Við borgum ekki - eru þjóðargjaldþrot eða nauðasamningar valkostur

Hagfræði

Ég er enginn hagspekingur og þótt ég og fleiri höfum bæst í hóp efasemdarmanna um hagspeki sem vísindagrein, þá er enginn annar kostur í boði en að treysta þeim hagfræðingum, sem eru í landinu. Eftir "ófyrirsjáanlega" hrunið síðastliðið haust, er ég þó tortryggnari í garð þessarar ágætu fræðigreinar en ég var.

Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur ritaði grein í Vísi 16. janúar 2009, Örþjóð á krossgötum, og bloggaði ég um hana í kjölfarið. Boðskapur bloggsins og greinarinnar voru efasemdir um burði okkar til að endurgreiða erlendar skuldir okkar. Ekkert hefur í raun enn komið fram, sem hefur breytt þessari skoðun minni.

Mér finnst þjóðin t.d. ekki hafa fengið svör við hvernig ríki og sveitarfélag ætla að greiða til baka skuldir, sem hafa rúmlega tvöfaldast. Einnig er ekki ljóst hvernig fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga - t.d. orkufyrirtækin - ætla að borga skuldir sínar til baka og endurfjármagna sig á þeim vöxtum, sem okkur verða boðnir á næstu árum? Vitanlega eru eignir á bak við skuldirnar, en þær eru sumpart í engu samræmi við skuldirnar. Það sem verra er, að endurgreiða verður skuldirnar meðan tekjustofnar ríkisins og sveitarfélaganna og fyrirtækjanna eru að stóru leyti brostnir eða mjög skertir. Endurgreiðsla lána ríkisfyrirtækja og sveitarfélaga var miðuð við óbreyttar eða auknar tekjur. Samkvæmt grein Haraldar var í raun um árabil ekkert samræmi í skuldaaukningu ríkisfyrirtækja og sveitarfélaga og raunaukningu á landsframleiðslu og útflutningstekjum og þar með auðvitað tekjum ríkis og sveitarfélaga.

GjaldeyrirVissulega höfum við enn lánin frá AGS, Norðurlöndunum og Póllandi sem varasjóð ef illa fer og getum því endurfjármagnað með þeim fjármunum, en þessu á þá einfaldlega að lýsa yfir. Styrkir það okkur ekki frekar en að skaða að þrátt fyrir allt séum við með aðgang að lánum til að greiða til baka afborganir af lánum eða endurfjármagna Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur eða Hitaveitu Suðurnesja. Eða er kannski alls ekki ætlunin að greiða fyrir hjá þessum fyrirtækjum, leyfir AGS það ekki? Vill AGS kannski að þessi dýrmætu fyrirtæki okkar - fjöreggin - hafni hjá erlendum lánadrottnum?

Árið 2004 voru allar erlendar skuldir okkar um tvöföld landsframleiðslan, en við hrunið í september 2008 var hún orðin áttföld landsframleiðslan og nær tvöfaldar útflutningstekjurnar. Þessar tölur eru reiknaðar á gamla genginu og því er ástandið nú í raun miklu verra. Ég spyr því eins og fávís maður: hvað hefur breyst síðan þessar tölur birtust í sláandi grein Haraldar L. Haraldssonar? Eru tölurnar rangar? Hafa þessar skuldir að einhverju leyti verið afskrifaðar? Hafa útflutningstekjurnar ekki lækkað með lækkuðu afurðaverði? Rambar stór hluti íslenskra fyrirtækja og heimila ekki á barmi gjaldþrots? Er staðan ekki - ef eitthvað er - verri en hún var í janúar?

Samkvæmt grein Haraldar gætu vextir af erlendum lánum núna verið í kringum 5%. Vaxtagreiðslurnar af ofangreindum lánum, og þeim sem við þurfum að taka vegna Icesave reikningana, gætu numið 120 - 150 milljörðum króna af útflutningstekjum sem hafa farið lækkandi. Hafi ég hef skilið grein Haraldar rétt, þá er ekki tekið tillit til afborgana af lánunum.

