23.10.2008 | 07:53
Bandaríkjamenn ættu að skammast sín - þessu fólki treysti maður áratugum saman ...
Viðbrögð Bandaríkjamanna við því skipbroti, sem íslenskt bankakerfi, efnahagslíf og íslenska þjóðin hefur orðið fyrir eru til háborinnar skammar, ekki síður en viðbrögð Breta. Þeir ættu því ekki að standa í þeirri sýndarmennsku að senda einhverjar 2. flokks sendinefndir til Íslands að svo stöddu.
Allt frá NATO aðild Íslendinga og komu varnarliðsins til Íslands árið 1951 hefur stór hluti þjóðarinnar litið á Bandaríkjamenn, sem vini sína. Í þeim hópi var m.a. ég. Brottför varnarliðins árið 2006 voru okkur, sem studdu veru varnarliðsins hér áratugum saman, mikil vonbrigði. Hegðun Bandaríkjamanna núna í stærstu erfiðleikum, sem lýðveldið hefur átt í, hljóta - að mínu mati - að leiða til hálfgerðra vinaslita við þessa þjóð. Það er ekki þar með sagt, að við munum ekki eiga í eðlilegum og vinsamlegum viðskiptum við Bandaríkjamenn og reyndar einnig Breta. Satt best að segja held ég, að ég tali fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, þegar ég segi að því sérstaka vinasambandi, sem verið hefur á milli þessara bandamanna og Íslands allt frá síðari heimsstyrjöldinni, sé nú með öllu lokið. Við tekur "buslness as usual" þegar þessi lönd eiga í hlut og gildir það jafnt um hernaðarsamvinnu sem stuðning á alþjóðavettvangi.
Ljóst má hins vegar vera að Ísland - varnarlaus örþjóð á norðurhjara - getur ekki verið algjörlega vinalaus, en atburðir undanfarinna vikna sanna að nákvæmlega það erum við. Við þurfum því að styðja sterk vináttubönd okkar við Norðmenn og Dani og síðan auðvitað ESB.
Sú staðreynd að Bandaríkjamenn hafa algjörlega snúið baki við okkur er enn ein ástæða til að fara í aðildarviðræður við ESB.
Sendinefnd bandaríska fjármálaráðuneytisins væntanleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég var nú í hinum hópnum, sem aldrei leit á bandaríkjamenn sem neina sérstaka vini. Það var heldur ekki ástæðan fyrir þeirra veru á Íslandi. Nú eru þeir farnir með sinn feita rass og við skulum bara vera fegnir því. Þess vegna er það heldur ekkert kappsmál að þeir komi með einhverja ölmusu handa okkur núna. Við þurfum þá ekki, höfum aldrei þarfnast þeirra og munum aldrei þarfnast þeirra. Ekki bjóst ég heldur við neinum vinagreiðum af þeim.
Satt best að segja held ég að þú eigir þetta mál alfarið við sjálfan þig og þessar vinahugmyndir þínar.
Jón (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 08:12
Sagt er að við þurfum ekki marga óvini þegar Breta Bandaríkin og Danir, eru vinnir okkar Danir eru ekki frændur okkar nem að því leyti að frændur eru frændum verstir,það eru Norðmenn sem hafa ætla að hjálpa ,enda er gamli sáttmáli í fullu gyldi,benda þér á að Rússar hafa hjálpað 1952 -1968-1976,og en eru þær til að hjálpa, smá upp rifjun fyrir kanna aðdáenda, og þjóðverjar fara sér hægt og ætla að leysa þetta bull á rólegu nótunum en ekki með látum, eftir snillingana sem heldu að þér hefðu fundið upp hjólið aftur
ADOLF (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 08:23
Horfumst í augu við staðreyndirnar, ef við ætlum að hanga í sama vinahópnum þá verðum við að gera það á forsendum annarra í hópnum, svo eftirminnilega erum við búin að gera stykkin okkar upp á bak. Við eigum tvo aðra kosti, að segja öllum að éta það sem úti frýs og hanga um stund ein úti í horni, vinalaus o.s.frv. eða ganga í nýjann vinahóp. Hvað þurfum við að láta Rússum og Kínverjum í hendur til að þeir vinni smá áróðursstríð, lendingar og áfyllingaraðstaða í Keflavík? Hver veit? Svo mikið er víst að Nato er okkur ekkert skjól, síst gegn okkur sjálfum, okkar verstu óvinum. Bretar og Bandaríkjamenn taka engann alvarlega sem ekki á prik sem hann er til í að nota. Segjum okkur úr Nató fyrir helgi, þá höfum við kannski eitthvað um að semja eftir helgi.
Bjorn (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 09:00
Ég er sammála Birni. Tel að hann hitti á kjarna málsins.
Hagbarður, 23.10.2008 kl. 09:12
Björn þessi, sem þorir ekki að birta sitt fulla nafn, gengur fram hjá því, að í gegnum NATO fengum við styrk í landhelgismálinu -- vitaskuld ekki herstyrk, ekki frekar en Grikkir fengu hann gegn Tyrkjum á Kýpur né Tyrkir gegn Grikkjum -- heldur þrýsting NATO-ríkisstjórna á brezku stjórnina. Innlegg Bjarnar er eins vitlaust og það getur verið.
Menn ættu að hyggja að því hér, með hvaða hætti Bandaríkjamenn voru hraktir héðan af vellinum. Ábyrgðin er íslenzkra stjórnvalda.
Um neitun Seðlabanka Bandaríkjanna (þrívegis á árinu) á því að lána okkur hef ég fjallað á vef mínum. Þeir eins og t.d. Japanir gerðu það að skilyrði, að við látum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fara vel yfir okkar mál og meta þau, ella er lítil fyrirhyggja í því að lána okkur. Þeir, sem hér tala öðruvísi, virðast þrátt fyrir sína fyrirlitningu á Bandaríkjunum álíta, að við eigum sífellt að vera bónbjargarmenn þeirra eins og við vorum gagnvart hernum, sem við græddum á sjö milljarða á ári hverju. Horfum í spegil.
Jón Valur Jensson, 23.10.2008 kl. 10:48
Það hefur mér fundist loða við íslensk alþjóðastjórnmál lengi undanfarið að vilja fá allt fyrir ekkert. Við viljum ekkert gefa eftir af okkar en viljum að allir hlaupi upp til handa og fóta til að hjálpa okkur - af því við erum svo góð!
Við virðumst vera að læra að það hugsar hver um sig þegar á reynir. Ef eitthvað er eftir þegar því er lokið þá lítur fólk í kringum sig. Það á líka við í alþjóðastjórnmálum. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það mun enginn gefa okkur eitt né neitt sérstaklega núna þegar við erum búin að sanna fyrir öllum, nema helst okkur sjálfum, að við kunnum ekkert með peninga að fara. Við verðum að átta okkur á því að ef við viljum fá eitthvað verðum við að vera tilbúin til að láta eitthvað í staðinn. Svo er bara að skoða vel með okkur sjálfum: Hvað erum við tilbúin til að láta í staðinn?
Björg Árnadóttir, 23.10.2008 kl. 12:04
Ég er sammála Guðbjörn.
Ég er líka mjög skeptískur á þessa Bandarísku fjármálasendinefnd sem er á leiðinni til Íslands. Þykir mér líklegt að þeir ætli sér að reyna að þrýsta á Íslendinga að fara að óskum Breta í þessu máli sem kemur ekki til greina ef ég fengi að ráða.
Jón Gunnar Bjarkan, 23.10.2008 kl. 23:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.