2.12.2008 | 20:57
Sjálfstæðisflokkurinn - drög að nýrri stefnuskrá?
Ég hafði gaman af þessari frétt, því hún sýnir hversu megnug okkar frábæra þjóð er við að komast út úr þeim vandræðum, sem við óneitanlega erum í. Félag viðskipta- og hagfræðinga kom fram með samantekt af bestu hugmyndum, sem komið hafa fram undanfarin misseri í þeirra röðum.
Við erum með fjöldann allan af slíkum fagfélögum og samtökum, sem fást við allt það, sem samfélagið fæst við dags daglega. Ég tel að við ættum að nýta sérþekkingu alls þess fagfólks, sem eru meðlimir í BÍL, KSÍ, ASÍ, BSRB, BHM og leyfa því fólki að koma fram með sambærilega hugmyndir til uppbyggingar á öllum sviðum samfélagsins. Á þessum erfiðu tímum erum við ekki aðeins á efnahagslegum krossgötum, heldur einnig á andlegum vegamótum.
Vinstri stefna og kommúnismi eru að mínu mati ekki svarið, frekar en í byrjun 20. aldar. Nei, það sem ég tel réttu stefnuna er skynsamleg og hófsamleg hægri stefna, þar sem það besta er nýtt úr auðhyggju og félagshyggju. Öll höfum við eitthvað fram að færa, hvert á okkar sviði og öll erum við einstök og sérstök á okkar sviði. Til þess að virkja þessa krafta sem best, þarf ekki aðeins að virkja frelsi einstaklingsins og einstaklingsframtakið, heldur einnig samvinnu og félagslega vitund okkar allra. Allt þetta sameinar sjálfstæðisstefnan einmitt svo frábærlega. Í þetta skipti snýst uppbyggingin ekki einungis um veraldlegan auð eða peningasöfnun - líkt og undanfarin ár - heldur um allsherjar uppbyggingu samfélagsins, hvort heldur það snýr að efnahag eða anda okkar sem einstaklingar eða samfélag.
Upptalningin hér að neðan sýnir, að peningar eru ekki endilega það, sem málið snýst um þegar við þurfum að forgangsraða, heldur einnig önnur gildi. Gildi sem styrkja okkur sem einstaklinga og gildi, sem styrkja fjölskylduna, samfélagið og sem styrkja okkur sem einstaklinga. Sterkt samfélag, sterkar fjölskyldur og sterkir einstaklingar þurfa því ekki að vera andstæður - þvert á móti þetta styrkir hvort annað!
Auðvitað er hér ekki um pólitískt "Manifesto" að ræða af minni hálfu, en með sáralitlum breytingum væri hægt að gera fyrrgreinda frétt úr Mogganum að stefnuskrá nýs hófsams en stórs hægri flokks. Ég breytti hugmyndum Félags viðskipta- og hagfræðinga aðeins í samræmi við mínar eigin hugmyndir um nýtt og mannvænna samfélag og vona ég að enginn reiðist mér fyrir það.
Ég er aðeins "praktískari" en viðskipta- og hagfræðingarnir, sem komu að þessari vinnu, því ég sé ekki aðeins bullandi tækifæri í sprotastarfsemi, heldur einnig í stóriðju í Helguvík og á Húsavík og olíuhreinsunarstöð fyrir vestan. Ég vil hreinlega ekki samþykkja, að það þurfi að vera mótsögn í því að vera fylgjandi stóriðju og sprotastarfsemi á sama tíma
Listamenn og aðrir þeir sem vinna í þjónustugeiranum - allt frá snyrtisérfræðingum til þeirra sem sem vinna í leikhúsi - verða gera sér grein fyrir, að það verður að framleiða eitthvað áþreifanlegt jafnt og það þarf að framleiða eitthvað óáþreifanlegt. Við Íslendingar erum fólk sem viljum ekki aðeins næringu fyrir andann, heldur einnig fyrir magann. Það verður að flytja eitthvað út til að við getum flutt eitthvað inn á þessu kalda og mannfáa landi okkar!
Hér að neðan eru sem sagt hugmyndir viðskipta- og hagfræðinga í bland við mínar, sem listamanns (óperusöngvara), húmanista (germanista) og embættismanns (stjórnsýslufræðings og tollvarðar):
Peninga-, gjaldmiðla- og alþjóðamál
- Stjórnvöld lýsi yfir ábyrgð á þeim mistökum, sem gerð hafa verið.
- Þeir sem stór mistök hafa gert - stjórnmálamenn sem embættismenn - biðjist afsökunar, taki pokann sinn og gangi
- Stjórnvöld og aðrir hagsmunaaðilar sýni fulla pólitíska og faglega samstöðu um áætlun ríkisstjórnarinnar um efnahagsstöðugleika
- þjóðin bíði í nokkra mánuði með kosningar, þar til slík áætlun stjórnvalda er farin að virka
- Vanda þarf vel undirbúning vegna fleytingar krónunnar og upplýsa sem mest um horfur og áætlanir til lengri og skemmri tíma
- Samræmd aðgerðaráætlun um endurreisn efnahagslífsins verði sett fram og gerð opinber til að eyða óvissu á fjármálamörkuðum
- Viðræður við ESB um fulla aðild verði hafnar og flýtimeðferð við upptöku evru
Bankakerfið: Eignarhald og endurreisn
- Gagnsæ og skjót einkavæðing bankanna - þar sem ríkið hefur hugsanlega einhvern varanlegan eignahlut að lokinni einkavæðingu
- Erlendir aðilar komi að rekstri og eignarhaldi bankanna og annarra fyrirtækja, sem ríkið selur á næstu mánuðum og árum
- Lagasetning til varnar óhóflegri áhættusækni, en án þess þó, að markaðnum séu sett of ströng skilyrði
- Ítarleg endurskoðun óháðra aðila á laga- og reglugerðarumhverfi bankanna, án þess þó að bönkunum séu sett of ströng skilyrði, sem hái þeim í samkeppni við aðra banka hér á landi eða erlendis í framtíðinni
- Skapa tiltrú á framtíðarstöðugleika og framtíðar bankavexti m.a. með tafarlausri stefnumörkun er miðar að aðildarviðræðum að ESB
- Óháðar rannsóknir á hruni bankanna, sem hafnar eru yfir allar grundsemdir
- Varast ber skammtímalausnir
Atvinnusköpun og öflun gjaldeyris
- Aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum (kom fram í dag)
- Uppbygging stóriðju í Helguvík og á Húsavík (hugsanlegar stuðningsaðgerðir ríkisvaldsins til að tryggja að þessi uppbygging hefjist strax)
- Uppbygging olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum
- Auknar rannsóknir varðandi olíuvinnslu á Drekasvæðinu
- Tækifæri í heilbrigðisþjónustu - t.d. sjúklingar frá útlöndum
- Uppbygging þekkingarmiðstöðva líkt og gert var í Finnlandi
- Sjávarútvegurinn, mesta gjaldeyrisöflunin
- Tækifæri í ferðaþjónustunni
- Sprotafyrirtæki verði efld - skoðar hvernig lönd bera sig að þar sem sprotastarfsemi eru öflug
- Löðum að erlend fyrirtæki á öllum sviðum
- Lærum af reynslu annarra
Vellíðan landsmanna
- Bætt upplýsingamiðlun stjórnvalda til almennings
- Notum menninguna til að bæta líðan fólks: kirkjustarf, heilsurækt, stuðningur við óhefðbundnar aðferðir á borð við jóga eða kínverska leikfimi, myndlistasýningar, tónleikar, leikhús, kórastarf, áhugaleikhús, Lions, Kiwanis, kvenfélög, Oddfellow, Frímúrara - allt sem léttir fólki lífið og enga þröngsýni hvað þetta varðar, því við erum öll ólík og með ólíkar þarfir!
- Menntun - í víðasta skilningi þess orðs - hvað er hagnýt menntun og hvað er óhagnýt menntun? - þetta þurfum við að hugsa aðeins upp á nýtt!
- Nýting þekkingar hjálparsamtaka
- Aukum samkenndina í þjóðfélaginu
Viðskipta- og hagfræðingar afhenda stjórnvöldum tillögur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.12.2008 kl. 07:29 | Facebook
Athugasemdir
En er þetta ekki að einhverju leiti fólkið sem kom okkur í þessa klípu?
Kári Sölmundarson, 2.12.2008 kl. 21:12
Kári:
Án þessa fólks - og reyndar margs annars fólks - komumst við ekki heldur út úr þessari krísu.
Það var hlustað á "suma" viðskipta- og hagfræðinga, en á aðra var ekki hlustað!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.12.2008 kl. 23:10
Íslendingar eru jafnaðarmenn og félagshyggjumenn í eðli sýnu.
Samt hafa margir þeirra kosið Sjálfstæðisflokkinn.
Ástæða þess er að þeir hafa talið sig trú um að Sjálfstæðisflokkurinn sé þessi jafnaðar og félagshyggjuflokkur.
Margir kjósa Sjálfstæðisflokkinn því þeir vilja vera þar sem fjöldinn er.
Aðrir vegna hagsmynapots, telja sig vera betur borgið í tensla og klíkusamfélaginu ef þeir teljast til Sjálfstæðimanna.
Svo eru það þeir sem nota flokkinn til að koma ser áfram þeir eru fáir en aflmiklir.
Svo eru það sakleysingarnir sem halda að þeir séu sjálfstæðismenn af því pabbi eða mamma var það.
Svo eru það frjálshyggjumennirnir enda stýra þeir flokknum meira og minna ens og við höfum örðið svo áþreyfanlega vör við og tapað miklum eignum og jafnvel vinnu út á nú síðustu vikur. Allt í nafni frelsisins , frelsi til að gera það sem frjálshyggjumaðurinn vill, frelsi til að blekkja og skammta sér sjálfur á kostnað þjóðarinnar.
Frelsi til að manga með eigur þjóðarinnar og gambla með þær.
Kjósandi, 2.12.2008 kl. 23:57
Hvers vegna heldur fólk endalaust áfram að hamra á ESB inngöngu. Það hafa komið skýr skilaboð frá embættismönnum innan ESB um að Ísland fái engar undanþágur, og ekki flýtimeðferð til að taka upp evru.
Hvað þarf að gerast til þess að ESB vinir átti sig á því að restin af evrópu sér okkur ekki sem svo sérstaka og æðislega þjóð að við eigum skilið eitthverja VIP meðferð frá þeim.
Gunnar B. Kristinsson, 3.12.2008 kl. 15:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.