Niðurskurður ekki lausnin, heldur þurfa hjólin að fara að snúast ...

Nú þarf ég að brjóta odd af oflæti mínu og skrifa þessa grein. Ég hef ætíð viljað halda ríkisrekstri í skorðum og studd flestar þær einkavæðingar og hagræðingaraðgerðir, sem gerðar hafa verið. Jafnframt hef ég verið fylgjandi því, að ríki og sveitarfélög bjóði þá þjónustu út, sem hagkvæmara er að koma fyrir hjá einkaaðilum. Þannig hef ég horft til þess að í framtíðinni ættum við Íslendingar að skoða enn frekari einkarekstur í heilbrigðisþjónustu og í menntakerfinu. Auðvitað verður hlutfall opinbers reksturs - t.d. í heilbrigðisþjónustu og menntakerfis og hugsanlega einnig annarrar þjónustu - hærra á Íslandi en annarsstaðar í heiminum. Ástæðan fyrir þessu eru smæð landsins og að ríkið þarf að leiðrétta hér fleiri markaðsbresti en í þjóðfélögum, þar sem markaðurinn er stærri og samkeppni meiri. Hér er því ekki um einhver trúarbrögð að ræða hjá mér, líkt og hjá sumum félaga minna í Sjálfstæðisflokknum. Ósjaldan hef ég fengið ákúrur fyrir þessa villutrú mín og óhlýðni og verið uppnefndur "bévítans" hægri krati". Ég kann vel við þetta, því veit að ég á heima í mínum Sjálfstæðisflokki með öllum hinum hægri krötunum, en ekki með gömlum "allaböllum" og herstöðvarandstæðingum í Samfylkingunni. Það er styttra frá mínum skoðunum til skoðana Péturs Blöndal en til skoðana Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra eða til skoðana Marðar Árnasonar.

Margir félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum vilja nú í kreppunni helst skera allan ríkisrekstur niður við trog. Hugmyndin er einkennileg. Það eiga einhvernvegin allir að fara á hausinn og missa vinnuna af því þeir eru að missa vinnuna. Ég minnist þess ekki, að þetta sama fólk hafi borið einhverja sérstaka umhyggju fyrir okkum ríkisstarfsmönnum í góðærinu, þegar þessir hópar - t.d. iðnaðarmenn og verslunarmenn og bankamenn - rökuðu saman peningum. Þvert á móti mátti hlusta á sama sönginn þá, þegar laun opinberra starfsmanna dröttuðust upp í 70-80% af launum á almennum launamarkaði. Allar hækkanir launafólks á opinberum markaði á þessum tíma voru ofrausn. Þessi lúsarlaun, sem eru mun lægri en á almennum launamarkaði, vill ríksstjórnin nú skera niður. Lækkun launa æðstu embættismanna verður réttlætting þess að ráðast á kjör allra opinberra starfsmanna. 

Sumir félagar mínir vilja einnig fækka ríkisstarfsmönnum, hvað sem það kostar. Reyndar einkennilegt, hvað margir sjálfstæðismenn líta á opinbera starfsmenn sem ónytjunga og á opinbera þjónustu sem óþarfa. Ætli þetta fólk hafi aldrei gengið í skóla hjá hinu opinbera, sent börnin sín í leikskóla eða farið á sjúkrahús? Þetta sama fólk vill sem sagt spara í opinberri þjónustu en fara frekar í stórar framkvæmdir og bjóða þær þá auðvitað út - sem ég er auðvitað sammála. Þegar ég gagnrýni þessa afstöðu félaga minna og bendi á að ef einhvertíma er þörf á skólum og heilbrigðisþjónustu - sem er stærstu opinberu útgjaldaliðir ríkisins - þá er það einmitt í kreppum. Þá gagnrýna mínir menn mig og benda mér á að ég segi þetta aðeins af því að ég vinn hjá ríkinu. Það fyndna er að þeir, sem gagnrýna þessa afstöðu mína og vilja einungis verklegar framkvæmdir, eru einmitt iðnaðarmenn og verktakar, sem sjálfir vilja komast í feit verk hjá ríkinu. Ég svara því til að við þessar aðstæður eigi auðvitað að reyna að leggja aukna fjármuni í verklegar framkvæmdir hjá ríkinu. Þumalputtareglan er jú, að ríkið eigi að spara í verklegum framkvæmdum í góðæri en eyða þeim mun meira í þær í kreppu. Vandamálið er hins vegar, að ríkið hefur fjárfest mikið á undanförnum árum, t.d. með því að bora göng í annað hvort fjall á landsbyggðinni. Við sjálfstæðismenn þurfum að passa okkur á þessari þröngsýni, sem grafið hefur um sig meðal margra flokksmanna og verið hálfgerð tíska undanfarin 10-15 ár.

Ég held reyndar, að hér sé um skynsamleg fjárlög að ræða, þar sem farið er bil beggja - eitthvað er reynt að spyrna við fótum, hvað útgjaldaaukningu varðar, þar sem það er hægt, án þess þó að ganga frá öllum ríkisrekstri dauðum. Fjármálaráðherra og ríkisstjórnin eru svo sannarlega ekki í öfundsverðum sporum að þurfa að skera niður eftir allt góðærið og standa svo frammi fyrir gríðarlegum tekjumissi og auknum ríkisútgjöldum vegna kreppunnar, t.d. vegna aukins atvinnuleysis.

Það sem þarf núna er að hjól atvinnulífsins byrji aftur að snúast, hvort sem um útflutninginn er að ræða eða innlenda þjónustu og framleiðslu fyrir innanlandsmarkað. Ef hjólin snúast ekki, eykst atvinnuleysið enn meira, tekjur ríkisins dragast saman en útgjöld þess aukast. Hér þarf því að koma hlutunum úr kyrrstöðu og á hreyfingu, hvað sem það kostar og þá verður að hafa það að hallinn á ríkissjóði sé 150 milljarðar.


mbl.is Hallinn yfir 150 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Guðbjörn.

Það eru átta þúsund manns atvinnulausir í dag og fer fjölgandi. Þetta fólk er allt á atvinnuleysisbótum. Ekki er neitt fé að fá nema hjá bönkunum sem eru í dag í eigu ríkisins. Allir þræðir liggja í dag til ríkisins.

Ég spyr, af hverju er verið að draga saman framkvæmdir á vegum ríkisins? Af hverju er ekki aukið við framkvæmdir? Hvort er betra að borga átta þúsund manns atvinnuleysisbætur í stað þess að láta þetta fólk vera í vinnu og skapa verðmæti?

Með þessum samdrætti sem ríkið er nú að boða er verið að dýpka kreppuna og ríkissjóður er að minnka enn frekar skatttekjur sínar á næsta ári. Er það rétt stefna?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.12.2008 kl. 00:39

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Friðrik:

Stjórnvöldum er örugglega þröngur stakkur sniðinn í þessum fjárlögum. Eitt af skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var einmitt að halli mætti ekki verða of mikill á fjárlögum. Er eitthvað betra að segja upp ríkisstarfsmönnum og draga úr þjónustu hins opinbera og setja síðan það fólk á atvinnuleysisskrá.

Það sem við þurfum eru auðvitað fjárfestingar. Ljóst er að eins og ástandið er í dag verða fjárfestingar ekki drifnar áfram af innlendum aðilum. Af þessum ástæðum þurfum við erlendar fjárfestingar á borð við álver, kísilverksmiðju, gagnaver. Ekki skemmdi fyrir ef einhverjir fá góðar hugmyndir að einhverskonar sprotastarfsemi. Það versta við sprotastarfsemina er að til hennar þarf fjármagn og það er ekki til, hvorki hér á landi né erlendis. Stóriðja og virkjunarframkvæmdir eru því lausnin í bili, en síðan væri hægt að horfa til sprotastarfsemi í kjölfarið, þegar einhverjir peningar eru komnir í gang í hagkerfinu og hjólin aftur farin að snúast.

Hlutverk stjórnvalda er því að liðka fyrir og knýja áfram um öflun orku og tilskilinna leyfa fyrir álverið í Helguvík og kísilverksmiðjuna þar. Jafnframt þarf að huga að því, hvort ekki sé hægt að finna aðra áhugasama álframleiðendur til að skoða álversframkvæmdir við Bakka. Þegar Norðmennirnir þorðu ekki í framkvæmdir á Reyðarfirði var einfaldlega samið við aðra og það þurfum við að skoða núna.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 11.12.2008 kl. 05:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband