Uppgjör innan Sjálfstæðisflokksins framundan

Ég get í dag tekið undir 50% af þeirri gagnrýni, sem fram kemur á minn flokk Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn og reyndar einnig Samfylkinguna þessa dagana, en þeir einu sem eru stikkfrí er VG.

Borðleggjandi er að stjórnvöldum - og þar með Sjálfstæðisflokkurinn - hafa orðið á gífurleg mistök á undanförnum 6-7 árum. Það hlýtur því að vera  stórt uppgjör framundan í Sjálfstæðisflokknum. Ég vil benda á að ég er ekki að tala um einhverjar nornaveiðar - því öll tókum við meira og minna þátt í vitleysunni. Nei, ég á við hugmyndafræðilegt uppgjör og stefnubreytingu. Þeir sem ekki sjá þetta eru líkt og strúturinn að stinga höfðinu í sandinn.

Ég hef breytt skoðun mínni varðandi hvar þetta uppgjör á að eiga sér stað. Í byrjun var ég þeirra skoðunar að við ættum að gera þetta á hefðbundinn hátt og ræða þetta sem einkamál stjórna sjálfstæðisfélaganna, fulltrúaráða og kjördæmisráða flokksins. Þar sem flokkurinn myndi skaðast illilega ef uppgjörið færi einungis fram innan flokksins verður það að fara fram innan hans sem utan - kjósendur flokksins krefjast þess.

Fyrir um 17 árum síðan var þeim Sjálfstæðisflokki, sem ég gekk í fyrir um 30 árum síðan, hreinlega rænt eða réttara sagt "hijacked" fyrir framan augun á okkur. Allir stjórnmálaflokkar skiptast í a.m.k. þrjá hópa og það gerir Sjálfstæðisflokkurinn einnig:

  1. Hófsama (íhaldsmenn)
  2.  Meðreiðarsveina (fylgja hópunum á víxl)
  3. Öfgamenn (frjálshyggjumenn/stuttbuxnadrengi)

Í tilfelli Sjálfstæðisflokksins tóku öfgamennirnir völdin í kjölfar mikilla efnahagserfiðleika og innri togstreitu innan flokksins og lofuðu lausnum. Að stórum hluta stóðu þeir við orð sín og lausnirnar sem þeir höfðu boðað virkuðu. Ávaxtanna hefur íslenska þjóðin notið ríkulega undanfarin ár og mun gera það um ókomna framtíð. Sú stefna, sem tekin var 1991 og fylgt var til 2001 var í meginatriðum hárrétt, þótt mistök hafi verið gerð líkt og sjá má í dag. Þessi velgengni jók enn á vinsældir öfgamannanna og fjöldi meðreiðarsveina þeirra jókst innan flokksins og meðal þjóðarinnar – þeim óx ásmegin.

Við þetta var í sjálfu sér ekkert að athuga. Þeim tókst meira að segja að hluta til að sannfæra mig, þótt aldrei hafi ég yfirgefið mitt fólk í flokknum og hef aðhyllst ríkisrekið RÚV og að heilsugæslan og menntakerfið ættu að meginstofni til að vera hjá ríkinu o.s.frv., þótt önnur rekstrarform ætti að mínu mati ekki að útiloka. Hjá mér er þetta sem sagt ekki spurning um trúarbrögð, heldur um heilbrigða skynsemi og ég trúi því ekki að allur rekstur sé hagkvæmari eða betri í einkarekstri. Þetta er ekki eitthvað, sem ég er að finna upp við núverandi aðstæður, heldur geta þeir, sem til mín þekkja innan flokks og utan vitnað um þessa skoðun mína.

Undanfarin 1-2 ár hef ég síðan einnig verið hlynntur aðildarviðræðum við ESB. Fyrir ofangreindur skoðanir hef ég verið hart gagnrýndur og kallaður bölvaður hægri krati og sumir jafnvel ýjað að því að ég ætti alls ekki heima í Sjálfstæðisflokknum, heldur í Samfylkingunni. Þessu er ég algjörlega ósammála. Ég er og verð hægri maður.

Ég segi nú bara að ef okkur "hægri krötunum" yrði hent út núna við þessar aðstæður er hætta á að allir meðreiðarsveinarnir fylgi með! Það færi um ýmsa, þegar Sjálfstæðisflokkurinn væri kominn með 5-10%, því meira fylgi hefur hinn frábæri fyrrum foringi okkar Davíð Oddsson og Hannes Hólmsteinn og meðreiðarsveinar þeirra á þingi ekki í dag.

Nú er kominn tími til, að við íhaldsmennirnir tökum aftur völdin í okkar gamla flokki - með hjálp meðreiðarsveinanna - og þeir örfáu frjálshyggjumenn og ESB andstæðingar, sem enn eru innan flokksins, verða að sætta sig við það eða stofna lítinn sætan frjálshyggjuflokk með 5% fylgi.

Auðhyggjan er langt í frá að vera dauð úr öllum æðum frekar en félagshyggjan, en hins vegar eru nýfrjálshyggjan og kommúnisminn svo steindauð, að allar endurlífgunartilraunir eru vita gagnslausar.

Lifi hið mannvæna "blandaða hagkerfi", þar sem ríkisafskipti eru lágmörkuð, en samt ekki hikað við að nota þau af skynsemi til að leiðrétta markaðsbresti! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Verður hann ekki bara bútaður niður í litlum einingum og svo verður Sjálfstæðisflokkurinn bara regnhlífasamtök.

Heidi Strand, 10.10.2008 kl. 13:31

2 Smámynd: Björg Árnadóttir

Þarna ertu að rifja upp þann flokk sem mig rámaði í að hefði verið til: Flokkur sem aðhylltist frelsi einstaklingsins en verndaði um leið verkamanninn og þá sem minna mega sín. Sá flokkur hefur ekki verði sýnilegur um margra ára skeið. Þar að auki hafa forsvarsmenn flokksins fleiri en einn orðið uppvísir að hegðun sem gerir manni verulega erfitt fyrir að setja sitt dýrmæta X við flokkinn.

Það er óskandi að eitthvað verði til þess að X-ið geti lent á réttum stað með góðri samvisku í næstu kostningum.

Björg Árnadóttir, 10.10.2008 kl. 19:41

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Við verðum að sjá til þess sjálf og það höfum við einmitt í eigin hendi í prófkjörum og þingkosningum með því að strika suma út og gefa öðrum tækifæri.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.10.2008 kl. 22:43

4 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Ég vil bara takka fyrir frábærann pistil Gudbjorn.....

Fylgjist oft med blogginu tínu og ekki ad ástædulausu.

Med kvedju frá danmörku.

Gudrún

Gudrún Hauksdótttir, 11.10.2008 kl. 07:23

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæl

Ég þakka hólið, en ég er virkilega þeirrar skoðunar að 70-80% þeirra sem kjósa flokkinn hugsi á mínum nótum.

Í minni fjölskyldur skiptist fólk auðvitað á alla flokka, en líklega myndu allir sjálfstæðismennirnir nema ég kjósa Samfylkinguna í dag. Ef flokkurinn breytir ekki um stefnu er mögulegt að fleiri skipti um skoðun í fjölskyldunni.

Ég var á fundi í gær með nokkrum innvígðum og innmúruðum sjálfstæðismönnum, sem voru aðeins að hluta til sammála mér og mínum skoðunum.

Það er eðlilegt að það taki harðasta kjarna Sjálfstæðisflokksins nokkurn tíma að skipta um skoðun. Fundurinn í Valhöll í gær - sem ég var ekki á - er byrjunin á hugmyndafræðilegu uppgjöri flokksins, sem ég vona að endi með ESB umsókn.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.10.2008 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband