19.6.2009 | 21:53
Sovét-Ísland óskalandið hvenær kemur þú?
Sovét-Ísland
Sovét-Ísland
óskalandið
hvenær kemur þú?
Er nóttin ekki orðin nógu löng
þögnin nógu þung
þorstinn nógu sár
hungrið nógu hræðilegt
hatrið nógu grimmt?
Hvenær...?
(Jóhannes úr Kötlum: Samt mun ég vaka, 1935)
Loksins hefur ósk eða draumur frænda míns og dalamannsins, Jóhannesar úr Kötlum, ræst og byltingin hefur haldið innreið sína á Íslandi. Allt hefur þetta gerst án nokkurra teljandi blóðsúthellinga! Í stað þess að fyrsta skotinu væri hleypt af frá herskipinu Áróru í höfninni í Sankti Pétursborg, byrjaði áhlaupið hér á Íslandi með því að eggjum og tómötum var kastað í Alþingishúsið.
Íslenska fólkslögreglan - vinur litla mannsins (þ. Die Isländische Volkspolizei) - stóð aðeins hjá og sópaði saman ruslinu þegar uppreisnarhetjurnar fóru. Á Íslandi var enginn hvítur her, heldur aðeins rauður, og því gátu uppreisnarmennirnir lagt undir sig landið án nokkurrar teljandi mótspyrnu.
Í margar vikur hefur forsætisráðherra hamast á því, að enginn hjá ríkinu eigi að vera á hærri launum en 900 þúsund krónum á mánuði. Ekki er á Jóhönnu Sigurðardóttur að heyra að einhverjar undantekningar verði gerðar á þessari reglu, hvort heldur er um að ræða eftirsótta lækna með langt sérnám að baki, forstöðumenn ríkisstofnana, forstjóra ríkisfyrirtækja eða annarra fyrirtækja í opinberri eigu eða aðra embættismenn ríkisins. Ég á nefnilega fastlega von á því að það sama gildi um öll fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkisins, en gera má ráð fyrir því að stór hluti fyrirtækja á Íslandi verði kominn í hendur ríkisins áður en árið er liðið.
Ríkisstjórnin þurfti ekki að að senda rauðliðana sína inn í framleiðslufyrirtækin til að yfirtaka þau. Nei, eigendur fyrirtækjanna afhenda ríkisbönkunum lyklana að fyrirtækjunum án nokkurrar teljandi mótstöðu. Við, sem hlutum menntun okkar fyrir austan járntjald, bíðum spennt eftir samyrkjubúunum! Um nokkurn tíma hefur Vinstri stjórnin unnið að 4 ára áætlun sinni og bíður þjóðin spennt eftir henni.
Örlög starfsmanna þessara nýju "ríkisfyrirtækja" hljóta að vera þau sömu og annarra ríkisstarfsmanna eða laun upp á 150.000 kr, þótt forstjórar megi búast við launum allt af 899.000 kr!
Almenningur tekur eignaupptökunni ekki síður vel en eigendur framleiðslufyrirtækjanna. Lyklar af íbúðarhúsnæði streyma inn til ríkisbankanna, en fyrir gæsku ríkisvaldsins og okkar miklu, óskeikulu og dáðu leiðtoga fær þetta fólk þó að fá að búa í eigin húsum fyrst um sinn. Einn hvítliði á Álftanesi eyðilagði reyndar eigur ríkisins fyrir skömmu og hafa ríkisbankarnir miklar áhyggjur ef slíkir hlutir myndu stigmagnast og endurtaka sig. Hugsanlegt er að beita lögregluvaldi til að koma í veg fyrir slík skemmdarverk. Í þetta hús hvítliðans, sem var eyðilagt, hefði t.d. einhver barnmörg, fátæk verkamannafjölskylda getað flutt í, en út í þetta hugsaði ekki þessi óvinur hinna vinnandi stétta (þ. Klassenfeind).
Ég bíð nú spenntur eftir næstu yfirlýsingu Vinstri stjórnarinnar. Hugsanlega mun næsta yfirlýsing fela í sér, að enginn beri meira úr bítum en venjulegur verkamaður (varla sjómaður). Læknar, hjúkrunarfræðingar, kennarar og aðrir menntamenn eða fólk í vinnu hjá fyrirtækjum ríkisins verður að sætta sig við afleiðingar byltingarinnar, enda var þessi sama borgarastétt menntuð á kostnað hinna vinnandi stétta, verkafólksins og sjómannanna.
Reyndar þurfum við menntafólkið að borga hverja einustu krónu verðtryggða til baka og með vöxtum, sem við þáðum í námslán og það án þess að vera á einhverjum sérstaklega háum launum. Mennt er máttur á Íslandi, en við Íslendingar höfum hins vegar ekki breytt þeirri skoðun okkar, að "bókvitið verður ekki í askana látið" og aldrei höfum við borgað íslensku menntafólki, sem vinnur hjá ríkinu, mannsæmandi laun, líkt og gerist annarsstaðar í heiminum.
Það sama hlýtur að gilda um alla starfsmenn ríkisins, hvort sem þá er að finna í ríkisbönkunum, fyrirtækjum sem nú þegar eru í eigu ríkisins, eða þau sem lenda í eigu ríkisins á næstunni.
Hvað gerist með þau útgerðarfyrirtæki, sem eru svo heppin að sleppa úr gráðugum krumlum kapítalistanna í opinn náðarfaðm ríkisins? Verða þeir sjómenn, sem þar vinna, með 150 - 399.000 kr á mánuði og skipstjórinn þá hugsanlega með 899.000 kr?
Ekki vilja menn segja okkur, þessum 9000 kjánum, sem unnum fyrir ríkið í góðærinu og létum hafa okkur að fífli á 50-200 % lægri launum en annað fólk með svipaða menntun í þjóðfélaginu, að eitt eigi að gilda um okkur en annað það fólk, sem vinnur hjá öðrum "ríkisfyrirtækjum"?
Lausnin á vandamálinu er auðsjáanlega að allir Íslendingar, sem starfa vegum ríkisins (vítt hugtak í dag), verði með 150.000 - 900.000 krónur í mánaðarlaun, en allt annað eru auðsjáanlega ofurlaun!
Nú, þegar nær öll fyrirtæki landsins eru á vegum ríkisins, hljótum við ríkisstarfsmenn að gera kröfu um að eitt gildi um alla "starfsmenn ríkisins":
- Almennir ómenntaðir starfsmenn verði þannig með þetta á bilinu 150.000 - 249.000.
- Háskólamenn og aðrir sérfræðingar án mannaforráða eða sérstakrar ábyrgðar verði með þetta á bilinu 250 - 399.000 - allt eftir menntun og ábyrgð o.s.frv.
- Millistjórnendur í öllum fyrirtækjum á vegum ríkisins verði með 400 - 699.000 - allt eftir menntun og ábyrgð.
- Forstöðumenn, forstjórar allra fyrirtækja í landinu og aðrir háir embættismenn með þetta 700 - 900.000 kr
Með þessu móti verða allir ánægðir, eða er það ekki annars?
- Mynd tekin er Rauði herinn hertók Berlín
- Plakat frá uppreisninni á Potemkin
- Plakat frá uppreisninni á Potemkin
- Iðnaðarmaður við störf hjá ríkisfyrirtæki í Austurþýska alþýðulýðveldinu
- Verkfræðingur við störf hjá ríkisfyrirtæki í Austuþýska alþýðulýðveldinu
- Tollvörður við störf í Austurþýska alþýðulýðveldinu
ÖBÍ: Siðlaus tekjulækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.6.2009 kl. 01:43 | Facebook
Athugasemdir
Flottar myndir vildi sjálfur eignast svona plaköt.
Hörður Halldórsson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 22:15
page { margin: 2cm } P { margin-bottom: 0.21cm } -->
Sér hver jafnaðarmaður vill jafnalaun,
öðrum, en sér til handa.
Setja svo heima og safna auð,
sjálfum sér til handa.
Svig.
Kv.Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 19.6.2009 kl. 22:30
Hörður:
Tók tímana tvo að finna þetta og ég þakka það BA prófinu og 2 ára dvöl í Austu-Þýskalandi.
Rauða ljónið:
Gaman að fá athugasemd frá þér aftur!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.6.2009 kl. 22:36
: )
Heldur geyst finnst mér þú fara í þessum pistli!
Eiríkur Sjóberg, 20.6.2009 kl. 01:02
Eiríkur:
Já, finnst þér það!
Það finnst mér alls ekki!
Tónninn í ríkisstjórninni er allur á einn veg!
Þú mátt ekki gleyma að stór hluti fyrirtækja verður kominn í eigu ríkisins í lok árins. Í dag erum við með millistjórnendur í bönkunum, sem eru með um 900.000 og ég veit að fjármálastjórar í venjulegum fyrirtækjum voru með þett 700.000 - 1.000.000 á mánuði.
Nú lenda þessi fyrirtæki annaðhvort nú þegar í höndum ríksins eða að lenda í höndum þess og er það þá ekki eðlilega krafa okkar ríkisstarfsmanna að þau fái sömu laun og yfirmenn hjá ríkinu, ég bara spyr?
Hvaða munur er t.d. að vera yfirmaður hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum eða yfir útibúinu hjá Kaupþing hérna niður í bæ?
Bæði "fyrirtæki" eru í eign ríkisins og hvaða ábyrgð ber eða bar þetta fólk í bönkunum eða annarsstaðar í fyrirtækjarekstri á Íslandi?
Þessarar spurningar þarf maður að spyrja sig!
Auðvitað er ég aðeins að "stílfæra", en undirtónninn hjá mér er virkilega meintur á þennan hátt
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 01:12
Eiríkur:
Þetta er ekki illa meint gagnvart lögreglunni, sem stóð sig frábærlega í vetur. Ég veit nákvæmlega hvaða skipanir hún fékk um að halda sig til baka, til að þetta stigmagnaðist ekki.
Það sem lögreglan athugaði ekki - og á eftir að koma betur í ljós - að með þessu var vissri lögleysu leyft að grassera.
Lögreglan í Þýskalandi hefði aldrei leyft fólki að komast svona nálægt þinghúsinu eða "leyft" fólkinu að kasta í þingið eggjum, tómötum, grjóti, klifra upp á þinghúsið og ata stjórnarráðið í rauðum lit o.s.frv.
Allsstaðar í Vestur-Evrópu hefðu yfirvöld gripið til aðgerða gegn þessu uppreisnarfólki. Hér fékk þetta lið að vaða uppi.
Ég á þarna ekki við friðsamlega fundi Harðar Torfasonar og annarra, sem voru til mikillar fyrirmyndar, heldur óeirðaseggi þá sem voru með skemmdarverk og veittust að þingmönnum og ráðherrum!
Slíkt á ekki að líða - aldrei!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 01:18
Fólk sem ekki kann að skammast sín hefur auðvitað leyfi til að fá einn á lúðurinn. Vonandi ertu ekki að mæla með friðhelgi þjónustuliða auðvaldsins?
Björn Heiðdal, 20.6.2009 kl. 08:19
Björn:
Ég hef það fram yfir ykkur flest að ég bjó í Austurþýska alþýðulýðveldinu í 1 ár og þekki því vel til slíkra stjórnunarhátta.
Við opinberir starfsmenn vitur að við erum þjónustuliðar hinna vinnandi stétta í landinu og eigum að halda kjafti!
Ég held þú hafir ekki áttað þið á því, en með því að koma ekki fyrirtækjum og heimilum til hjálpar er þessi Vinstri stjórn að slá 2 flugur í einu höggi. Hún gengur að auðvaldinu í landinu dauðu - þeir fara allir á hausinn - og sama má segja um flestar eignir almennings. Með lækkun launa, hækkun verðtryggðra lána og myntkörfulána eru fjölskyldurnar í landinu nefnilega líka farnar á hausinn og missa allt sitt. Staðreynd er að hér er um stærstu eignaupptöku í íslenskri sögu og enginn segir neitt! Niðurstaðan verður nefnilega bráðum, að ríkið á allt: fyrirtækin og heimilin.
Og á þessum rústum er hægt að byggja ný "jafnaðarmanna" Ísland og ég veit að þetta er draumur þeirra sem nú sitja í ríkisstjórn!
Það verður gefið upp á nýtt og stjórnir verkalýðs- og stéttarfélaga sitja hjá og segja ekki neitt, enda mest af þessu fólki hlynnt núverandi stjórnvöldum og aðhyllist þeirra trúarbrögð!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 10:32
Sé að ég gerði vitleysu varðandi samyrkjubúin. Með búvörusamningunum, beingreiðslunum o.s.frv. eru bændur auðvitað einnig opinberir starfsmenn! Ég veit að þeir eru nýbúnir að gera samning. Spurning hvort hann var skorinn niður um 20-25%?
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 10:34
Fann þetta á netinu um niðurskurð hjá bændum og helstu breytingarnar á búvörusamningunum voru þessar:
Árið 2011 hækki framlög aftur um 2%, en auk þess bætist við helmingur af því sem upp á vantar til að framlag ársins uppfylli ákvæði gildandi samnings. Þó verði hækkun milli ára ekki umfram 5%.
Árið 2012 verði greitt samkvæmt gildandi samningi, en þó með fyrirvara um 5% hámarkshækkun eins og árið 2011.
Allir samningarnir verði framlengdir um tvö ár, að mestu á óbreyttum forsendum.
Opinberir starfsmenn hefðu vel getað sætt sig við skerðinguna sem sjá má hér að ofan. Það er ekki sama hvort maður vinnur hjá ríkinu og er meðlimur í Bændasamtökunum eða er félagi í BSRB, BHM eða KÍ!
Það hefur aldrei verið sama á Íslandi, hvort maður er Jón eða séra Jón!
VG og Samfylkingin telja sig vera að verja sína kjósendur dyggilega!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 10:41
Guðbjörn. Þegar þú talar um laun, ertu þá að tala um heildarlaun ? Eða ertu þarna að miða við grunnlaun ?
Karl Gauti Hjaltason, 20.6.2009 kl. 11:23
Þakka þér fyrir að deila ljóði Jóhannesar úr Kötlum á síðu minni
Halldór Sigurðsson, 20.6.2009 kl. 11:29
En hvað um arðinn af fiskimiðunum s.l. 20 ár og verðmætin sem búið er að soga út úr öllum Íslenskum fyrirtækjum og ránsfeng fyrrum eigenda bankanna og hagnaðinn af stýrivaxtaokrinu sem fáir Íslendingar fá í gegnum Evrópska banka.
Hvers vegna voru þessir peningar ekki frystir, hvers vegna er ekki náð í þá?
Kannski af sömu ástæðu og ekki er farið að kröfum Evu Joly um glæparannsóknina. Ljóst er ríkisstjórnin ætlar ekki að skipta út ríkissaksóknara. Ég get ekki séð að ríkisstjórnin sé að stjórna þessu landi. Það eru greinilega einhverjir valdameiri aðilar sem halda um stjórnartaumana, ráða því sem þeir ætla sér að ráða. Ég leifi mér að kalla þessa aðila Mafíu.
Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 11:41
Karl Gauti:
Mér sýnist að allt stefni í að grunnlaun hjá ríkinu verði heildarlaun!
Halldór:
Hluti af endurmenntun hjá þjóðinni að setja sig inn í þennan kveðskap!
Þetta er það sem koma skal - enginn vafi á því!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 11:43
Þetta styður enn frekar mína „teóríu um málið"!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 11:46
Æðislegur pistill Guðbjörn. Ætla að venja komu mína hingað á bloggið þitt.
Gulli (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 12:19
Sæll Guðbjörn,
Vandaður pistill sem vekur mann til umhugsunar, eins og honum er ætlað. Vel skrifaður og vel meintur en vissulega ýktur (í dag alla vega!). Þurfum að sjá heildarmyndina og þróunina til að varast slysin, sammála því.
Það sem gerir okkur frjálslyndum skoðanabræðrum þínum erfitt fyrir er að þeir sem við treystum í stjórnmálum og viðskiptalífi brugðust illilega því trausti sem þeim var trúað fyrir. Því miður hafa margir þessara aðila ekki ennþá vikið úr framvarðarsveitinni og axlað sína ábyrgð. Það þarf að byggja upp trúverðugleika með nýju fólki og nýjum viðmiðum með klassískri sjálfstæðisstefnu. Fyrr verður ekki hægt að hefja uppbygginguna - fyrr náum við ekki vopnum okkar að nýju. Og vel að merkja Guðbjörn - Við gerum það ekki með inngöngu í ESB! Það er ekki í anda sjálfstæðisstefnunnar. Vegsemd kemur ekki að utan. Við verðum að trúa og treysta á okkur sjálf fyrst og fremst.
Jón Baldur Lorange, 20.6.2009 kl. 12:42
Lág laun ríkisstarfsmanna og prósentureikningurinn?
"þessum 9000 kjánum, sem unnum fyrir ríkið í góðærinu og létum hafa okkur að fífli á 50-200 % lægri launum en annað fólk með svipaða menntun í þjóðfélaginu, að eitt eigi að gilda um okkur en annað það fólk, sem vinnur hjá öðrum "ríkisfyrirtækjum"? "
jamm- varla trúi ég að GG hafi verið með 200% lægri laun en ímyndaður kollegi í einkabransanum- fæ eiginlega alls ekki neina útkomu úr dæminu nema hann hafi greitt með sé í vinnunni. Vonandi er eitthvað annað bitastætt í greininn.
EJ
Eiríkur (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 13:28
Jón Baldur:
Ekkert gaman af svona „satírískum" pistlum nema að þeir séu ýktir!
Ef við hefðum sagt Rússum árið 1917 hvernig Sovétríkin myndu þróast hefðu þeir hlegið að okkur og ef við hefðum sagt Íslendingum árið 2006 eða 2007 hvernig málin myndu þróast hefðu einnig hlegið að okkur!
Já, okkar menn í viðskiptalífinu og stjórnmálum brugðust illilega, satt er það! Það versta er að í raun stjórna sömu öfl Sjálfstæðisflokknum og gerðu það og ég er hræddur um að sömu menn muni sölsa undir sig viðskiptalífinu að nýju!
Ég er til í að taka þátt í nýrri uppbyggingu með nýju fólki og nýjum viðmiðum, en er Sjálfstæðisflokkurinn til í það?
Sjálfstæðisstefnan þarf einnig endurnýjunar við og hluti þeirrar endurnýjunar felst í nýrri afstöðu til Evrópusambandsins og ég veit að þarna greinir okkur á! Stór hluti endurnýjunar sjálfstæðisstefnunnar er við verðum að endurnýja siðfræði flokksins og útrýma þeirri spillingu, valdhroka, óbilgirninni, valdníðslu, siðleysi, skoðanakúgun, klíkuveldi og ættdrægni, sem einkennt hefur flokkinn undanfarin ár.
Til að endurvekja traust þjóðarinnar á hægri stefnu þarf að moka flórinn og það þarf að gerast hratt!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 13:42
Þökkum SjálfstæðisFLokknum fyrir það að vera komin í þessa stöðu fátæktar.
Margrét Sigurðardóttir, 20.6.2009 kl. 13:54
Margrét:
Já, því miður stóðu ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og Samfylkingar sig illa undanfarin 5-6 ár, því er ekki að neita. Eftirlitsstofnanir klikkuðu illa og sömu sögu er að segja um löggjafarvaldið. Landið er ein efnahagsleg rúst.
Nú ríður á að réttar ákvarðanir séu teknar og þær ákvarðanir, sem þessi ríkisstjórn er að taka eru að stærstum hluta ekki réttar. Við stefnum í kolranga átt!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 14:06
Víðir:
Þín athugasemd fór algjörlega fram hjá mér, líklega af því að ég var að svara á sama tíma og þú skrifaðir þína!
Ég er algjörlega sammála þér. Til að sátt náist í þjóðfélaginu þarf að útkljá þessa rannsókn á útrásarmálunum sem allra fyrst. Ná í þýfið til útlanda hvað sem það kostar!
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem maður hefur það á tilfinningunni að aðrir en ríkisstjórnin stjórni hér á bak við tjöldin!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 14:22
Vildi fólk vera svo vænt að hætta að tala um klúður og mistök. Eftirlitsstofnanir og löggjafarvaldið klikkuði ekki heldur tóku þátt í þessum þjófnaði með bros a vör. Þorgerður Katrín, Guðlaugur Þór, Steinun Valdís, Björn Ingi eru nöfn sem koma strax upp í huga. Allt fólk með völd og áhrif sem létu peninga og vinagreiða ganga fyrir almanahagsmunum.
Björn Heiðdal, 20.6.2009 kl. 18:22
Björn:
Þetta er í raun rétt hjá þér, Björn!
Ég vona svo sannarlega að allt - og þá meina ég allt - komi upp á borðið þegar þessi mál verða rannsökuð að fullu og skýrslu skilað um málið!
Ég hef hreina samvisku. Ég hef aðeins einu sinni átt hlutabréf og það var þegar ég erfði einhverja tugi þúsunda króna eftir Guðrúnu frænku mína, en ég seldi bréfin árið 1986, þegar ég fór í söngnám til Austur-Þýskalands!
Kaupmáttur vesturþýskra marka var gífurlegur í Austurþýska alþýðulýðveldinu - DDR.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 18:53
Það er nú fallega gert af sjáfstæðismönnum að gefa góð ráð eftir að þeir komu landinu á hausinn.
Sigurður Þórðarson, 20.6.2009 kl. 18:56
Sigurður Þórðarson:
Ég kannast ekki við að hafa komið þessu landi á hausinn og ég held að Jón Baldur Lorange sé einnig alsaklaus að því - ef þú átt við okkur tvo?
Það er vissulega slæmt að Sjálfstæðisflokkurinn ber að nokkru leyti stóra ábyrgð á þessu hruni, t.d. með flotgengisstefnunni og með gjörsamlega misheppnaðri einkavinavæðingu á bönkunum, auk misheppnaðrar hagstjórnar á undanförum 5-6 árum auk þess sem þeir báru í raun fulla ábyrgð á mistökum embættismanna í Fjármálaeftirlitinu og Fjármálaráðuneytinu. Ég var nú einn af þeim fyrstu, sem viðurkenndu þetta og mæltu fyrir því að Davíð og Jónas Fr. hyrfu frá störfum, auk þess sem ég lagði á ráðin innan Sjálfstæðisflokksins að Geir myndi hætta og Bjarni taka við völdum. Ég er fylgjandi ESB og yfirleitt frekar uppreisnargjarn sjálfstæðismaður, svo sem lesendur þessar bloggsíðu vita!
Höfuðábyrgðin á hruninu hvílir hins vegar á stjórnendum bankanna og útrásarvíkingunum. Þetta staðfesti hinn sænski bankasérfræðingur Mats Josefsson og finnski bankaeftirlitsmaðurinn, Kaarlo Jännäri. Hvorugur þeirra er - svo mikið sem ég veit - sjálfstæðimaður!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 19:25
Gaman af þessum pistli Guðbjörn. Ég hlustaði á fínan fyrirlestur um áróðurspjöld Sovétmanna og þá hversu konstrúktivisminn var varpað fyrir borða þegar Stalín komst til valda. En plaggatið sem auglýsir mynd Sergej Eisenstein Battleship Potemkin er meiriháttar. En síðan hallaði undan, á fleiri stöðum en á auglýsingastofunni.
kveðja
Andrés Kristjánsson, 20.6.2009 kl. 20:59
Guðbjörn, vandaður pistill hjá þér. Það er einmitt á svona tímum sem þarf að móta stefnu, og við þær aðstæður sem nú eru, þarf að vanda sig ef vel á að fara. Ef þessi ríkisstjórn ætlar að verja ríkiskerfið á kostað lítilla og miðlungsstórra fyrirtækja er framtíðin ekki björt hérlendis. Við verðum þá bara að skella okkur til Þýskalands.
Sigurður Þorsteinsson, 20.6.2009 kl. 21:57
Er landsvirkjun miðlungsstórt fyritæki?
Andrés Kristjánsson, 20.6.2009 kl. 22:00
Andrés:
Já, því miður voru þessir tímar liðnir þegar ég fór til Austur-Þýskalands. Þeir voru hins vegar með frábærar sinfóníuhljómsveitir, leikhús og óperuhús! Kvikmyndagerðin var að miklu leyti einnig athyglisverð, en því miður mjög ritskoðuð!
Auglýsingar voru hræðilega þegar komið var að lokum kommúnismans. Það staðnaði allt í þessum þjóðfélögum, vantaði alla dýnamík. Það er einmitt þessi stöðnum, sem ég óttast. Stöðnun í hugsunarhætti og þá jafnframt í atvinnulífinu og listinni.
Sigurður:
Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að hagræða um 50-70 milljarða í ríkisrekstri, en afganginn 100 milljarða verðum við að ná með hærri sköttum, en þó fyrst og fremst með því að auka tekjur ríkisins að nýju. Það er tekjufallið en ekki aukinn kostnaður, sem er að fara með ríkisfjármálin.
Auknar skattaálögur og of mikill niðurskurður í framkvæmdum og launum er að mínu mati ekki rétt lausnin.
Við þurfum að koma hjólum atvinnulífsins af stað, fólk þarf að fá vinnu, borga skatta o.s.frv.
Við leysum ekki þetta vandamála með því að minnka kökuna, heldur stækka hana að nýju og auka útflutning og um þetta eiga aðgerðir ríkisstjórnarinnar að snúast!
Ég er þeirrar skoðunar að ef lækka á launin hjá öllum hjá ríkinu og ríkisfyrirtækjum þá munum við missa mikið af fólki úr landi og það verður "alvöru" fólk, sem á séns annarsstaðar.
Já, hversvegna ekki aftur til Þýskalands? Ég hræðist það ekki, enda hef ég allsstaðar spjarað mig vel! Ich freue mich schon darauf!
Andrés:
Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavík og Hitaveita Suðurnesja er með fólk innanborðs, sem við þurfum á að halda til að koma okkur út þessari kreppu. Þeir eru ekkert síður mikilvægir en læknarinir, en það gera VG sér ekki grein fyrir enda hafa þeir ekki áhuga á þeim lausnum sem við þurfum á að halda.
Við þurfum að virkja og nýta okkar auðlindir, því það er það eina sem við eigum og eina vonin "... um dem Schlamassel zu entkommen!"
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 22:17
Þetta er nú samt alveg skuggalega vel ort ljóð ef horft er burt frá "sovét-ísland" sem ekki hefur elst sérlega vel sem kunnugt er.
Arhygllisverð hvað hann telur eftirsóknarvert eins og kemur fram í upphafi annars erindi:
"Hvenær kemurðu, lýðviljans land,
með ljóma strætanna,
hljómfall vélanna"
...
En endir kvæðisins er alveg snilld:
"...En hvort sem þú vilt eða ekki,
kemur það nær og nær,
þetta, sem grætur blóði,
þangað til upp úr rauðum sporunum
grær
líf, sem ljómar og hlær.-
Þó það kæmi ekki í gær,
þó það komi ekki í dag,
það kemur - - -
Á morgun?
Hvenær? Hvenær?"
En það kom aldrei.
http://ornulfar.blogspot.com/2008/10/sovt-sland-komi.html
Ómar Bjarki Kristjánsson, 20.6.2009 kl. 22:50
Ómar Bjarki:
Jóhannes úr Kötlum er eitt mesta skáld, sem þessi þjóð hefur alið af sér - hvorki meira eða minna!
Maðurinn var snillingur og ég er mjög stoltur af því að hann var náfrændi minn, en afi minn og hann voru bræðrasynir!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 20.6.2009 kl. 23:08
Þú ert að verða einn af mínum uppáhalds pistla höfundum!
Vandaðir, skemmtilegir og vel uppbyggðir pistlar sem koma því vel til skila sem þú hefur fram að færa. Held ég verði að taka undir með þér nánast í einu og öllu.
Hlakka til að lesa næstu færslu.
Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 15:47
Eggert:
Þakka hólið!
Það er mjög gaman að þessu, þegar andinn kemur yfir mann!
Ef ég nenni ekki, þá læt ég þetta vera í nokkra daga!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.6.2009 kl. 20:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.