Geðheilsa mín sveiflast með gengisvísitölunni ...

Það vantar ekki eftiráútskýringar forstöðumanna greiningardeilda og prófessora í Lundúnum þessa dagana, en ekki gátu þeir þó sagt fyrir um þá gífurlegu styrkingu, sem krónan varð fyrir síðastliðna tvo daga. Flestir hagfræðingar - sem ég las eitthvað eftir eða heyrði í - spáðu, að krónan myndi sökkva í gær. Ég mun í framtíðinni ekki reiða mig á spár hagfræðinga, frekar en jarðfræðinga er þeir eiga að segja fyrir um Suðurlandsskjálfta.

Ég er óperusöngvari, stjórnsýslufræðingur, þýskufræðingur, og útskrifaður tollvörður. Af öllum þessum "fræðigreinum" held ég að óperusöngurinn og þýskan séu þær vísindalegustu. Þannig get ég leiðrétt þýskan stíl hjá menntaskólanema með nokkurri nákvæmni og strax í byrjun aríu eða sönglags get ég með þó nokkurri vissu sagt fyrir um, hvort og þá hvernig hái tónninn í lok sönglagsins hljómar. Hvað stjórnsýslufræðin varðar er erfiðara að spá í ákvarðanir ráðuneyta eða stofnana, þar sem stjórnmálin - sú óútreiknanlega skepna - hefur svo mikil áhrif á þau mál. Sömu sögu má segja um smyglara - t.d. fíkniefnasmyglara - því þeir eru hreint út sagt ótrúlega óútreiknanlegir og uppfinningasamir.

Fyrir mig voru það hins vegar ekki mikil vísindi - eftir að haftalögin voru kynnt - að átta mig á að gengið myndi styrkjast mjög hratt. Mér var strax ljóst, að þegar fjármagnshreyfingar einskorðast við það eitt, að fólk fær gjaldeyri til að ferðast fyrir og kaupmenn og einstaklingar fá gjaldeyri til innflutnings, þá myndi gengið styrkjast hratt. Auk þess voru útflytjendur skikkaðir til að skila af sér öllum gjaldeyri fyrir útflutning sinn. Það að gengið styrkist verður síðan til þess, að útflytjendur flýta sér að koma gjaldeyri sínum í krónur, áður en krónan styrkist enn meira, því þá fá þeir minna fyrir sinn snúð. Innflutningur hefur minnkað um 50% og litlar líkur á að það breytist í bráð. Fyrirtæki eru ekki að fjárfesta í neinu, heldur að segja fólki upp og minnka við sig. Einstaklingar kaupa ekki neitt og reyna frekar að greiða niður skuldir sínar. Engar fjárfestingar eru í stóriðju eða virkjunum, því ekkert lánsfé fæst eins og er. Því verður um mjög lítið útstreymi á gjaldeyri næstu mánuði. Lágt gengi krónur stuðlar að því, að útflutningurinn er í algleymingi og ferðamenn munu flykkjast til landsins á meðan gengið er svona hagstætt. Það bendir því allt til þess, að krónan styrkist frekar á næstunni. Þetta eru nú engin kjarnorkuvísindi.

Hvað gerist þegar höftin verða tekin af og krónan verður virkilega látin fljóta - ef það verður þá nokkuð gert? Frændi minn, Dalamaðurinn Jóhannes úr Kötlum, orti fallegt jólakvæði, þar sem hann sagði að vandi væri að spá um hvað við fengjum í jólagjöf. Vandinn er svipaður með blessaða krónuna, hún getur þess vegna fallið á morgun um 20%?

Bráðum koma blessuð jólin

Bráðum koma blessuð jólin
börnin fara að hlakka til.
Allir fá þá eitthvað fallegt
í það minnsta kerti og spil.
Kerti og spil, kerti og spil,
í það minnsta kerti og spil.

Hvað það verður veit nú enginn
vandi er um slíkt að spá.
Eitt er víst að alltaf verður
ákaflega gaman þá.
Gaman þá, gaman þá
ákaflega gaman þá.

En er þetta ekki bara allt í þessu fína. Er ekki í lagi, að við Íslendingar tökum völdin í eigin hendur og takmörkum á þennan hátt, að innlendir sem erlendir "spekúlantar" leiki sér að gengi íslensku krónunnar til þess eins að hagnast á því og valda með því ómældu tjóni á íslenskum atvinnuvegum og þjóðinni.

Hvernig geta þessir blessaðir hagspekingar gagnrýnt, að til slíkra tímabundinna aðgerða sé gripið til að koma í veg fyrir að innlendir og erlendir bankamenn rífi úr landinu - og það í gjaldeyri, sem við vorum að taka að láni - hundruð milljarða króna, sem þeir í taumlausri græðgi sinni fjárfestu hér í skuldabréfum á okurvöxtum. Þeir hljóta hafa vitað, að í þjóðfélagi með slíka okurvexti væri ekki allt með felldu? Með þessu athæfi sínu keyrðu þessir græðgisbelgir upp gengi íslensku krónunnar og stuðluðu þannig beint og óbeint að þeirri þenslu, sem hér ríkti og ýttu undir skuldasöfnun íslensku þjóðarinnar.

Íslenska þjóðin er auðvitað bullandi meðsek, en þarna þurfti tvo vitleysinga til - okkur (Íslendinga) og þá (lánadrottna okkar erlendis)!

Er ekki eðlilegt að þeir axli sína ábyrgð eins og við erum að gera?

 


mbl.is Krónan styrktist um 11,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Mætum öll á Austurvelli á morgun kl. 15. Við verðum að láta í okkur heyra. Burt með spillinguna!!

Heidi Strand, 5.12.2008 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband