Glöggt er gests augað

Það er gott að erlendir ráðgjafar eru komnir að málinu. Við skulum vona að þeir séu eitthvað skárri en sá ráðlausi her hagfræðinga, sem við erum með í Seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu, Háskólanum, greiningardeildum bankanna auk annarra hagspekinga, sem allt í einu hafa ráð undir rifi hverju, þótt enginn þeirra hafi séð vandann fyrr en hann var skollinn á.

Auðvitað vissu bankarnir - þ.m.t. Seðlabankinn og íslensk stjórnvöld - hver lánin voru og gjalddaga þeirra. Þeir vissu að bankarnir stunduðu að taka skammtímalán og lána síðan til lengri tíma og að slíkt gengi aðeins á meðan lán var að hafa erlendis.

Spurningin snýst að mínu mati einungis um, hvort stjórnvöldum hér á landi var frá byrjun ljóst, að leikurinn væri tapaður og að þeir réðu í raun ekki neitt við neitt. Þeir vissu hugsanlega að vegna stærðar vandans/bankanna, gætu þeir bjargað bönkunum eða krónunni og þess vegna hafa þeir ekkert reynt. Seinni kosturinn er að stjórnvöld séu svona rög að taka ákvarðanir. Ég aðhyllist fyrri skýringuna.

Ég hefði þó viljað sjá fundahrinu á borð við þá sem var um helgina gerast fyrr og aðgerðir, t.d. lántöku, fara fyrr að stað. Hugsanlega fengum við enga almennilega aðstoð og erum nú að fá "neyðaraðstoð" frá vinum okkar á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum og Evrópu. Kannski þurftum að hálflýsa yfir gjaldþroti áður en nokkur vildi koma okkur til aðstoðar.

Spurningin, sem brennur á mínum vörum, er hversvegna stjórnvöld hafi ekki allt frá árinu 2001, þegar fljótandi gengi var tekið upp, fylgst betur með bönkunum og fjármálastofnunum, en um svipað leyti hófu bankarnir þessa gríðarlegu útrás sína.

Í síðasta lagi árið 2002, þegar stór hluti Landsbankans var seldur til Samson og þegar Búnaðarbankinn var seldur og útrásin hófst fyrir alvöru hefðu stjórnvöld átt endurskoða stefnu sína og stórauka sérþekkingu í Seðlabankanum og hjá Fjármálaeftirlitinu.

Á þessu klikkuðu allir: ríkisstjórnin, Alþingi, Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið, viðskiptabankarnir og landsmenn allir!

Umræðuna um til hvaða ráðstafa verður að grípa, s.s. varðandi lagasetningu og hvernig tekið skal á þeim mönnum, sem að mínu mati eru ekki einungis sekir um græðgi og ófyrirleitni, heldur öllu heldur landráð, verður að taka seinna. Það verður örugglega hægt að horfa yfir öxlina á Norðurlandaþjóðunum og ESB í því sambandi, því við erum ekki ein um að vera í vandræðum, þótt vissulega séum við í stærstu vandræðunum, vegna þess að við erum með handónýta mynt og engan bakhjarl á borð við ESB.


mbl.is Fundi lauk á þriðja tímanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fór G4 fundurinn framhjá þér? ESB er ekki með bakhjarl á borð við ESB. Þeir eru búnir að samræma gjaldmiðilinn og þar með fjármálakerfið en núna vilja þeir ekki samræma björgunaraðgerðirnar! Loksins þegar þeir virkilega þurftu að samræma eitthvað vilja þeir það ekki!

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 6.10.2008 kl. 08:56

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég vona að þú hafir horft á fréttir dagsins í dag. Ég skrifaði fréttina og bjó yfir "Insider Information".

Þú fyrirgefur vonandi það?

Er eitthvað óeðlilegt það, að þegar krísa steðjar, þá hittist 3-4 stærstu þjóðirnar, sem ráða yfir 200-300 milljónum íbúa og ræði málin fyrst. Það finnst mér ekki. Aðgerðirnar verða ekkert keyrðar niður í ESB íbúa, þannig vinnur sambandið ekki. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 7.10.2008 kl. 00:00

3 identicon

Punkturinn var að þeir komu sér ekki saman um neinar aðgerðir, gerðu bara lauslegt samkomulag (sem Merkel braut strax).

Þeir eru að fást við vandamál þar sem menn telja klukkustundir og daga, ekki vikur og mánuði.

Aðkoma smærri ríka er svo kapítuli út af fyrir sig.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 20:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband