Stund á milli stríða

Stórveldistilburðir Rússlands og einkennileg afstaða í ýmsum málum hlýtur að vekja ugg á meðal alls hugsandi fólk og jafnvel þeirra, sem öllu jafnan er andsnúið Bandaríkjunum. Ég á þó alveg eins von á að sömu Íslendingar og vilja ekki senda Paul Ramses til Kenýa vegna ástandsins þar, fagni nú að Rússum og Kínverjum hafi ekki tekist að beita harðstjórann og lýðskrumarann Mugabe refsiaðgerðum í Simbabve. Það virðist vera sumum vinstrimönnum meira virði að komið sé höggi á Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra, en að réttlæti í heiminum nái fram að ganga. Ég segi þetta án þess að vera einhver sérstakur aðdáandi George W. Bush og félaga hans.

Það er í sjálfu sér skiljanlegt að í ljósi sögunnar sé alræðisstjórnin í Kína á móti því að öryggisráðið beiti Simbabve refsiaðgerðum. En hvað eru Rússar að hugsa með þessu? Það læðist óneitanlega sá grunur að manni, að allar þær ásakanir á hendur Rússa, að grunnt sé á lýðræðinu þar í landi, séu því miður hárréttar. Eins hefur maður áhyggjur að hinn nýi olíustyrkur Rússa verði notaður til að ná aftur fyrri völdum í heiminum. Þetta er óneitanlega óþægileg tilfinning.


mbl.is Stjórnvöld í Simbabve fagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björg Árnadóttir

Hef einmitt verið að fá þessa tilfinningu fyrir Rússum undanfarið. Ekki bætti úr skák þessi þáttur  sem ég sá um Pútin (eða brotið sem ég sá úr honum). Þáttagerðarmenn virtust sannfærðir um einræðis- og þvingunartilburði þar á bæ.

Björg Árnadóttir, 12.7.2008 kl. 16:48

2 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

´  

Guðbjörn, þú skrifar m.a.; "Það virðist vera sumum vinstrimönnum meira virði að komið sé höggi á Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra, en að réttlæti í heiminum nái fram að ganga." 

Þeir mörgu sem mig hafa þekkt í gegnum árin myndu ekki kalla mig vinstrimann.  Það þarf ekki vinstrimenn eingöngu til að ætla að Bandaríkjamenn ásamt blóðbræðrum sínum, Zíonistum í Ísrael, að vera mesta ógnun við heimsfriðinn sem nú er.  Að ætla Bandaríkamönnum, [eftir voðaverk þeirra, í Afganistan og Írak, hermdarverk, fjöldamorð, hryðjuverk í nafni KROSSFARAR (war against terrorism)], til að vera kyndilberar lýðræðis og réttlætis í heiminum eftir framkomu þeirra í heiminum eftir fall Sovétríkjanna, þar sem BNA hefur færst allt of mikið vald í fang og eftir það hvernig þeir hafa beitt því hingað til, er fásinna. 

Þegar BNA beita neitunarvaldi sínu í SÞ til að halda verndarhendi yfir kynþáttaaðskilnaðarstefnu (apartheit), hryðjuverkum, fjöldamorðum og ógnarverkum Zíonista sem stjórna Ísrael, bæði í Líbanon og Palestínu, er það að ná fram réttlætinu í heiminum?

Vertu sæll, Tungubrjótur,

Björn bóndi.

´

Sigurbjörn Friðriksson, 12.7.2008 kl. 17:22

3 identicon

Komið þið sæl; Guðbjörn og Björg !

O sei sei. Ekki lepja upp; ósíaðan kaldastríðs hráskinna áróðurinn, frá Washington og viðlíka plássum, gott fólk.

Gaman væri; talandi um lýðræði, hvort ykkur sýnist það ríkja, hér heima fyrir, þ.e., þjófaverðtrygging og okurvextir, hver eru að sliga fyrirtækin og heimilin, í landi okkar. Andleg morð; ráðamanna hér heima fyrir, eru kannski snyrtilegri, en hjá þeim, úti í heimi, hvar blóðið rennur !

Er ekki margt; nokkuð líkt, með þeim Mugabe gamla, og Geir H. Haarde, þegar allt kemur til alls ?

Þurfum við nokkuð; að fara út í heim, til þess að finna ásteytingarsteina mannlífssins, gott fólk ?

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 17:25

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Nýjasti pistillinn minn varð svo langur að ég á ekki von á að nokkur nenni að lesa hann, en þar vanda ég Bandaríkjamönnum ekki kveðjurnar, þótt mér finnist þeir nú skömminni til skárri en Sovétmennirnir gömlu voru.

Ég hef það sennilega fram yfir ykkur að ég bjó í 1 ár í Austur-Þýskalandi undir Erich Honecker og fékk kommúnismann beint í æð.

Ég treysti Pútín ekki og það er ekkert launungamál. Við skulum hugsa til baka til tíma Winston Churchill og Neville Chamberlain, Adolf Hitlers og Josfes Stalín. Menn tókust mikið í hendurnar á þessum árum og skrifuðu undir mikið af yfirlýsingum. Hefði einhver hlustað á Churchill, hefði ýmislegt farið öðruvísi.

Það þýðir ekki að líta heiminn barnslegum augum, þegar kemur að stórveldum á borð við BNA og Rússland eða Kína. Þessi ríki eru stór, frek, valdafíkin og árásargjörn. Það eina, sem BNA hefur um fram hin ríkin, er að þar er gömul lýðræðishefð og þeir eru gamlir og traustir bandamenn okkar. Ég efast um að bandaríska þjóðin sé til í að láta leiða sig í nýtt stríð í Íran.

Sigurbjörn:

Ég ætlaði nú ekki með grein minni að halda uppi vörnum fyrir voðaverkum Bandaríkjamanna í gegnum árin.

Ég fékk svolítið aðra sýn á hlutina þegar ég fór í vinnuferð til Ísrael fyrir u.þ.b.15 árum síðan. Þetta mál er svo flókið að engin leið er að segja nú hver sekur og hver er saklaus og um það snýst málið í reynd ekki, heldur að finna á því lausn.

Auðvitað eru þessi mál Ísraels og Palestínu það sem þarf að leysa til að möguleiki sé á einhverjum fyrir í Miðausturlöndum. Það er hins vegar hægara sagt en gert og án BNA er það algjörlega ógjörlegt.

Þetta er svolítið líkt og mál Norður-Írlands, sem ég reyndi að kynna mér. Það dugar ekki að tala sekt eða sakleysi, heldur koma með lausnir. Ég hef samúð með báðum málsaðilum.

Óskar:

Kalda stríðið, Berlínarmúrinn, fjöldamorð Stalíns (60 milljónir fórnarlamba),  og Maos (76 milljónir fórnarlamba) voru raunveruleg. Reyndar segja sumir að fórnarlömb kommúnismans séu "aðeins" 100 milljónir. Hvað sem hver segir eru þetta mjög háar tölur.

Jafn raunveruleg og hræðilega eru tölurnar, sem hér fylgja á eftir: innrás George W. Bush inn í Írak (700.000 fórnarlömb), Joseph McCarthy og þær hræðilegu ofsóknir, sem hann stóð fyrir á sínum tíma, Adolf Hitler (50 milljónir fórnarlamba), Benito Mussolini og Seinni heimsstyrjöldina, Francisco Franco og ógnarstjórnina á Spáni og Augusto Pinchet (35.000 fórnarlömb) og ógnarstjórnina í Chile, svo ekki sé hægt að saka mig um að nefna ekki báðar öfgarnar til hægri og vinstri.

Ég er jafnæfur og þú út af okurvöxtunum og verðtryggingunni, en að líkja því við alvöru voðaverk og fjöldamorð dregur úr trúverðugleika bloggsins.

Að líkja þeim gæðapilti Geir Haarde við Mugabe er stíllaust og óviðeigandi. Það eina sem ég hef út á Geir að setja í augnablikinu er ákvarðanafælni og hræðsla. Nema að hann sé svona klókur og séður og við hin svona afskaplega óupplýst og heimsk?

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.7.2008 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband