6.11.2008 | 07:52
Ekkert nánast fjárkúgun, heldur harðsvíruð fjárkúgun
Ljóst er að ríkisstjórn Íslands er vandi á höndum og ótrúlegt að þessi vandi skuli ekki hafa verið skýrður út fyrir þjóðinni. Að aðeins tvö ríki - Bretland og Holland - séu að skilyrða alþjóðalega neyðarhjálp til lítils og varnarlauss ríkis á þennan hátt er algjörlega óafsakanleg og hneykslanleg framkoma. Í stað þess að sækja sér styrk til þjóðarinnar í þessu máli þegir ríkisstjórnin þunnu hljóði á meðan þeim er stillt upp við vegg. Auðvitað kemur ekki til greina að ganga að einhverjum afarkostum undir slíkum þrýstingi óvinaþjóða.
Fái landið ekki hjálp, legg ég til að Íslendingar útskýri fyrri stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ESB, að með þessu sé sambandið og alþjóðasamfélagið í reynd að snú baki við lítilli og varnarlausri þjóð. Hvað sjálfan mig varðar eru þetta gífurleg vonbrigði, þar sem ég hef til þessa aðhyllst alþjóðasamstarf, frjáls viðskipti þjóða á milli og undanfarið ár hef ég horft til aðildarviðræðna við ESB. Fáum við ekki fyrirgreiðslu IMF og enga neyðarhjálp frá ESB er hins vegar ljóst að ekki einungis Bandaríkin, Alþjóðasamfélagið og ESB hefur snúið baki við okkur, heldur heimsbyggðin öll.
Við Íslendingar hljótum að velta fyrir okkur hver tilgangur slíks alþjóðasamstarfs er og hvort ekki sé rétt að segja sig úr slíku samstarfi. Þarna á ég t.d. við Sameinuðu þjóðirnar, NATO, EES samninginn og öðrum alþjóðastofnunum.
Við getum hins vegar haldið tryggð við Norðurlandasamstarfið, enda virðast þeir vera þeir einu sem styðja við bakið á okkur. Auðvitað yrði slík ákvörðun afdrifarík og henni þyrfti virkilega að velta fyrir sér, en engur síður yrðum við að spyrja okkur þessarar erfiðu spurningar.
Uggandi um afgreiðslu umsóknar hjá IMF | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:18 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er bara partur af "game-inu". Auðvitað reyna Bretar og Hollendingar að knýja á um að niðurstaða fáist í þessi mál sem þarf að leysa gagnvart þeim. Hvort þeir halda því til streitu á eftir að koma í ljós. En það er alveg óþarfi að fara úr límingunum því þetta er enn sem komið er bara partur af samningsferlinu. Verum bara róleg þar til niðurstaðan liggur fyrir. Þá getum við leitt hugann að því hvað hægt er að gera næst.
Hagbarður, 6.11.2008 kl. 08:10
Hagbarður hvað lyf tekur þú?
Sammála Guðbirni. Við höfum heppnina með okkur þessir ESB herrar sýna nú sitt rétta andlit.
Alþjóðasamstarf ekki spurning, en allt rennur sitt skeið.Segjum okkur úr NATO strax.
Tori, 6.11.2008 kl. 08:14
Allt hangi þetta á sama spýtunni.Lán frá norðurlöndunum eru líka háð lánið frá IMF.
Samt fór Seðlabankinn strax eftir leikreglum IMF og hækkaði stýrisvextir.
Heidi Strand, 6.11.2008 kl. 08:26
Já við erum kominn í erfiða stöðu það er alveg ljóst. En þetta væri ekki raunin ef við hefðum verið í ESB. Svíar, Danir og Finnar t.d tryggja aðeins innistæður sem eru lagðar inn í þeirra heimalandi því þá eru þeir með eftirlitið í sínum höndum.
Ef við hefðum verið aðilar að ESB þá hefðum við Bretum heldur aldrei verið þolað að halda hryðjuverkalöggjöf á okkur, og við hefðum notið beins stuðnings frá öðrum ESB ríkjum.
Sé nú svo sem ekki tilganginn með að segja upp aðild að NATO, við erum hvort eð er aðeins þiggjendur í því bandalagi.
Að segja upp EES núna væri enn eitt áfallið fyrir fyrirtækin í landinu og myndi ég ekki þora sem forsætisráðherra að segja upp þeim samningi.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 08:31
Hagbarður: Er síður en svo að fara úr límingunum, en tel rétt að IMF og ESB viti hvaða skilaboð þeir eru að senda þjóðinni og hverjar hugsanlegar afleiðingar yrðu. Þjóðin myndi aldrei ganga í ESB eða vilja vera í einhverju alþjóðastarfi ef enginn stuðningur kæmi frá því, þegar Ísland er í stærstu vandræðum, sem það hefur lent í sl. 100 ár.
Tori: Þetta hefur ekkert með stuðning minn varðandi ESB aðild að gera. Ef við værum við ESB borðið hefðum við í fyrsta lagi aldrei lent í þessum vandræðum og í öðru lagi þá værum við viðstaddir þegar okkar mál eru rædd innan ESB!
Heidi: Landsmenn þínir hafa nú þegar sýnt hversu sannir frændur þeir eru, þótt ég afþakki pent norsku krónuna og kjósi frekar evruna.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.11.2008 kl. 08:33
Guðbjörn. Ég er að messtu sammála þér.
Fannar frá Rifi, 6.11.2008 kl. 08:37
Merkilegt hvað sjálfsgagnrýni virðist vera gjörsamlega fjarverandi hjá mörgum.
Þið kallið það "fjárkúgun" þegar Bretar reyna að fá okkur Íslendinga, okkur þjófana, til að skila sparifé þúsunda Breta sem við Íslendingar höfum stolið.
Ef þið prófið að snúa þessu við, þ.e. að þúsundir Íslendinga hefði verið með innistæður í breskum bönkum og Bretar mundu stela því og m.a. með yfirlýsingu frá seðlabankastjóra þeirra hefði lýst því yfir að þeir ætluðu ekki að borga sínar skuldir. Hvernig munduð þið bregðast við?
Munduð þið bregðast við með því að lána þeim enn meira? Eða munduð þið beita öllum ykkar áhrifum til að fá pengingana til baka?
BigBrother (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 08:52
BigBrother. Tryggingarsjóður innistæða ber ábyrgð á þessu. punktur.
við þjófar? ert þú einn af þeim sem alhæfir um heilu þjóðirnar? ef þú heyrir af t.d. Litháa brjóta lög þá eru allir austur evrópubúar þjófahyski?
Bretar fyrirgerðu öllum sínum rétt þegar þeir felldu bankanna handvirkt.
Fannar frá Rifi, 6.11.2008 kl. 09:12
Það er alveg vitað mál að Íslendingar eru ekki al saklausir í þessu máli StóriBróðir. Ekki spurning um að Bretar hefðu átt fá einhverjar skaðabætur. Hinsvegar, með því að fara þá leið sem gamla heimsveldið kaus, hafa þeir tapað mun hærri fjárhæðum heldur en það sem þeir töpuðu á Icesafe. Manni þykir það ótrúlegt að einhver krefjist þess að fá þúsundkall meðan hann heldur fimmhundruðkalla-brennu.
Ekki nóg með það heldur höfðu Bretar tapað enn hærri fjárhæðum þegar stóru Bandarísku bankarnir fóru á hausinn. Þetta er orðið miklumeiri pólitík heldur en spurning um þessa peninga.
Annars thumbs-up til Guðbjörns fyrir virkilega vel skrifaða blogfærslu.
Ragnar (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 09:22
Íslendingar eru að upplifa Alþjóðastjórnmál103 núna. Það er ekki til neinir vinaþjóðir aðeins Bandamenn (færeyingar kannski eina eiginlega vinaþjóðin sem við höfum), sem NATO bandamannaþjóð þá erum við frekar veikir á svelli sem algjörir þiggjendur í því starfi og hefur aðild okkar að því bandalagi verið með þeim hætti að við segjum já og amen við öllum tillögum bandaríkjanna í því samstarfi. Það er hinsvegar engin hefð fyrir því að Bandaríkjamenn launi slíkt til baka á nokkurn hátt enda lítur USA á NATO sem þjónustuaðila sinn í hernaðarmálum og stefna þeirra er að gera NATO alþjóðlegt hernaðarbandalag en ekki varnabandalag í Norður Atlantshafi.
Einu bandamenn okkar þegar kemur að efnahagi, eru Normenn, því við erum bæði í EES, samningi sem hefur enga þýðingu í augum ESB lengur enda enginn áhugi fyrir að endurskoða samninginn og uppfæra hann. Við ákváðum að standa utan ESB og evrunnar, við erum heldur betur að fá það í hausinn núna, en við verðum að taka ábyrgð á okkar eigin ákvörðun að standa fyrir utan.
Ég er sammála Hagbarði, þetta er partur af samningaferlinu, við þurfum bara að halda ró okkar og standa í lappirnar í þessu máli.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 09:29
Já Fannar frá Rifi. Við erum þjófar, því við erum sem sjálfstæð þjóð ábyrg fyrir þessum innistæðum sem við ætlum ekki að borga til baka. Það kom fram í glaðhlakkalegri yfirlýsingu seðlabankastjóra sem meðal annars var birt (þýdd á ensku) í vefútgáfu Finacial Times...
BigBrother (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 09:58
Því miður er svona lagað daglegt brauð innan Evrópusambandsins. Eða svo vitnað sé í Frits Bolkestein, fyrrum fulltrúa í framkvæmdastjórn sambandsins:
"Í mörgum tilfellum er einróma samþykki fengið fram með þvingunum [innan Evrópusambandsins]. En minni ríki láta oft í minni pokann og Holland er gott dæmi um það. Yfirleitt hefjum við samningaviðræður með mjög ákveðna og sterka afstöðu, en í lokin er lítið sem ekkert eftir af henni."
Það er til lítils að vera viðstaddur þegar mikilvæg mál eru rædd ef það er ekkert hlustað á mann og hvað þá tillit tekið tilmanns.
Hjörtur J. Guðmundsson, 6.11.2008 kl. 10:07
"Það er til lítils að vera viðstaddur þegar mikilvæg mál eru rædd ef það er ekkert hlustað á mann og hvað þá tillit tekið tilmanns."
Þetta þykir mér nú ekki koma úr sterkri átt þar sem Frits Bolkestein er, hann er gerspilltur stjórnmálamaður og misnotaði hann stöðu sína innan framkvæmdarstjórnarinnar til að koma sér undan rannsóknum á misferli. Frægt var þegar það kom í hans hlut að tilkynna fyrir hönd ESB að ESB myndi ekki rannsaka hans mál.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 10:30
ESB reglur er búnar að koma okkur í þessa klípu ásamt nokkrum gráðugum einstaklingum.
Núna getum við þó varist
Það versta við ESB sinna að þeir virðast ekki átta sig á hverju við raunverulega lifum.
Ég hélt að ástandið núna yrði til þess en það virðist ekki vera.
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 6.11.2008 kl. 10:31
Þetta er hræðilegt. Við erum sannarlega milli steins og sleggju hér. Við erum búin að vera. Við getum ekki staðið ein. Það er eins og 2 ára barn sem segir við foreldra sína að fara. Við erum svo háð því að vera í sambandi við umheiminn. Við svona kringumstæður, þegar verið er að traðka gjörsamlega á okkur sem þjóð og þrýsta andliti okkar ofan í skítinn kemur upp ákveðið stolt og það liggur við að maður vilji frekar hætta á einangrun sem sjálfstæð lítil þjóð með sjálfsvirðingu heldur en að fara í bandalag með svona skrímslum.
Heiðrún (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 10:44
Jón Gunnar
Ég Las grein um Hollensku og fleiri smáþjóða banka innan ESB og þar höfðu menn mjög miklar áhyggur af því að lenda í sömu súpunni og við. Hollendingar hafa enga möguleka að ábyrgjast Innistæður sinna Banka en sumir þeirra eru alþóðlegir og mjög stórir
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 6.11.2008 kl. 10:46
Það er hverri þjóð í sjálfvald sett hvað þeir tryggja og hvað ekki. Bretar tryggja allar innistæður sinna banka í heimalandi, ESB löndum og EES löndum. Norðurlandaþjóðirnar í ESB, Svíþjóð, Danmörk og Finnland tryggja einungis innistæður sem eru lagðar inn í þeirra eigin heimalandi, væntanlega vegna þess að þá hafa þeir eftirlitið með innistæðum í sínum höndum.
Veit ekki hvernig það er með Hollendinga, og svör ríkistjórnar Íslands hefur verið loðið hvað varðar tryggingar sem við höfum skuldbundið okkur að tryggja.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 10:53
Ágætis innlegg sem hér hafa komið fram. Ég er reyndar ekki sammála þeirri skoðun að þetta hefði ekki orðið raunin með veru okkar í ESB og með EUR sem gjaldmiðil.
Hvað um það. Ég tók orðum Davíðs í Kastljósi á þann veg að lán til íslensku bankanna, bankalán, yrðu ekki greidd. Mér fannst hann alls ekki vera að tala um innlán eins og IceSave. Þ.e.a.s. að millibankalán yrðu ekki greidd, þau færu einfaldlega í röðina í gjaldþrotinu eins og hverjar aðrar skuldakröfur. Mér finnst vanta að skoða beturí kjölinn þetta viðtal .
Ég skil ekki hversu mikið mál þetta þarf að vera. Gera þarf upp við eigendur IceSave upp að því marki sem íslensk lög segja til um og ekki krónu eða pund meir. Hvort sem það kemur úr Tryggingasjóðnum eða þrotabúum bankanna skiptir ekki máli. Ef breska rískisstjórnin vill bíða eftir uppgjöri bankanna þá kemur það þaðan. Ef bretar vilja ekki bíða kemur það úr Tryggingasjóðnum sem fær það svo endurgreitt við uppgjör bankanna. Það er fullt af eignum í bönkunum. Það þarf einfaldlega tíma til þess að setja þær upp á borðið og selja á sanngjörnu verði. Það má líka afhenda tjöllunum þær á uppsprengdu verði og segja Vess-gú!!
Ef hvorki lögin né EES samningurinn segja að við þurfum að greiða þetta verður að segja frá því. En fyrst og fremst þarf að koma skýr yfirlýsing frá Íslandi á hvern hátt þetta verður leyst. Það vantar þá yfirlýsingu og íslenska stjórnin dregur lappirnar úr hömlu. Því er pirringur í Bretlandi og Hollandi skiljanlegur. Ég mæli hins vegar ekki hryðjuverkalögunum bót. Þá hefði átt að bregðast við af hörku og með látum.
Erlendar ríkisstjórnir verða líka að gera sér grein fyrir því að ekki er hægt að ætlast til að öll íslenska þjóðin taki að sér að greiða skuldir íslenskra einkafyrirtækja hvort sem fyrirtækið heitir eða var banki eða ekki nema að lög mæli svo fyrir.
Nonni (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 11:36
Nonni: Algjörlega sammála þér nema hvað varðar ESB og evruna.
Ég tel borðleggjandi að við hefðum ekki lent í þessum vandamálum hefðum við verið í ESS og þátttakendur í myntbandalaginu.
Ég hef hins vegar ekki tíma til að segja nákvæmlega af hverju af því að ég er í vinnunni!
Ljóst er að "gjaldeyrisvandamálið" er ekki nema mjög lítið vandamál hjá þeim sem eru með evru.
Eftirlitsstofnanir ESB hefðu haft auga með okkur, s.s. Seðlabanki ESB.
Næsta víst er að ESB og Seðlabanki ESB sem slík hefðu rétt okkur hjálparhönd í erfiðleikum sem þessum.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.11.2008 kl. 11:51
Ég er sammála Guðbjörn. Varðandi stöðu okkar núna ef við hefðum verið í ESB er tvennt sem þarf að hugsa til.
1. Hefðu bankarnir farið á hausinn. Það tel ég ekki og útskýrði ég það meðal annars á bloggi Hjartar J. Guðmundssonar þegar Glitnir var að fara í þrot. Íslensku bankarnir þoldu öll álagspróf, þeir áttu nánast ekkert í undirmálslánum í bandaríkjanna sem Evrópskir og Bandarískir bankar þurftu að afskrifa, þeir voru með eigifjárhlutfall sem þótti gott beggja megin atlantshafsins, þeir voru að skila hagnaði á þessu ári sem verður að teljast afrek út af fyrir sig og þeir áttu góðar alþjóðlegar eignir Landsbankinn t.d var með í eignasafni sínu ríkisskuldabréf á hendur þýska og íslenska ríkinu og kröfur á hendur íslenskra lífeyrissjóða, Glitnir með miklar eignir í Noregi, í fiskiðnaði og orkuiðnaði. Eini munurinn á Íslensku og t.d. Evrópsku bönkunum að það var enginn gjaldeyrir til. Enda kannski ekki skrítið þar sem Íslenski seðlabankinn fékk ekki einu sinni gjaldeyrisskipta samninga. Þetta er ekki vandamál sem Evrópskir og Bandarískir bankar stóðu frammi fyrir þar sem seðlabankar þar ytra dældu einfaldlega peningum inn í hagkerfið, peningum sem voru teknir gildir annarstaðar í heiminum og hægt að skipta út fyrir aðra gjaldmiðla.
Þessa skoðun mína staðfesti síðan forstjóri Auðar Capital í þættinum Markaðurinn einhverri viku seinna og fullyrti að eina sem vantaði hjá íslensku bönkunum var erlendur gjaldeyrir og ef þeir hefðu haft aðgang að Evrópska seðlabankanum þá hefðu þeir ekki hrunið.
2. Ef að bankarnir hefðu hrunið þrátt fyrir að við hefðum haft evru. Þá hefði bankahrunið haft mikið minni áhrif á hinn almenna borgara. Við stæðum ekki frammi fyrir gríðarlegri verðbólgu vegna þess að hrunið á krónunni hefði ekki gert allar innfluttar vörur nánast helmingi dýrari, stýrivextir myndu haldast nánast 10 sinnum lægri en þeir eru núna. Held þeir séu núna að fara niður í 2% á evrusvæðinu en eru á Íslandi nú 18%, bara að hafa svona langtum lægri stýrivexti myndi spara íslenskum heimilum milljón árlega eða meira vegna fasteigna og bílalána. Námsmenn erlendis væru ekki að sjá framfærslu sína hríðlækka vegna námslána frá LÍN vegna þess að framfærslan kemur í íslenskum krónum, auk þess sem þeir ættu ekki að eiga í vandræðum með að taka út framfærsluna sína erlendis. Ekki má heldur gleyma því að námsmenn þurfa að treysta á yfirdráttarheimildir þar til þeir hafa klárað annir með fullnægjandi árangri og nota síðan LÍN námsmannalán til að greiða niður yfirdrættinn, nú eru yfirdráttarvextir farnir að slaga hátt í 30%.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 13:37
Jón Gunnar:
Það eru reyndar ófáir vafasamir stjórnmálamenn í núverandi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Og raunar víðar innan stjórnkerfis sambandsins. Merkilegt að slíkir aðilar skuli komast í slíkar stöður hjá sambandinu. Ég hélt að áróðurinn væri sá að þar á bæ væri allt svo faglegt og gott. En hvort sem Bolkestein er spilltur eða ekki, heldurðu að hann hafi þar með sjálfkrafa rangt fyrir sér? Svo virðist vera.
Hjörtur J. Guðmundsson, 6.11.2008 kl. 15:10
Nú vantar reyndar bara að Guðbjörn skammi þig fyrir að vega að Bolkestein eins og hann skammaðist yfir því að Nigel Farage skyldi í heimsókn til landsins í sumar vekja athygli á ýmsum vafasömum einstaklingum í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Hjörtur J. Guðmundsson, 6.11.2008 kl. 15:13
Já reyndar hef ég nú heyrt þennan blessaða lista Nigel Farage, man ég að Viðar í Frjálslynda flokknum greip hann á lofti og þuldi hann upp á einhverju bloggi, held það hafi verið á síðu Magnúsar í Frjálslyndum, fyrir 2 árum(lét reyndar ekki fylgja með að hann væri að þylja nákvæmlega upp sama og Nigel Farage), þótti mér lítið koma til þessa lista. Gerði ég samanburð á íslenskum ráðamönnum þann tímann en íslenskt stjórnmálalíf var þá nýbúið að hafna í 5 sæti á lista yfir óspilltasta stjórnmálafólk í heiminum og kom upp úr krafsinu að íslenska stjórnmálalíf var langtum meira spilltara en þessi nefnd.
Fyndnast þótti mér nú reyndar að verið var að skammast yfir því að fyrrverandi kommúnisti væri á listanum, en ég veit ekki betur en að sjálfur forseti Íslands sé fyrrverandi kommúnisti.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 15:28
Jón Gunnar:
Þetta hefur vafalaust verið mjög hlutlaus úttekt hjá þér. Það væri gaman að sjá hana. En þú svaraðir ekki spurningunni minni. Hvernig gerist það að slíkt fólk komizt til hæstu metorða hjá Evrópusambandinu fyrst sambandið er svona frábært? Á ekki allt að vera svo faglegt og frábært í stjórnkerfi þess? Þó Evrópusambandið hafi reyndar ekki fengið bókhaldið sitt samþykkt í 13 ár samfellt og stefni í það fjórtánda.
Hjörtur J. Guðmundsson, 6.11.2008 kl. 16:00
Reyndar svaraðirðu ekki heldur spurningunni um Bolkestein.
Hjörtur J. Guðmundsson, 6.11.2008 kl. 16:01
Nei fjandinn sjálfur, heldurðu að ég hafi ekki bara fundið bloggið.
Þetta var ekki Viðar sem taldi upp þennan lista heldur Gunnlaugur Snær. Ég og þú erum líka eitthvað að takast þarna á Hjörtur.
Þetta var semsagt þessi rosalegi spillingarlisti Nigels:
Og ég de-bunkaði listann svona:
Kovac: Pólítískar skoðanir geta ekki talist spilling með neinni skynsemi.
Mandelson: Vafasöm viðskipti voru stunduð í hverri einustu viku liggur við hjá fyrrverandi ríkistjórn. Fyndið að þú skyldir minnast á Peter Mandelson því hann er eftirlætisstjórnmálamaðurinn minn utan Íslands.
Kallas: Hvenær var hann dæmdur? Ef það var einhvern tímann í tíð sovétsins, þá fynnst mér nú kannski ekki mikið um það þar sem hver einasti stjórnmálamaður var spilltur í járntjaldinu.
Kroes: Sökuð, greinilega ekki meira en það. Getur heldur ekki talist sem spilling. Saklaus er maður þar til sekur.
Ég minntist ekki einu sinni á að Forseti Íslands væri fyrrverandi kommúnismi, að tveir dæmdir glæpamenn, Árni Johnsen og þessi gaur þarna í Frjálslyndra sætu á Alþingi, að Eyþór Arnalds hafði verið tekinn drukkinn og stungið af vettvangi. En ég minntist þarna á að einhvern mál sem þá voru akkúrat í deiglunni, bæjarstjóra sem var dæmdur fyrir fjárdrátt og olíustuld, samvinnutryggingamálið og REI málið þar sem voru nú heldur betur stunduð "vafasöm viðskipti"
Nei fjandinn sjálfur, heldurðu að ég hafi ekki bara fundið bloggið.
Þetta var ekki Viðar sem taldi upp þennan lista heldur Gunnlaugur Snær. Ég og þú erum líka eitthvað að takast þarna á Hjörtur.
Þetta var semsagt þessi rosalegi spillingarlisti Nigels:
Og ég de-bunkaði listann svona:
Kovac: Pólítískar skoðanir geta ekki talist spilling með neinni skynsemi.
Mandelson: Vafasöm viðskipti voru stunduð í hverri einustu viku liggur við hjá fyrrverandi ríkistjórn. Fyndið að þú skyldir minnast á Peter Mandelson því hann er eftirlætisstjórnmálamaðurinn minn utan Íslands.
Kallas: Hvenær var hann dæmdur? Ef það var einhvern tímann í tíð sovétsins, þá fynnst mér nú kannski ekki mikið um það þar sem hver einasti stjórnmálamaður var spilltur í járntjaldinu.
Kroes: Sökuð, greinilega ekki meira en það. Getur heldur ekki talist sem spilling. Saklaus er maður þar til sekur.
http://magnusthor.blog.is/blog/magnusthor/entry/381691/
þetta er bloggið, gaman að skoða svona gamlan umræðuþráð.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 16:56
WTF?
Það hefur komið einhver bug í kommentið hjá mér og hluti af því var birtur tvisvar.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 16:59
Ég er auðsjáanlega búinn að vera fjarri góðu gamni og vil þakka ykkur fyrir frábærar athugasemdir og lifandi umræðu!
Ég var fyrst í vinnu nr. 1. (tollstjórinn á Suðurnesjum), en skellti mér síðan á fund hjá BSRB í vinnu nr. 2 (formaður Tollvarðafélags Íslands), ég notaði auðvitað ferðina í bæinn og skellti mér í vinnu nr. 3. (söngkennari við Söngskóla Sigurðar Demetz) og kenndi þar söng í þrjár klukkustundir til kl.20.00.
Þetta er hinn venjulegi vinnutími hjá Íslendingi á Íslandi í dag til að geta borgað af myntkörfu bílaláninu, sem mér var ráðlagt að taka hjá Glitni.
Á síðastliðnu ári greiddi ég 700.000 af bílaláninu mínu og á sama tíma hefur það hækkað úr 3.900.000 í 8.700.000.
Á sl. fjórum árum hef ég borgað af húsinu mínu um 4.000.000 í vexti og afborganir. Á sama tíma - fjórum árum - hefur lánið farið úr 17.000.000 í 21.000.000 vegna séríslenskar verðtryggingar. Verðmæti hússins hefur hækkað úr 30.000.000 í 35.000.000.
Sömu sögu er að segja um námslánin mín - sem eru meira að segja vaxtalaus - þau eru nánast í sömu krónutölu eftir 16 ára afborgunartíma.
Ég er einn af þessum vel menntuðu íslensku mönnum - 46 ára - á ágætis launum í mörgum vinnum - og virðist hvorki komast áfram eða aftur á bak þessa dagana.
Margir munu eflaust segja við mig:
Þú tókst þessar ákvarðanir og því verðurðu að eiga þetta við sjálfan þig!
Allt rétt og satt!
En útskýrið þið þetta fyrir fólki innan ESB:
Myntkörfulán (e. Currency Basket Loan)
Verðtrygging (e. Inflation Insurande)
Útskýrið fyrir venjulegu fólki í einhverju landi innan ESB að bílalánið þitt hafi meira en tvöfaldast á einu ári á meðan þú greiddir niður 17,5% af upphaflegum höfuðstóli landsins.
Útskýrið fyrir einhverjum hvernig þú ert búinn að greiða á 4 árum 20% af upphaflegum höfuðstól láns og að höfuðstóll lánsins hafi samt hækkað um 25%.
Útskýrðu fyrir þessu sama fólki frá Evrópu að matarverð sé hér 50% hærra en meðalverð matvæla innan ESB og að þjónusta sé 30% hærri en innan ESB.
Útskýrðu fyrir þessu sama fólki að yfirdráttarvexti séu 28%!
Þetta fólk er kurteist og mun láta sem svo að það sé hissa á að einhver búi hér eða spyr hversvegna ekki hafi verið gerð bylting!
En það hugsar í raun með sér hverslags hálfvitar við eiginlega séum!
Ekki segja þeim að ofan á þetta allt saman séum við svo skuldsett þjóð að það taki næstu 2 kynslóðir að greiða skuldahalann og þetta sé aðeins af því að stjórnvöld hafi ekki staðið sig og að nokkrir tugir Íslendinga standi að baki þessu og eigi þar að auki að koma óáreittir upp með þetta, þar sem litið sé á rannsókn mála sem nornaveiðar!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.11.2008 kl. 21:29
Guðbjörn við erum ekki einu sinni viðstödd þegar okkar mál eru rædd hjá IMF. Það er lengi hægt að segja ef þetta og hitt. Framkoma ESB gagnvart okkur segir sína sögu.
Dæmi:
Ef bankarnir hefðu ekki verið einkavæddir þá hefðum við ekki lent í þessu.
Ef eignarhald bankana hefði verið miklu dreifðara og ekki bara fáeinir menn, sem gátu valsað um kann að vera að meiri íhaldssemi hefði gætt.
Ef og ef.
Áfram Ísland.
Tori, 7.11.2008 kl. 18:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.