Fræðimenn ósammála ríkisstjórninni - erum við að gera rétta hluti?

Líkt og aðrir sjálfstæðismenn var ég lengi vel mjög "skeptískur" á að rétt væri fyrir Íslendinga að semja við Breta, Hollendinga og Þjóðverja um Icesave reikningana. Ég gat engan veginn skilið, að íslenska þjóðin gæti borið ábyrgð á skuldbindingum íslenskra einkabanka erlendis. Á sama hátt var ég mjög andsnúinn lántökum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Síðar kom í ljós, að íslenskir embættismenn hefðu líklega ekki skilið reglugerðir ESB um tryggingasjóði inneigna - eða allavega ekki skilið þau ákvæði á sama hátt og ætlast var til - og að ábyrgð ríkisins á skuldbindingum bankanna erlendis væri staðreynd, sem ég væri tilneyddur til að samþykkja. Enn þann dag í dag virðist vera uppi lögfræðilegur ágreiningur um þetta mál, sem þó líklega fæst aldrei skorið úr, því málið er - eftir því sem mér skilst - ekki á leið fyrir dómstóla. Núna er hins vegar ljóst, að sökudólganna fyrir það sem gerðist, er víða að leita, t.d. hjá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabankanum, í viðskipta- og fjármálaráðuneytinu og hjá íslenskum stjórnmálamönnum.

Líkt og ég hef þegar sagt, var ég einnig sammála forystumönnum Sjálfstæðisflokksins, að sísti kosturinn fyrir Íslendinga væri í raun að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég féllst þó að lokum á, að líklega væri okkur enginn annar kostur mögulegur, en fullkomlega sáttur var ég aldrei við þá ákvörðun. Síðan kom í ljós, að AGS setti þau skilyrði fyrir lánveitingu, að samið yrði við stjórnvöld í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi um lúkningu skuldakrafna vegna Icesave reikninganna. Á þessum tíma var allt að fara í hnút hér heima og undir þeim kringumstæðum taldi ég þann kost vænstan að semja um frið, þótt mér væri það þvert um geð.

Ég er í eðli mínu ekki heigull, en á þessari stundu verð ég að viðurkenna, að þegar ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn snérust gegn okkur og engin vinaþjóða okkar - nýrra sem eldri - fannst mér við Íslendingar eiga við ofurefli að stríða, og að réttast væri að sýna undirgefni - leggja niður rófuna eða dilla henni, beygja sig niður eða jafnvel leggjast fyrir framan þessu öflugu aðila.

Eftir að hafa hlustað á tvo mæta fræðimenn í Silfri Egils í dag, þá Jón Steinsson, doktor í hagfræði frá Harvard og prófessor við Columbia University, og Jón Daníelsson, doktor í hagfræði frá Duke University í Bandaríkjunum og dósent í fjármálum við London School of Economics, vara eindregið við skuldsetningu ríkisins, verð ég að segja að ég er þeim algjörlega sammála.

Jón Steinsson lýsti því einnig yfir skýrt og skorinort, að réttarhöldin yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni - sem vinstra liðið hefur lýst sem einelti í garð Baugs - hefðu verið fullkomlega réttlætanleg. Hann sagði að menn, sem stunduðu slíkan þjófnað í almenningshlutafélögum í Bandaríkjunum eða í Bretlandi, væru leiddir út úr fyrirtækjum sínum í handjárnum.

Jón Daníelsson sagði að Íslendingar ættu einfaldlega að lýsa því yfir, að við ætluðum ekki að greiða Icesave skuldina og að við ættum að hafna IMF láninu. Hann er einnig þeirrar skoðunar, að við eigum að hleypa þessum 500 milljörðum úr landi, sem útlendingar eiga hér og - eftir því sem mér skilst - leyfa krónunni að húrra niður á meðan þessir peningar eru á leið úr landi. Hann líkti gjaldeyrishöftum ríkisstjórnarinnar við aðgerðir í Þýska Alþýðulýðveldinu forðum daga. Ég lærði í Austur-Þýskalandi og þekki því vel til gjaldeyrishaftanna, sem fólust m.a. í því, að allir - nema fáir útvaldir flokksfélagar - voru tilneyddir til að skila af sér gjaldeyri, erlendur "kapítalískur" varningur var seldur í Intershop. Með þessu ætluðu kommúnistarnir að verja gengi austurþýska marksins gagnvart því vesturþýska. Það tókst ekki og ég held að "kúrsinn" hafi farið hæst upp í að 12 austurþýsk mörk fengust fyrir 1 vesturþýskt. Múrinn féll í Berlín árið 1989 og ekki síst vegna þess að þessi efnahagsstefna gekk ekki upp, kommúnisminn og Þýska Alþýðulýðveldið voru gjaldþrota.

Mér leikur forvitni á að vita, hvað þær aðgerðir, sem Jón Daníelsson mælir með, hefðu í för með sér fyrir íslenskt þjóðfélag? Ég hefði viljað, að Egill hefði spurt Jón Daníelsson nánar út í þessa sálma. Það má vera að í fræðilegum heimi Jóns Daníelssonar sé þetta rétt stefna og sú, sem kemur okkur fljótast út úr kreppunni, en hver er fórnarkostnaðurinn og er þetta yfirleitt framkvæmanlegt - praktískt séð? Þetta þarf að mínu mati að ræða betur.

Jafnframt vildi ég gjarna vita hver fórnarkostnaðurinn væri, að segjast hreinlega ekki ætla að borga innistæðueigendum Icesave reikninganna.


mbl.is Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Eina ástæðan fyrir því að þessi mál virðast flókin er að það þjónar ákveðnum pólitískum tilgangi að gera þau blandin. Íslenska ríkið er skuldbundið samkvæmt lögum Evrópusambandsins að tryggja innlán á Icesave upp að 16.000 pundum eða um 20.000 Evrum. Um þetta er ekki deilt og aðeins þetta sagði Davíð Oddson á sínum tíma að hann væri tilbúin að gera. Um leið og ljóst var að ýmis bresk sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar sem hafði verið ráðlagt af breskum fjármálastofnunum, jafnvel ríkisráðgjöfum, lofar Gordon Brown þeim að Breska ríkið muni ábyrgjast að allir fái allt sitt til baka.

Síðan þegar honum var bent á að það væru ekki til peningar í breska ríkissjóðnum til að standa við þetta "loforð" gerði hann umsvifalausa og löglausa aðför að eignum íslenska ríkisins í Bretlandi, sem í millitíðinni hafði tekið yfir Landsbankann. Hann hélt þessum eignum síðan í gíslingu og sá svo um að engin fyrirgreiðsla fengist fyrir Íslendinga á meðan þeir lofuðu ekki að borga allt í topp. Um leið og íslendingar lofuðu að borga allt, opnuðust gáttir AGS og nú hafa allir sem á annað borð óskuðu eftir að Icesave greiddi þeim út, fengið borgað. Lánin sem við fengum frá Bretlandi og Hollandi voru háð þessu samþykki íslenska ríkisins að borga í topp í blóra við lög Evrópusambandsins.

Þetta heitir á öðru máli fjárkúgun. Til þess að geta beitt íslendinga þessari fjárkúgun beitti Brown löggjöf sem var ætluð til þess að stöðva eða koma í veg fyrir aðgang hryðjuverkasamtala að fjármagni eftir eðlilegum leiðum bankakerfisins.

Þær raddir hafa heyrst að þeir peningar sem teknir voru í innlánum á Icesave, hafi verið endurlánaðir til íslendinga til að fjarfesta í íslenskum villum, jeppum og bílífi.  Allt sem hingað til hefur komið fram um fjárfestingar Landsbankans fyrrverandi er að megnið af þeim peningum hafi farið í lán til fyrirtækja bæði erlendra og íslenskara en mest erlendra.

Svanur Gísli Þorkelsson, 7.12.2008 kl. 20:54

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Um leið og ljóst var að ýmis bresk sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar sem hafði verið ráðlagt af breskum fjármálastofnunum, jafnvel ríkisráðgjöfum, áttu inni peninga hjá Icesave........átti þetta að vera :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 7.12.2008 kl. 20:56

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Svanur

Já, þetta var mér í reynd ljóst. Ef ég hef hins vegar skilið Jón Daníelsson rétt í dag, virtist hann þeirrar skoðunar, að við gætum enn neitað að borga þessar innistæður og þá spyr ég hvað hann átti í raun við. Þessa u.þ.b. 3 milljónir, sem hver innistæðueigandi á víst rétt á?

Jafnframt væri gaman að fá svar við því, hvað hefði gerst hefði gjaldeyrishaftaleiðin ekki verið farin?

Ættum við eða ættum við ekki að hleypa þessum 400-500 milljörðum, sem hér eru í krónubréfum, að fara úr landi?

Það eru svo ótal margar spurningar, sem komið hafa upp og hefur ekki verið nógu vel svarað.

Ég er nefnilega sammála Jóni Daníelssyni um eitt að það verður að upplýsa þjóðina betur um ákvarðanirnar og á hvaða forsendum þær voru teknar. Ég fylgist vel með fjölmiðlum, en því miður finnast mér útskýringarnar ekki hitta í mark hjá mér.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 7.12.2008 kl. 21:27

4 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ég hlustaði á Jón Daníelsson í Silfri Egils og þótti hann fullur af úreltri speki. Þessi umræða stendur ekki lengur um Ice Safe. Búið mál og við verðum að gera það upp.

Með tímanum verður þetta svo afskrifað af einmitt vinum okkar í ESB aérstaklega þegar þangað verður leitað inngöngu en á yfirborðinu munum við standa í skilum.

ESB lætur ekki prinsippmál víkja fyrir skiftimynt.

Jóni fannst alltílagi að þjóðin færi í gjaldþrot (ef ég skildi hann rétt) það væri smá skellur en síðan lagast hratt. Ég held að JD sé ekki ílagi.

Mér finnst bara æðislegt að við sitjum hérna og bloggum um efnahagsmál einsog það sé spurning um að borga reikninga eða ekki. Taka áföllum einsog menn og vinna sig útúr því einog við séum ennþá í Íslensku eftirstríðsára þykjustu þjóðfélagi. Einangraðir útí ballarhafi og getum sett hvaða höft og hömlur sem við viljum "frjáls þjóð og fullvalda". Íslenska fullveldið hefur mín 50 ár verið falleg barnasaga sem fullorðinir geta líka haft gaman að.

Við og þeir er orðið afar úrelt því við erum þeir og þeir erum við. Eiginlega svolítið kristilegt ef maður fer að hugsa út í það. Efnahagsbandalagið er okkar aðal bakhjarl í raun ef viðhöfum vit á að ganga í það. Utan þess eigum við ekki séns til langs tíma litið.

Gísli Ingvarsson, 7.12.2008 kl. 21:38

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gísli Ingvarsson:

Já, þín afstaða er einmitt sú sem ég talaði mig niður á eftir einhverja 1-2 vikur, þegar reiðin hjá mér sjatnaði.

Ég sé heldur ekki fyrir mér að við gætum staðið í viðskiptum við þessi tvö ríki - Bretland og Þýskaland - sem eru ásamt Bandaríkjunum okkar mikilvægustu markaðssvæði  - ef við stæðum í svo alvarlegum ágreiningi.

Og rétt er að hér er um "grundvallarmál" fyrir ESB að ræða, því annars væru ákvæði um frjálst flæði fjármagns og starfsemi lána- og fjármálastofnana um gjörvalla Evrópu hjóm eitt.

Síðan er það með þessa "skiptimynt", sem þú talar um. Auðvitað getur verið að einhversstaðar hafi menn sæst á að þessar skuldir yrðu afskrifaðar að einhverju eða fullu leyti í framtíðinni. Hugsanlegt er að það sé ekki hægt að gera það opinbert núna, en þetta komi í ljós síðar. Hvernig gátu stjórnvöld hér á landi aðra stundina verið með þann málflutning, að þeir myndu ekki greiða, en síðan kúvent og samið. Mér finnst þetta allt saman satt best að segja frekar einkennilegt og ótrúverðugt og held að aðeins hluti sannleikans sé uppi á borðinu.

Báðir Jónarnir töldu svo mikla skuldsetningu íslenska ríkisins gífurlegt vandamál. Eins og Geir H. Haarde talar er ætlunin alls ekki að nota þessi gífurlega háu lán - nema þá í mjög litlu magni - , heldur einungis að hafa þau á vöxtum, sem gjaldeyrisvarasjóð.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 8.12.2008 kl. 07:36

6 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Sæll maetro.

Þar sem ég er vinur þinn, má ég ekki treysta því að þu sér ekkert að leita í farangri mínum næst þegar ég fer um Leifsstöð? Ha!

Kristján Sigurður Kristjánsson, 8.12.2008 kl. 11:59

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í umræðum um þetta mál minnast menn yfirleitt ekki á atriði sem hægt er að meta til þúsunda milljarða króna en það er fyrirbæri sem heitir "viðskiptavild" eða "good-will" en líka ná nefna heiður og sóma.

Ég varð persónulega fyrir áreiti frá Bandaríkjamönnum þar sem ég var staddur þar í landi daginn eftir "við borgum ekki" viðtalið við Davíð sem gekk á sjónvarpsstöðvum þar nær heilan dag. "Já, þú ert einn af þrjótunum sem borga ekki" var slöngvað framan í mig af því að ég ber merki gömlu flugmálastjórnarinnar, vængjað skjaldarmerki, í húfu minni.

Það er erfitt að áætla í peningum hvers virði traust og heiður er, en í svona stóru dæmi verður að reyna það.

Þjóðverjar urðu fyrir barðinu á ranglæti og óskynsemi í Versalasamningunum, og fengu afarkostina mildaða sex árum síðan í Locarno með því að höfða til réttlætis og skynsemi.

Ég ber þá von í brjósti að við getum líka gert það eftir að hafa lagt okkur fram um að útskýra stöðu okkar.

Við eigum að standa á öllum rétti okkar eftir bestu getu án þess að gefa á okkur höggstað.

Um það eiga við orð Íslendingsins fyrr á öldum gagnvart ofurefli danska einveldisins: "Ég beygi mig fyrir valdinu en stend á réttinum."

Ómar Ragnarsson, 8.12.2008 kl. 13:12

8 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Kíktu á hvað Frakkar eru nú að segja.

Seðlabankastjóri þeirra, svona þeirra Davíð ef svolieiðis er til, --segir að Frakkar beri ekki nokkra ábyrgð umfram bótasjóð tiltekins banka (íþessu tilfeli netbank og Franskur innla´nsbanki) sem var að fara í þrot í fyrri viku.

Bretar eru ekki búnir ða setja hryðjuverkalög á Frakka ennþá þrátt fyrir að bretar hafi át miklu miklu stærri úpphæðir þar ne hér í ísl bönkum.  og raunar eru innlánin á hávaxtareikninga þar margfallt það sem hér var.

Furðulegur fjandi en við þessu að búast.

Annars, af hverrju eru vinir Sigga Einars og Ólafs Ólafssonar flestir í Katar Líbíu og á slíkum svæðum????

Svo eru það vinir þeirra sem kaupa vilja Kaupþing.

Hver ætli þýði reikningseigendanöfnin fyrir Gaddafý synina??? gæti það verið Siggi Einars eða einhver á vegum hans??

Miðbæjar ofuríhaldið

Bjarni Kjartansson, 8.12.2008 kl. 15:00

9 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ómar:

Þetta hefur verið mín afstaða til þessa og ég held að við ættum að fara varlega í yfirlýsingar og treysta frekar á skynsemi þessara þjóða þegar fram í sækir.

Bjarni:

Já, ég efast um þeir eigi einhvern á borð við Davíð, þótt blessaður karlinn ætti að hætta í Seðlabankanum. Ef einhver Íslendingur á skilið að fara á góð eftirlaun er það Davíð og ég veit að ég fæ skammirnar yfir mig fyrir þessa yfirlýsingu.

Spillingarlyktina af þessu Kaupþingsmáli leggur yfir allt Ísland og Evrópu!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 8.12.2008 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband