Varnarúðinn: nauðsynlegt valdbeitingartæki

Eftir alla umræðuna um varnarúða undanfarna mánuði verð ég nú að taka upp hanskann fyrir félaga mína í lögreglunni. Undanfarin ár virðist þráðurinn hafa styst svo um munar hjá borgaranum og mikið meira um ofbeldi, en gerðist fyrir nokkrum árum síðan. Ofbeldi hefur ekki einungis aukist gagnvart lögreglunni, heldur einnig gagnvart öðrum stéttum, líkt og tollvörðum, hjúkrunarstéttum, svo sem kannanir hafa staðfest og er þetta mikið áhyggjuefni.

Fyrir um aldarfjórðungi síðan var ég um nokkurra sumra skeið í lögreglunni, sem sumarafleysingamaður, og lenti þá stundum í átökum eins og gengur og gerist í lögreglunni. Ég hafði lúmskt gaman af því að ná fólki niður og tala það til og af þessum sökum kom mjög sjaldan til valdbeitingar af minni hálfu.

Það kom þó fyrir að menn - sjaldnar konur - voru svo stjórnlausir af reiði - ég leyfi mér að segja trylltir - að hvorki gekk né rak að tala þá til. Þá var úr vöndu að ráða og úrræðin fá. Fyrst var reynt að koma lögreglutökum á viðkomandi og gekk það nú svona upp og ofan, en tókst þó í flestum tilfellum.

Jafnvel á þessum tíma lenti lögreglan í kolbrjáluðum fíkniefnaneytendum eða drukknum mönnum - sjaldnar konum - sem voru svo gjörsamlega trylltir af bræði, að þeir lömdu allt og alla, sem á vegi þeirra urðu - lögreglumenn, sem saklausa borgara. Þá kom það fyrir - mjög sjaldan reyndar - að beita þurfti kylfu, sem var algjört neyðarúrræði. Við sumarmennirnir vorum ekki búnir kylfum og því voru það fastráðnir lögreglumenn, sem beittu því valdbeitingartæki, enda höfðu hlotið til þess sérstaka þjálfum.

Ég hefði mikið gefið fyrir að hafa varnarúða undir höndum á þessum árum, þótt það bíti reyndar stundum alls ekki á menn í sterkri fíkniefna- eða áfengisvímu. Um langt skeið höfum við tollverðir tekið námskeið hjá lögreglunni í lögreglutökum, þegar við erum í tollskóla ríkisins. Vegna aukins ofbeldis og hótana í okkar garð verðum við nú einnig að hljóta þjálfun í notkun á varnarúða og handjárna, en þessi búnaður er nú hluti þeirra tóla, sem tollverðir eru með í tækjabelti sínu.

Hluti af þjálfun tollvarða - og lögreglumanna - er að varnarúða er sprautað  í andlit þátttakenda. Ég get ekki lýst því, hversu óþægileg tilfinning það er að fá úðann í augun. Eftir að hafa reynt þetta sjálfur er ég viss um að enginn notar varnarúðann nema að þess sé virkilega þörf.

Kosturinn við varnarúðann er að sá, sem er sprautað á er á, verður öllu jafnan gjörsamlega óvirkur og skaðar hvorki sjálfan sig né aðra. Áhrif úðans eru þó skammvinn og viðkomandi er kominn til sæmilegrar heilsu innan 1/2 klukkustundar og varanlegan skaða hlýtur enginn af úðanum. Kylfurnar geta hins vegar skaðað viðkomandi einstakling mikið meira og þá jafna menn sig ekki á stuttum tíma. Kylfurnar geta jafnvel valdið varanlegum skaða ef svo ber undir.

Ég held að það fólk, sem ekki hefur verið umkringt af kolbrjáluðu fólki, sem annaðhvort er dauðadrukkið eða útúr heiminum af fíkniefnavímu, og ætlar að ráðast á eða gera aðsúg að öðru fólki, sem hefur það eitt til saka unnið að vera við vinnu sína eða að skemmta sér, geti ekki dæmt um það, hvort slíkur úði sé nauðsynlegur eða ekki. Maður þarf sjálfur að hafa upplifað slíkar aðstæður á eigin hörundi.

Ég er algjörlega viss um að varnarúðinn er algjörlega nauðsynlegur við þær aðstæður, sem að ofan er lýst! Jafnframt tryggir hann betur en nokkuð annað valdbeitingartæki, sem á boðstólum er í dag, að einstaklingar skaði hvorki sjálfan sig eða aðra. Úðinn er því að mínu mati sem valdbeitingartæki "mjög gott", ef hægt er að nota það orð um slík tól. Ég leyfi mér því að segja að úðinn sé illskásti kosturinn og skárri kostur en kylfan. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að löggæslumenn verði almennt að hafa eitthvað til að verja sjálfan sig og aðra með. Því er það einungis spurning um hvaða valdbeitingartæki er valið.

Ég hef ekki myndað mér skoðun, hvort ástæða sé til að "vopna" lögreglumenn með "tazer" rafmagnsvopnum. Það er eitthvað, sem þarf að skoða gaumgæfilega áður en það er leyft.


mbl.is Slagsmál brutust út eftir nágrannaerjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband