Bjartsýni og uppbygging í Reykjanesbæ

Það var hressandi eftir allt svartnættið undanfarnar vikur að komast á fund sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ í kvöld, þar sem ríkti sannkölluð bjartsýni og uppbyggingarandi.

Ríkharður Ibsen athafnamaður og Margrét Sanders, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Deloitte og formaður Fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, héldu stuttar en góðar ræður, en að þeim loknum tók bæjarstjórinn, Árni Sigfússon, við kyndlinum.

Árni fór vítt og breitt yfir þau tækifæri, sem eru að skapast hér á Reykjanesinu með uppbyggingu virkjana, stóriðju og kísilverksmiðju í Helguvík og uppbyggingu netþjónabús á gamla varnarsvæðinu. Þrátt fyrir að fundarmenn væru þess meðvitaðir, að við ættum við kröftugan mótbyr að stríða þessa stundina, þá var engan bylbug að finna á mönnum.

Andrúmsloftið var smitað af þeirri  bjartsýni og öflugu framtíðarsýn, sem einkennt hefur Sjálfstæðiflokkurinn í Reykjanesbæ undanfarin ár undir öflugri forystu bæjarstjórans, Árna Sigfússonar. Það er gaman að vera hluti af því öfluga liði, sem er að byggja upp þetta samfélag hérna á Reykjanesskaganum.

Árni Johnsen þingmaður ávarpaði einnig fundinn og stappaði stálinu í mannskapinn eins og honum er einum lagið. Hann var einnig fullur bjartsýni og baráttuþreks. Hann sagðist þess viss, að við myndum sigrast fyrr en síðar á þeim erfiðleikum, sem við berjumst við.

Um var að ræða stofnfund Hugmyndahúss Reykjanesbæjar. Í stuttu máli var farið inn á rammaáætlun, markmiðssetningu og skipun verkefnastjórnar þessarar nýjungar hjá flokknum.

Ég var svo heppinn að vera skipaður annar formanna í Evrópunefnd Hugmyndahússins, en eins og lesendur þessarar síðu vita er ég yfirlýstur ESB aðildarviðræðusinni. Hinn formaðurinn er Árni Johnsen og hef ég á tilfinningunni, að hann sé á öndverðum meiði við mig. Það var afskaplega vel til fundið hjá fulltrúaráðinu, að formenn Evrópunefndarinnar væru úr andstæðum fylkingum innan flokksins, hvað þetta mál varðar.

Við Árni vorum strax sammála um að safna saman rökum með og á móti aðild að ESB og koma þeim yfir á mannamál, sem öllum er skiljanlegt. Báðir vorum við sammála um, að tími væri til kominn að Sjálfstæðisflokkurinn blandaði sér í ESB umræðuna af meiri krafti en áður, hver sem niðurstaðan síðan verður.

Ég segi það enn og ég segi það aftur, að mínar áhyggjur eru, að skipti flokkurinn ekki um skoðun varðandi ESB aðild fyrir næstu kosningar, þá muni stór hluti þeirra kjósenda, sem til þessa hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn, kjósa þá flokka, sem aðhyllast ESB aðild. 

Í framhaldi af því væri Samfylkingin með mikinn meirihluta á Alþingi og það væri þá vitanlega í höndum hennar og einhvers smáflokks að skilgreina samningsmarkmið Íslendinga og semja um aðild að ESB.

Það hugnast mér mjög illa, sérstaklega m.t.t. til hagsmuna landbúnaðar og sjávarútvegs á Íslandi. Við vitum öll, að Samfylkingin myndi taka hvaða afarkostum sem er til að ná markmiði sínum um aðild að ESB. Ég treysti Samfylkingunni ekki til þessa verks og vil því, að við sjálfstæðismenn skilgreinum okkar samningsmarkmið þannig m.a., að við höfum óskoruð yfirráð yfir fiskimiðum okkar og að íslenskum landbúnaði verði tryggð viðundandi starfsskilyrði í framtíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú veist það ósköp vel að Samfylkingin mun aldrei taka "hvaða afarkostum sem er til að ná markmiðum sínum um aðild að ESB.  Það mun enginn flokkur eða stjórnmálamaður gera, alveg sama hvaða stjórnmálastefnu hann fylgir.  Ef stofnað verður til aðildarviðræðna þá treysti ég sem flokksbundinn samfylkingarmaður, sjálfstæðismönnum jafnt sem jafnaðarmönnum vel til þess að ná fram góðum samningi fyrir land og þjóð.  Mér finnst það illa gert af þér að vera að ýja að einhverri sviksemi Samfylkingar við hagsmuni okkar íslendinga.       

Reynir Stefánsson (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 22:19

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Þetta er ekki spurning um sviksemi. Stefna Samfylkingarinnar í landbúnaðarmálum er allt önnur en stefna Sjálfstæðisflokksins, það er einfaldlega staðreynd. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur viljað fara sér hægt í sakirnar varðandi opnun landsins gagnvart erlendum landbúnaðarafurðum, sjá kratarnir því ekkert til fyrirstöðu. Ég vil reyndar sjá meiri opnun og þá sérstaklega gagnvart unnum landbúnaðarafurðum, en á tímum gjaldeyrisskorts er það líklega ekki góð hugmynd.

Þótt kannski sé ekki sömu sögu að segja um sjávarútveginn, þá treysti ég mínum flokki einfaldlega betur til að semja um þau mál við ESB.

Ég var nú ekki að brigsla Samfylkingunni um nein landráð, heldur að þeim myndu taka afarkostum - allavega við núverandi aðstæður - til að komast í sambandið.

þessu til staðfestingar bendi ég á ýmis ummæli þingmanna og ráðherra Samfylkingarinnar að samningsstaða okkar sé mun verri en fyrir nokkrum árum síðan, sem eru því miður alveg hárrétt, en þarf ekki að klifa á í fjölmiðlum sí og æ!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 24.10.2008 kl. 07:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband