Óska eftir stuðningi í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Ég vann frá blautu barnsbeini í hænsnabúi foreldra minna, en síðan lá leiðin í byggingarvinnu, á togara, í banka, í lögregluna og að lokum í fararstjórn á Ítalíu. Ég gekk í grunnskóla í Kópavogi, á Álftanesi og í Garðabæ. Að því loknu lá leiðin í Verslunarskóla Íslands og þaðan í Háskóla Íslands og í söngnám í Söngskólanum. Söngurinn varð háskólanáminu yfirsterkari og lauk ég burtfararprófi árið 1986 og fluttist þá til framhaldsnáms í Þýskalandi og Sviss, þaðan sem ég útskrifaðist.


Ég söng í Þýskalandi og Sviss um 10 ára skeið, en vegna frjókornaofnæmis varð ég að draga saman seglin. Ég tók próf í ferðamálafræði í Þýskalandi og flutti heim árið 1998. Síðastliðin 10 ár hef ég unnið sem sölustjóri á ferðaskrifstofu og hjá tollgæslunni á Suðurnesjum, þar sem ég starfaði síðast sem yfirmaður tollskrifstofu. Nú starfa ég sem yfirmaður hjá tollstjóra í Reykjavík. Með vinnu undanfarin 8 ár stundaði ég fyrst BA-nám í þýsku, sem ég lauk 2007, og lauk síðan meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu (MPA) 2008, en lokaritgerð mín fjallaði um áhrif inngöngu Íslands í ESB. Ég er fráskilinn og á þrjár dætur á unglingsaldri, sem stunda nám á Selfossi.


Ég vil koma hreint og skýrt fram við kjósendur og draga ekkert undan um stöðu landsins. Ég vil ekki koma með langan lista með kosningaloforðum, heldur aðeins lofa að gera mitt ýtrasta við þessar erfiðu aðstæður. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn verði að viðurkenna af auðmýkt þau mistök sem gerð voru við einkavæðingu bankanna og í kjölfar hennar. Lögum um fjármálafyrirtæki og banka var ábótavant og stofnanir á borð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann stóðu sig alls ekki í eftirliti sínu. Að sjálfsögðu bera aðrir flokkar sömu ábyrgð eða jafnvel öllu meiri þar sem þeir fóru með viðskiptaráðuneytið. Þar á ég við Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna.


Ég hef ítrekað gagnrýnt forystu Sjálfstæðisflokksins fyrir aðgerðaleysi undanfarna mánuði. Það er skýlaus krafa mín að þeim mönnum sem á glæpsamlegan hátt settu íslensku þjóðina á hausinn verði refsað og að þeir fjármunir sem þeir komu úr landi verði fundnir og þeim komið til baka til réttra eigenda sinni – íslensks almennings og fyrirtækja.


Mér finnst blasa við að Íslendingar verði að ganga til nauðasamninga við lánardrottna sína og hreinlega viðurkenna að við verðum aldrei borgunarmenn fyrir þessum skuldum. Staðreynd er að við Íslendingar lentum að hluta til í höndunum á fjárglæframönnum sem léku á lagaumhverfi okkar, eftirlitsstofnanir, ríkisstjórn og Alþingi og í reynd alla íslensku þjóðina.


Að loknu þessu uppgjöri eða samfara því verðum við að kanna hvort ESB-aðild er fýsilegur kostur. Takist okkur að semja um ásættanlegu niðurstöðu varðandi fiskveiðar annarra þjóða við Ísland verður Alþingi að leggja aðild landsins að ESB undir þjóðaratkvæði.


Tugþúsundir Íslendinga eiga um sárt að binda, eru að missa vinnuna eða eignir sínar, nema hvort tveggja sé. Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður tekið við vonlausri stöðu og komið okkur í fremstu röð. Ég er til í að taka þátt í þeirri vinnu börnum mínum og landsmönnum öllum til hagsbóta.

(Grein birtist áður í Suðurnesjatíðindum 12. febrúar 2009)

Á næstu dögum mun ég opna nýja heimasíðu, en vefslóðin verður:

gudbjorn.is 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Flottur.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 16.2.2009 kl. 22:29

2 identicon

Þetta  flott grein hjá þér Guðbjörn, allt satt og rétt sagt hjá þér , um syndir flokksins þíns og líka samsekt Framsóknarflokks og að hluta Samfylkingar líka, sem göbbuð var til stjórnarsamstarfs með ykkur og sá að sér, sem betur fer, þegar að hluti sannleikans á óstjórn flokks þíns hefur opinberast. Frjálshyggjulýð , var hleypt í kjötkatlana og þjóðin skilin eftir , á barmi gjaldþrots. Vinstri græn og Frjálslyndir eru þeir einu, sem ekki er hægt að klína neinu á, vegna einkavæðingar á bönkunum og  spillingunni sem fylgdi í kjölfarið.  Hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins semsagt steindauð, leiðtogarnir orðlausir, nema Geir Haarde, sem fer miklu betur að segja alls ekki neitt og hefði aldrei átt að láta breska fjölmiðla taka viðtal við sig. Nei, það er ekki nóg að vera drengur góður og gefa sig fram í framboð fyrir þennan flokk í dag. Þjóðin vill núna aðra til að taka við eftir ykkur, vonandi er það ekki nú þegar orðið of seint, þar sem tjónið af völdum stefnu og stjórnar þíns flokks , s.l. ár er svo rosalegt, að maður er hræddur um, að það geti verið of seint. Það þarf líka að láta þá stjórnmálamenn , sem klúðruðu málum svona, bera ábyrgð!        

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 10:09

3 identicon

Sæll frændi,

Gangi þér vel í framboðinu. Þú lætur bara vita ef það er eitthvað sem ég get gert til að hjálpa.

kv. Viktoría

Viktoría (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 11:33

4 Smámynd: Steinarr Kr.

Myndi kjósa þig, er bara ekki í þínu kjördæmi. 

Steinarr Kr. , 18.2.2009 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband