6.8.2008 | 10:39
Davíð Oddsson: Nauðsynlegt að koma aga á í herbúðunum
Góð yfirlýsing Geirs, en hefði mátt koma fyrr
Ekki er ég sammála gagnrýni margra á nýlega yfirlýsingu Geirs Haarde forsætisráðherra. Yfirlýsingin er að mínu mati skýr og greinileg og þar af leiðandi auðskiljanleg. Eftir þessum orðum hef ég beðið í marga mánuði. Yfirlýsingin kom að mínu mati allt of seint, en þó ekki of seint. Ég hef reyndar verið þessarar sömu skoðunar og Geir lengi og skrifað um það á blogginu mínu. Það eru einfaldlega engar "töfralausnir" til á þeim efnahagsvandamálum, sem við óneitanlega stöndum frammi fyrir líkt og flestar aðrar þjóðir heims. Skilaboð Geirs eru að þótt ríkisstjórnin geti eitthvað hjálpað til við lausn mála, verði markaðurinn og almenningur á endanum að koma lagi á efnahagsmálin og það það verður erfitt og sársaukafullt. Þetta er því miður hárrétt.
Unnið hörðum höndum - vantar hvatningu og huggun
Þótt ég hafi fulla trú á að unnið hafi verið hörðum höndum á öllum vígstöðvum að lausn vandamálanna, verð ég að viðurkenna að ég hef verið einn af þeim, sem hefði viljað sjá fleiri aðgerðir ríkisstjórnarinnar og þó aðallega miklu fyrr. Fleiri litlar aðgerðir, þannig að fólk sjái að eitthvað sé verið að gera. Efalaust eru góðar ástæður fyrir að það var ekki hægt, en stjórnmál snúast fyrst og fremst um fólk og þar sem er fólk eru tilfinningar. Hlutverk stórra stjórnmálamanna er m.a. að þekkja þjóðarsálina og geta huggað hana og hvatt til dáða. Gott dæmi um slíkt var þegar þegar Tony Blair huggaði bresku þjóðina í kjölfar dauða Díönu prinsessu eða þegar Giuliani huggaði íbúa New York í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Tvíburaturnana. Þótt menn hefðu ekki gert annað en að koma fram og viðurkenna ákveðin hagstjórnarmistök og benda aftur og aftur á lausnirnar og hinar "öfundsverðu" framtíðarhorfur landsins, hefði ég og flestir aðrir verið ánægðir. Okkur fannst við vera algjörlega yfirgefin af landföðurnum og það er slæm tilfinning. Mér hafa fundist vanta huggunar- og hvatningarorð frá ríkisstjórninni, lík þeim sem forsetinn kom með í sínu ávarpi ekki fyrir alls löngu síðan.
Fólk og fyrirtæki verða að taka afleiðingum gjörða sinna
Annað mál, sem ég held að sé ekki síður mikilvægt fyrir fólk og fyrirtæki að átta sig á, er að mikið álitamál er hvort stjórnvöldum sé það heimilt út frá framtíðarhagsmunum og hagsmunum heildarinnar að hjálpa þeim einstaklingum og fyrirtækjum, sem hafa hagað sér óskynsamlega undanfarin ár. Þetta gildir einnig um ótímabærar erlendar lántökur til styrkingar á krónunni á okurvöxtum. Þarna væri hugsanlega verið að fórna minni hagsmunum fyrir meiri og þá verðum við að treysta þeim, sem eru við stjórnvölinn. Ég fór nú ekki fremstur í flokki í þessari vitleysu, en er samt samsekur í sukkinu. Ég keypti mér t.d. einbýlishús áður en allt hækkaði árið 2004 - og stórgræddi á því - og nýjan bíl á sl. ári! Þarf að bjarga mér? Nei, það tel ég ekki vera. Verður róðurinn þyngri á næstunni? Já, örugglega. Lærði ég mína lexíu af þessu? Já, ég vona það.
Kaupæði Íslendinga með ólíkindum
Ég man sérstaklega hvað ég varð hissa og hneykslaður þegar leikfangakeðjan "Just 4 Kids" var opnuð í byrjun nóvember árið 2007. Þar var mitt gamla "idol" Davíð Oddsson mér sammála, sbr. frétt af Vísi frá 10. nóvember 2007. Davíð sagði við þetta tækifæri að kaupæði Íslendinga væri með ólíkindum. Þetta voru orð að sönnu og ég á von á að Davíð hafi verið búið að blöskra þetta í nokkuð langan tíma áður en hann lét hafa þetta eftir sér opinberlega:
Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir nauðsynlegt að koma á aga í herbúðunum en hann er ekki hrifinn af gauragangi við opnun leikfangaverslana á höfuðborgarsvæðinu.
Ég spyr hvers vegna tók ríkisstjórnin ekki kröftuglega undir orð Davíðs - vitandi vits hvaða snillingur hann er - og varaði almenning við? Þá hefði allavega ekki verið hægt að saka ríkisstjórnina um að hafa ekki varað við þessari "katastrófu".
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:48 | Facebook
Athugasemdir
Ég verð að viðurkenna hneykslun mína einmitt við opnun þessarar leikfangaverslunar og annarar álíka á sama tíma. Hvernig er það; Áttu íslensk börn engin leikföng fyrir þennan tíma?? Hef verið alveg gallhörð á að fara ekki í þessar verslanir, líka útaf fáránlegum erlendum nafngiftum.
En ég er þar fyrir utan algerlega sammála þér með að fólk og fyrirtæki eigi að taka ábyrgð á gerðum sínum. Algerlega kjarni sjálfstæðisstefnunnar: Fólk sé frjálst að því að gera sem flest, en beri þá líka ábyrgð á eigin gjörðum. Mér finnst þannig ekki sérlega vænlegt að taka stórt ríkislán til að hjálpa bönkum sem skila heilmiklum hagnaði í árshlutauppgjörum og standa í stórfelldum uppkaupum fyrirtækja og sparisjóða landsins (sbr.Kaupþing/Sparisjóðir).
Björg Árnadóttir, 9.8.2008 kl. 17:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.