Geir Hilmar og Þorgerður Katrín taka U-beygju

Hversvegna ræðir fólk einungis tímabundnar lausnir þessa dagana og færri virðast hafa áhuga á varanlegum lausnum vandamála? Þið megið ekki misskilja mig, því ég veit að taka verður strax á þeim vandamálum, sem upp munu koma á næstu mánuðum, þegar vísitalan mun æða stjórnlaus áfram. En eigum við ekki að ræða framtíðarlausnir um leið og við finnum lausnir á vandamálum næstu mánaða? Hver hefur áhuga á að taka áfram þátt í þessu rugli á nokkurra ára fresti næstu áratugina? Nú virðast landsmenn hafa minni áhuga á ESB aðild en fyrir nokkrum vikum og kemur það mér á óvart og þá ekki síst í ljósi frétta sem þessara.

Er ég virkilega sá eini, sem hefur séð 15 milljóna króna íbúðalán sitt fara í 20 milljónir á 4 árum. Á þessum fjórum árum er ég samt líklega búinn að borga 5 milljónir af þessu láni. þetta þýðir í raun að skulda 5 milljónum meira en fyrir 4 árum, þrátt fyrir að vera búinn að borga 5 milljónir í vexti, verðbætur og afborganir. Sama má segja um námslánið mitt. Það var 4 milljónir fyrir 20 árum þegar ég lauk námi. Ég er búinn að vera á ágætis launum - allavega miðað við ríkisstarfsmann - og búinn að borga afborganir og verðbætur - mitt lán er það gamalt að það er vaxtalaust - í 15 ár og skulda samt enn 4 milljónir. Síðan er ég með bílalán í myntkörfuláni, sem var 3,5 milljónir fyrir 1 ári, en var á miðvikudaginn var í 7 milljónum, en hafði síðan vegna 20% styrkingar krónunnar lækkað síðdegis á föstudegi í 6 milljónir. Með smá heppni gæti myntkörfulánið endað í 5 milljónum í lok næstu viku. Af þessu myntkörfuláni er ég samt búinn að borga um 700.000 kr. í afborganir á einu ári, en á því láni er að sjálfsögðu engin verðtrygging.

Venjulegur fjölskyldufaðir eins og ég þarf því - til að "funkera" á Íslandi - í raun að vera blanda af kærulausum en í senn ábyrgðarfullum fjármálasnillingi, glæframanni og krimma!

Eru Íslendingar virkilega það miklir spennufíklar, að þeir vilji ekki hafa áreiðanlega og "stabíla" mynt og elska þeir verðbólguna og hata stöðugt verðlag? Elska þeir þessa spennu og rugl, sem fylgir þenslunni og hata þeir virkilega að gera áætlanir um sína fjármál og sitt líf, sem einfaldlega standast ár eftir ár. Vilja þeir fara sex sinnum í frí, henda öllu út úr húsum sínum, kaupa nýjan bíl og sumarbústað á tveimur árum en eiga síðan ekki fyrir matnum næstu þrjú ár á eftir? Finnst okkur verðtryggingin, okurvextirnir, okurtryggingaiðgjöldin og okurmatarverðið virkilega svona spennandi?

Svei mér þá, ef ég flyt ekki bara aftur til Þýskalands, því ég vil bara eiga venjulegt, huggulegt líf, ala upp börnin mín, kaupa mér hús, kaupa mér í matinn á hóflegu verði, komast einu sinni á ári í frí og síðast en ekki síst gera áætlanir um fjármál mín: borga mínar skuldir, borga af bílnum mínum og húsinu o.s.frv.

Var ég kannski of lengi í Þýskalandi og vilja aðrir Íslendingar kannski bara eitthvað allt annað en ég - elska þeir kannski þessa bölvaða vitleysu?


mbl.is Frysting jafnvel óhjákvæmileg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Já íslendingar eru ótrúlega skrítnir.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 6.12.2008 kl. 20:18

2 Smámynd: Kjósandi

Vegna fjárglæfra ýmissa einstaklinga sem fóru þó að lögum og reglum sem voru litlar  enda frjálshyggjan í hávegum höfð og einnig vegna óhæfs seðlabankastjóra sem var þar í skjóli Sjálfstæðisflokksins, þá verður þú og ég að borga þá skandala sem þessir menn hafa gert nú síðustu árin.

Þú munt þurfa að taka þinn skerf á þær byrgðar sem leggjast nú á þjóðina.

Ábyrgðin er fyrst og fremst Sjálfstæðisflokksins sem leyfði mönnum að stunda fjárhættuspilið í skjóli frjálshyggjunnar með frjálshyggjumann sem forstjóra fjármálaeftirlits og  óhæfs einræðisherra Sjálfstæðisflokksins sem Seðlabankastjóra, en forsætisráðherra treystir sér ekki til að reka mannin þótt hann skáldi og bulli útí eitt.

 Sem flokksbundinn sjálfstæðismaður berð þú kannski mestu ábyrgðina á þessu öllu saman, eða hvað?

Kjósandi, 6.12.2008 kl. 21:38

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Kjósandi:

Sem sjálfstæðismaður geri ég það. Ég vil þó einnig vera gerður ábyrgur og njóta heiðurs fyrir þá uppbyggingu, sem við höfum notið síðan 1991.

Hafðu engar áhyggjur, Sjálfstæðisflokkurinn verðu 90 ára á næsta ári og við eigum a.m.k. 90 glæsilega ár fyrir okkur!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.12.2008 kl. 22:42

4 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Ég veit nú ekki beinlínis hvort íslendingar hafi minni áhuga fyrir ESB en fyrir nokkrum vikum. Það er að minnsta kosti mjög mikill áhugi fyrir ESB ennþá. Ef þú ert að vísa í könnun samtök iðnaðarins þá ber að taka með í reikninginn að stór hluti af fólkinu í könnunni tók ekki afstöðu, þeir sem taka ekki afstöðu geta kosið á báða vegu, ef þeir kjósa ekki þá hefur þetta fólk ekki áhrif á kosningu í Já og Nei kosningu eins og er t.d málið með kosningar varðandi aðildarviðræður, inngöngu í ESB og upptöku evru.

Samkvæmt könnun Samtaka iðnaðarins hjá þeim sem tóku afstöðu voru þannig:

60% sem vildu beinlínis ganga í ESB.

73% vildu hefja aðildarviðræður

og 79% vildu taka upp Evru. 

Þessar niðurstöður geta ekki talist annað en rothögg fyrir heimsýn.

En það er gott að heyra að Geir vilji nú hlusta á þjóðina í þessum málum.

Jón Gunnar Bjarkan, 6.12.2008 kl. 23:15

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Guðbjörn, ef þú kemst hjá því, ekki fara aftur til Þýskalands. Ísland þarf á öllu sínu besta fólki á að halda næstu misseri.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 7.12.2008 kl. 02:49

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Friðrik:

Ég var nú kannski meira að grínast, en öllu gamni fylgir einhver alvara.

Eftir 12 ára dvöl í ESB er ég eiginlega búinn að vera mjög ánægður á Íslandi síðastliðin 10 ár. Það var þó helst verðið á matvælum og ýmsu öðru auk vaxtastigsins og verðtryggingarinnar, sem ég hef einhvern veginn aldrei sætt mig við eftir að hafa kynnst öðru og betra.

Við megum þó ekki gleyma öðrum landkostum á borð við lágt verð á köldu og heitu vatni og rafmagni. Þá eru launaskattar hér á landi lægri en víðast í Evrópu.

Jón Gunnar:

Það sem ég á við er að um leið og krónan styrkist virtist fólk taka gleði sína að nýju og þetta er einmitt það sem ég óttast. Að fólk gleymi þessum hörmungum undanfarinna mánaða og borgi síðan skuldir auðmannanna með bros á vör. Nýir eigendur bankanna og kaupahéðnar munu síða byrja aftur að okra á okkur í vöxtum, verðtryggingu og í ljósi einokunar eða fákeppni.

Já, ég var ánægður með þessa ákvörðun Geirs.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 7.12.2008 kl. 10:14

7 Smámynd: Atli Hermannsson.

"Svei mér þá, ef ég flyt ekki bara aftur til Þýskalands, því ég vil bara eiga venjulegt, huggulegt líf, ala upp börnin mín, kaupa mér hús, kaupa mér í matinn á hóflegu verði,"

það hefur aldrei verið hægt að lifa eðlilegu fjölskyldulífi i þessu landi líku því sem þekkist víða í nágrannalöndunum. Það er að segja að lifa fyrir líðandi stund og sína nánustu. Hér ríkir ógeðfellt klíku og kunningjaþjóðfélag þar sem allir verða að tilheyra einhverri blokk eða hið minnsta að hafa tengsl við "besta vin aðal" til að hafa einhvern minnsta möguleika. Hér dugar heldur ekkert minna en að eignast allt og ráða sem mestu. Hér gengur öll póltík út á meirihluta -  því í minnihluta ertu áhrifalaus. Í bissness verður að hafa ráðandi - til að gera sig gildandi. Lífið hér er stanslaust kapphlaup eftir vindi og innantóm sýndarmennska með forgengilega hluti sem gegna þeim helsta tilgangi að láta vini og vandamenn dást að herlegheitunum.

Þetta sindrom er tilkomið vegna þess að þjóðin vandist því snemma að geymdur eyrir var glatað fé og er þjóðin enn á harðahlaupum á eftir gjaldmiðli sem á að gegna þeim tilgangi að skrá og geyma verðmæti - sem hann gerir ekki og hefur aldrei gert.     

Atli Hermannsson., 7.12.2008 kl. 19:31

8 Smámynd: Heidi Strand

Góður pistill hjá þér Guðbjörn.

Óskandi væri að ráðamenn  byrja að hlusta og taka mark af ráðum fræðimanna.

Heidi Strand, 7.12.2008 kl. 21:21

9 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ég vil sjá raunhæfa áætlun sem getur náð okkur aftur úr skuldum þeim sem landinu hefur verið steyft í. Fyrr en ég sé að slík áætlun samræmist inngöngu í ESB get ég ekki verið samþykkur slíku. Ég óttast nefnilega að við komumst aldrei aftur út úr þessu skuldafeni og að við munum borga sífellt stærri hluta tekju okkar í vexti og afborganir.

Héðinn Björnsson, 8.12.2008 kl. 09:59

10 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Heidi:

Takk Heidi!

Héðinn

Þetta óttast ég líka.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 8.12.2008 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband