Friedman fram á haust, en dustum svo rykið af Keynes

Ég er ekki hagfræðingur, en sé þó ekki betur en að stefna stjórnvalda sé hálfgerð "Laissez-faire" (afskiptaleysisstefna) að hætti Friedmans. Svo sem skiljanlegt er, virðist þetta fara afskaplega mikið í taugarnar á þjóðinni. Þjóðin kýs jú ríkisstjórn til að taka á hlutunum þegar svona ástand skapast. Hugsanlega vita þessir ágætu menn hvað þeir eru að gera og ætla að láta markaðinn laga það sem aflaga fór, enda var það markaðurinn sem orsakaði þetta ástand. Fórnarlömbin - íbúar Íslands og allrar heimsbyggðarinnar - eiga víst að halda kjafti og taka þessu eins og hverju hundsbiti. Mér finnst stjórnmálamenn heimsins vera að taka stóra áhættu með þessum hugsunarhætti. Hætta er á að gamlar öfgastefnur fái byr undir báða vængi og að sú mikla uppsveifla, sem átt hefur sér stað í Austu-Evrópu og Asíu, fái bakslag við þessar aðstæður, sem hefði mjög slæmar afleiðingar í þeim heimshlutum.

Fyrir þremur áratugum las ég sem Verslingur af mikilli áfergju allar helstu bókmenntir frjálshyggjunnar. Sennilega var um einhverskonar "foreldrauppreisn" eða "fjölskylduuppreisn" að ræða, þar sem flestir í minni fjölskyldu voru hreinir og klárir kommar eða að minnsta frekar vinstrisinnað fólk. Skoðanir mínar hafa aðeins breyst, þótt enn sé ég maður markaðslausna þegar þær eiga við. Það er þó mín skoðun að með haustinu ættu menn nú að fara að dusta rykið að kenningum Keynes - og þá ekki einungis hér á landi - og fara í einhverjar aðgerðir á vegum hins opinbera til að allt stoppi ekki hérna á skerinu.

Tilvalið væri að fara í eitthvað skynsamlegt samfélagslegt verkefni fyrir framtíðina. Ég hef áður bent á að tilvalið væri að fara framkvæmdir tengdar samgöngum, t.d. léttalestakerfi á höfuðborgarsvæðinu og til Reykjanesbæjar/Keflavíkurflugvallar. Með því að ganga strax af krafti til verks væri hægt að slá þrjár flugur í einu höggi: Slá á kreppuna sem allir segja að komi í haust, beina sjónum fólks frá "kreppunni" í átt að einhverju jákvæðu og þörfu verkefni og leggja okkar af mörkum í baráttunni við hitnandi heim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessður Guðbjörn

Ég er alveg sammála þér með léttlestarkerfið, þetta er sniðug framkvæmd og í raun furðulegt hve erfitt er að fá menn í gang með alvöru umræðu um þetta, þarna fara um þúsundir fólks á hverjum degi, Alþjóðaflugvöllur sem þarfnast þessa, og þetta verkefni myndi vera mjög umhverfisvænt.

Hannes Friðriksson , 8.7.2008 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband