Hver hlýtur hnossið - formaður Sjálfstæðiflokksins

Margir tilkallaðir, fáir útvaldir 

Ljóst er að margir verða tilkallaðir en fáir útvaldir - eða í raun aðeins einn útvalinn - þegar kemur að því hver hlýtur formannsstöðuna hjá Sjálfstæðisflokknum. 

Tilkallaðir og útvaldir

Illugi Gunnarsson er erfðaprins, sem margir hefðu spáð glæstri framtíð innan Sjálfstæðisflokksins fyrir sex mánuðum síðan. Sú staðreynd veikir hins vegar stöðu hans, að hann sat í stjórn Peningamarkaðssjóðs 9 hjá Glitni þegar bankahrunið átti sér stað. Fullyrðingar Sigurðar G. Guðjónssonar í þá átt, að ríkið hefði einungis lagt sjóði 9 í Glitni til ellefu milljarða króna - eftir að sjóðnum hafði í sjálfu sér verið lokað - af því að Illugi væri þingmaður Sjálfstæðisflokksins veikir stöðu hans enn frekar. Illugi er því úr leik, a.m.k. í bili.

Guðlaugur Þór Þórðarson hefur þegar boðað, að hann kunni að sækjast eftir formannsstólnum. Guðlaugur á sér marga óvini innan flokksins eftir lúalega aðför hans og fylgismanna hans að Birni Bjarnasyni í prófkjörinu fyrir síðustu Alþingiskosningar. Hann kom í byrjun ferils síns ekki vel fyrir sig orði og "sjarmeraði" fólk ekki beinlínis upp úr skónum. Þótt ég persónulega fagni aðgerðum hans varðandi St. Jósepsspítala, eru þær mjög umdeildar. Guðlaugur á að mínu mati ekki mikinn séns í formanninn.

Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur sýnt af sér röggsemi við stjórn borgarinnar að undanförnu. Á þeim bænum hefur hún hins vegar ekki verið "plöguð" af mikilli samkeppni að undanförnu. Forverar hennar á borgarstjórastóli undanfarin ár hafa auðvitað verið hálfgerðir 2. flokks stjórnmálamenn og enginn almennilegur borgarstjóri setið við völd síðan Ingibjörg Sólrún sat við stjórnvölinn við tjörnina í Reykjavík. Það orð fer af Hönnu Birnu innan flokksins, að rignt hafi upp í nösina á henni á hennar yngri árum og sumir meina jafnvel, að hún hafi verið og sé enn frekar hrokafull. Ég þekki hana ekki persónulega, heldur af afsögn og það segir ekki alltaf rétta sögu. Hanna Birna er það sem við sjálfstæðismenn köllum óskrifað blað, vonarstjarna en tæplega "kandídat" í formann flokksins.

Ásdís Halla Bragadóttir hafði það af fyrst kvenna að verða formaður SUS. Á árunum 2000-2005 var hún bæjarstjóri í Garðabæ og vakti þar mikla athygli. Síðan tók hún árið 2005 við sem forstjóri BYKO en hætti skyndilega árið 2007 og veit ég ekki hversvegna það var - kannski erfiður yfirmaður? Það síðasta sem ég frétti af henni var að hún væri í stjórn Nova og forseti Frjálsíþróttasambandsins. Þetta er meira í áttina við verkefni forsetafrúar en verðandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Ég gæti alveg séð fyrir mér að Ásdís Halla gæti orðið varaformaður en varla formaður.  Sú staðreynd, að hún hefur ekki verið áberandi í fjölmiðlum eða í flokkstarfinu á undanförnum árum finnst mér persónulega ekki meðmæli, en kannski eru það bara bestu meðmælin?

Guðfinna Bjarnadóttir er auðvitað stórgáfuð kona og sá athafnamaður kvenkyns, sem vakið hefur einna mesta athygli undanfarna áratugi. Uppbygging Háskólans í Reykjavík var ótrúlegt þrekvirki og átti Guðfinna án efa stóran þátt í því starfi. Guðfinna hefur ekki notið sín á Alþingi á undanförnum árum og virðist einhvernvegin ekki vera hluti af þingflokki Sjálfstæðismanna. Þrátt fyrir að vera stórkostlegur ræðumaður, hefur lítil farið fyrir henni í ræðustóli. Ég efast einhvern veginn um áhuga hennar á pólitísku starfi í framtíðinni og hvort hún ræður yfir þeim eldmóði, sem þarf til starfsins.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefði án nokkurs efa orðið næsti formaður flokksins ef þessar aðstæður hefðu ekki skapast í haust. Þorgerður Katrín er flugmælsk og kemur einstaklega vel fyrir. Hún stendur hins vegar illa að vígi eftir bankahrunið, þar sem hún kom að málum fyrir hrun bankanna og Kaupþing fékk einn banka lán úr ríkissjóði. Síðar kom í ljós að fjölskyldan átti 500 milljónir í hlutabréfum Kaupþings. Þorgerður Katrín hefur hins vegar tækifæri, sem aðrir frambjóðendur hafa ekki, því hún getur gert það sem þjóðin og sjálfstæðismenn bíða eftir, þ.e.a.s. rekið stjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og vikið spilltum embættismönnum úr starfi. Þá gæti hún að sjálfsögðu komið fram með aðgerðir sem hjálpuðu atvinnulífinu og heimilunum í landinu. Geri hún þetta munu flestir gleyma 7 hægri ehf ævintýri þeirra hjóna og 500 milljóna tapi, sem á að vera stór hluti þess sparnaðar, sem þau hjón hafa "nurlað" saman á undanförnum árum (úps!).

Kristján Þór Júlíusson er fæddur til forystu og þykir búa yfir miklum persónutöfrum og vera góður ræðumaður - líkt og sást á síðasta Landsfundi! Eftir stúdentspróf frá M.A. var hann um árabil til sjós og eftir það lauk hann 2. stigi frá Stýrimannaskólanum. Hann er með háskólapróf í íslensku og bókmenntum auk þess að hafa kennsluréttindi og kenndi hann eitthvað sem ungur maður. Að auki hefur Kristján Þór setið um árabil í stjórnum útgerðarfélaga. Til viðbótar hefur Kristján setið í Ferðamálaráði og í stjórn Landsvirkjunar um margra ára skeið. Kristján hefur því reynslu af þremur stærstu atvinnuvegum þjóðarinnar: fiskveiðum, álvinnslu (Landvirkjun/orkuöflun) og ferðamálum (Ferðamálaráð). Kristján er ekki óumdeildur, þar sem hann sat sem bæjarstjóri (Ísafjörður, Akureyri), frekar en aðrir sem sækjast til forystu. Kosturinn við Kristján er án efa að hann hefur ekki setið í ríkisstjórn undanfarin ár og kom fyrst á þing fyrir 1 1/2 ári. Gallinn er að margir munu halda því fram að hann verði formaður Sjálfstæðisflokksins í boði Samherja.

Bjarni Benediktsson  er í sjálfu sér hinn fullkomni "kandídat" í stöðu formanns Sjálfstæðisflokksins. Hann lítur vel út, kemur vel fyrir sig orði og virkar yfirvegaður og rólegur. Lítið hefur sést til hans í ræðustóli og get ég því ekki dæmt um hæfileika hans þar. Þrátt fyrir ungan aldur gæti hann virkað sem landsfaðir þjóðarinnar. Margir munu þó segja að Bjarni sé aðeins yngri útgáfa af fyrri formönnum flokksins. Hann er eins og margir aðrir af forystumönnum þjóðarinnar hafa verið af hinni frægu Engeyjarætt. Af þeirri ágætu ætt voru margir af helstu frammámönnum í íslensku stjórnmálalífi undanfarin 50 ár eða svo, s.s. Bjarni Benediktsson eldri, Ragnhildur Helgadóttir, Björn Bjarnason og svo núna alnafni fyrrverandi formanns flokksins og forsætisráðherra landsins, Bjarni Benediktsson yngri.

Mörgum finnst það eflaust bera keim af einhverskonar erfðaveldi, að alnafni fyrrverandi formanns flokksins og forsætisráðherra og náfrændi Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra eigi nú að setjast í stól formanns Sjálfstæðisflokksins. Um það ætla ég ekki að dæma, en vissulega er sannleiksbroddur í þessu. Hins vegar er ljóst að reynsla sjálfstæðismanna af ráðherrum og stjórnmálamönnum af Engeyjarætt er mjög góð. Traustari og áreiðanlegri stjórnmálamenn er vart hægt að finna.

Aðrir hafa gagnrýnt að Bjarni hafi setið sem stjórnarformaður N1 og sé þar með "innviklaður" í þá fjárglæfrastarfsemi, sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Því er til að svara, að Engeyjarættin er ekki nýrík fjölskylda, heldur hefur verið vel efnuð um langan tíma og kann að fara með peninga. Flottræfilsháttur og óráðsía hefur ekki beinlínis einkennt þá fjölskyldu. Engar sögur fara af einhverjum spillingarmálum í kringum Bjarna og fjölskyldu hans. Bjarni er hins vegar líkt og margir aðrir að mörgu leyti óskrifað blað í pólitík og hefur t.d. ekki verið ráðherra á undanförnum árum eða gegnt ábyrgðarstöðu sem sveitarstjórnarmaður. Ef hann hefði gert það, kæmi hann tæplega til greina - eða er það sjálfstæðismenn góðir? Af þessum sökum er hann að mínu mati sá sem skorar hæst í augnablikinu!

Eimreiðarhópurinn á leiðarenda

Eimreiðarhópurinn, sem saman stóð af þeim Þorsteini Pálssyni, Magnúsi Gunnarssyni, Geir H. Haarde, Kjartani Gunnarssyni, Brynjólfi Bjarnasyni, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og fleirum virðist hafa sungið sitt síðasta hjá Sjálfstæðisflokknum. Þessi hópur sveigði stefnu flokksins í átt til frjálshyggju og sótti hugmyndir til Miltons Friedman og Friedrichs A. von Hayek. Þótt þessi sveigja hafi að flestu leyti fært landið fram á við má segja að í ákafanum hafi fyrrgreindum hópi láðst að setja um hana nægilega miklar reglur auk þess sem eftirliti var mjög ábótavant. Segja má að fyrsta einkavæðingin, þegar Bæjarútgerð Reykjavíkur var sameinuð einkafyrirtækinu Ísbirninum og úr varð Grandi hf, hafi heppnast mjög vel. Hins vegar verður að setja spurningamerki við framkvæmd einkavæðingar bankanna og "markaðsvæðingu" í fiskiðnaði, sem byggðist á framsali aflaheimilda (kvótakerfinu).

Í raun má segja Eimreiðarhópurinn hafi farið afskaplega vel af stað og svo hafi menn hætt að passa sig og öðlast þá trú, að þeim gæti hreinlega ekki skjátlast. Og þó að í Eimreiðarhópnum hafi verið margir "snillingar", eru snillingar menn, menn eru mannlegir og það er mannlegt að skjátlast!


mbl.is Þorgerður leysir Geir af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fín samantekt hjá þér, það er ekki hægt að leggja með neinn sem virðist hafa afgerandi  möguleika á formanninum og verður spennandi að sjá hverjir gefa kost á sér af þessu fólki sem þú nefnir.

En hefurðu einhverja sem standa utan við allt (venjulegan flokksmann) sem gæti komið til greina og ætti slíkur einstaklingur einhvern séns?

Óskar (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 20:33

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Góður.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.1.2009 kl. 21:12

3 Smámynd: Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir

Kristján Þór ekki spurning og ekki sjens að hann láti einhverja gutta hjá Samherja stjórna sér.  Kristján þór er sanngjarn og réttlátur maður sem vinnur verk sín vel. Áfram Kristján Þór

Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir, 23.1.2009 kl. 23:18

4 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Ég held ég taki undir með þessari grein sjálfstæðismanns í Kópavoginum sem má lesa á eftirfarandi slóð : http://baldur.xd.is/

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 23.1.2009 kl. 23:40

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Þetta er ágætis greining. Reynslan sýnir þó að frammistaða viðkomandi er það sem skiptir mestu máli.

Sigurður Þorsteinsson, 24.1.2009 kl. 00:17

6 Smámynd: Katrín Linda Óskarsdóttir

Tel að baráttan verði milli Þorgerðar Katrínar og Bjarna Benediktssonar þ.e. gefi Þorgerður kost á sér.  Miðað við kröfur fólks um breytingar innan æðstu manna flokkanna, þá mun Bjarni eflaust verða næsti formaður Sjálfstæðisflokksins.  Þó gæti það orðið tvísýnt því Þorgerður Katrín hefur sýnt margsinnis að hún er verðugt formannsefni, en gæti fallið á því að vera of tengd bankahruninu. Veit ekki hvort og þá hvernig Bjarni hugsanlega tengist því?

Katrín Linda Óskarsdóttir, 24.1.2009 kl. 01:05

7 Smámynd: Snorri Magnússon

Góð skilgreining á formannsefnum flokksins og hver staða þeirra er í dag. 

Nú er hinsvegar spurningin hvort þetta yfirhöfuð skipti einhverju máli í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu.  Verður Sjálfstæðisflokkurinn ekki bara enn einn örflokkurinn, sem engu máli skiptir líkt og Framsókn, þegar hann kemur upp úr þeim öldudal sem hann er í, eða hversu langt er hann ekki kominn frá slagorði sínu "Stétt með stétt!"?

Ég bendi áhugasömum á að skoða síðuna www.nyttlydveldi.is

Snorri Magnússon, 24.1.2009 kl. 03:46

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Persónulega held ég að Þorgerður sé of tengd KB banka og að þessi ummæli hennar um 500 milljóna tap o.s.frv. hafi skaðað hana gífurlega í komandi kosningum. Ég segi því miður, því ég hefði viljað sjá hana sem næsta formann og hvað málefni varðar er ég henni algjörlega sammála. Við erum bæði ekkert frjálshyggjufólk og viljum einungis nota markaðinn þar sem hann hentar hér á landi og þar þurfa ekki endilega að gilda nákvæmlega sömu lögmála og annarsstaðar.

Taki Þorgerður til hendinni og sópi út í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu og á nokkrum öðrum stöðum gæti hún hins vegar blandað sér í slaginn!

Annars verður baráttan á milli Kristjáns Þórs og Bjarna og það verður knappt, því báðir eru þeir miklir mannkostamenn! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 24.1.2009 kl. 08:02

9 Smámynd: Jónas Jónasson

Sjálfbært Ísland - já takk.

Jónas Jónasson, 24.1.2009 kl. 11:37

10 identicon

Með von um að Sjálfstæðisflokkurinn finn einhvern nýjan , ferskan aðila innan þessa flokks sem getur veitt honum þann trúverðuleika og traust sem hann þarf.

Ef þessi flokkur ætlar að halda áfram að vera með sama liðið og hefur verið tengt þessu óábyrga liði síðastliðin ár þá er eitthvað mikið að og flokkurinn ekki enn áttað sig á því að þjóðin mun ekki kjósa hann.

Ekkert af þessu ofangreindum aðilum eiga að koma til greina hjá Sjálfstæðismönnum í þessu vel menntaða þjóðfélagi okkar hljótum við að geta fundið nýjan efnilegan aðila til að veita þessum flokk formennsku.

Þórunn Reynisdottir (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 14:22

11 Smámynd: Daði Þorkelsson

Það er ekki alltaf hægt að vera sammála öllum alltaf, en ég er svo sannarlega sammála þér Guðbjörn hefði viljað sjá Þorgerði en það þarf aðgerðir hjá henni ekki nóg að vera bara með gagnríni.

Held bara að mér lítist vel á Framsóknarleiðina að þessu sinni algera endurnýjun.

kv. Daði Þ.

Daði Þorkelsson, 24.1.2009 kl. 14:43

12 Smámynd: Steinarr Kr.

Mjög góð greining hjá þér.  Það þarf bara að leiðrétta eitt.  Þegar Hanna Birna settist í borgarstjórastólinn hafði ekki setið þar góður borgarstjóri síðan Davíð Oddsson yfirgaf þann stól.

Steinarr Kr. , 24.1.2009 kl. 15:50

13 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Guðbjörn, þetta er fróðleg og hlutlaus greining á helstu mönnum í boði. 
En þegar fortíð Illuga Gunnarssonar er skoðuð þá kemur á óvart að hann hafi talist erfðaprins í Sjálfstæðisflokki.  Foreldrar hans eru gallharðir vinstri sinnar og einu persónulegu tengsl Illuga við xD er kvonfangið - og tengdafaðirinn var enginn erfðaprins heldur.  

Ef einhver kæmi inn sem forystumaður flokksins sem hlutlaus og óháður forréttindaliði  gamallar tíðar, þá yrði Illugi efstur á mínum lista.

Kolbrún Hilmars, 24.1.2009 kl. 16:48

14 Smámynd: Héðinn Björnsson

Það er spurning hvort ekki séu þetta allt of mikil ljúfmenni sem þú hefur talið upp. Geirarnir tveir voru viðkunnanlegir en kannski ekki beinlínis sérlega farsælir leiðtogar fyrir flokkinn. Sjálfstæðisflokknum hefur jafnan vegnað betur undir "harðari" leiðtogum og spurning hvort Ragnheiður Ríkarðsdóttir sé ekki eina leiðtogaefnið innan flokksins sem er nægjanlega "cut-throat" til að geta sameinað flokkinn og hakkað í sig andstæðingana. Það væri kannski viðeigandi að fá "Soffíu frænku" til að taka til eftir þumbaldastjórnina sem hefur verið á Sjálfstæðisflokknum síðan Davíð fór frá.

Héðinn Björnsson, 24.1.2009 kl. 17:10

15 Smámynd: Haukur Nikulásson

Mín tilfinning er sú að Illugi Gunnarsson sé bestur fyrir flokkinn. Málflutningur hans er hófstilltur og hann kemur yfirleitt fyrir sem maður skynseminnar. Hann virðist líka vera í góðu sambandi við pólitíska andstæðinga sína og því líklegur til að vera samstarfsgóður. Líklega skortir hann samt frekjuna sem þarf í þetta embætti.

En þar sem ég er hættur að kjósa íhaldið þá er ég nokkuð viss um að flokkurinn hafi ekki vit til að velja Illuga heldur mann gömlu peninganna, gamla ættarveldisins, olíuprinsinn sem er letingi á heimili sínu: Bjarna Benediktsson.

Bjarni er vel tengdur hagsmunaklíkum flokksins og það er ekki hægt að tengja hann sérstaklega við neitt þjóðfélagslegt framfaramál sem hann hefur sérstaklega beitt sér fyrir. Hann blasir því við manni sem maður sem vinni fyrir sig og vini sína en ekki fólkið í landinu. Hann verður því kosinn vegna huggulegs útlits, mjúks talanda, geðþekkrar framkomu og fyrirgefið það að vera með frekar áberandi tómlegt innihald.

Haukur Nikulásson, 24.1.2009 kl. 17:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband