12.11.2008 | 08:14
Okkur vantar góða vini en ekki kunningja
Það er auðvitað með ólíkindum þegar "skuldinni" af þessu hafaríi er skellt á ESB, eins og það hafi skuldsett þjóðina um of, að eftitsstofnanir sambandsins og yfirstjórn hafi klikkað eða Seðlabanki Evrópu og peningastefna hans.
Nei, vitaskuld er okkur sjálfum um að kenna og þeirri taumlausu útrás, sem rekin var héðan frá Íslandi. Ytri aðstæður spiluðu síðan inn í þetta og gerðu okkur Íslendingum vandamálið reglulega sýnilegt, en líkt og við vitum voru aðrar þjóðir löngu búnir að átta sig á ástandinu hjá okkur og gagnrýna það.
Peningastefna Seðlabanka Íslands hefur verið kolröng um árabil - líkt og margir hafa gagnrýnt - og síðan bætti eftirlitsleysi þeirra stofnana, sem hlut áttu að máli ekki úr skák en síðasta naglann í líkkistuna ráku síðan ríkisstjórnin og Alþingi með grandvara- og aðgerðaleysi sínu!
Segja má, að öll þau rök, sem stuðningsmenn krónunnar töldu upp varðandi gæði hennar og notagildi hafi reynst hjóm eitt. Gildir þar einu, hvort talað er um styrk krónunnar sem hagstjórnartækis eða sveigjanleika hennar. Allir aðrir en Seðlabankinn virðast geta ráðið gengi krónunnar og skiptir þar litlu, hvort um innlenda banka er að ræða eða innlenda eða erlenda vogunarsjóði. Sveigjanleiki krónunnar, sem átti að tryggja okkur land án atvinnuleysis, er að skila okkur meira atvinnuleysi en þekkist víðast hvar á Vesturlöndum, en er hins vegar vel þekkt í Austurevrópu og í vanþróuðum ríkjum. Sveigjanleikinn gerir það að verkum að gjaldeyrisviðskipti liggja nær niðri, gengið hefur fallið um 100% og verðbólgan er komin í 20%.
Sama má segja um rök þau er lúta að andstöðu gegn ESB aðild. Það sem hefur komið í ljós er að stefna stjórnvalda undanfarin 15 ár þess efnis að við - þessi rúmlega 300.000 manna þjóð - spjörum okkur best utan ESB í sjálfvalinni einangrun hér á norðurhjara, en þó í einhverskonar lauslegu "kunningjasambandi" við Noreg, Bandaríkin og og ESB, gengur hreinlega ekki upp. Jafnvel þeir, sem við töldum til góðra vina, eru það ekki þegar á reynir, að Noregi og Færeyjum undanskildum. Brottför varnarliðsins, og hálfgerðum "vinaslit" í kjölfar þess, hefði átt að gera okkur þetta ljóst.
Við verðum einfaldlega að viðurkenna, að við - þetta örríki á norðurslóðum - ráðum ekki við að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil og sjálfstæða peningastefnu. Okkur er vitanlega betur fyrir komið í samvinnu um þetta atriði, varnir landsins og mörg önnur mál við önnur Evrópuríki. Að auki er það hagur landsins hvað atvinnuvegina varðar og einnig þjóðarinnar sem slíkrar að ganga í ESB og nægir þar að minna á augljósa kosti á borð við efnahagslegan stöðugleika, lægra vaxtastig og lægra verð á matvælum, sem vega líklega þyngst á vogarskálunum eins og sakir standa.
Þjóðin á rétt á því, að farið verði í ítarlega umræður um ESB aðild og að því loknu verði samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar skilgreind og farið í aðildarviðræður. Niðurstöður slíkra viðræðna verði síðan bornar undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta þarf að gerast í síðasta lagi næsta vor.
Okkur vantar góða vini þegar við lendum í vandræðum en ekki kunningja.
Afgreiðslu umsóknar frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Facebook
Athugasemdir
Við eigum ekki að borga skuldir sem þeir fjárglæframenn hafa stofnað til. Af hverju er ekki neitt til inní Landsbankanum í Bretlandi og víðar. Það er vegna þess að eigendur tæmdu allt og settu verðlaus hlutabréf í staðinn. Þetta var gert rétt áður en sást að bankinn var gjaldþrota
Guðrún (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 08:19
Ég átta mig alls ekki á því hvernig þú getur sakað mig um þáttöku í peningasukki sjálfstæðis og framsóknarmanna.
Ég hef engu fé sóað, þannig að ég mun bíða eftir afsökunarbeiðni.
Þórhallur Þórhallsson (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 10:56
Ísland er stoppusöð á leið frá Noregi til Vínlands híns góða. Leifur Heppni vissi það.
Nú er komið að því að restin af þjóðinni taki skrefið og eignist vínland. Sækjum um inngöngu í Kanada. Þar eigum við Fyrsta Veðrétt, samkvæmt Leifi ,og þar eigum við mestan fjölda íslenskra afkvæma,okkar eigið blóð. Þeir afkomendur hafa gert það svo gott, að þeir hugsa mjög sjaldan um stoppusöðina Ísland, í miðju Atlanthafi. Þeir hafa dreyft sér um alla Norður Ameríku og komið sér í mjög góða stöðu. Evrópa er búin að fá alveg nóg af okkur, eins og Noregur forðum, en vesturheimur bíður okkar án nokkurra fordóma.
nonni (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 11:07
Þórhallur:
Ég bið þig innilega afsökunar ef það hjálpar þér, en það hjálpar mér ekki neitt. Ég skil hins vegar hvað þú meinar.
Mín sök er ekki stór en hugsanlega einhver og vitanlega ber maður sem stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins meiri ábyrgð en stuðningsmenn þeirra flokka,s sem ekki voru í stjórn.
Allir þingflokkar bera hins vegar ábyrgð, þótt sök VG sé lítil og þeir varað við þessu, þá fannst mér þeir mega láta meira heyra í sér og hefðu mátt vara við þessu enn meira.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.11.2008 kl. 11:40
Er þá semsagt ekki nóg að gert, eins og VG-gerði, fyrir, að þvi er mig minnir, 2 eða þrem árum , að bera fram frumvarp á þingi, um að Fjármálaeftirlit og bankar yrðu teknir til rannsóknar? Steingrímur hefur einmitt minnst á þetta núna nýlega.
Af gömlum vana, var ekki tekið mark á honum, af Sjálfstæðisflokknum, enda nógu mikið búnir að grobba sig af nýfrjálshyggjunni, hinu "frjálsa peningaflæði" milli landa og öllu því, sem spillingin snýst um í dag.
Við gerum okkur fullkomlega grein fyrir þvi, hverjir áttu enga sök að sölu banka og því sem fylgdi í kjölfarið og að nýfrjálshyggjukapítalisminn er dauður. Tími er kominn til að skipta um lið og koma ríkisstjórninni frá og mega allir fylgja með, þeir sem tilheyrðu hinni íslensku "SJÁLFSKIPUÐU ELÍTU", sem maður hefur oft séð á forsíðu slúðuritsins "Séð og heyrt"!
Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 21:24
Ég vil ekki vini Guðbjörn sem að henda mér út úr partyinu bara ef ég geri smá skandal það eru nefnilega vinirnir sem að eiga að reynast manni vel þá Eða eins og segir Vinur er sá er í raun reynist
Jón Aðalsteinn Jónsson, 12.11.2008 kl. 23:02
Þetta er góð, skýr og rétt greining hjá þér Guðbjörn. Ég er þér sammála í þessu. Þetta er sama niðurstaða og allflestir komast að skoði men þessi mál öfgalaust, kalt og af skynsemi. Þetta er bara svona.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 12.11.2008 kl. 23:15
Blessaður Guðbjörn.
Það er enginn, ekki einu sinni Hannes Hólmsteinn, að rífast yfir því að stjórnvöld komu okkur í þennan vanda. Málið snýst ekkert um það maður. Málið snýst um það hvort ég og þú, Íslenskur almenningur, börn okkar og barnabörn eiga að borga brúsann. Ert þú svo ríkur að þú vilt borga fyrir Hannes Smárason. Verði þér að góðu.
Kveðja að austan
Ómar Geirsson (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 01:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.