Langavitleysa - borgarstjórn Reykjavíkur

 

Ég verð að segja að dapurlegri taktík í stjórnmálum hafa landsmenn aldrei þurft að upplifa en á þessu kjörtímabili í Reykjavík og það hjá fleiri flokkum en Sjálfstæðisflokkunum. Ég var nú einn af þeim sem þekki aðeins til gamla, góða Villa og hafði ekki það álit á honum, sem margir samflokksmenn mínir höfðu. Það fór sem fór og má segja að borgarstjórnarflokki Sjáfstæðisflokksins hafi tekist að klúðra öllu, sem hægt var að klúðra í 1. meirihluta á þessu kjörtímabili, geri aðrir betur!

Tjarnarkvartettinn hefði annaðhvort splundrast eða verið óstarfhæfur og þannig fært okkur völdin í borginni og var þetta nokkuð skýrt fannst mér og flestum sem ég þekki innan flokksins. Ég sá aldrei hversvegna sjálfstæðismönnum lá svo lífið á í borgarstjórn, þar sem Tjarnarkvartettinn var hvort eð er í dauðateygjunum. Á sínum 100 valdadögum höfði þetta fólk ekki komið sér saman um neinn hlut og ekkert gert, var það ekki augljóst?

Þegar þeir hefðu orðið gjaldþrota var engin leið að mynda starfhæfan meirihluta í borginni án Sjálfstæðisflokksins og eftir þessu tækifæri áttu þeir að bíða mjög rólegir - jafvel til næstu kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn hefði plummað sig mikið betur í minnihluta og þeir sem þekktu til Ólafs F. Magnússonar - og það gera nú flestir sjálfstæðismenn - hefðu átt að vita að samstarf við hann var dauðadæmt frá upphafi.

Hvað sem hver segir snúast stjórnmál um völd; völd flokka til að koma málum í framkvæmd, hvort sem er í landsmálum eða sveitarstjórnamálum. Það er hreint og beint ekkert óeðlilegt við það. Sagt er að vald spilli og það er sannleikskorn í því. Þetta á þó sérstaklega við þegar einstaklingar hafa verið of lengi við stjórnvölinn og því ættu stjórnmálaflokkar að skipta út sínu fólki á a.m.k. 12-16 ára fresti. Þetta getur einnig gerst með því að fólk færi sig úr sveitarstjórnarmálum í landsmálin eða úr landsmálum í sveitarstjórnarmál. Aðalatriðið er að fólk staðni ekki. Það er ekki þörf á að skipta út flokkum, heldur fólki! 

Með digurbarkalegum yfirlýsingum sínum kom Dagur B. Eggertsson í veg fyrir samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í borginni. Hann er hrokagikkur og lýðskrumari og það hljóta allir að sjá. Hroki Samfylkingarinnar gagnvart Framsóknarflokknum og Frjálslyndum kom og kemur í veg fyrir samstarf þessara flokka næstu árin. Sömu sögu er að segja um landsmálin, þar sem VG og Samfylkingin berast á banaspjótum í mörgum málum.

Vinstra fólk hefur alltaf verið með þetta digurbarkalega orðbragð og þessar öfgar og eru því ekki stjórntækir nema í algjörum neyðartilfellum. Það er langfarsælast að stjórna landinu með Framsókn, hvað sem hver segir. Maður stjórnar ekki landinu eða sveitarfélögum með fólki, sem hlekkjar sig við vinnuvélar og upp í möstur eða er með skrílslæti á fundum borgarstjórnar eða er á móti eðlilegri atvinnuuppbyggingu 

Svo einfalt er það nú!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband