Hvert stefnum við sjálfstæðismenn?

Ég skrifa þetta rétt áður en ég klæði mig í mitt fínast púss og held á Landsfund Sjálfstæðisflokksins. Það er alltaf mjög sérstök og hátíðleg stund að vera við setningu Landsfundar, þar sem fulltrúar af öllu landinu koma saman og ákveða stefnu flokksins næstu tvö árin.

Þessi fundur er þó um margt sérstæður og kannski aðeins öðruvísi en fyrri fundir, þar sem flokkurinn stendur á tímamótum. Fyrst af öllu þarf fundurinn að gera upp við fortíðina. Sú skýrsla sem barst frá endurreisnarnefnd flokksins var afskaplega vönduð og gætu margir stjórnmálaflokkar tekið sér slík vinnubrögð til fyrirmyndar þegar þeir glíma við slíka fortíðardrauga. Skýrslan var óvægin en vel rökstudd og verð ég að taka undir allt sem þar kemur fram. Öll sú gagnrýni sem þar kemur fram hefur komið fram í vetur á bloggsíðu minni.

En flokkurinn stendur einnig á tímamótum hvað varðar afstöðu hans um mjög umdeilt mál innan flokksins. Þarna á ég auðvitað við hvort farið skuli í aðildarviðræður við ESB. Ég hef verið þeirrar skoðunar undanfarin ár að Íslendingar ættu að skoða aðild að ESB með ströngum skilyrðum, þ.e.a.s fullum yfirráðum yfir fiskimiðum okkar og viðunandi lausn fyrir íslenskan landbúnað. Ég vona að sjálfstæðismönnum beri gæfa til að kynna sér málin vel og komist þá að þeirri niðurstöðu að aðild Íslands að ESB og upptaka evru gæti orðið mikið gæfuspor og hjálpað okkur út úr þeim gífurlegu erfiðleikum sem við erum í. Hvorki ESB aðild eða upptaka evru eru töfralausn, rétt er það, enda eru slíkar lausnir ekki til á vandamálum sem þeim er við glímum við. Við komumst aðeins út úr vandanum með gífurlegri vinnu, sparsemi og ráðdeildarsemi.

Við sjálfstæðismenn stöndum jafnframt frammi fyrir því að kjósa okkur nýjan formann. Ég verð að viðurkenna að ég mun kjósa þann formann sem opnar á aðildarviðræður við ESB. Til þessa hefur aðeins Bjarni Benediktsson séð sér fært að gera slíkt. Ég á von á því að heyra afstöðu forystumanna flokksins til þessa máls og annarra mála á fundinum. Á sunnudaginn mun ég mun taka ákvörðun um hvaða forystu ég kýs flokknum mínum, hún mun verða vel ígrunduð!


mbl.is Evran komi í stað krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Megi fundurinn vera sem gæfuríkastur Guðbjörn minn en spenntur er ég að vita hvort hann Loftur nái kjöri til formanns flokksins.

Hilmar Gunnlaugsson, 26.3.2009 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband