Orð í tíma töluð

Ég er algjörlega sammála Ólafi Jóhanni í þessu máli. Það er virkilega kominn tími til að lægja öldurnar og á þetta ekki síst við um REI málið svokallaða.

Það er mitt mat að ef hreinsað hefði verið til strax hjá Orkuveitu Reykjavíkur og Guðmundur Þóroddsson og fylgismenn hans verið látnir fara, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefði séð sóma sinn í að hypja sig eða hreinlega verið gefið í skyn af forystumönnum flokksins að hann ætti að taka pokann sinn, þá væri málum ekki svona háttað hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, hjá Orkuveitunni eða REI.

Það er þetta eilífa aðgerðaleysi, þessi ákvarðanafælni, sem allt er að drepa. Í REI málinu fylgdi síðan þessi gagnslausa naflaskoðun (skýrslan), sem málið var sett í. Hverju breytti þessi skýrsla svo á endanum, nákvæmlega engu og það gátu auðvitað allir vitað. Stjórnmálamennirnir voru að kaupa sér tíma og sá tími reyndist Sjálfstæðisflokknum dýrkeyptur. Var þörf á að kaupa sér tíma? Nei. Ég var þannig alinn upp að fresta því ekki til morguns, sem ég gæti gert í dag. Ég vildi óska að fleiri sjálfstæðismenn tækju sér það til fyrirmyndar. Stundum verða stjórnmálamenn að vera mannasættar og stundum ekki. Stundum þurfa þeir að hafa þor og kjark til að ganga hreint til verks innan flokks sem utan og af því eru þeir dæmdir þegar fram líða stundir.

Eins má segja að sala sveitarfélaganna á Suðurnesjum á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja hafi farið of snemma fram, þ.e.a.s. áður en almenn umræða hafði farið fram um þessi mál, þ.e. hvernig almannaveitumálum ætti að hátta í framtíðinni og áður en heilstæð löggjöf var sett um það mál. Menn voru komnir á undan sér, sem er þó skömminni til skárra en aðgerðaleysið, þar sem í því tilfelli getur einnig verið um framsýni að ræða.

Eflaust er hægt að telja upp fleiri ástæður en ég hef gert fyrir því í hvaða farvegi þessi mál eru, en það er í raun er óþarfi að velta sér lengur upp úr þessum málum - þetta er búið og gert og hefur því miður skaðað allt of mikið.

Mikilvægast af öllu er öll þessi mál eru í höfn. Sátt hefur verið sköpuð um að náttúrauðlindirnar verði alltaf í eign hins opinbera, dreifingarfyrirtæki rafmagns og heita og kalda vatnsins verði í meirihlutaeign opinberra aðila og að orkufyrirtækin geti verið að meirihluta einkarekin. Ég held að vinstri menn og þeir sjálfstæðismenn, sem voru sömu skoðunar og ég, þ.e.a.s. að orkulindirnar ættu að vera í opinberri eign, geti vel við unað. Tryggt er að krafti einkaframtaksins verður gefinn laus taumurinn við orkuframleiðsluna og borgarinn á dreifingarfyrirtækin og á þannig að geta keypt orkuna á hófsamlegu verði á markaði, þótt eðli málsins samkvæmt séu því settar nokkrar takmarkanir. Löggjöfin ætti þó að tryggja að ekki verði okrað á almenningi, þótt orkuverin færist í hendur einkaaðila.

Nú er tími kominn til að við Íslendingar styðjum í orði og á borði við þessi glæsilegu fyrirtæki, sem storma fram í bullandi útrás til að framleiða græna orku fyrir heimsbyggðina. Við sláum a.m.k. tvær flugur í einu höggi, flytjum út íslenskt hugvit og reynslu og fáum fyrir það greitt og leggjum okkar lóð á vogaskálarnar í baráttunni við loftlagsbreytingarnar.´

Ég hafði stórar efasemdir varðandi útrás peningamanna og sá ekki fljótu bragði, hvað við Íslendingar hefðum meira fram að færa en lönd og fjölskyldur, sem hafa verið að græða á fjárfestingum og bankastarfsemi allt frá tímum Medici ættarinnar í Flórens.

Þessi útrás er allt öðru vísi en fjármálaútrásin. Varðandi jarðhitann erum við á heimavelli að byggja á íslensku hugviti og reynslu og getum örugglega einhverju miðlað, sem aðrir vita ekki. Við megum þó ekki ofmetnast og halda að við eigum ekki í samkeppni á þessum markaði. Það er mikil reynsla og hugvit til víða í heiminum í þessum bransa.

Því gildir nú sem aldrei fyrr að spýta í lófana og fresta því ekki til morguns, sem við getum gert í dag.


mbl.is Ólafur Jóhann: Tími gífuryrða liðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Blessaður Guðbjörn
Þú ritar
"Tryggt er að krafti einkaframtaksins verður gefinn laus taumurinn við orkuframleiðsluna og borgarinn á dreifingarfyrirtækin og á þannig að geta keypt orkuna á hófsamlegu verði á markaði, þótt eðli málsins samkvæmt séu því settar nokkrar takmarkanir. Löggjöfin ætti þó að tryggja að ekki verði okrað á almenningi, þótt orkuverin færist í hendur einkaaðila."
Hvernig hugsarðu þér að það verði tryggt ég er búin að tóra á skerinu í 50 ár og á orðið ákaflega bágt með að trúa því að almenningi verði einhvertíma tryggt eitthvað. Síðasta breyting á raforkulögunum snarhækkaði rafmagn í dreifbýlinu. Eg er yfirleitt meira en mjög sammála þér en ég held að við ættum að halda í stalínískt eignarhald á öllu sem viðkemur orku til almennings hér. Eða heldurðu ekki í fjarlægri framtíð þegar að einhverjum vopnarisanum vantar orku og býðst til að kaupa hana á helling Kw þa hlaupi markaðsfyrirtæki á það og almenningur verður að borga það sama eða meira.  Það er jú eðli markaðar. Hvort sem við viðurkennum það eða ekki þá er stóriðja að hluta að borga niður virkjanir fyrir okkur.

kv

Jón Aðalsteinn Jónsson, 13.7.2008 kl. 13:03

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Já, ég er eins og þú mjög "skeptískur" á þessa þróun og var einn þeirra, sem reyndi að aðstoða Hannes Friðriksson í undiráskriftasöfnun, þegar Geysir Green Energy og Orkuveita Reykjavíkur ætluðu að eignast meirihluta í fyrirtækinu.

Ég held samt að ef orkulindirnar sjálfar og dreifikerfið er í meirihlutaeign sveitarfélaga, þá geri lítið til þótt einkaaðilar eigi orkuverin sjálf og selji orkuna. þetta er víða svona í heiminum og gilda um það mjög strangar reglur, sem tryggja hagsmuni almennings.

Nýti fyrirtækin sér þetta til að okra á almenningi, þá mun ég í fyrsta og eina skipti mæla með þjóðnýtingu fyrirtækjanna.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ef íslenska ríkið á að fara að moka peningum til einkabankanna, þá eigi að skoða möguleika á að ríkið leysi bankana til sín.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.7.2008 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband