Er Sjálfstæðisflokkurinn lifandi flokkur í stöðugri endurnýjun?

Ég ákvað að "endurvinna" gamlan frasa úr kosningamyndbandi Sjálfstæðisflokksins frá síðustu Alþingiskosningum. Afgangurinn af myndbandinu á því miður ekki lengur við nema að litlum hluta.

Mér datt svolítið skemmtileg samlíking í hug í morgun, þegar ég heyrði í Davíð Oddssyni. Mér varð hugsað til þess, að það væri alls ekki svo fráleit samlíking að líkja þeim hamförum, sem nú eiga sér á Íslandi, við þær hörmungar, sem riðu yfir heiminn á mörkum krítar- og tertíertímabilanna fyrir 65 milljón árum.

Á vísindavef Háskóla Íslands fann ég góðar upplýsingar um þessar hörmunar. Á þessum tíma féll loftsteinn, sem var um 10-15 km í þvermál til jarðar og splundraðist og ryk umlukti jörðina. Sennilega er þennan gíg að finna í Yukatan í Mexíkó. Þessar hörmungar þurrkuðu út um 70% allra tegunda lífvera sem þá lifðu í heiminum.

Á Vísindavefnum segir einnig að risaeðlurnar hafi verið skriðdýr, sem fram eftir svokallað aldauðaskeið, sem ríkti fyrir 250 milljón árum, og ríktu þau dýr alla miðlífsöld all þar til fyrir 65 milljón árum. Áfram segir að skriðdýrin hafi þróast hratt og lagt undir lög, loft og láð.

Nú má sjá hvernig risaeðlur íslenska stjórnmála eru að byrja að gefa upp öndina. Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson segja af sér með nokkurra daga millibili og Framsóknarflokkurinn ætlar sér auðsjáanlega endurnýjun lífdaga. Að mínu mati er þarna þó aðeins um gamalt vín á nýjum belgjum að ræða!

Steingrímur J. Sigfússon er - reyndar líkt og Guðni og Bjarni - mjög skemmtilegur stjórnmálamaður, en orðinn svolítið þreyttur í allri sinni neikvæðni, sínum upphrópunarmerkisstíl og frasastjórnmálum. Þetta sást berlega í Kastljósinu í gærkvöldi.

Samfylkingin er engu betri með Ingibjörgu Sólrúnu og Össur, sem eru auðvitað líka komin á síðasta söludag!

Frjálslyndir eru eiginlega vara, sem hefði aldrei átt að fara á markað vegna þess að hún er eiginlega ekki komin nógu langt í vöruþróun. Ef Frjálslyndir kæmust í ríkisstjórn, vildu auðvitað allir skila þeim aftur og fá endurgreitt!

Hvað með minn blessaða flokk, Sjálfstæðisflokkinn? Hvernig ætlum við í grasrótinni að reyna að telja sjálfstæðisfólki um land allt trú um að kjósa þennan flokk í næstu kosningum? Flokk, þar sem enginn ber ábyrgð, hvorki embættismenn, sem sitja í skóli valdamanna, eða ráðamenn, sem varla fást til að hefja rannsókn á stærsta bankaráni sögunnar. Stjórnmálamenn sem kalla eðlilegt uppgjör nornaveiðar. Flokk þar sem spillingin grasserar upp í efsta lag flokksins. Stjórnmálamenn, sem ætla ekki að axla ábyrgð á gjörðum sínum í þingkosningum, hvorki í vor eða næstu árin og hafa lýst því yfir að þeir telji fullkomlega eðlilegt, að þeir verði áfram í forystu flokksins í næstu framtíð.

Það er eðli náttúrunnar, að í hamförum sem þessum, deyi risaeðlurnar út og nýjar - vonandi betri tegundir, með meiri aðlögunarhæfni - spretti fram á sjónarsviðið!

 


mbl.is Arnór: Áfallið meira hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi lýsing hjá þér , er að mörgu leiti góð Guðbjörn,  á alla vega við suma flokka, Sjáfstæðisflokk og Framsókn. Framsóknarflokkurinn er sennilega dauður núna, með ´brotthvarfi Guðna af stjórnmálasviðinu og viðtöku Valgerðar sem er ekki vinsæl af þjóðinni í dag, vegna aðkomu sinnar að hinni vinavæddu, pólitísku sölu á ríkisbönkunum, sem útvaldir flokksdindlar fengu á útsöluprís! Valgerður sem sagt er að slá rothöggið á þann flokk pottþétt. Risaeðlurnar stóðu í fjórar lappir, eins og forystumenn Sjálfstæðisflokks gera líka., og eru að deyja út! Skriðdýrin eru ekki alveg útdauð., það eru hinir blindu flokksdindlar sem aldrei finnst neitt vera að hjá sinni forystu og styðja þá "lon og don", hvað sem á dynur!

Það má vel vera, að Ingibjörg Sólrún og Össur, tilheyri risaeðlunum, enda bæði gömul í hettunni í stjórnmálum og þykir gaman að taka þátt í sukkinu. Ingibjörgu finnst til dæmis rosa gaman að fljúga í einkaþotum á kostnað okkar skattborgara!

Held að það se samt ekki hægt að flokka Vg eða Frjálslynda í sama flokk útdauðra dýra eða dýra í útrýmingarhættu enda hafa hvorugir fengið að ráða í ríkisstjórn og eru alsaklausir að því leyti til og engin af þeim hefur fengið skutl í einkaþotu til útlanda heldur! 

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 13:53

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Enn og aftur er ég bara sammála þér.

Okkur Sjálfstæðismanna bíður mikið starf. En það eru ekki bara við, þjóðin öll þarf að taka til í þessum garði sem hlaupin er í mikil órækt.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 19.11.2008 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband