Hvað eru Steingrímur J. Sigfússon, Sveinn Haraldur Øygard og Jón Sigurðsson í raun og veru að gera í Stokkhólmi

Gamla stanEinhvernvegin læðist sá grunur að mér að þrír ofangreindir þungavigtarmenn séu ekki í skemmtiferð til Stokkhólms til að hitta þarlenda bankastjóra. Vissulega er fallegt á vorin á Gamla stan og rómantískt að fá sér bjórglas eða hvítvínsglas á fallegum veitingastað í einhverju af gömlu, fallegu húsunum.

Eftir reynslu mína frá því í haust og vetur hef ég illan bifur á því þegar íslenskir ráðherrar funda með bankastjórum - þið skiljið vonandi hvað ég meina? Enn taugaveiklaðri verð ég þegar stjórnmálamenn segja að ekkert sé á seiði og aðeins verið að ræða eitthvað almennt, eða eins og í þessu tilfelli vaxtakjör og annað samfara lánunum frá norrænum frændum okkar, sem lofað var í haust.

Sveinn Haraldur ØygardKrónan fellur og fellur og óneitanlega hefur maður á tilfinningunni að ekki sé allt með felldu þar á bæ, þ.e.a.s. í Seðlabankanum og varðandi þeirra lánalínur og hvað þetta nú allt saman heitir. Geir og Ingibjörg brostu aldrei meira en dagana sem allt hrundi - það fer hrollur um mann.

Getur verið að ríkisstjórnin sé upp á kant við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, skirrist við að fara eftir leiðbeiningum þeirra, vilji komast úr þeirri þröngu spennitreyju, sem stjórnvöldum er sniðin? Getur verið að ríkisstjórnin hafi sett hnefann í borðið og sagst vera algjörlega ósammála sjóðnum varðandi stýrivaxtalækkanir og kröfuna um gífurlegan niðurskurð í ríkisrekstri, m.a. í velferðar- og menntakerfinu?

Getur verið að augu Samfylkingarinnar séu loksins að opnast fyrir því að hugsanlega hafi það verið rangt skref að fá aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Tókst VG að sannfæra Samfylkinguna um að hætta samvinnu við AGS og að nú sé verið að reyna að fá hjálp frá frændum okkar á Norðurlöndunum í staðinn? Getur verið að öllum sé ljóst að við séum bara alls ekki borgunarmenn fyrir þeim skuldbindingum sem við okkur blasa? Maður bara spyr?

En nú er komið nóg af samsæriskenningum! Kannski langaði strákana bara í rándýran bjór á Gamla stan! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Það fer nú ekki lítið fyrir samsæriskenningum þarna.  En samt, enn eina ferðina, verð ég að hrósa þér fyrir áhugaverða lesningu!

Eiríkur Sjóberg, 20.5.2009 kl. 19:41

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ágæti lesandi:

Sá þetta á www. visir.is - 2. klst. eftir að ég skrifaði mitt blogg.

Fleiri virðast sem sagt vera á sömu skoðun og ég! 

 
Vonast til að lánasamningar verði fljótlega í höfn

Það sem ég hef áhyggjur af eru þessi orð Steingríms - auk falls krónunnar í dag:

Steingrímur segir þó ekkert slíkt hafa verið til umfjöllunar í dag. „Nei nei, við ræddum ekkert slíkt," segir Steingrímur.

Steingrímur mun ekki staldra lengi við í Svíþjóð, því hann mun koma aftur til Íslands í dag. „Enda fer ég ekki út nema ef brýna nauðsyn ber til, eins og í þessu tilviki," segir Steingrímur í samtali við fréttastofu.
 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.5.2009 kl. 20:52

3 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Áhugaverðar hugleiðingar og greining. Við lifum á víðsjárverðum tímum.

Jón Baldur Lorange, 20.5.2009 kl. 21:54

4 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll

Þetta er áhugaverðar tilgátur hjá þér. Vonandi að þær séu réttar og verið sé að vinna að því að koma okkur út úr samstarfinu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, AGS.

Mér er orðið alveg óskiljanlegt hvað við erum að gera í því samstarfi. Við fórum í það samstarf til að fá aðgang að lánum hjá þeim. Þau lán höfum við ekki nýtt okkur og ekki stendur til að við nýtum okkur þau.

 Við látum þennan erlenda sjóð, AGS, taka hér allar ákvarðanir sem máli skipta í stjórn ríkisfjármálanna vegna þessara lána sem við erum ekki að nota. Hljómar þetta ekki eins og hvert annað rugl?

Með þeirri vaxtastefnu sem AGS rekur hér þá eru ekkert nema áframhaldandi vaxtaokur framundan næstu 3 til 4 árin með tilheyrandi gjaldþrotum. Ástæður þessara háu stýrivaxta er bara einn, tryggja það að Seðlabanka Íslands verði tryggt nægjanlegt fé til að geta staðið í skilum með afborganir af lánum til erlendra lánadrottna.

Allt starf AGS miðast bara við það að tryggja hag erlendra lánadrottna. Þó heilbrigðiskerfið, menntakerfið og atvinnulífið verði lagt í rúst þá skiptir að ekki máli ef aðeins hagur erlendra lánadrottna er tryggður.

Því fyrr sem menn átta sig á þessu því fyrr hætta menn þessu samstarfið við AGS. Þegar við erum laus við AGS þá er hægt að fara að taka ákvarðanir í ríkisfjármálunum sem hafa hag Íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. 

Friðrik Hansen Guðmundsson, 21.5.2009 kl. 09:38

5 Smámynd: Björn Finnbogason

Ég er viss um að þeir eru að reyna að tryggja sér fjármagn til að standa undir afborgunum af þeim lánum sem við megum ekki missa í vanskil, eins og lán orkufyrirtækjanna og fleiri -framhjá AGS.  

Björn Finnbogason, 21.5.2009 kl. 11:53

6 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Ég er á því að þeir séu að fá sé kaffibolla saman.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 21.5.2009 kl. 13:52

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég ætla leyfa mér að vona að þú hafir rétt fyrir þér þarna Guðbjörn. Og ég er sammála Fr. Hansen með að þessi aðkoma AGS hafi verið vafasamt bjargræði og ég óttast að það muni eiga eftir að koma betur í ljós. Það mun taka langan tíma að reisa við þau fyrirtæki sem hávaxtastefnan legði að velli. Ég kem ekki auga á ávinninginn.

Árni Gunnarsson, 21.5.2009 kl. 19:56

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón Baldur:

Satt er það og aðkoma AGS virðist ekki hafa bætt okkar stöðu. Gengið er í algjöru lágmarki og hávaxtastefnan alla að drepa, einstaklinga jafnt og fyrirtæki.

Friðrik:

Þetta er nú það sem við sjálfstæðismenn óttuðumst og þess vegna drógum við lappirnar að samþykkja aðkomu AGS. Það var engu viti hægt að koma fyrir Samfylkinguna í þessu máli, hvað sem raulaði og tautaði!

Nú er spurningin hvernig við komumst út úr þessari bölvaðri vitleysu, því umheimurinn mun ekki skilja hversvegna við viljum slíta samstarfinu við AGS.

Björn Finnbogason:

Ég held að þetta snúist virkilega um stærri hluti. AGS er hér með einn mann og svo koma einhverjar sendinefndir af og til. Með þessu þykjast þeir hafa puttann á púlsinum. Ég hef allan tímann sagt að þeir hafa engan áhuga á okkar örlögum og skilja okkar kerfi ekki til fulls, þ.e.a.s. verðtrygginguna, myntkörfulánin og svo okkar skringilega efnahags- og peningamálakerfi. Við skiljum það held ég ekki einu sinni sjálf, líkt og berlega kom fram í hruninu. Lausnin er því að koma sér inn í eitthvað kerfi sem er skiljanlegt og fylgja efnahags- og peningamálastefnu ESB. Atvinnulífið - að undanskildu LÍÚ - hefur áttað sig á þessu og það sama gildir um ASÍ. BSRB skilur þetta ekki enda var ekki talað um ESB á meðan Ögmundur var þar í stjórn (ég var 3 ár í stjórn BSRB og hætti í vor).

Kjartan:

Caffè macchiato!

Árni:

Enginn kemur auga á ávinninginn af þessu - því miður!

Við þurfum ekki AGS til að segja okkur að tekjur ríkisins dragast saman um 30% þá verður að hækka skatta og skera niður - þetta er nokkuð augljóst!

Þetta vaxtastig skilur enginn - ekki þegar við erum með axlabönd og belti - líkt og fyrrverandi bankastjóri Seðlabankans orðaði þetta!

Hefur gengið hækkað síðan Svenni tók við?

Hefur eitthvað skánað síðan þessi ríkisstjórn tók við? 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.5.2009 kl. 06:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband