25.8.2008 | 17:40
LÍN - ein mánaðarlaun á ári
Jæja, þá fékk maður enn einu sinni tilkynningu um skuldfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ég minnist þessarar stofnunar, sem þeirrar leiðinlegustu opinberu stofnunar, sem ég hef nokkurn tíma átti í samskiptum við.
Nú er maður búinn að borga þetta tæp mánaðarlaun á ári til LÍN í ein fimmtán ár og lánið lækkar ekki neitt. Ég er nú ekki á neinum ofurlaunum, en sæmilegum þó, og er það vegna þess að ég kenni þó nokkuð mikið með fullri vinnu annarsstaðar. Mér sýnist að ég nái að borga þetta lán upp með því að borga ein mánaðarlaun á ári, þar til ég hætti að vinna 67 ára gamall (21 ár í viðbót). Þá er ég búinn að borga ein mánaðarlaun á ári til LÍN í 37 ár.
Tvær af þremur dætrum mínum eru nú í menntaskóla og önnur þeirra mun útskrifast sem stúdent á næsta ári og er því eðlilega farin að velta fyrir sér háskólanámi. Hún hefur nú eitthvað verið að spyrja mig um mínar hugmyndir varðandi framhaldsnám fyrir hana og ég hef nú aðallega áhuga á þeim tveimur greinum, sem munu tryggja henni sæmilegar tekjur - þ.e. læknisfræði og verkfræði.
Hvernig get ég með sæmilegri samvisku bent henni á aðrar háskólagreinar, t.d. sjúkraþjálfaranám, hjúkrunarfræðinám, kennaranám o.s.frv. Ef ég ráðlegði henni það, væri hún líkt og ég með nokkrar milljónir í námslánum á bakinu og hefði varla meiri laun en hún er með núna á vídeóleigunni sem hún vinnur á!
Ekki get ég annað en sagt henni að það langa nám, sem ég á að baki hafi einungis kostað mig peninga, en launalega séð hafi það eiginlega ekki fært mér nokkurn skapaðan hlut nema ánægjuna af að læra!
Á ég kannski að ráðleggja henni að halda áfram að afgreiða vídeóspólur og ís og eina með öllu yfir afgreiðsluborðið?
Með smá heppni og dugnaði gæti hún jafnvel orðið sjoppueigandi!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.