Steingrímur J. SigfússonÁ vikulegum blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar, 17. mars 2009, fór Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra yfir íslenskan þjóðarbúskap og ríkisfjármál í kynningu, sem hann kallaði Íslenskur þjóðarbúskapur og ríkisfjármál. Á netinu eru aðgengilegar mjög greinargóðar og skilmerkilega glærur á mannamáli um þetta málefni. Þar koma fram ýmsar upplýsingar, m.a. um erlenda stöðu þjóðarbúsins með og án gömlu bankanna. Steingrímur kynnir þarna samtölu skulda heimila, fyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga, sem hann segir vera í kringum 200% af vergri landsframleiðslu og segir hann AGS staðfesta þá tölu. Steingrímur segir erlendar skuldir gömlu bankanna vega þungt en að þær muni hverfa smám saman vegna eignasölu og afskrifta á skuldum. Hann segir "hreina skuldastöðu" vera lítillega jákvæða, hvað sem það nákvæmlega þýðir í ljósi allrar óvissu um raunverulegar eignir gömlu bankanna? Því má aldrei gleyma að enginn veit hversu háar skuldbindingar okkar eru gagnvart Icesave reikningunum, þ.e.a.s. hvað hvað fæst út úr eignunum. Ekki má gleyma að á meðan eignir gömlu bankanna ekki seljast, þurfum við að greiða vexti af lánunum, sem Bretar, Hollendingar og Þjóðverjar "góðfúslega" lögðu út fyrir "okkur" eða öllu heldur íslensku "einkabankana". Ekki er ólíklegt að allar erlendar eignir okkar nemi rúmlega 3.000 milljörðum (spurning hvaða gengi er tekið) og skuldirnar rúmlega 3.000 miljörðum króna, en þarna var og er enn um algjöra ágiskun að ræða.

SamningarÉg get ekki séð hvernig fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins - eða nokkrir aðrir - geta nú þegar svarað þeirri spurningu, hvort Íslendingar geti staðið undir skuldabyrði hins opinbera til langframa. Óvissuþættirnir eru að mínu mati enn of margir. Ennfremur er allsendis óvíst á hvaða vöxtum lánin bjóðast og hvernig afborgunum verður háttað, nema að búið sé að semja um þetta allt saman og landsmenn ekki fræddir um það, sem kæmi mér svo sem ekki á óvart.

Ég get hreinlega ekki samþykkt að við þurfum að ráðstaka 20-30% af okkar útflutningstekjum næstu 10-15 árin til að losna úr skuldafjötum, sem einkaaðilar komu okkur út í. Þótt ég geti samþykkt opinberan niðurskurð upp á 10-20% get ég ekki skrifað upp á að við þurfum að loka hér sjúkrahúsum og skólastofnunum og skera alla opinbera þjónustu niður, þannig að við endum eins og hvert annað Mið-Ameríkuríki og það til að greiða niður skuldir útrásarvíkinganna.

Að sjálfsögðu verðum við að standa við skuldbindingar ríkis og sveitarfélaga og fyrirtækja á þeirra vegum. Ég hafna hins vegar alfarið að ríkið axli ábyrgð á gjörðum einkafyrirtækja og velti því þess vegna hér að samfara - eða í kjölfar - aðildarviðræðna við ESB, verði farið í nauðasamninga við skuldunauta okkar.

Við getum ekki samþykkt að fulltrúar lánadrottna - AGS - skipi okkur alfarið fyrir verkjum, hvernig við högum okkar málum til lengri eða skemmri tíma. Ég segi því líkt Davíð Oddsson sagði í frægu viðtali í Kastljósi 7. október 2008, sem vakti mikla hneykslun margra: "... ætlum ekki að borga erlendar skuldir óreiðumanna". Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra tók að hluta til undir þessi orð nokkrum dögum síðar, 10. október 2008:

 

... ríkisstjórnin hefur ekki leyfi til að skuldbinda komandi kynslóðir Íslendinga um mörg hundruð milljarða. Ekkert samráð sé haft við Alþingi um samninga við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Ríkisstjórnin sé raunverulega umboðslaus til slíkra samninga.

LeiðtogiÖgmundur  bætti við að Íslendingar ættu að leggja niður fyrir sér hverjar séu lagalegar og þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslensku þjóðarinnar séu í þessu máli, þar væru uppi álitamál og engin opinber eða lýðræðisleg umræða hefði í raun farið fram um málið. Nú eru liðnir 8 mánuðir og þessi umræða hefur í raun ekki farið fram enn, alla vega ekki fyrir opnum tjöldum.

 

Við þurfum á alvöru leiðsögn að halda - alvöru ríkisstjórn, alvöru Alþingi, alvöru stjórnmálaflokkum og allt þarf þetta að vera leitt af alvöru leiðtogum með framtíðarsýn og markmið og þor og getu til að fylgja þessu á eftir.

Eftir þessu er mikil eftirspurn meðal þjóðarinnar en lítið framboð! 


mbl.is Ísland stendur undir skuldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þér algerlega sammála um, að það sé ekki eðlilegt , að almenningur á Íslandi eigi eða skuli borga skuldir einkafyrirtækja, eins og hinna einkavæddu banka útrásarvíkinganna. Ég held og tel, að við komumst ekki frá því samt, þessu er öllu stýrt nú þegar af Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum, þjóðin er semsagt ekki lengur fjárráða, það er málið! Við höfum alvöru ríkisstjórn og leiðtoga nú þegar, það er ekki vandinn. málið er, að vandinn er sennilega of stór og engum um að kenna þar, nema fyrri valdhöfum og útrásarvíkingunum sem misstu vitið! F Engels ritaði gamla Marx bréf árið 1847, þar sem hann fjallaði um Norðurlönd, þar með talið Ísland. Hann sagði að ef Íslendingur fyndi ekki lykt af úldnum fisk, missti hann vitið. Ætli það eigi þá ekki við útrásarvíkingana? Sennilega hefur engin af þeim nokkurn tíman ,"migið í saltann sjóinn!  

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 14:22

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðbjörn. það var ekki þessi ríkisstjórn sem kom okkur í vandann, en LÍÚ og hafrókjaftæðið hefur komið Íslandi í þessa stöðu.

Nú notar LÍÚ svikamyllan þjóðarauðinn sem hún stal frá heiðarlegu fólki til að auglýsa hversu slæm stjórnin er sem ætlar að leiðrétta þetta rán og svindl LÍÚ með því að reyna að koma með alls konar áburð á núverandi ríkisstjórn vegna þess að hún ætlar að vinna á móti stefnu krimmanna í LÍÚ og Hafró.

þannig búa þeir til múgæsing gegn þeim sem nú stjórna til að fá völdin aftur. Eg samgleðs innilega þeim sem geta núna farið út að fiska á eðlilegan hátt eins og hefði átt að vera hægt alla tíð en var stolið.

Að lokum mæli ég með að ef einhver vill mótmæla raunhæft eiga þeir að snúa sér að LÍÚ og Hafró þar sem þeir hafa sínar bækistöðvar en ekki þeim sem af heiðarleika og hugsjón vilja leiðrétta óréttlætið og fá til þess bara áburð um verkkvíða og annað í þeim dúr.

Hvar er stuðningur þjóðarinnar? Er hann í mótmælendum? Er það stuðningur? 

Verð að viðurkenna að hefði sjálf fengið verkkvíða fyrir að taka til eftir þetta stærsta  rán á Íslandi. það tekur á taugar heiðarlegs fólks að ráðast í svona hræðilegar en þó nauðsynlegar aðgerðir sem verða að koma til ef á að ná sér upp  úr þessu skuldafeni.

LÍÚ er alveg sama því þeir hafa ekki taugar eða tilfinningar fyrir neyðinni og því síður verkkvíða fyrir að láta fólk borga eins og nauðsynlegt er. þeir eru komnir í guðatölu að sínu mati og við bara ætlum að trúa því.

En ekki ég. 

Verðum að vona að rannsókn leiði í ljós hverja á að láta borga skaðann. En það tekur tíma og dómstóll götunnar hefur ekki gott orð á sér til réttlátrar niðurstöðu. þess vegna er ekki komin niðurstaða úr rannsókninni.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 29.5.2009 kl. 14:32

3 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Og Háskóla Íslands Anna Sigríður, hann útskrifaði Hagfræðinga og Lögfræðinga þá sem svo stjórnuðu og gáfu ráðin/óráðin, en eitthvað hefur kennslan farið forgörðum hjá Háskólanum.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 29.5.2009 kl. 15:21

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Friðjón:

Að mörgu leyti sammála þér, þ.e.a.s. öllu nema einhverjum tilvitnunum í bréfaskriftir Marx & Engels! 

Hringdu svo í mig fyrr en seinna!

Anna Sigríður:

Næ ekk þessum L.Í.Ú. vinkli.

Er og hef aldrei verið á þeirra mála og tala ekki þeirra máli í nokkru máli.

Hins vegar hef ég borið hagsmuni útgerðarmanna, sjómanna og annarra, sem draga fram líf sitt af sjávarfangi.

Margir gleyma því að heilu plássin úti á landi eru meira og minna sátt við kvótakerfið.

Aðalgallinn á kvótakerfinu er það virkar ekki hvað meginmarkmið þess varðar: friðun og uppbyggingu stofnanna.

Högni:

Ég get nú ekki tekið undir þessi rök þín  að bókvitið verði ekki í askana látið. Hverju eigum við okkar lífskjör í dag öðru að þakka en bókvitinu og harðduglegu fólki í bland.

Ég ætla ekki að reka fleyg á milli hinna vinnandi stétta, hvort sem fólk er háskólaborgarar eða ekki. Við þurfum öll hvort á öðru að halda! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.5.2009 kl. 16:02

5 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Guðbjörn! Við eigum harðduglegum vinnandi bændum,sjómönnum og verkamönnum og ekki síst harðduglegum húsmæðrum að þakka okkar lífskjör, en í dag eigum við hönk upp í bakið á Hagfræðingum og Lögfræðingum fyrir að spilla þeim lífsgæðum sem forfeður okkar voru búnir að koma upp.

Það er alveg rétt hjá þér Guðbjörn við þurfum hvert á öðru að halda og það er ekki Hagfræðingum að kenna að kennsla þeirra er handónýt þeir stóðust próf samkvæmt þeim fræðum sem kennt var eftir, fræðin eru bara byggð á röngum grunni, svo þegar kemur í ljós að enginn, hvorki úr stjórnsýslunni eða stjórnendum bankanna verða látnir svara til saka, hvort að lögfræðingar standa sig en þeir lærðu flestir af sömu fræðingum og koma því til með að sækja á vini sína og skólabræður og ekki síður að þá verða það einmitt vinir og skólabræður sem verjast, svo þá reynir á siðferðið enn einu sinni, enn siðferði og fræðin virðast ekki eiga samleið, hvorki í Háskólanum né lífinu yfirleitt.

Guðbjörn, Sjaldnast eru það þeir sem vinna með höndum sem valda gjaldþroti fyrirtækja oftar en ekki koma Hagfræði, Viðskipta og Lögfræðimenntaðir menn að því á einn eða annan hátt. Er það Háskólinn sem er að klikka ? Ég segi það já, en ekki síður erum það við samborgarar sem ekki getum lifað í sátt og samlyndi við allt og alla.

Enn það er rétt við verðum að slá á íllskuna sem er í gangi og átta okkur á því að við þurfum hvert á öðru að halda.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 29.5.2009 kl. 18:29

6 Smámynd: Björn Finnbogason

Flottur!  Nánast eins og talað úr mínum munni :-D  Skil samt ekki hvað fólk er að benda á sökudólga út um allt, staðan breytist ekki mikið við það.  Okkur vantar sárlega núna alvöru leiðtoga sem þora, vilja og geta, tekið af skarið.  Því miður endum við í ræsinu líklega áður en að því kemur, og verðum komin áratugi aftur í tímann þegar við loks náum einhverjum tökum á ástandinu. 

Björn Finnbogason, 29.5.2009 kl. 22:17

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

....leiðtoga sem þora, vilja og geta. Já, hvar er þá að finna á Íslandi í dag? Ég ætla að ganga fram af lesendum þessa bloggs og bið þig afsökunar Guðbjörn.

Ef ég ætti að benda á mann sem þorir, vill og getur þá kemur mér fyrstur í hug sá maður sem þessa dagana veldur mestum óróa í hjörtum okkar hreinhjartaðra.

Gunnar I. Birgisson !!

Ég ætla ekki að rökstyðja þetta neitt og játa að ekki er nú karlinn nein fyrirmynd svona í siðuðu samfélagi. En hann er trukkurinn sem þessa þjóð vantar.

Árni Gunnarsson, 29.5.2009 kl. 23:17

8 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Ágætar hugleiðingar hjá þér.

Hagfræði og peningafræði (money mechanics) er sitt hvor hluturinn.  Í öllum samfélögum manna og á öllum tímum eru viðskipti óhjákvæmilega sveipuð því sem kallast hagfræðileg lögmál.  Slík lögmál eru ekki sköpuð í reikniformúlum, heldur fremur í náttúrunni sjálfri - reikninformúlurnar reyna svo að líkja eftir þeim lögmálum.  Framboð og eftirspurn eru grundvallar áhrifaþættir í viðskiptum.

Sama gildir í raun um peninga, sem vöru á markaði.  En svo koma kúnstirnar inn í spilið!

Íslensk þjóð flaut sofandi að feigðarósi.  Við kjömsuðum á góðgætinu, töldum okkur best og klárust, en hugðum ekki að því sem var raunverulega að gerast.  Mikið rosalega vorum við í raun fátæk!  Tölurnar í bönkum útrásarvíkinganna endurspegluðu ekki raunveruleikann, heldur tilbúinn veruleika.  Við, sem þjóð og einstaklingar, hegðuðum okkur afar óskynsamlega.  Skuldsetning varð þjóðaríþrótt.  Við töluðum um góðæri.  En hversu gott er raunverulega í ári þegar neyslan er innistæðulaus?  Og ekki settum við í hlöðurnar þegar "vel áraði" til að undirbúa okkur undir mögru árin.  Það hefði þó raunveruleg hagfræði bent okkur á að gera.  hvers vegna voru t.d. skattar lækkaðir á fyrirtæki og suma einstaklinga þegar allt var í fúll sving?  Er ekki eðlilegra að skattar séu hærri þegar vel árar, en minni þegar illa árar, þ.e. að ríkið safni í hlöðurnar í góðæri, en útdeili úr hlöðunum í hallæri?

Það eru ljót orð, en sönn, að við skitum upp á bak, með súkkulaðivömbina útþanda!

Við eigum eftir að læra svo margt.  Peningar eru ekki allt - heldur siðgæði, ráðdeild og fyrirhyggja.

Margur verður af aurum api.

Núverandi ríkisstjórn er ekki öfundsverð af hlutverki sínu í ljósi stöðu þjóðarbúsins og samfélagsins.  Það eru engar skyndilausnir til.  Lausnin getur ekki falið í sér annað en erfiða tíma.  Og þar er síst við núverandi stjórnvöld að sakast!

Eina vonarljósið er í því fólgið að okkur takist að læra af atburðunum.  Að okkur takist að byggja upp siðaðra samfélag til framtíðar.

Eiríkur Sjóberg, 30.5.2009 kl. 08:08

9 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég sé að vinur minn Guðbjörn kvartar sáran undan óréttlætinu sem fylgir því að vera þvingaður til að borga skuldir annara.  Þetta finnst honum sárt og vill greinilega ekki sætta sig við.  En er þetta ekki bara það sama og þvinga fólk í ESB sem ekki vill vera þar.  Ég vill ekki borga skatta til ESB og taka við einkavæðingafrumvörpum frá framkvæmdastjórninni.  Það finnst mér óréttlæti og ósanngjarnt. 

Eiginlega er Guðbjörn að tala í kross í sínum málflutningi.  Ekki batnar það nú síðan þegar hann kvartar yfir því að íslenska ríkið geti ekki staðið undir ríkisútgjöldum vegna vaxtagreiðsla og þurfi að loka spítulum og skólum.  Gerir þú þér ekki grein fyrir því að nýjasta ESB tilskipunin takmarkar rétt íslenska ríkisins að reka skóla og spítala í samkeppni við einkaaðila!  Öll þjónusta og starfsemi skal vera boðin út hvort sem um er að ræða spítalarekstur eða jafnvel löggæslu þó í bili séu fyrirvarar og undanþágur um vissa þætti í ríkissrekstrinum.

Kannski er Guðbjörn harður frjálshyggjumaður og öll ríkisútgjöld af hinu vonda en hvernig Jóhanna getur leikið tveimur skjöldum án þess að nokkur finni að því er mér hulin ráðgáta.  ESB og grunnþjónustu íslenska ríkisins passa illa saman.  

Mín ráðlegging til Guðbjörns er bara að sætta sig við óréttlætið í heiminum og borga með bros á vör.  Alveg sérstaklega fyrst hann vill að ég gangi í ESB og brosi á sama tíma.  Njóttu þess svo innilega að borga skuldirnar hans Jóns Ásgeirs og Björgólfs með vinnunni þinni.  Ég skal síðan reyna að brosa þegar ESB tekur við stjórn landsins af AGS

Björn Heiðdal, 30.5.2009 kl. 09:55

10 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Högni Jóhann:

Mér sýnist við vera sammála í ýmsu!

Árni:

Gunnar Birgisson er öflugur maður, rétt er það og hann á að njóta vafans á meðan ekki er búið að fara ofan í hans mál og fjölskyldu hans.

En ekki lítur þetta vel út - hjálpi mér allir heilagir!

Eiríkur:

Sammála þér í einu og öllu og þó sérstaklega hvað þetta varðar:

Peningar eru ekki allt - heldur siðgæði, ráðdeild og fyrirhyggja. 

Björn:

Sem ungur maður var ég mikill frjálshyggjumaður og enn aðhyllist að markaðnum sé eftirlátið það sem markaðsins á að vera. Ég er þó langt frá því að vera einhver frjálshyggjumaður.

Ég kaus Sjálfstæðisflokkinn í síðustu stjórn, en sætti mig fullkomlega við þá staðreynd að þjóðin kaus til vinstri. Það er eðli lýðræðisins.

Ef við göngum í ESB verða andstæðingar aðildar á sama hátt að sætta sig við þá ákvörðun þjóðarinnar.

Ég mun ekki njóta þess að borgar skuldir óreiðumannanna, því það eru þeir og ekkert annað!

Við lentum í höndunum á ótýndum glæpamönnum! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 30.5.2009 kl. 10:14

11 Smámynd: Björn Heiðdal

Það er munur á ESB og íslenskum þingkosningum.  Má meirihlutinn þvinga þig til að gera eitthvað sem er andstætt þínum hagsmunum?  Hefur meirihlutinn alltaf rétt fyrir sér.  Þessi ESB umræða er í tómu bulli. 

Kosningar um ESB eru ekki eins og hverjar aðrar kosningar sem fara reglulega fram hér á landi!!!!!  Það má líkja þeim við kosningar sem snúast um að leggja niður kosningar til frambúðar og koma á konungsdæmi með erfðarétti.  Það er miklu nærtækari dæmi.

Kannski er meirihluti fyrir konungsdæmi hér á landi hver veit.  En ég vil ekki láta reyna á það ef ske kynni að konungurinn er glæpamaður og ég gamall óvinur.

Björn Heiðdal, 30.5.2009 kl. 10:48

12 identicon

Góð grein hjá þér.

Nú hefur uppgjör banka tekið mun lengri tíma en áætlað var.  Aftur og aftur hafa menn frestað uppgjöri og oftast borið við ákaflega "sérkennilegum" skýringum.

Á ÍNN í gær ræddi Ingvi Hrafn þessi mál við Tryggva Þór Herbertsson og ef rétt er hjá Tryggva Þór að ástæður fyrir frestun væru þær að skilanefndir banka væru komnar á "algjörar blindgötur" með uppgjörið og jafnvel í svo slæmum málum að endurvinna  þyrfti uppgjörsmálin, þá er nú staðan að verða "ískyggileg" hjá þjóðinni. 

Það eru greinilega "stór vandamál í gangi hjá skilanefndum" og vonandi að Tryggvi Þór hafi ekki rétt fyrir sér í þessum málum.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 10:58

13 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Þið erup kokhraustir Sjálfstæðismenn. Varst þú ekki í framboði fyrir þann flokk í síðustu kosningum eins og ekkert hefði herst? Voru þeir Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson aldrei með fingurna í landstjórninni. Er það til of mikils mælst að þið Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn sýnduð örlitla auðmýkt og jafnvel bæðust afsökunar á því að það voðuð þið sem steyptuð þjóðinni á þetta díki sem hún er í núna. Það er ömurlegt að sjá að þessir tveir flokkar halda að þeir séu lausir allra mála bara með því að skipta um foringja. Og hver var fyrsta ganga þíns nýja foringja Bjarna Benediktssonar önnur en sú að efna til einhvers mesta orðaþvættings og málþófs sem orðið hefur á Alþingi. Og hverjir hafa rottað sig saman núna til að koma í veg fyrir að við fáum að vita hvort það sé jákvætt eða neikvætt að ganga í Evrópusambandið? Eru það ekki þeir Bjarni Benediksson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, eru pólitísku tvíburarnir Davíð og Halldór gengnir aftur?

Núverandi ríkisstjórn verður örugglega ekki vinsæl af störfum sínum þegar hún verður að standa í því að moka flórinn eftir þá Davíð og Halldór. Þið Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn ættuð að sjá sóma ykkar í því að minnsta kosti vera ekki með skemmdarverk, jafnvel vinna jákvætt að endurreisninni.

Til hvers eru þessir tveir flokkar með fulltrúa á Alþingi?

Sigurður Grétar Guðmundsson, 30.5.2009 kl. 11:24

14 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðbjörn. LÍÚ vínkillinn segir þú. Bendi á sjónvarpsþátt á ÍNNTV þar sem Valdimar Ásgeirsson tekur viðtal við Jón Kristjánsson fiskifræðing.

það skýrir aðeins hvað ég á við. Marg glatað í háskólum la en ekki allt.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 30.5.2009 kl. 14:59

15 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Björn:

Já, er ESB erfðabundið konungveldi?

Ég bara veit ekki hvað ég á að segja og bið þig endilega að halda áfram að skrifa á þessum nótunum, því það hjálpar okkur sem viljum fara í viðræður við ESB.

Páll:

Já, ég er hræddur um að öll kurl séu ekki komin til grafar í þessu máli og þennan seinagang megi ekki aðeins rekja til embættismanna ríkisins, líkt og Steingrímur hefur verið að ýja að. Líklega vill hann hreinsa til í embættismannaliðinu til að koma sínum mönnum allsstaðar að!

Sigurður Grétar:

Jú, ég var í framboði í prófkjöri hjá Sjálfstæðisflokknum, þar sem ég lenti í 10. sæti af 17 og var síðan settur í 8. sæti af því 2 frambjóðendur hættu við framboð.

Ég er ekki einn af þessu þægu sjálfstæðismönnum, heldur einn af uppreisnarmönnunum á skútunni og það er því miður ekki vinsælt í mínum flokki. Þannig vildi ég gera breytingar á kvótakerfinu, gagngerar breytingar á stjórnarskránni, fara í aðildarviðræður við ESB, láta Davíð Oddsson hætta í Seðlabankanum og Jónas Fr. Jónsson hætta í Fjármálaeftirlitinu!

Margir sjálfstæðismenn segja mig kratabullu en það hef ég ekki samþykkt. Ég er hægri maður í húð og hár og enginn jafnaðarmaður. Ég trúi í grunninn á lýðræðið, hinn frjálsa markað, einstaklingsframtakið, að ríkisvaldinu séu setta ákveðnar skorður - bæði hvað umfang varðar og hvað afskipti afskipti af einstaklingum og atvinnulífinu varðar.

En líkt og Eiríkur Sjóberg hér að ofan - sem kýs VG - vil ég búa í þjóðfélagi þar sem siðgæði er í hávegum haft og ráðdeild og fyrirhyggja ráða ríkjum.

Í slíku ríki höfum við ekki búið sl. 5-7 ár og það er fullkomlega rétt hjá þér að ábyrgðina á því bera að stóru leyti þeir sem stjórnuðu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum og síðan auðvitað Samfylkingunni.

Ég er einnig sammála þér að ég var ekki stoltur af "mínum mönnum" í vor þegar þeir voru með málþóf í þinginu.

En þú, Páll, virðist líkt og aðrir flokksfélagar VG og Samfylkingar vera búnir að gleyma skipulögðu málþófi stjórnarandstöðunnar í umræðu um frumvarp til vatnalaga fyrir nokkrum árum. Þar fóru Vinstri græn í forystu í málþófinu og Samfylkingin tók einnig þátt í hringavitleysunni.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar héldu nokkurra klukkustunda ræður þar sem minnstur hluti tímans fór í að ræða efnisatriði málsins. Stjórnarandstöðuþingmenn mættu með bókasöfn sín í ræðustól og lásu upp úr þeim. Síðan eyddu þeir tíma í að lesa upp úr umsögnum um málið, lesa blaðagreinar og endurtaka þvaðrið hvor úr öðrum!

Þetta kölluðuð vinstri flokkarnir málefnalega umræðu og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir "samræðustjórnmál".

Ég fann neðangreinda tilvitnun á vef Ungra Vinstri Grænna:

 

Þar var sjónum beint frá mikilvægi þess að skoðanir minnihlutans eigi sem greiðastan aðgang að eyrum meirihlutans. Þess í stað var einblínt á málþóf. En málþóf - sem er afar sjaldgæft - er jafnframt mikilvægt aðhaldstæki minnihlutaflokka í þingstörfum víða um heim. Lýðræði snýst sem sé ekki eingöngu um að framkvæma vilja meirihlutans, heldur líka um að koma í veg fyrir að minnihlutinn sé kúgaður.


 

 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 30.5.2009 kl. 19:33

16 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég sé að Guðbjörn er duglegur að lesa og les hratt en það er óþarfi að gera mér upp skoðanir.  Ég var ekki að meina að ESB væri konungsdæmi!  Heldur var þetta tilbúna dæmi svar við þessu innleggi hérna frá þér.

Ég kaus Sjálfstæðisflokkinn í síðustu stjórn, en sætti mig fullkomlega við þá staðreynd að þjóðin kaus til vinstri. Það er eðli lýðræðisins.Ef við göngum í ESB verða andstæðingar aðildar á sama hátt að sætta sig við þá ákvörðun þjóðarinnar.

Hérna ertu að bera saman kosningar um ESB við venjulegar Alþingiskosningar ef ég skil þig rétt.  ESB er að mínu mati miklu stærra mál og snertir hagsmuni Íslands og mína til lengri tíma en venjulegar Alþingiskosningar! 

En endilega haltu áfram að gera lítið úr skoðunum þeirra sem ekki vilja ESB sæluna, þú kannski vinnur.

Björn Heiðdal, 30.5.2009 kl. 23:25

17 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Björn:

Hvernig öðruvísi en í þjóðaratkvæðagreiðslu er hægt að útkljá svo umdeilt mál sem ESB aðild er? 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 1.6.2009 kl. 09:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband