dæmdir.

FramsóknEf um leikþátt er að ræða í utanríkismálanefnd þingsins, mun minnihlutinn setja þar svo ströng skilyrði fyrir aðild að engin leið sé fyrir samninganefndina eða ESB að uppfylla þær óskir. Þannig er í raun sjálfhætt við aðildarviðræður og ef af viðræðum verður, er deginum ljósara að landsmenn munu fella samninginn, þar sem væntingar um árangur í viðræðunum hafa verið skrúfaðar það mikið upp að aldrei verður hægt að koma á móts við þær.


mbl.is Utanríkismálanefnd í lykilhlutverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöföldun Vesturlandsvegar mikilvægari en tvöföldun Hvalfjarðarganga

HVALFJARÐARGÖNGÉg er algjörlega sammála stjórnvöldum að á tímum sem þessum skal frekar hugað að mannfrekum vegaframkvæmdum en dýrum, gjaldeyrisfrekum gæluverkefnum. Spurningin er hvaða vegaframkvæmdir séu skynsamlegastar út frá almannahagsmunum. Almannahagsmunir eru vissulega margir, en ég vil leiða hugann sérstaklega að slysahættu, tíma- og orkusparnaði og þá á þeim stöðum, þar sem flestir Íslendingar kjósa að búa, sem er á höfuðborgarsvæðinu og í u.þ.b. 150 km fjarlægð frá því.

Að mínu mati er höfuðborgarsvæðið eitt, en síðan er þéttbýlissvæðið í kringum það svæði eitthvað sem stjórnvöld hafa lítið leitt hugann að. Vegna mikils fjölda íbúa fyrir vestan, í Borgarnesi og Akranesi, og fyrir austan, í Ölfus og Árborg  -  jafnvel allt til Hellu og Hvolsvallar vegna sumarhúsbyggðar - er þetta svæði það umferðarþyngsta á landinu. Mér finnst einmitt þetta svæði hafa verið mjög afskipt undanfarin ár m.t.t. samgangna. Íslendingar verða vissulega að huga að hringveginum og öðrum vegum, sem nýtast íbúum landsbyggðarinnar og síauknum ferðamannastraumi, en þeir mega ekki gleyma því hvar umferðin er mest og þörfin því brýnust fyrir samgöngumannvirki.

vesturlandsvegur.jpgÁ undanförnum árum hafa þingmenn komist að furðulegustu niðurstöðum varðandi forgang vegaframkvæmda. Hver göngin á fætur öðrum hafa verið boruð fyrir milljarða króna til að bæta samgöngur milli bæjarfélaga, sem sum hver telja nokkur hundruð manns. Á meðan hafa Sunnlendingar, og aðrir þeir sem leið eiga um Suðurland, mátt bíða eftir tvöföldun Suðurlandsvegar. Sömu sögu má segja um verkefni innan Reykjavíkur, s.s. Sundabrautina, sem var frestað enn einu sinni.

Enginn virðist leiða hugann að Vesturlandsvegi, sem er þriðja stærsta umferðaræðin út úr borginni út á land og ökuleiðin til Vesturlands, Vestfjarða og Norðurlands. Auðvitað eiga menn að leiða hugann að því, hvort ekki væri nær að byrja á að tvöfalda Vesturlandsveginn alla leið til Borgarness, en bíða hins vegar aðeins með að bora önnur tvöföld göng, sem eru gríðarlega dýr framkvæmd.

ATLANTSOLÍAÞað hefur sýnt sig að slysin verða frekar á einföldu köflunum, en miklu síður á þeim tvöföldu. Segja má að að nær engin alvarleg slys hafi orðið á Reykjanesbrautinni eftir að hún var tvöfölduð. Það þarf engar rannsóknir til að sanna þetta, því þetta er reynslan sem við Suðurnesjamenn og aðrir landsmenn hafa af tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Umferðin er greið, örugg, áhyggjulaus og þægileg, jafnvel í verstu veðrum að veturlagi.

Eiga núna kannski hagsmunir starfsmanna Spalar og einhverra fyrirtækja, sem keypt hafa tækjabúnað til að bora í gegnum fjöll að ganga fyrir hagsmunum almennings í landinu? Jæja það er best að drífa sig frá Njarðvík til Reykjavíkur á "hraðbrautinni" á 90 km hraða á klukkustund. Það er sannarlega gott að vera með sveigjanlegan vinnutíma, þegar maður tefst við blogg og kaffidrykkju snemma á morgnana Wink


mbl.is Göngin upp úr skúffunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn - Umbótaflokkurinn

Fyrstu skrefin 

Fyrstu skrefinÞegar Sjálfstæðiflokkurinn var stofnaður árið 1929 upp úr Frjálslynda flokknum og Íhaldsflokknum, stóð valið milli nokkurra nafna fyrir utan tvö fyrrnefnd nöfn. Það voru nöfnin Sjálfstæðisflokkurinn og Umbótaflokkurinn. Þótt margir hafi viljað halda í nafnið Íhaldsflokkurinn, og sumum jafnvel þótt Umbótaflokkurinn gott nafn, varð nafnið Sjálfstæðisflokkurinn ofan á. Mig grunar reyndar að þarna hafi íhaldsarmur flokksins verið á ferðinni eina ferðina enn og hreinlega ekki geta hugsað sér að skýra flokkinn eftir umbótum eða frjálslyndi.

Barndómsárin 

Sjálfstæðisflokkurinn eldri var stofnaður upp úr félögum, sem voru andstæðingar Heimastjórnarflokksins. Heimastjórnarflokkurinn var hægri flokkur og nátengdur embættismannakerfi ríkisins. Þótt sá flokkur hafi verið hlynntur sjálfstæði landsins, vildi hann fara mun varlegar í þeim efnum en sjálfstæðismenn. Sjálfstæðisflokkurinn eldri var sem sagt stofnaður upp úr frekar róttækum hópi sjálfstæðissinna, sem var að mörgu leyti náskyldur frjálslyndum öflum í Norður-Evrópu, sem ekki aðhylltust konungsveldi.

Þegar helsta baráttumál flokksins var í höfn árið 1918 - sjálfstæði Íslendinga - og Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn höfðu verið stofnaðir til höfuðs hægri öflunum og hætta var á þingsæti töpuðust til andstæðinganna, má segja að hægri öflin hafi séð sér leik á borði að ganga til samstarfs.

Unglingsárin 

UnglingsárinFyrir utan klofning, sem rætur átti að rekja til valdabaráttu Gunnars Thoroddsen og Geirs Hallgrímssonar á árunum 1971-81, klofnings sem rekja mátti til sigurs Alberts Guðmundssonar yfir Geir Hallgrímssyni í prófkjöri árið 1987, og síðan nýlegra dæmis, Frjálslynda flokksins, sem stofnaður var 1998, en gaf upp öndina í síðustu kosningum, hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið einn um hituna á á hægri væng stjórnmálanna á Íslandi. Þetta hefur alla tíð verið mesti styrkur flokksins!

Flokkur framfara og umbóta 

Að mínu mati hefði besta nafnið fyrir Sjálfstæðisflokkinn verið Umbótaflokkurinn, því enginn annar flokkur hefur staðið fyrir viðlíka umbótum í íslensku þjóðfélagi og Sjálfstæðisflokkurinn. Þótt flokkurinn hafi lengst af verið málsvari hefðbundinna gilda, hefur hann einnig barist fyrir mörgum þjóðþrifamálum og margir vilja meina að Frjálslyndi flokkurinn hafi í raun haft sigur yfir Íhaldsflokkinn eftir sameiningu flokkanna, alla vega hvað stefnuna varðaði.

Flokkur baráttu til frelsis og auðs 

Líkt og mörg önnur lönd lentum við Íslendingar í neti hafta í stríðinu og á eftirstríðsárunum. Vegna sterkrar stöðu vinstri flokkanna losnuðum við seinna úr þessum höftum en flest önnur ríki Vestur-Evrópu. Það má segja að mörg höft hafi enn verið í gildi 20 árum eftir styrjöldina miklu og að Viðreisnarstjórnin - ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks - hafi byrjað að losa landann undan haftakerfinu. Sjálfstæðismenn héldu síðan áfram - þegar þeir voru í ríkisstjórn - að afnema höft og auka frelsi. Lengst gekk ríkisstjórn Davíðs Oddssonar í að innleiða frelsi og einkavæða dofin ríkisfyrirtæki, sem voru illa rekin af skattfé almennings.

Flokkur mannúðar og öryggis 

ÖryggiÞótt Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur sem aðhyllist markaðsfrelsi og frelsi einstaklingsins var hann mjög liðtækur við að koma á tryggingakerfi á Íslandi á 3. og 4. og 5. og 6. og 7. og 8. áratug síðastliðinnar aldar. Auðvitað urðu menn að sníða sér stakk eftir vexti og þannig var það ekki fyrr en árið 2000 að síðasta stóra átakið var gert í tryggingarmálum þegar lög um fæðingaorlof og fæðingarstyrki tóku gildi. Sjálfstæðislflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á jafnan aðgang allra að mennta- og heilbrigðis- og tryggingakerfinu, en þar skilur hann sig að sumu leyti frá mörgum öðrum hægri flokkum á Vesturlöndum.

Flokkur alþjóðasamvinnu og samstarfs

Sjálfstæðisflokkurinn var sá stjórnmálaflokkur sem lengst af var hvað opnastur fyrir alþjóðasamvinnu. Þar má m.a. nefna að Íslendingar fengu aðild að flestum þeim alþjóðastofnunum, sem landið á aðild að í dag undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Þar má t.d. nefna aðild að Sameinuðu þjóðunum árið 1946 og þeim stofnunum sem þar fylgdu með í pakkanum: Matvæla- og landbúnaðarstofnuninni (FAO), Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF), Alþjóðabankinn (IBRD), Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) og Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO), en áður hafði Ísland gerst aðili að Alþjóðapóstmálasambandinu (UPU). Að auki gekk Íslandi í Nató árið 1949 og síðar í EFTA árið 1970 og að síðustu í EES árið 1994.

Hvert vildum og viljum við stefna?

Aðalstefnumál Sjálfstæðisflokksins voru þessi:

 

Að vinna að því og undirbúa það, að Ísland taki að fullu öll sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina, jafnskjótt og tuttugu og og fimm ára samningstímabil sambandslaganna er á enda.

 

 

Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
 

Kompás

 

Ljóst er að fyrra stefnumálið er að fullu til lykta leitt.

Menn vissu að með áherslu á víðsýni og frjálslyndi, þjóðlega umbótastefnu, einstaklingsfrelsið og atvinnufrelsið bæru sjálfstæðismenn hagsmuni allra stétta fyrir brjósti.

Hvert leiðir framtíðin okkur? 

Af reynslu okkar af Norðurlandasamstarfinu, NATO, EFTA, UNO og EES má vera ljóst að við sjálfstæðismenn þurfum að bæta 3, 4, 5, og 6. málsgreininni við:

 

Að vinna að nánu samstarfi Íslands og þjóða Evrópu til að tryggja friðsama framtíð heimsálfunnar.
 
Að vera meðvitað um andlega og siðferðislega arfleið okkar Íslendinga og íbúa Evrópu, sem grundvallast á órjúfanlegum, altækum gildum um mannlega reisn, frelsi, jafnrétti og samstöðu.
 
Að vera meðvitað um grundvallargildi lýðræðisins og réttarríkisins.
 
Að tryggja fyrir alla íbúa Íslands og Evrópusambandsins grundvallararéttindi á borð við frelsis, öryggi og réttlæti.

 

Hvert viljum við sjálfstæðismenn stefna?

Í einangrun eða samvinnu við þær þjóðír sem okkur standa næst og áhuga hafa á að starfa með okkur í blíðu jafnt sem stríðu?

Heimildir:

Gunnar Helgi Kristinsson, Íslenska stjórnkerfið, Háskóli Íslands, 2007.

Fastanefnd framkvæmdastjórnar ESB fyrir Ísland og Noreg, (www.esb.is), sótt 25. maí 2009. 

Stjórnarráðið - utanríkisráðuneyti, (www.utanrikisraduneyti.is) , sótt 25. maí 2009. 

Tryggingarstofnun (www.tr.is), sótt 25. maí 2009. 

 

 

 


mbl.is ESB-tillaga lögð fram á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríki og sveitarfélög - hvar er hægt að spara?

Mikil umræða undanfarna mánuði 

Mikil umræða er um hvar skuli sparað hjá ríki og sveitarfélögum á næstu árum. Ljóst er að þeir flokkar sem nú eru við völd vilja reyna að skerða þjónustu hjá hinu opinbera sem minnst og er það að sjálfsögðu vel. Markmið æðstu stjórnenda ríkis og sveitarfélaga - ríkisstjórnar, borgarstjórnar, bæjarstjórna og sveitarstjórna - og æðstu stjórnenda og millistjórnenda hjá ríki og sveitarfélögum á að vera að fara vel með skattfé borgaranna. Ekki vil ég ásaka fyrrnefnda aðila um að hafa bruðlað á undanförnum árum, en ljóst er að hugsanlega hefði verið hægt að gera meira á undanförnum árum til spara peninga. Ætla ég núna að nefna nokkrar hugmyndir mínar auk annarra sem ég hef séð í blöðum og á vefnum á undanförnum mánuðum. Ég mun byrja á forsætisráðneytinu, en taka síðan eftir það hvert ráðuneyti fyrir sig í stafrófsröð:

Forsætisráðuneyti - Sé litið yfir stofnanir ráðuneytisins sér maður að Gljúfrasteinn virðist vera sér stofnun. Þar er forstöðumaður og fjórir upplýsingarfulltrúar auk þriggja manna stjórnar!

Síðan höfum við Þjóðmenningarhúsið með forstöðumann og 10 manna starfslið!

Hagstofuna sem ég ætla nú ekki að taka fyrir, enda um mikilvæga stofnun fyrir þjóðfélagið að ræða, þótt hugsanlega gæti Hagstofan verið deild innan Seðlabankans?

Síðan erum við með Þjóðgarðinn á Þingvöllum, sem af sögulegum ástæðum er undir Forsætisráðuneytinu, en ætti auðvitað að vera undir stjórn Umhverfisstofnunar eins og aðrir þjóðgarðar.

Umboðsmaður barna hefur margsannað gildi sitt og nauðsynlegt að hann hafi sjálfstæði gagnvart öllum öðrum.

Mér skilst að Seðlabankinn eigi að fara frá Forsætisráðherra til nýs efnahagsráðuneytis, sem ég held að sé skynsamleg ráðstöfun í ljósi aðstæðna.

Dómsmálaráðuneyti - Að mínu mati er tímabært að skoða hvort ekki sé rétt að sameina öll lögregluembætti landsins í eitt embætti: Lögreglustjóra. Ríkislögreglustjóraembættið yrði þá lagt niður í núverandi mynd.

Jafnframt mætti skoða hvort ekki væri rétt að sameina Landhelgisgæslu og Varnamálastofnun og jafnvel Tollgæslu, Alþjóðadeild lögreglunnar og landamæradeild lögreglu og búa til Landamærastofnun Íslands. Sú stofnun myndi tryggja landamæri landsins, en með því að sameina stofnanirnar væri hugsanlega hægt að ná fram sparnaði, betri samvinnu og auknum árangri!

Fækkun sýslumanna er einnig möguleg og detta mér strax í hug nokkrar sameiningar, s.s. Ísafjörður , Bolungarvík, Patreksfjörður og Hólmavík. Þarna yrði einn sýslumaður en hugsanlega skrifstofur eða úti á hverjum stað, þannig að þjónusta myndi ekki skerðast mikið.

Þá mætti skoða sameiningu embættanna í Búðardal og Stykkishólmi að ógleymdu höfuðborgarsvæðinu, þar sem sýslumenn eru í Reykjavík, Kópavogi og í Hafnarfirði. Einnig er spurning hvort þurfi sýslumenn á Hvolvelli og Vík, Seyðisfirði og Eskifirði, Akureyri og Siglufirði, Blönduósi og Sauðárkróki? Á öllum þessum stöðum yrði áfram sýslumannskrifstofa, en fækkað yrði í yfirstjórn.

Sér nefnd þyrfti að setja til sparnaðar hjá Þjóðkirkjunni, en þar er örugglega hægt að hagræða mjög mikið.

Félags- og tryggingaráðuneytið -  Hér erum við að tala um stóra peninga. Mér líst ekki illa á hugmyndir um stofnun Velferðarstofnunar, sem ég held að spari ekki aðeins peninga, heldur verði þjónustan betri þegar allt er komið á einn stað.

Síðan verður auðvitað að fara markvisst í að koma þeim hugmyndum í framkvæmd, sem voru á borðinu fyrir hrun og miðuðu að endurhæfinu öryrkja. Þetta kemur bæði öryrkjum og þjóðfélaginu til góða.

Að auki verður að endurmeta öryrkja af og til, þ.e.a.s. hvort þeir eru hæfir til vinnu eður ei. Að auki er það tilfinningu mín - og fleiri - að sú fjölgun sem varð á öryrkjum á undanförnum árum hafi ekki verið alveg eðlileg. Fara verður aftur yfir örorkumat og skoða hvort allur þessi fjöldi þiggjenda örorkubóta séu virkilega óvinnufærir?

Frekari tekjutenging bóta er auðvitað leiðindamál, en á tímum sem þessum verður að skoða hana. Hvaða hefur forríkt fólk og vel efnað að gera við barnabætur?

Jafnréttisstofa - fjölmenningarstofa- Greiningar- og Ráðgjafarstöð ríkisins, höfum við efni á þessu þegar við erum að loka skólum og sjúkrahúsálmum, er ekki hægt að koma þessum málum öðruvísi fyrir og á ódýrari hátt án þess að þjónusta skerðist mikið?

Fjármálaráðuneytið -  Ekki margar stofnanir, en þó sé ég ekki tilgang í að vera með skattstjóra um land allt. Er ekki hægt að vera með einn skattstjóra og fækka þessum skattskrifstofum og færa verkefni þeirra t.d. yfir á sýsluskrifstofur? Þannig yrði engin skerðing á þjónustu en mikil hagræðing!

Ég segi þetta í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum hjá tollstjóra, en nú er allt Íslands einungis eitt tollumdæmi og við þetta spöruðust peningar án þess að þjónusta væri skert.

Heilbrigðisráðuneytið - Ég ætla ekki að úttala mig um þetta mál, en mér sýnist Ögmundur Jónasson smám saman vera að átta sig á að hugmyndir fyrirrennara hans í starfi voru kannski alls ekki svo slæmar!

Þetta er risastór og dýr málaflokkur og því mest um vert að hagræða þar, því þá er um virkilegan sparnað að ræða! Fækka stofnunum og yfirstjórnum, leggja saman deildir og auka sérhæfingu o.s.frv. Það eru nú þegar komnar fram frábærar hugmyndir um sparnað, en að auki þarf að huga að gagngerum breytingum í kerfinu eins og ég hef áður fjallað um á blogginu.

Iðnaðarráðuneyti - Hér er um fáar stofnanir að ræða og ég sé ekki í fljótu bragði hvernig er hægt að spara með skipulagsbreytingunum.

Menntamálaráðuneyti - Hér er um annan stóran málaflokk að ræða, þar sem verður að taka til hendinni ef á annað borg á að spara hjá ríkinu.

Miklir peningar hafa verið settir í uppbyggingu á menntakerfinu á undanförnum árum og margt mjög vel gert. Ég hef hins vegar ekki verið sammála öllu og vil ég þá sérstaklega benda á mikla uppbyggingu skóla sumra háskóla úti á landsbyggðinni og Háskólann í Reykjavík. Ég get hreinlega ekki skilið hversvegna 300.000 manna þjóð þarf á svona mörgum háskólum að halda: 2 í Reykjavík, á Bifröst, Hvanneyri og á Akureyri! Eitthvað þarf að víkja og að mínu mati ætti að sameina Háskóla íslands og Háskólann í Reykjavík og jafnvel leggja niður Háskólann á Bifröst.

Huga þarf að sparnaði hjá menntaskólum, en ég held að þar sé ekki feitan gölt að flá! 

Samgönguráðuneytið - Unnið hefur verið ötullega að sameiningu stofnana og hagræðingu hjá þessu ráðuneyti og eftir því sem mér skilst mun sú vinna halda áfram. 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið - Þótt ég viti að vel hafi verið unnið hér á bæ undanfarin ár, þá varð ég hvumsa við að sjá þessar stofnanir - þótt ekki efist ég um að verið sé að vinna að þörfum verkefnum:

Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna Verðlagsstofa skiptaverðs Hagþjónusta landbúnaðarins 

Hér er held ég verk að vinna! 

Umhverfisráðuneytið - Ég er sannfærður um að hér er hægt að sameina nokkrar stofnanir og hagræða með því aðeins, bæta þjónustu og auka virkni.

Utanríkisráðuneytið - Hérna þarf líka að spara, en mér finnst margir hafa farið hamförum þegar þeir vilja loka nær öllum sendiráðum. Auðvitað þarf að skoða hvort við þurfum sendiráð í Indlandi eða Afríki eða á öllum Norðurlöndunum, en mér finnst umræðan stundum svolítið öfgakennt og mikið lýðskrum þegar kemur að umræðu um sparnað hjá Utanríkisráðuneytinu.

Viðskiptaráðuneytið - Líklega mun Fjármálaeftirlitið sameinast Seðlabankanum og virðast flestir sammála um að gott sé að færa þetta í fyrra horf.

Ég vil taka skýrt fram að hér er ekki um lærða úttekt að ræða hjá mér sem stjórnsýslufræðingur, heldur var ég að vafra á vef Stjórnarráðsins í morgun og fór svo að skoða undirstofnanir. Í framhaldi af því fæddist hugmyndin um að renna yfir undirstofnanir ráðuneytanna og spá í hvar væri hægt að hagræða með sameiningum. Síðan er það allt annar kafli hvar er hægt að spara inni í stofnunum sjálfur, en það vita forstöðumenn stofnana og millistjórnendur best sjálfir.

 

 

 

 

 


Hroki Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra

HÖFN - ESBÞað var með ólíkindum að fylgjast með hrokafullum viðbrögðum Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í fréttatíma Ríkissjónvarpsins í fréttum í kvöld 21. maí. Sjávarútvegsráðherra gerði sér lítið fyrir og sló á útrétta hönd Joe Borg, fiskveiðimálastjóra ESB, þar sem hann lýsti sérstaklega eftir aðstoð frá Íslandi vegna endurskipulagningar fiskveiðistefnu ESB. Joe Borg skrifaði í dag bréf til Íslendinga í Fréttablaðinu, þar sem hann segir að reynsla okkar og þekking í fiskveiðimálum myndi nýtast vel við útfærslu nýrrar fiskveiðistefnu Evrópusambandsins.

Það er erfitt að átta sig á orðum Jóns Bjarnasonar þegar hann segir að þessi ósk ESB um aðstoð við útfærslu nýrrar fiskveiðistefnu sýni hversu lítið við höfum í Evrópusambandið að gera. Hvað á Jón Bjarnason við? Er stefna okkar Íslendinga í fiskveiðimálum þá kannski bara alls ekki jafn slæm og núverandi ríkisstjórn hefur haldið fram?

FJÖLVEIÐISKIPÞað er einmitt skoðun mín og margra annarra að hvað öll grunnatriði varðar sé íslenska fiskveiðistefnan einmitt mjög góð og gæti orðið fyrirmynd fiskveiðistefnu ESB. Vissulega þarf að gera á kvótakerfinu lítillegar breytingar til að betri sátt ríki um þetta umdeilda mál í íslensku þjóðfélagi. Grunnurinn á þó að mínu mati að standa - allavega þar til viðunandi lausn er fundin fyrir þá sem fjárfest hafa í kvótanum. Það má vera öllu hugsandi fólki ljóst að kollvörpun fiskveiðistefnunnar við núverandi aðstæður er glapræði eitt.

Samkvæmt grein fiskveiðistjóra ESB á gagnger endurskoðun ESB á fiskveiðistefnunni einmitt að byggja á sömu meginmarkmiðum og íslenska fiskveiðikerfið byggir á, þ.e.a.s. að útvegsstefna sé nothæf til lengri tíma litið, en þar er sambandið auðsjáanlega að huga að fyrirsjáanleika í greininni, sem er ein af grundvallarforsendum þess að hægt sé að byggja upp einhverja atvinnugrein til framtíðar. Til viðbótar leggur ESB áherslu á að nýting auðlindanna verði sjálfbær og að arðsemi í greininni verði tryggð en ekki tap, líkt og verið hefur innan Evrópusambandsins um langan tíma.

Nú leikur mér forvitni á að vita hvað Landssamband íslenskra útgerðarmanna og ESB andstæðingar innan Sjálfstæðisflokksins hafa við aðildarviðræður að athuga? Stærstu hindruninni - fiskveiðistefnu ESB - hefur verið rutt úr vegi!


Hvað eru Steingrímur J. Sigfússon, Sveinn Haraldur Øygard og Jón Sigurðsson í raun og veru að gera í Stokkhólmi

Gamla stanEinhvernvegin læðist sá grunur að mér að þrír ofangreindir þungavigtarmenn séu ekki í skemmtiferð til Stokkhólms til að hitta þarlenda bankastjóra. Vissulega er fallegt á vorin á Gamla stan og rómantískt að fá sér bjórglas eða hvítvínsglas á fallegum veitingastað í einhverju af gömlu, fallegu húsunum.

Eftir reynslu mína frá því í haust og vetur hef ég illan bifur á því þegar íslenskir ráðherrar funda með bankastjórum - þið skiljið vonandi hvað ég meina? Enn taugaveiklaðri verð ég þegar stjórnmálamenn segja að ekkert sé á seiði og aðeins verið að ræða eitthvað almennt, eða eins og í þessu tilfelli vaxtakjör og annað samfara lánunum frá norrænum frændum okkar, sem lofað var í haust.

Sveinn Haraldur ØygardKrónan fellur og fellur og óneitanlega hefur maður á tilfinningunni að ekki sé allt með felldu þar á bæ, þ.e.a.s. í Seðlabankanum og varðandi þeirra lánalínur og hvað þetta nú allt saman heitir. Geir og Ingibjörg brostu aldrei meira en dagana sem allt hrundi - það fer hrollur um mann.

Getur verið að ríkisstjórnin sé upp á kant við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, skirrist við að fara eftir leiðbeiningum þeirra, vilji komast úr þeirri þröngu spennitreyju, sem stjórnvöldum er sniðin? Getur verið að ríkisstjórnin hafi sett hnefann í borðið og sagst vera algjörlega ósammála sjóðnum varðandi stýrivaxtalækkanir og kröfuna um gífurlegan niðurskurð í ríkisrekstri, m.a. í velferðar- og menntakerfinu?

Getur verið að augu Samfylkingarinnar séu loksins að opnast fyrir því að hugsanlega hafi það verið rangt skref að fá aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Tókst VG að sannfæra Samfylkinguna um að hætta samvinnu við AGS og að nú sé verið að reyna að fá hjálp frá frændum okkar á Norðurlöndunum í staðinn? Getur verið að öllum sé ljóst að við séum bara alls ekki borgunarmenn fyrir þeim skuldbindingum sem við okkur blasa? Maður bara spyr?

En nú er komið nóg af samsæriskenningum! Kannski langaði strákana bara í rándýran bjór á Gamla stan! 


Nýr talsmaður LÍÚ, Bændasamtakanna og Heimssýnar - Bjarni Benediktsson

HrúturAldrei áður hefur mér verið jafn ljóst og í kvöld, hverjir ráða í raun ferðinni hjá Sjálfstæðisflokknum. Hinn nýi formaður Sjálfstæðisflokksins virðist hafa fengið ræðuna, sem hann hélt á Alþingi í kvöld, senda beint frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Bændasamtökunum og Heimssýn.

Bjarni Benediktsson má ekki gleyma að 1/3 kjósenda Sjálfstæðisflokksins yfirgaf flokkinn í kosningunum í vor og til þess voru gildar ástæður. Rétt er að afstaða Sjálfstæðisflokksins gagnvart aðildarviðræðum við ESB er aðeins hluti skýringar þessa fylgistaps. Samkvæmt nýlegri kosningakönnun styðja þó enn 4 af hverjum 10 kjósendum Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum aðildarviðræður við ESB, 5 af hverjum 10 kjósendum eru andsnúnir aðildarviðræðum og 1 af hverjum 10 kjósendum Sjálfstæðisflokksins er óákveðinn. Hverju vill Bjarni áorka með yfirlýsingu sinni varðandi aðildarviðræður við ESB? Vill hann minnka fylgi flokksins enn meira, koma því niður í 14%, hrekja 4 af hverjum 10 sjálfstæðismönnum í burtu? Ég segi nú bara, ef þetta er ósk hans, er hann á góðri leið með að fá hana uppfyllta!

FiskiskipEitt er víst að þau 13% kjósenda, sem yfirgáfu Sjálfstæðisflokkinn í vetur, og þau 10 % aðildarviðræðusinna, sem enn kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en hljóta að yfirgefa hann á næstu mánuðum, haldi flokkurinn uppi fyrrnefndri stefnu sinni, munu stofna annan hægri flokk, sem að öllum líkindum mun njóta meira fylgis en Sjálfstæðisflokkurinn gerir nú. Ég fullyrði, að það fólk innan Sjálfstæðisflokksins, sem vill aðildarviðræður við ESB, deilir einnig öðrum viðhorfum, er frjálslyndara og umbótasinnaðra en þeir sem andsnúnir eru viðræðum, íhaldsarminum.

Það er lágmarkskurteisi hjá Bjarna Benediktssyni að láta okkur sjálfstæðismenn á mölinni vita ef hann og hans menn hafa breytt stefnu flokksins úr hægri flokki í íhaldsflokk einangrunar- og þjóðernissinna, sem aðallega er málsvari útgerðarmanna og bænda. Reyndar skildi ég afstöðu síðasta Landsfundar Sjálfstæðisflokksins á þessa leið, en gott væri að fá þetta algjörlega á hreint. Þannig upplýsir forusta Sjálfstæðisflokksins okkur, sem ekki erum sáttir við þessar hugsanlegu breytingar, og við getum brugðist við, t.d. með stofnun annars stjórnmálaflokks, sem m.a. hefði ESB aðild á dagskrá. Sem fyrr segir, tel ég þetta vera lágmarkskurteisi af forystu flokksins.

Fánar ESBKannski er einmitt núna kominn tími á stofnun annars hægriflokks. Flokks, sem aðhyllist viðhorf frjálslyndra og hægrimanna í þéttbýli á Íslandi. Kannski eigum við hægrisinnaðir þéttbýlisbúar bara ekki lengur samleið með sumum útgerðarmönnum og hægrisinnuðum bændum úti á landsbyggðinni?

Er það tilviljun að víðast hvar annarsstaðar í heiminum eru a.m.k. tveir flokkar á hægri vængnum, líkt og tveir flokkar eru á vinstri vængnum hér á landi? 


mbl.is Leiði mótun sjávarútvegsstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurskurður hjá hinu opinbera

Fyrir liggur að útgjöld ríkisins verða meiri en tekjurnar á næstu árum. Rekstur íslenska ríkisins er ekki frábrugðinn rekstri heimilis eða fyrirtækis, þar verða gjöld og tekjur að haldast í hendur. Ef tekjur ríkisins eru meiri en útgjöld er vaninn að greiða niður skuldir, bæta í útgjöldin eða lækka skatta. Undanfarin ár gerðu ríkisstjórnir Íslands einmitt þetta. Íslenska ríkið var frekar skuldsett þegar fyrsta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks (Samfylkingar) tók við völdum árið 1991. Í byrjun ríkisstjórnarsamstarfs Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokksins var mikið skorið niður hjá ríkinu og var það ekki vinsælt frekar en núna. Aðhald var síðan mikið hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem tók við völdum árið 1995.

Á blaðamannafundi sumarið 1995 lýsti Davíð Oddsson forsætisráðherra yfir að kreppunni væri lokið og góðæri myndi taka við. Það var eins og við manninn mælt að mikill vöxtur var í atvinnulífinu næstu ár á eftir. Tveir ríkisbankar voru seldir, Búnaðarbankinn og Landsbankinn, en einnig nokkur önnur opinber fyrirtæki. Afgangurinn er flestum kunnugur, þ.e.a.s. áframhaldandi góðæri sem endaði í trylltu ástandi sem enginn hafði hemil á, hvorki stjórnvöld, bankarnir, lífeyrissjóðir, almenningur eða fyrirtæki landsins. Nú erum við aftur komin í sömu spor og árið 1991 eða öllu frekar enn erfiðari spor.

Hvað er til ráða? Allir hafa heyrt að mikilvægast er að komu heimilum og fyrirtækjum til hjálpar, sem er auðvitað hárrétt, en færri einbeita sér að þeim erfiðu verkefnum sem við okkar blasa: niðurskurðinum hjá hinu opinbera. Flestir horfa auðvitað í eigin barm - ekki síst þeir sem líkt og ég vinna hjá hinu opinbera eða eru upp á það opinbera komin vegna bóta, lífeyris eða vegna þjónustu, sem þeir njóta frá hinu opinbera. Sjálfur hef ég þegar tekið á mig mínar byrðar, sem birtast í niðurskurði á launum mínum og hlunnindum. Það er auðvitað ekki auðvelt að skera niður útgjöld hjá sjálfum sér, sérstaklega þegar lán - innlend sem erlend - og matvara hefur hækkað í verði. Það er alltaf auðveldara að skera niður hjá öðrum.

Auðvitað erum við opinberir starfsmenn ekki sáttir við að taka á okkur byrðarnar af bruðli annarra, þegar við nutum aldrei ávaxtanna af hinu svokallaða "góðæri" undanfarinna ára. Ríkissjóður er tómur - og í raun í mínus - og því er ekki um annað að ræða en að skera niður, viljum við ekki leggja byrðarnar á framtíðarkynslóðir.

Við opinberir starfsmenn verðum að taka á okkur byrðarnar núna. Í framtíðinni verðum við hins vegar að minnast þess að ríkið hefur alltaf talað um að launin okkar væru örugg og það sama gildi um atvinnuöryggi okkar. Hvorutveggja er ekki sannleikanum samkvæmt, svo sem nú má sjá. Í framtíðinni krefjumst við sömu launa og á hinum almenna markaði, því laun okkar eru ekki trygg og atvinnuöryggið ekki heldur, þótt við búum hugsanlega við meira atvinnuöryggi en aðrir Íslendingar.


mbl.is Forsætisráðherra flytur stefnuræðu í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sælgæti, sætuefni, brennivín, salt, verkjalyf, feitt kjöt, hvítar núðlur, hraðskreið mótorhjól og íþróttaiðkun

HarleyHér að ofan eru nokkur dæmi um matvæli og annan varning, sem verður fólki að fjörtjóni á ári hverju. Við horfum aðgerðarlaus á meðborgara okkar að drepa sig. Sumir drepa sig hægt og rólega en aðrir deyja á augabragði. Mig grunar að með sykurskatti Ögmundar Jónassonar sé fyrsta skrefið tekið í myndalegu átaki ríkisstjórnar VG og Samfylkingar í átt til betra samfélags, í átt til heilbrigðara lífs. En betur má ef duga skal. 

Feita fjölskyldanVissulega er hægt að stilla notkun sinni á óhollum matartegundum í hóf, skera fitu úr kjöti, fara varlega á bílnum sínum eða á mótorhjólinu sínu eða á skíðum og í fótbolta. Spurning mín til ykkar er, hvort ríkisstjórnin geti leyft Íslendingum að ganga af sjálfum sér dauðum með ofáti á sælgæti, feitu kjöti, bakkelsi og hvítu brauði og hvítum núðlum; drykkju á brennivíni, kaffi, gosi, víni og bjór; óhóflegri notkun á fæðubótarefnum og verkjalyfjum; ofsaakstri á hraðskreiðum bílum og mótorhjólum; síendurteknum slysum á skíðum, boltaíþróttum eða öðrum áhættusömum íþróttum; siglingum á skemmtibátum eða fjallgöngum á hálendinu og í fjöllum landsins?

HamborgariDugar skattlagning á sykri? Þurfum við ekki að fara með þetta mál alla leið og jafnvel huga að innflutningsbanni á slíkum matvælum, áfengi, hraðskreiðum bílum og mótorhjólum, hvítu hveiti og sykri eða virkara eftirliti með fólki eða hugsanlega skömmtunarseðla? Höfum við efni á því í kreppunni að tapa öllum þeim peningum sem fara í súginn þegar fólk er frá vinnu vegna sjúkdóma, sem oftast má rekja til ofáts á óhollum mat eða ofnotkunar á lyfjum eða áfengi, að ekki sé talað um slysin í umferðinni eða slys við íþróttaiðkun og útiveru?

Er fólki treystandi til að taka ábyrgð á sjálfum sér, ég bara spyr? 


Má ekki hækka hámarkshraða á Reykjanesbraut í a.m.k. 110 km?

UmferðarteppaÉg ek Reykjanesbrautina nær daglega, þar sem ég bý í Reykjanesbæ en vinn í Reykjavík. Af þessum ástæðum er hámarkshraðinn á brautinni mér ofarlega í huga, en ég ek að sjálfsögðu aldrei hraðar en á 90 km hraða.

Það er skiljanlegt að hámarkshraða á Reykjanesbraut hafi verið haldið í 90 km meðan á framkvæmdum stóð. Núna sér hins vegar fyrir enda á framkvæmdunum - þótt fyrr hefði verið - og því er ekkert til fyrirstöðu að hækka hámarkshraða. Við gætum til að mynda byrjað á að hækka í 100 km, en það er leyfilegt sbr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Við ættum að skoða reynsluna af 100 km hámarkshraða í sumar, en síðan gætum við auðvitað breytt umferðalögunum í 110 km. Mikilvægt er að sjá hvernig hraðamörkin reynast á veturna. Að mínu mati er 120 km eða 130 km hraði aðeins of mikill hraði í okkar kalda landi, þar sem veðrið breytist nokkrum sinnum á dag.

Lausleg könnun mín leiddi í ljós að hámarkshraðinn á hraðbrautum Norðurlandanna er sem hér segir:

  • Ísland 90 km
  • Noregur 90 km
  • Svíþjóð 110
  • Finnland 120
  • Danmörk 130

Hvað er ykkar skoðun á þessu máli? 

 

 

 


mbl.is Fjórir teknir á Reykjanesbrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband