Stjórnarslit, held ekki ...

 

Ég held að allir skynsamir menn, hvort sem þeir eru í Samfylkingunni eða Sjálfstæðisflokknum, sjái að við þurfum ekki á stjórnarslitum að halda ofan í það ástand í efnahagsmálum, sem er hér og annarsstaðar í heiminum í dag.

Ég er vissulega þeirrar skoðunar, að meira hefði verið hægt að gera á undanförnum vikum og mánuðum, en það snýr nú meira að því að róa ástandið og tala við almenning, líkt og Guðmundur  Magnússon lýsti svo vel í pistli sínum nýlega.

Spurningin er fyrst og fremst, hvað hægt sé að gera og hvort gott sé að gera eitthvað yfirleitt eins og sakir standa? Við sjáum að viðskiptahallinn er farinn að rétta sig af, framkvæmdir í Helguvík eru að fara af stað og jákvæðar fréttir heyrast að norðan frá Bakka. Stóraukinn útflutningur á áli, og virkjunar- og álversframkvæmdir á þessu og næsta ári, munu hafa góð áhrif á atvinnuástandið og viðskiptahallann. Aðrar útflutningsatvinnugreinar munu græða á veikingu krónunnar, þótt þess muni fyrst gæta hjá ferðaiðnaðinum á næsta ári. Nú er bara að reyna að halda atvinnuvegunum - og þó sérstaklega byggingariðnaðinum - gangandi næsta árið og þá erum við komin í góð mál aftur. Mér fundust niðurskurðarhugmyndir í ríkisfjármálum, því ekki réttu skilaboðin til atvinnulífsins og þjóðarinnar allrar. Ég held að við ættum að reyna að vera róleg, sparsöm og dugleg og ekki láta ótta og vonleysi ná tökum á okkur. Þessum skilaboðum þarf að hamra inn í þjóðina og erlenda viðmælendur viðstöðulaust. Þetta kunni Davíð Oddsson svo afskaplega vel.

Samfylkingin færi ekki vel út úr því að slíta stjórnarsamstarfinu einmitt  núna, það er held ég algjör misskilningur. Í stjórnarsamstarfi við Samfylkinguna yrðu VG að setja framkvæmdabann á Helguvík og Bakka og hvað væri þá framundan í efnahagsmálum?

Í Samfylkingunni er uppistaðan ekki "draumórafólk" líkt og hjá VG. Auðvitað fyrirfinnst slíkt fólk innan flokksins -Mörður og Þórunn o.fl. - en flestir eru eins og Ingibjörg, Össur og Björgvin. Þetta fólk er búið að vera lengi í stjórnmálum og veit að svona gerast kjörin ekki á eyrinni.

Ef Samfylkingin vill láta taka sig alvarlega, sem stór stjórntækan miðjuflokk - líkur sósíaldemókrataísku flokkunum á Norðurlöndum - þarf hún að standa sig vel í ríkisstjórn og standa þessa krísu af sér. Að öðrum kosti er trúverðugleikinn farinn! Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir næstu kosningar, sem munu snúast um ESB aðild. Til þess að ná því markmiði sínu að koma landinu inn í ESB, þarf Samfylkingin annaðhvort að snú Sjálfstæðisflokknum í afstöðu sinni eða snú 10-15% sjálfstæðismanna til þess að kjósa Samfylkinguna - þótt það væri ekki nema í einum kosningum til að koma landinu inn í ESB. Hægri kratar innan Sjálfstæðisflokksins myndu aldrei styðja Samfylkinguna eftir vinstristjórn, heldur flykkja sér í kringum sinn gamla flokk. Sjálfstæðismenn, sem upplifað hafa góða og "stabíla" ríkisstjórn með frjálslyndum og umbótasinnuðum "sósíaldemókrötum", eru líklegri til þess að snú baki við flokknum í einum kosningum, af því að þeir eru ekki sáttir við stefnu flokksins í Evrópumálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband