Versalasamningurinn – lærum af sögunni

Undirritun í Versalahöllinni

Hermenn í heimsstyrjöldinni fyrriFriðarsamningurinn frá Versailles var undirritaður 28. júní 1919 og þannig endaði formlega heimsstyrjöldin fyrri, þótt vopnahléið í Compiègne 11. nóvember 1918 hafi í raun endað öll stríðsátök. Versalasamningurinn tók gildi 10. janúar 1920 eftir að þing allra ríkja samningsins, nema Bandaríkjanna, höfðu staðfest hann og skipst hafði verið á undirrituðum eintökum.

Við lítum oft til Versalasamninganna og gleymum, að þótt stærsti og örlagaríkasti samningurinn hafi verið við Þýskaland, þá voru einnig gerðir samningar við Ungverjaland (Trianon samningurinn við Ungverjaland), Austurríki (St. Germain samningurinn), Búlgaríu (Neuilly-sur-Seine samninginn við Búlgaríu) og Tyrkland (Sèvres samninginn við Osmaníska ríkið). Niðurstaða samningaviðræðnanna var að Þýskaland og bandamenn þess bæru fulla ábyrgð á að stríð breiddist út í Evrópu og lagði þær skyldur á stríðsaðila, að þeir þyrftu að borga sigurveldunum með stórum landspildum og gífurlegum skaðabótagreiðslum.

Eitt af því sem var mest einkennandi fyrir Versalasamninginn var að engar eiginlegar viðræður fóru fram á milli sigurveldanna og Þýskalands og bandamanna þess. Sigurveldin hittust aðeins og ákváðu í sameiningu hversu mikið Þýskaland og bandamenn áttu að greiða í stríðsskaðabætur. Einungis var skipst á minnisblöðum (þ. Memorandum) við hin sigruðu ríki og drög að samningi voru síðan lögð fyrir þær 7. maí 1919. Þýska sendinefndin neitaði að skrifa undir samninginn og krafðist mildari niðurstöðu og að fá að setjast við samningaborðið. Engin breyting varð á samningatækninni og engar viðræður fóru fram, heldur var skipst á skriflegum sendiboðum. Sigurveldin sögðust ekki samþykkja neinar breytingar á samningnum og hótuðu Þjóðverjum að þeir hertækju landið að öðrum kosti, en fylkingar hermanna bandamanna stóðu tilbúnar við Rínarfljótið. Ein af fáum breytingum, sem gerðar voru var að íbúum Efri-Slesíu (þ. Oberschlesien – hluti Póllands í dag) var leyfð þjóðaratkvæðagreiðsla um sín örlög. Þann 12. maí 1919 skýrði Philipp Scheidemann ríkiskanslari stöðu Þýskalands með þessum fleygu orðum á þjóðþinginu í Weimar: „Hvaða hönd myndi ekki visna, sem hneppti sig og okkur í slíka fjötra?”, sem hljómar svo á þýsku: „Welche Hand müsste nicht verdorren, die sich und uns in solche Fesseln legte?“. 

Undir þeim þrýstingi, sem þingið var vegna hótana um innrás sigurveldanna, staðfesti þingið samninginn 23. júní 1919 eða fyrir því sem næst 90 árum upp á dag með 257 atkvæðum gegn 138. Flokksfélagi Scheidemanns og eftirmaður sagði við þetta tækifæri: 

„Við stöndum hér af skyldurækni vitandi vits, að það er skyldukvöð okkar að bjarga því sem bjargað verður […]. Þegar ríkisstjórnin […] undirritar þetta samkomulag með fyrirvara, þá undirstrikar hún, að hún vill með þessari ákvörðun sinni forðast valdbeitingu, sem með nýrri styrjöld gæti leitt ótrúlegar hörmungar yfir þýsku þjóðina, með hernámi yrði landinu skipt upp, konur og börn yrðu hungri að bráð, auk þess sem þýskum herföngum yrði ekki sleppt úr haldi“. 

Það voru á endanum Hermann Müller utanríkisráðherra (SPD/Þýskir sósíaldemókratar) og Johannes Bell samgönguráðherra (Zentrum/Miðjuflokkurinn, ekki lengur til staðar á þingi), sem undirrituðu samninginn við mótmæli viðstaddra þann 28. Juni 1919. Rétt er að benda á, að sendinefnd Bandaríkjanna, mikilvægasta sigurveldisins, undirritaði samninginn fyrst af öllum, en hann var aldrei staðfestur af þinginu og því kröfðust Bandaríkjamenn aldrei neinna skaðabóta af Þjóðverjum.

Ég ætla ekki að eyða tíma lesenda að útlista í smáatriðum hver áhersluatriði hvers ríkis fyrir sig voru, enda hægt að nálgast þær upplýsingar á veraldarvefnum. Þó er rétt að benda á að það voru Frakkland, Belgía og Þýskaland, sem höfðu orðið fyrir mestum stríðskaða í fyrri heimsstyrjöldinni. Mig langar í stuttu máli að minnast á afstöðu Frakklands, Bretlands og Bandaríkjanna, því það varpar góðu ljósi á þjóðirnar þrjár og sýnir vel sérstöðu Breta og Frakka þegar að slíkum málum kemur.

Stríðsskaðabætur Þjóðverja

Samlíking Icesave samningsins við Versalasamninginn svokallaða er í raun mjög góð, því að í þeim samningi var eitt aðalatriðið að Þjóðverjar lýstu yfir allri ábyrgð á fyrri heimsstyrjöldinni (þ. Kriegsschuldartikel 231). Einnig var hin endanlega upphæð og tímarammi skaðabótagreiðslnanna eða hámarksupphæð ekki festur niður í Versalasamningnum frekar en í Icesave samkomulaginu.

Skaðabótanefndin (þ. Reparationskommission) hafði með höndum eftirlit með greiðslugetu Þjóðverja og ákvað í framhaldi hversu háar bætur Þýskaland ætti að borga árlega. Segja má að lækkun, frestun og endalok Versalasamninganna hafi verið aðalmarkmið þýskra utanríkismála allt frá því að samningarnir tóku gildi í byrjun janúar árið 1920 til ársins 1932, þegar að málamiðlun náðist um málið í Lausanne í Sviss. Síðustu greiðslur vegna Versalasamningsins verða á næsta ári, á því herrans ári 2010, 90 árum eftir undirritun Versalasamninganna.

Ef litið er til söguskýringa nútímans má segja að fræðimenn séu almennt ásáttir um að stríðsskaðabætur Þjóðverja vegna Versalasamningsins hafi út af fyrir sig ekki verið hindrun við uppbyggingu efnahagslífsins Þýskalands í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar og það ekki einu sinni meðan á erfiðleikum Weimar-lýðveldisins stóð. Það var fremur vegna þess hversu skaðabæturnar tengdust umræðunni um sekt Þýskalandi og bandamanna þeirra, að þeim væri einum um að kenna hvernig mál þróuðust í aðdraganda stríðsins (þ. Kriegsschulddebatte ) og síðan hversu þýski iðnaðurinn varð háður lántökum frá Bandaríkjunum, að þýskar ríkisstjórnir Weimar-lýðveldisins reyndu að komast hjá skuldbindingum sínum. Þannig urðu greiðslurnar að pólitísku bitbeini, sérstaklega hjá stjórnmálaöflum lengst til hægri og vinstri á stjórnmálaskalanum. Þessi öfgaöfl reyndu allt hvað þau gátu til að nota þetta mál til að grafa undan Weimar-lýðveldinu svokallaða eða lýðræðinu með hrapalegum afleiðingum fyrir Evrópu alla. Það liggur því nærri að fullyrða að stríðsskaðabæturnar hafi grafið meira undan stjórnmálalegum stöðugleika Þýskalands og Evrópu á þessum árum, en þeim efnahagslega, þótt hvorutveggja sé að sjálfsögðu tengt órjúfanlegum böndum, líkt og við höfum séð í vetur og svo oft áður í sögu heimsins.

Markmið sigurveldanna

Markmið sigurveldanna þriggja voru jafnólík og þau voru mörg og má sérstaklega segja að markmið Frakklands hafi skilið sig mikið frá þeim engilsaxnesku.

Frakkland André Tardieu, aðstoðarmaður franska forsætisráðherrans Georges Clemenceau, kom samningsmarkmiðum Frakka fyrir í tveim stuttum, vel orðuðum setningum:

 

 „Að skapa öryggi var okkar fyrsta skylda. Hin skylda okkar var að skipuleggja enduruppbygginguna.“ (André Tardieu: La Paix. Paris 1921, bls. 308.; tilvitnun úr Wikipedia).

 


Frakkar höfðu orðið fyrir tveimur árásum frá Þjóðverjum á innan við 50 árum, en þá fyrri höfðu Þjóðverjar unnið (þýsk-franska stríðið 1870–1871) og nú höfðu Frakkar unnið það síðara. Frakkar vildu ná fram hefndum. Stjórnmálamenn á borð við Poincaré vildu styrkja stöðu Frakklands enn frekar innan Evrópu á meðan aðrir – Aristide Briand – vildu ná sáttum við Þjóðverja. Líkt og svo oft á öfgatímum náðu öfgamenn yfirhöndinni og markmið Frakka urðu þrjú: að ná til baka Elsass-Lothringen héraðinu, að veikja þýska ríkið og þó sérstaklega við landamæri ríkjanna við Rín, þar sem Frakkar vildu ná yfirráðum yfir sterkum iðnaði Þjóðverja og koma þannig í veg fyrir að þýsk árás gæti endurtekið sig. Þessi markmið héldust í raun hendur í við þriðja markmiðið, sem var að krefjast ríkulegra stríðsskaðabóta til að borga til baka þær stríðsskuldir við Bandaríkjamenn og til uppbyggingar landsins í kjölfar stríðsins.

Bretland – hafði orðið fyrir mun minni skaða en Frakkland í stríðinu, en voru stórskuldugir við Bandaríkjamenn að stríði loknu. Versalasamningnum var hafnað af Bretum og þeir tóku ekki þátt í hernámi Ruhr-héraðsins, heldur töldu hernámið brot á Versalasamningnum, svo sem vikið verður að síðar. Af ótta við útbreiðslu kommúnismans í Evrópu vildu Bretar halda valdajafnvægi í Evrópu og voru því ekki til í að veikja Þjóðverja um of. Við megum ekki gleyma að Sovétríkin höfðu litið dagsins ljós um svipað leyti og að kommúnistar og sósíalistar voru mjög sterkir í Þýskaland, enda Karl Marx og Friedrich Engels, upphafsmenn kommúnismans, báðir Þjóðverjar. Uppþot eða hálfgerðar uppreisnir höfðu átt sér stað í Þýskalandi, sem voru kæfðar í fæðingu með miklum blóðsúthellingum.

Í minnisblaði David Lloyd George, forsætisráðherra Breta, má sjá að hann gerði sér fullkomlega grein fyrir þeirri hættu, sem skapast gæti, ef Þjóðverjar yrðu á einhvern hátt niðurlægðir. Hann sagði að það væri hægt að ræna nýlendunum frá Þjóðverjum, minnka herinn niður í stærð meðal lögregluliðs og gera flota landsins að engu, en Þjóðverjar væru máttug, öflug og gáfuð stórþjóð, sem myndi finna leið til að komast hjá greiðslum. Ef að skaðabótagreiðslurnar yrðu óréttlátar myndu Þjóðverjar ekki gleyma því eða fyrirgefa sigurveldunum og hann sá þetta sem ástæðu fyrir annarri styrjöld í framtíðinni. Lloyd Georges vildi því ekki ganga jafn langt og breskur almenningur krafðist, en hann lét þó undan þeim kröfum á endanum.

Ítalía – hafði ekki haft mikinn áhuga á að taka þátt í stríðinu, en lét þó undan þrýstingi á endanum og notaði tækifærið í stríðslok og fékk í sinn hlut síðustu ítölsku landsvæðin, sem enn tilheyrðu austurríska keisaraveldinu „Irredenta“ – Trentino og Trieste. Að auki bættu þeir við sig svæðum við Brennerskarðið (Suður-Týról) og einni nýlendu Dodekanes eyjunum grísku, sem Ottóman stórveldið hafið ráðið yfir.

Bandaríkin – voru með þær kröfur helstar á dagskrá að koma á meira viðskiptafrelsi í heiminum og tryggja samgöngur á sjó, en raunveruleg ástæða fyrir þátttöku Bankaríkjanna í fyrri heimsstyrjöldinni voru kafbátaárásir Þjóðverja á alþjóðasiglingaleiðum. Að auki barðist forseti Bandaríkjanna, Woodrow Wilson, fyrir bættu öryggi í heimsmálunum, sem koma átti í veg fyrir frekari heimsstyrjaldir. Í janúar 1918 setti forsetinn fram hina frægu 14 punkta dagskrá sína, en samkvæmt henni átti að banna allt leynimakk utanríkisþjónusta heimsins, tryggja sjálfsákvörðunarrétt þjóða, fara í alhliða afvopnun á heimsvísu, stofna þjóðabandalags með þátttöku Bandaríkjanna, að stórveldi Mið-Evrópu kölluðu heri sína til baka frá öllum herteknum svæðum og að Pólland fengi aftur sjálfstæði eftir að Rússar og Þjóðverjar höfðu skipt því á milli sín og að Pólland fengi aðgang að Eystrasaltinu.

Nauðasamningar Þjóðverja mættu andstöðu í Bandaríkjunum. Engu að síður voru Bandaríkjamenn áhugasamir um að Bretar og Frakkar fengju í hendurnar skaðabætur til að þeir gætu greitt til baka skuldir sínar til Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn drógu sig til baka frá Evrópu að lokinni heimsstyrjöldinni fyrri og tóku ekki þátt í Þjóðabandalaginu, sem Wilson hafði þó barist svo mikið fyrir. Árið 1923 kynntu Bandaríkjamenn Dawes-áætlunina, en með henni voru Þjóðverjum lánaðir umtalsverðir fjármunir til enduruppbyggingar landsins. Árið 1931 kynnti forseti Bandaríkjanna, Herbert C. Hoover, gjaldfrest, sem nefndur var eftir honum, Hoover gjaldfresturinn, og ætlað var að bjarga bankakerfinu í Mið-Evrópu, sem var að hruni komið í lok heimskreppunnar miklu. Í þeirri áætlun var greiðslu stríðsskaðabóta til Frakklands og Bandaríkjanna frestað um eitt ár til að skapa fjárhagslegt andrými. En allt varð fyrir ekki og krísunni stóru varð ekki afstýrt. Þess má get að árið 1931 var Frakklandi eina landið, sem var andsnúið Hoover-greiðslufrestinum og einangraði sjálft sig í alþjóðlegu tilliti í kjölfar þessa.

Fyrstu kröfur

Strax eftir gildistöku Versalasamningsins var ákveðið að Þýskaland skyldi borga 20 milljarða gullmarka til ársins 1921 – sem voru um 7 tonn af gulli. Að auki urðu Þjóðverjar að afhenda sigurveldunum nær allan skipaflota sinn, sem gerði þeim mjög erfitt með útflutning, sem þeir voru þá sem nú mjög háðir. Á Bologna ráðstefnunni i apríl 1920 komust sigurveldin að mikið vantaði upp á að þjóðverjar hefðu greitt nægilega miklar bætur og kröfðust frekari bóta í kolum og gjaldeyri.

Greiðslur í vörum til Frakkland

Vörur á leið til FrakklandsÁrið 1920 voru nokkrar ráðstefnur haldnar (San Remo í apríl, Hythe og Boulogne-sur-Mer í júlí), þar sem m.a. uppskipting stríðsskaðabótanna milli sigurveldanna var ákveðin. Fyrst í júlí árið 1920 mátti Þýskaland vera með fulltrúa í viðræðunum. Ákveðið var að greiðslurnar yrðu þannig að Frakkland fengi 52 %, Bretland 22 %, Ítalía 10 % og Belgía 8 %. Sigurveldin hótuðu Þýskalandi að ef það borgaði ekki myndu bandamenn leggja undir sig Ruhr-héraðið, þar sem stærstu hluti þýskra kola var að finna og þar með iðnaður landsins. Frekari fundarhöld urðu vegna þessa í Brüssel í desember 1920. 

Árið 1921 fóru sigurveldin fram á að bæði nýju loftskip Þjóðverja (DELAG-Verkehrsluftschiffe LZ 120 und LZ 121) yrðu afhent sem skaðabætur og þannig stöðvuðust hin svokölluðu Zeppelin-loftferðaskip. Árið 1924 afhenti Þýskaland jafnframt sem stríðsskaðabætur það loftferðaskip, sem ferðast hafði til Bandaríkjanna. Þann 29. janúar 1921 kröfðust sigurveldin 269 milljarða gullmarka, sem greiðast áttu á 42 árum. Að auki voru Þjóðverjar neyddir til að greiða um 12% heildarútflutningi sínum til sigurveldanna. Þann 27. apríl 1921 kom síðan greiðsluáætlun Breta á hendur Þjóðverjum í ljós. Ríkisdagurinn (þýska þingið) hafnaði öllum þessum kröfum og sigurveldin lögðu í kjölfarið undir sig borgirnar Duisburg og Düsseldorf í Ruhr-héraðinu.

Í kjölfar þessa varð stjórnarkreppa í Þýskalandi og forsætisráðherra Breta, David Lloyd George, kallaði þýska sendiherrann á sinn fund og tilkynnti honum um nýjar kröfur breskra stjórnvalda um skaðabætur að upphæð 132 milljarða gullmarka, sem eru u.þ.b. 47.000 tonn af gulli að upphæð u.þ.b. 700 milljörðum evra, sem átti að greiða til baka á 66 árum. Að auki áttu Þjóðverjar að greiða hið minnsta 26 % af brúttó útflutningi sínum sem skaðabætur. Til viðbótar fylgdi hótun um að ef að skilmálunum yrði ekki gengið innan 6 daga myndu Bretar leggja undir sig allt Ruhr-héraðið.

Ný ríkisstjórn þýska ríkiskanslarans, Josephs Wirth, sá sig tilknúna til að samþykkja þessar kröfur Breta og var hann mikið gagnrýndur af hægri öfgamönnum fyrir vikið. Wirth var með þessu að fylgja eftir stefnu fyrrverandi fjármálaráðherra, Matthias Erzberg, sem var myrtur árið 1921 af öfgahægrimönnum fyrir “landráð”. Utanríkisráðherrann, Walther Rathenau, var myrtur árið síðar fyrir sömu “sakir”.

Skemmst er frá því að segja að Þjóðverjar náðu samningum við Frakka árið 1921 um að borga meira af skaðabótunum með vörum og minna með gulli. Einnig náðust samningar við Breta árið 1922, sem sáu að þeir högnuðust meira á að vernda kaupkraft launa hjá þýskum neytendum og auka viðskipti þýsks iðnaðar og bresks iðnaðar, en að ganga gjörsamlega frá þýskum neytendum og fyrirtækjum. Þetta var fyrsta skrefið í rétta átt hjá Þjóðverjum á langri og erfiðri braut að sýna sigurveldunum og öllum umheiminum að þeir væru komnir í hálfgert greiðsluþrot og að frekari kröfur myndu aðeins leiða til að ekkert fengist greitt.

Á ráðstefnunni í Genova gerðu Þýskaland Sovétríkin samning við Þjóðverja (Samninginn frá Rapallo), þar sem báðar þjóðir létu af öllum kröfum í garð hvors annars. Þessi bæði svo mjög einangruðu ríki í Evrópu tókum upp nánara samband í framhaldi af þessu. Þetta fór mjög í taugarnar á sigurveldunum og er m.a. talin ein af ástæðunum fyrir hertöku Ruhr-héraðsins.

Ruhr-héraðið hertekið

Ruhr Gebiet - 1930Spurningunni um hvernig greiðslu skaðabóta yrði háttað var enn ekki svarað. Þýska ríkisstjórnin var þeirrar skoðunar, að óðaverðbólgan, sem geisaði í Þýskalandi á þessum árum, og efnahagsörðugleikar því samfara, kæmu í veg fyrir greiðslu skaðabóta. Sigurveldin sögðu að Þjóðverjar héldu verðbólgustiginu uppi til að komast hjá greiðslum því og var það efalaust með nokkrum rétti. Vesturveldin voru aðeins tilbúin til að gera minniháttar tilslakanir varðandi tímaramma greiðslna, en höfnuðu öllum lengri gjaldfrestum, sem Þjóðverjar höfðu áhuga á. Þar sem viðræðum Þjóðverja og Vesturveldanna báru engan árangur, var þeim í meira mæli hafnað meðal almennings í Þýskalandi og í nóvember 1922 endaði ríkisstjórn Wilhelm Cuno þær snögglega.

Eftir Genova ráðstefnuna hafði Frakkland frumkvæði í öllum viðræðum sigurveldanna við Þjóðverja. Frakkar töldu réttast að ganga hart fram og gerðu tilkall til eigna Þjóðverja sem borgun fyrir stríðsskaðabætur, t.d. iðnfyrirtæki í Ruhr-héraðinu. Árið 1922 stöðvuðu Bretar af, að hluti þýsks iðnaðar yrði afhentur Frökkum sem stríðsskaðabætur. Þegar Þjóðverjar voru til þess að gera aðeins lítillega á eftir áætlun með greiðslur sínar árið 1923, hertóku franskar og belgískar hersveitir Ruhr-héraðið. Þýska ríkisstjórnin og almenningur svöruðu með “borgaralegri óhlýðni” og hlýddu ekki skipunum sigurveldanna tveggja. Allsherjarverkfall var skipulagt og þær lestar, sem fluttu kol til Frakka og Belga, voru sendar á ranga áfangastaði eða hreinlega stöðvaðar. Sigurveldin ráku alla starfsmenn járnbrautanna, sem voru engu að síður áfram á launaskrá þýska ríkisins.

Óðaverðbólga og endalok hernáms í Ruhr-héraðinu

Verðbólgan hækkaði á meðan á hernáminu stóð, þar sem peningar voru prentaðir til greiðslu fyrir þá íbúa Ruhr-héraðsins, sem tóku þátt í borgaralegu óhlýðninni og skiluðu þannig engri vinnu. Árið 1923 varð stöðugleiki Ríkismarksins (þ.Reichsmark) eitt af þeim undirstöðuatriðum, sem sigurveldin vildu ræða við Þjóðverja um í viðræðum um stríðsskaðabæturnar. Sigurveldunum var ljóst að efnahagslegur stöðugleiki Þýskalands var nauðsynlegur til að þau gætu fengið erlend lán sín og stríðsskaðabætur greiddar til baka.

Með nýjum ríkiskanslara, Gustav Stresemann, sumarið 1923, má segja að endalok baráttu Þjóðverja gegn hernámi Ruhr-héraðsins hafi byrjað og byrjun baráttunnar gegn óðaverðbólgu hafi komið til skjalanna. Þótt Stresemann hafi í byrjun verið harður stuðningsmaður baráttu Þjóðverja í Ruhr-héraðinu, sá hann að finna varð lausn á deilunni. Þýskaland bauð Bretum upp á margar málamiðlunarlausnir á meðan á mótmælunum stóð, en Bretar voru fyrst tilbúnir til viðræðna ef að mótmælin hættu. Stresemann hafði vonast til þess að herflokkarnir hyrfu frá Ruhr-héraðinu, en af því varð ekki. Frakkar gerðu sér grein fyrir vonlausri stöðu Þjóðverja og voru því ekki tilbúnir til að draga her sinn til baka. Málin þróuðust á þann veg að sumir Þjóðverjar vildu jafnvel að Ruhr-héraðið yrði hluti Frakklands og studdu Frakkar það leynt og ljóst. Uppreisnin endaði síðan 26. september, en ástandið batnaði seint og illa. Þann 28. september 1923 byrjuðu Þjóðverjar síðan aftur að borga stríðsskaðabætur til sigurveldanna.

Dawes-áætlunin

Það var fyrst fyrir þrýsting Breta, sem skipt höfðu um skoðun eftir að Frakkar fóru fyrir alvöru að ágirnast Ruhr-héraðið og vildu auðsjáanlega styrkja sína stöðu enn frekar innan Evrópu, og fyrir þrýsting Bandaríkjanna á Frakkland, að Frakkar samþykktu hina svokölluðu Dawes-áætlun. Að loknum gagngerum breytingum á peningastefnu Þýskalands og innleiðinu nýs gjaldmiðils lækkaði verðbólgan í landinu, sem var grundvöllur fyrir fyrrnefndri Dawes-áætlun. Sigurveldin lækkuðu skaðabótakröfur sínar fyrst um 1 milljað gullmarka og síðar um 2,5 milljarða gullmarka auk þess sem kröfurnar fóru að snúast meira um peningagreiðslur en stjórnmálalegar kröfur. Lokadagsetning á greiðslurnar var hins vegar ekki enn komin á hreint. Í bréfi Gustav Stresemann ríkiskanslara til krónprins Wilhelm frá 7. september 1925, skrifar kanslarinn að Þýskaland muni komast í greiðsluþrot árið 1927. 

Young-áætlunin

Árið 1929 var með Young-áætluninni ákveðið að greiðslum skaðabóta skyldi ljúka eftir 59 ár eða árið 1988. Í heildina áttu Þjóðverjar að greiða 112 milljarða gullmarka. Hægri öfgamenn reyndu að koma í veg fyrir þessa greiðsluáætlun með þjóðaratkvæðagreiðslu, en án árangurs. Áætlunin hjálpaði mjög til þess að koma Adólf Hitler aftur af stað í stjórnmálum og jók mjög á vinsældir hans og kommúnista.
 
Endalok stríðsskaðabóta Versalasamningsins

Geld - DeutschlandEftir að Young-áætlunin tók gildi reyndi fyrsta ríkisstjórnin undir stjórn Heinrich Brüning að koma þýska útflutningnum af stað aftur. Með þessu átti að útvega nægan gjaldeyri til að borga afborganir af lánum og stríðsskaðabæturnar til baka. Lán, sem höfðu verið á lausu frá Bandaríkjunum á árunum 1924 til 1929, voru ekki til staðar eftir kreppuna miklu 1929-1930. Brüning vonaði að gífurlegur útflutningur Þjóðverja yrði Frökkum og Bretum svo óþægilegur, að þeir myndu innan fárra ára vilja endursemja um Young-áætlunina. Aukningin á útflutningi mistókst hrapalega, þar sem allar þjóðir heims gripu til svipaðra ráðstafana og Þjóðverjar sjálfir, þ.e.a.s. þau reyndu að auka útflutning og hækkuðu að auki innflutningstolla.

Endalok greiðslu stríðsskaðabóta komu úr allt annarri átt en Brüning hafði átt von á. Tilraun Brünnings til að koma á tollabandalagi við Austurríki og þjóðernissinnaður áróður, sem hann reyndi að nota til að grafa undan nasistum, gerðu lánadrottnana taugaóstyrka, en bæði þýska ríkið og þýskur iðnaður voru stórskuldugir eftir lántökur á árunum 1921 – 1929. Vorið 1931 lokuðust skammtíma lánalínur þýska ríkisins að mestu og ríkissjóður var á jaðri greiðsluþrots. Á þessum tíma sló Herbert C. Hoover bandaríkjaforseti upp á að Þjóðverjar fengju eins árs greiðslufrest á öllum skuldbindingum sínum, en þetta var gert til að endurvekja trú fjármálamarkaða á þýskt efnahagslíf. Þetta mistókst vegna þess að Frakkar drógu lappirnar við að koma Hoover-gjaldfrestinum á. Þann 13. júlí 1931 urðu allir þýskir bankar að loka í marga daga, gjaldeyrisyfirfærslur voru bannaðar, Þýskaland var komið í greiðsluþrot.

Það var fyrst á þessum tímapunkti, sem erlendir lánadrottnar – aðallega bandarískir og breskir – sáu að eina leiðin til að þeir gætu fengið lán sín greidd til baka, væri ef breska, franska, belgíska og ítalska ríkið strikaði út allar stríðsskaðabætur. Þrátt fyrir að þýskt efnahagslíf myndi jafna sig fljótt, myndi það verða jafn greiðsluþrota í erlendum gjaldeyri um leið og Hoover-greiðslufresturinn rynni úr gildi. Þýska ríkið gat ekki prentað erlendan gjaldeyri til greiðslu á stríðsskaðabótum og þeim einkaskuldum, sem bankar og fyrirtæki skulduðu erlendum lánadrottnum.

Í tveimur álitsgerðum frá haustinu 1931, Layton-skýrslunni og Beneduce-skýrslunni, var var staðfest af alþjóðlegum fjármálasérfræðingum að Þjóðverjar yrðu nákvæmlega kæmust fljótlega aftur í greiðsluþrot þegar Hoover-greiðslufresturinn rynni út. Þessar skýrslur voru undirstaða þess að ráðstefnan í Lausanne var haldin sumarið 1932, þar sem gengið var frá samkomulagi um að stríðsskaðabótum Þjóðverja skyldi lokið með lokagreiðslu upp á 3 milljarða gullmarka (í gjaldeyri). Þýska ríkið lét Alþjóðagreiðslubankinn í Basel í Sviss (e. BIS – Bank for International Settlements ) skuldabréf í hendur. Þetta skuldabréf ætti síðan að reyna að koma á markað innan 15 ára og ef það tækist ekki yrði það eyðilagt.

Þegar þarna var við sögu komið var Brüning kanslari, sem hafði krafist þess að stríðsskaðabæturnar yrðu strikaðar út, horfinn úr embætti og Franz von Papen var orðinn ríkiskanslari. Þessi samningur frá Lausanne var aldrei staðfestur af þjóðþingum ríkjanna og var hann því brenndur við hátíðlega athöfn í Basel árið 1948.

Eftir seinni heimsstyrjöldina var gengið frá samningi í London um endurgreiðslu einkaskulda þýskra lögaðila við erlenda lögaðila. Þar á meðal voru m.a. skuldir vegna stríðsskaðabóta, en hluta af skuldum vegna stríðsskaðabóta hafði verið breytt í skuldabréf og þau seld á markaði til einkaaðilar árið 1930. 

Þessar kröfur voru að hálfu felldar niður, en afganginn skyldi þýska ríkið borga til baka. Þar til árið 1983 borgaði Sambandslýðveldið Þýskaland 14 milljarða þýskra marka af þessum skuldum til baka. Hins vegar voru áfallnir vextir frá árunum 1945 – 1952 ekki greiddir til baka fyrr en á gjalddaga, þ.e.a.s. eftir að þýsku ríkisins sameinuðust árið 1990, en um var að ræða um 251 milljónir þýskra marka. Þýska ríkisstjórnin gaf þá aftur út ríkisskuldabréf fyrir þeirri upphæð og er síðasta greiðslan á gjalddaga á næsta ári og er hún um 5 milljónir evra. Á næsta ári eru 80 ár liðin frá því að Versalasamningurinn var undirritaður.

Heimildir:

http://de.wikipedia.org/wiki/Deutsche_Reparationen_nach_dem_Ersten_Weltkrieg
http://de.wikipedia.org/wiki/Deutsche_Reparationen_nach_dem_Ersten_Weltkrieg,
sótt 5. júlí 2009.


mbl.is Undirbúa lögsókn gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Guðbjörn ef þú lest síðu þessa manns,  Gerards  van Vliet sem frétt Mbl. er að vísa til, þá sérðu hvers kyns er. - Ég bloggaði um þetta líka.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 5.7.2009 kl. 21:37

2 Smámynd: Þráinn Árni Baldvinsson

Frábær pistill hjá þér. Takk fyrir mig.

Þráinn Árni Baldvinsson, 5.7.2009 kl. 21:50

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Afar góð samantekt. Sá sem ekki þekkir söguna , er dæmdur til þess að gera mistök.

Sigurður Þorsteinsson, 5.7.2009 kl. 22:17

4 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Takk fyrir þessa samantekt Guðbjörn ég er fróðari eftir lesturinn.

Ég skil samt ekki tenginguna við icesave, Þarna voru líf og limir að veði, en erum við ekki bara að rífast um peninga ?

Guðmundur Jónsson, 5.7.2009 kl. 23:26

5 Smámynd: Jóhannes H. Laxdal

Merkilegt að jafn öfgasinnaðir menn einsog Hitler komust ekki til valda fyrr í Þýskalandi og byrjuðu seinni heimstyrjöldina fyrr miðað við hvernig það var troðið á þeim.

En þetta var mjög góð samantekt,  kom mikið fram þarna sem ég vissi ekki um.

Jóhannes H. Laxdal, 6.7.2009 kl. 03:02

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Lilja, Þráinn og Sigurður:

Takk fyrir innlitið! Það er ýmislegt hægt að læra að mannkynssögunni!

Guðmundur:

Tengingin er að mínu mati augljós, enda búið að nota hana í allan vetur, m.a. af Pétri Blöndal, þótt ekki sé sammála honum um hvernig við eigum að fara að.

Auðsjáanlegt er að þegar "sigurveldi" ákveða örlög hins gjörsigrðaða lands er engin miskunn hjá Magnúsi, heldur er reynt að kreista það út "andstæðingunum" sem hægt er.

Aðalatriðið hjá okkur er að borga sem minnst núna, því tíminn vinnur mjög hratt með okkur. Maðurinn er fljótur að gleyma, líkt og sást í fyrri- og seinni heimsstyrjöldinni. Þetta á sérstaklega við ef að "sigurveldunum" finnst þau hafa fara með algjöran sigur af hólmi, því þá eru þau til í að sýna mildi tiltölulega fljótt.

Viðskipti voru farin af stað á milli aðila mjög fljótt, þrátt fyrir að milljónir hafi látið lífið. Tilslakanir komu aðeins nokkrum árum eftir að samningurinn var gerður og skuldin var til þess að gera að fullu afskrifuð eftir 12 ár.

Við þurfum að taka á þessu máli af klókindum og yfirvegun en ekki offorsi! Við tökum ekki slaginn við Breta og Hollendingar. Hins vegar getum við getið málið upp aftur að vissum tíma liðnum og endursamið, líkt og í öllum samningum. Síðan semjum við aftur og aftur þar til þetta er að engu orðið! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.7.2009 kl. 07:14

7 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Klókindi og yfirvegun.

Ég er samála því þess vegna bregðumst við ekki við innihaldslausum hótunum um efnahagsþvinganir, eins og þær kalli hungursneið og mannfellir yfir okkur.

Guðmundur Jónsson, 6.7.2009 kl. 09:05

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góð samantekt, Guðbjörn, og hafðu þökk fyrir. Það er þá ekki fyrr en á næsta ári, sem skaðabótagreiðslum Þjóðverja lýkur vegna Fyrri heimstyrjaldar, með um 5 milljónum evra í lokagreiðslu! Þó var allt greitt upp til "fórnarlambanna" 1990, en þessi greiðsla komin til vegna 251 millj. DM ríkisskuldabréfs sem þá var gefið út og náði yfir vextina. Fróðlegt væri að sjá, hver vaxtaprósentan var. Ég hafði séð fullyrt, að stríðsskaðabæturnar hafi verið vaxtalausar, en það er þá rangt, en vextirnir ekki greiddir fyrr en eftir afborganirnar af höfuðstóli samkvæmt þessu.

Ólíkt sumum öðrum finnst mér áhugavert að sjá samanburð þessa Versalasamnings við Icesave-málið. Hliðstæðurnar eru ýmsar og kannski ekki hin sízta sú, að allri sök er skellt á íslenzku þjóðina. Vondri samvizku brezkra og hollenzkra stjórnvalda vegna vanrækslu þeirra við fjármálaöryggi eigin borgara reyna þessar ófyrirleitnu ríkisstjórnir að "bjarga" með því að benda á syndahafur norður við Dumbshaf: litla þjóð, sem skal fá að taka skellinn, með um 200 sinnum meiri þunga en brezkir skattgreiðendur og um 50 sinnum meiri en hollenzkir!

Og þetta vilja gamalkomminn Steingrímur J. Sigfússon og alþýðudýrlingurinn Jóhanna löghelga og leggja blessun sína yfir þrátt fyrir sakleysi okkar og íslenzka ríkisins! Hvaða hald er í slíkum leiðtogum? Hvaða gæfuríka framtíð verður byggð á slíkum svikum?

Jón Valur Jensson, 6.7.2009 kl. 09:18

9 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Sæll og blessaður!

Er þér sammála um að alltaf er hægt að draga lærdóm af sögunni, eðli allrar okkar tilveru reyndar þannig, að hún endurtekur sig sífelt,tilbrigðin við sömu stefin (sem þú þekkir auðvitað svo vel frá söngferlinum) bara það sem líkast til aðskilur!?

Það var mér eiginlega meiri ánægja að lesa athugasendina þína hér að ofan, merkilegt nokk, en greinina þó sannarlega sé hún fróðleg og góð samantekt. Þar ert þú að nokkru að endurspegla mitt viðhorf til alls þessa máls, en frá upphafi hef ég litlar sem engar áhyggjur haft af einvherjum sérstökum framtíðarafleiðingum vegna þessa samkomulags og einmitt brölt mikið við að benda fólki á að tímin geti vart annað en unnið með okkur og algjörlega væri óþarfi að ala á því versta í krafti óttans!

hliðar Icesave og fjármálaóreiðunnar í dag eru auðvitað flóknar og margvíslegar, (innlegg Lilju Guðrúnar og ábending til dæmis mjög eftirtektarverð) en í þessum samanburði við Versalasamningana, verður þó ekki hjá því komist að gleyma ekki, líkt og Guðmundur bendir hér á, að undirrótin af þeim og aðdragandi var miklu viðameiri og örlagaríkari en okkar staða nú getur nokkurn tíman orðið. En af eftirmálunum af þeim getum við að sönnu áreiðanlega dregið lærdóm og já fundið samjöfnuð, ég er þér sammála í því.

Magnús Geir Guðmundsson, 6.7.2009 kl. 10:47

10 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Þessi litla heimspeki var eitt sinn fest á blað og á kannski svolítið við í dag!?

Allt sem í heiminum hendir,

hefur þau einkenni, að.

Þar er upphaf og endir,

alltaf á sínum stað!

kannski umhugsunarvert fyrir þá, sem trúa því vart að "sólin muni skína á ný" vegna Icesave?

Magnús Geir Guðmundsson, 6.7.2009 kl. 10:56

11 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Ég þakka þér Guðbjörn fyrir þessa fróðlegu og vönduðu samantekt um Versalasamninginn sem nauðsynlegt er að halda til haga og hafa í huga fyrir þingmenn sem hyggjast samþykkja Icesave samninginn. Ég vek athygli á þessari tilvitnun þinni í fleyg orð þáverandi kanslara Þýskalands:

 „Hvaða hönd myndi ekki visna, sem hneppti sig og okkur í slíka fjötra?”

Ég hef líkt Icesave samningum við Versalasamninginn enda er það skoðun mín að við eigum að læra af mistökum fortíðarinnar.

Sjá:

Versalasamningar okkar Íslendinga frá 1. júlí 2009.

Ég skora á Alþingi að fella ,,Versalasamninginn" frá 6. júní 2009.

Jón Baldur Lorange, 6.7.2009 kl. 11:34

12 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Guðmundur:

Bretar og Hollendingar eru til alls vísir, t.d. viðskiptaþvingana, sem gætu reynst okkur erfiðari en að greiða eitthvað smávegis af þessum skuldbindingum.

Einnig gætu þeir beitt sér fyrir því að við fengjum ekki eðlilega fyrirgreiðslu á fjármálamörkuðum næstu árin, jafnvel eftir að eitthvað rætist úr málum hjá okkur. Bretar eru stórþjóð og Hollendingar eru vinamörg smáþjóð innan ESB. Við erum einangruð, vinafá smáþjóð, sem ekki á sæti í ESB. Einu sönnu vinirnir okkar eru Færeyingar, Norðmenn og Danir, en ekki einu sinni þeir eru til í að "móðga" Breta eða Hollendinga og fá þá á móti sér innan ESB.

Okkar staða er slæm og við bætum hana aðeins með því að samþykkja þessa "nauðasamninga". Síðan tökum við annað skref með ESB aðild. Síðan þegar við erum komin inn í ESB byrjum við að vinna í okkar málum. Að lokum munum við borga lítið sem ekkert af þessum skuldbindingum.

Jón Valur:

Ég veit að við erum ekki sammála í þessu máli, en ég skil alla sem eru á þinni skoðun og annan hvorn daginn er þar og hinn daginn vil ég semja. Ég bloggaði ekkert í rúma viku af því að ég var að skoða þessi mál mjög gaumgæfilega og komst að þeirri niðurstöðu að ekkert annað væri að gera nema borga.

Magnús Geir:

Sólin mun skína bjart hér innan 2-3 ára.

Og rétt er það "brot" okkar Íslendinga - sem engin voru - er ekki hægt að líkja við heimsstyrjöldina fyrri.

Jón Baldur:

Allt rétt hjá þér og líklega myndi hönd mín visna, því það er skelfilegt að þurfa að skrifa upp á slíkar skuldbindingar.

Við erum hins vegar upp við vegg og lítið að gera nema láta tímann vinna með okkur, líkt og Þjóðverjar gerðu með góðum árangri.

Ég stalst til að svara athugasemdum í matartímanum, en ég skoða þessar færslur hjá þér í kvöld, sem eru eflaust vandaðar eins og venjulega!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.7.2009 kl. 12:38

13 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Það er rétt Jón Valur bendir á og skilur á milli verslalasamnings og icesave.

Upphæðirnar sem um ræðir hafa enga efnahagslega þýðingu fyrir Hollendinga eða Breta.

Það er líka umhugsunarefni að lánin sem við fáum frá vinaþjóðum okkar eru skilyrt plani IMF. Algerlega. Þessar upphæðir eru á bilinu 0,1-0,2% af þjóðarframleiðslu þeirra. Það jafngildir því að við værum að stumra yfir lánveitingum til nágrannaríkja í kreppu - segjum bara grænlands eða færeyja - upp á ~2 milljarða ísl. króna.

Á sama tíma lána Færeyingar okkur fjárhæð sem nemur 3,5% af þeirra landsframleiðslu sem á mælikvarða okkar landsframleiðslu er um 50 milljarðar og það án nokkurra skilyrða!

Það er kannski ljótt og púkalegt sjónarhorn en lítið þykir mér koma til hins norræna samstarfs sem sífellt er hampað hér á landi. Mér sýnist það fremur táknrænt en nokkuð annað. E.t.v lýsir þetta fyrst og fremst okkar eigin afrekum á erlendum vettvangi á síðustu árum.

kv.

Ólafur Eiríksson, 6.7.2009 kl. 14:41

14 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Já, og takk fyrir þennan fína og fróðlega pistil Guðbjörn!

Ólafur Eiríksson, 6.7.2009 kl. 14:43

15 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ólafur:

Já, Jón Valur hefur rétt fyrir sér. Hitt er svo annað mál að það bætir stöðuna lítið. Ekki er ég neinn aðdáandi VG eða Samfylkingar - eins og ég held að öllum lesendum þessa bloggs sé ljóst. Hins vegar held ég að Steingrímur hafi áttað sig á að að ábyrgð fylgir valdi. Digurbarkalegar yfirlýsingar hans í haust og vetur, sem einkenndust af lýðskrumi víkja fyrir "pragmatískum" lausnum á risastóru og erfiðu vandamáli.

Það þyrfti einhver að skrifa góða grein í blöðin þarna úti eða reyna að fá fréttamenn til að sjá þetta frá okkar sjónarhorni. Ekkert ólíkt og Jón Valur setur þetta upp:

„...litla þjóð, sem skal fá að taka skellinn, með um 200 sinnum meiri þunga en brezkir skattgreiðendur og um 50 sinnum meiri en hollenzkir!“.

Kannski væri málið að fá BBC eða Hollenska sjónvarpið til að gera um þetta mál heimildarmynd, þar sem við getum komið okkar sjónarmiðum að?

Einnig þyrfti að kynna okkar sjónarmið á Norðurlöndunum. Vandamálið er hins vegar að útrásarvíkingarnir og þeirra aðdáendur - forsetinn, fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra - eru búnir að traðka á þessum þjóðum með yfirgangi og hroka á skítugum skónum undanfarin ár. Héldu þarna ráðstefnur, þar sem þeir dásömuðu snilli útrásarvíkinganna og hvernig Norðurlöndin - já og kannski allur heimurinn - gætu lært af okkur Íslendingum. 

Það var einmitt með þessum hroka sem Wilhelm II., fullu nafni Friedrich Wilhelm Viktor Albert von Preußen, hagaði sér í Evrópu og var hluti vandamálsins með Versalasamninginn.  

Þjóðir fyrirgefa hrokagikkjum og „Besserwisserum“ seinna en öðrum!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.7.2009 kl. 18:47

16 Smámynd: Kjartan Björgvinsson

Vissulega þarf að kynna málstað íslendinga erlendis, en það væri heldur ekki úr vegi að íslenskir fjölmiðlar kynntu málefnin fagmannlega innanlands. Það hefur vakið mikla furðu mína að stærstu efnahagshamfarir sem orðið hafa á Íslandi hafa ekki haft nein umtalsverð áhrif á fjölmiðla. Það var meðal annars ástæðan fyrir þessu bloggi mínu http://kjartanbjorgvinsson.blog.is/admin/blog/?entry_id=895796. Ég bý í Danmörku og verð ekki var við að danir dæmi íslensku þjóðina eftir aðgerðum fárra gráðugra íslendinga, enda dæmum við ekki dönsku þjóðina eftir Stein Bagger eða USA eftir þeirra píramídasvindlurum.

Þrátt fyrir að samantekt þín um Versalasamninginn sé fróðleg, þá vantar í hann mikilvægt atriði sem oft verður útundan þegar sagan er skoðuð mörgum árum síðar, nefnilega hvaða áhrif þessi ógnarsamningur hafði á almenning í Þýskalandi og hvaða þjáningar hann varð að ganga í gegnum vegna beinna og óbeinna afleiðinga hans.

Slíkar afleiðingar verðum við að forðast, það má vel vera að við lendum upp á kant við voldugar þjóðir en mér þykir betra að taka slaginn nú en að senda svarta pétur áfram.

Ég tel það engann hroka að viðurkenna staðreyndir og haga sér eftir þeim, því miður getur Ísland ekki staðið við Icesave samninga og jafnframt haldið uppi þeim lífskjörum sem þarf til að viðhalda byggð í landinu.

Mér finnst þú gefa í skyn að í raun og veru hafi Versalasamningarnir ekki haft svo slæmar afleiðingar, þar sem endursamið var um þá aftur og aftur, þó kemur fram að Ruhr héraðið var hernumið. Hvaða hluta Íslands eða auðlindir þess eigum við að eftirláta Bretum og Hollendingum þegar kemur að skuldadögum og getum við verið viss um að það verði einungis tímabundið?

Kjartan Björgvinsson, 6.7.2009 kl. 19:56

17 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Kjartan:

Þú mátt ekki skilja orð mín sem svo að þýska þjóðin hafi ekki liðið fyrir samningana. Ég er meira að tala um að þeir höfðu ekkert val og ég tel það sama eiga við um Íslendinga.

Þú talar um að taka slaginn núna, en vandamálið er að við erum í engri stöðu til að taka slaginn núna. Bankarnir eru stopp, engar framkvæmdir framundan innanlangs, gjaldeyrir streymir ekki inn og allir gjaldeyrissjóðir tómir, fyrirtækin að stöðvast, heimilin að komast í þrot o.s.frv. Þetta er í raun svipuð staða og hjá þjóð sem er að koma undan stríði.

Við erum upp á útlönd komin varðandi öll aðföng, nánast hvað sem er. Við lifum ekki á fiski og áli og landbúnaðarafurðum einum saman. Ef viðskipti við útlönd haltra, haltrar allt efnahagslífið. Við erum ekki Bandaríkin eða Rússland eða ESB sem gets verið sjálfu sér nóg um nokkurn tíma. Meira að segja Argentína er meira sjálfbjarga en við erum.

Frakkar ætluðu sér Ruhr héraðið með kola- og járnnámum Þýskalands á árunum 1920 - 1930, en Bretum og Bandaríkjamönnum blöskraði yfirgangurinn. Það sama mun verða upp á teningnum eftir 6-7 ár þegar kemur að skuldadögum. Þá verður samið um niðurfellingu á skuldum og kreppan kannski ekki gleymd en ekki eins fersk og nú.

Við munum öll hvað margir sögðu 11. september að allt myndi breytast og ekkert yrði aftur eins. Það sama segjum við núna, en eftir nokkur ár er þetta allt rykfallið og þess vegna segi ég að tíminn vinni með okkur í þessu máli.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.7.2009 kl. 20:34

18 Smámynd: Kjartan Björgvinsson

Ég er sammála því að við erum í slæmri stöðu núna en ég sé hana ekki bjartari þegar vaxtabyrði Icesave samninganna hefur bæst ofan á allt annað í 7 ár. Þá fyrst verður ómögulegt að ná hagstæðari niðurstöðum. Það má líkja þvi við að vera 3-0 undir í hálfleik og pakka í vörn og búast svo við að geta unnið í framlengingu. Að auki verður enginn eftir á Íslandi til að endursemja ef svo heldur sem horfir.

Ég á líka erfitt með að sjá fyrir mér að viðskiptabann verði sett á Ísland og ekki verði hægt að afla þeirra nauðsynja sem þarf.

Það er vissulega rétt að staða heimilana er slæm og versnar með hverjum degi sem líður á meðan að viðhaldið er þeim okurvöxtum sem gilda á Íslandi og allar tekjuaflanir ríkisins því sem hverjar sem þær eru fara beint inn í vísitölu og hækka höfuðstól og greiðslubyrði almennings.

Ísland og íslendingar hafa að mestu orðið fyrir afleiðingum eigin gerða og sofandahátts þjóðkjörinna fulltrúa og þurfa að sjálfsögðu að bera ábyrgð á því eins og hægt er. Það jafngildir þó ekki að fórna eigi svo að segja öllum hagsmunum íslensks almennings til að kaupa sér friðþægingu erlendis, það verður að gera viðsemjendunum ljóst að ekki er hægt að greiða meira en menn geta aflað.

Síðustu tölur, þó svo að enn sé erfitt að nálgast þær frá íslenskum stjórnvöldum sem virðast telja, ef dæma má eftir upplýsingagjöf þeirra, að best sé að sem fæstir geri sér grein fyrir raunverulegu ástandi, sýna að Ísland ef skrifað verður undir Icesave komist yfir viðmiðunarmörk IMF um greiðslugetu.

Ef þörf krefur verður Ísland að lýsa yfir vanmætti sínum til að mæta kröfum á hendur ríkinu, taka skellinn og byggja svo upp að nýju, frestur er á öllu verstur, fiskurinn sem farið var að slá í í dag lyktar ekki betur á morgun.

Okkar grundvallarágreiningir er því að þú telur að vandamálin minnki með tímanum en ég tel að þau aukist. Mér finnst ekki að færð hafi verið rök fyrir því að tíminn vinni með okkur, en verð þó að viðurkenna að stjórnmál fylgja sjaldnast rökum og get því ekki aftekið með öllu að svo geti verið, ég kann hins vegar einfaldan reikning og hef séð mörg dæmi um hvernig stór töp verða þegar reynt er að halda lífi í fyrirtækjum sem í raun eru gjaldþrota og svo skuldsett að ekki er viðreisnar von.  Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina eins og Storm P sagði.

Ég er nú á þeirri skoðun að margt breyttist eftir 11. september 2001 og að sá atburður hafði og hefur enn veruleg áhrif á heiminn og þróun hans, þó svo að ekki hafi verðið um þá byltingu að ræða sem margir bjuggust við.

Kjartan Björgvinsson, 6.7.2009 kl. 21:21

19 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Sæll enn Guðbjörn.

Grein Ólafs Hannibalssonar skýrði málið talsvert fyrir mér. Hér ofar er ég að furða mig á hörku breta og hollendinga í málinu gagnvart upphæðum sem skipta þá hverfandi máli. Svarið er í grein Ólafs. Fyrir þeim lítur málið þannig út að um skipulagðan ránsleiðangur hafi verið að ræða af hálfu Landsbankans - með stuðningi ísl. stjórnvalda. Ég vissi ekki að Landsbankamenn og FME hefðu beinlínis staðið í vegi fyrir því að flytja icesave í dótturfélög. En það virðist vera raunin.

Kv.

Ólafur Eiríksson, 6.7.2009 kl. 21:28

20 Smámynd: Kjartan Björgvinsson

Vissulega mjög athyglisverð grein sem þú bendir á Ólafur og skiljanlegt að bretar og hollendingar eigi erfitt með að treysta íslendingum eftir þetta. Ekki bætir heldur úr skák að sáralitlar breytingar hafa orðið á forystu stjórnmálaflokka í kjölfar hrunsins og enn hafa hvorki einkaaðilar eða embættismenn verið látnir sæta ábyrgð fyrir lögbrot eða vanrækslu. Þjóðir sem eru vanar að menn víki úr áhrifastöðum meðan rannsókn fer fram sem varðar embættisfærslu þeirra hljóta að vantreysta stjórnkerfi þar sem menn sitja sem fastast og enginn, hvorki stjórnmálamenn né embættismenn vilja bera ábyrgð þrátt fyrir að niðurstaðan sýni að fjöldi fólks á mörgum stöðum í eftirlitskerfinu, ekki að tala um þá sem buðu sig fram til að gæta hagsmuna almennings hafa brugðist skyldum sínum.

Kjartan Björgvinsson, 6.7.2009 kl. 22:11

21 Smámynd: Jón Valur Jensson

Grein Ólafs Hannibalssonar í Morgunblaðinu í gær, 'Icesave', sem á að heita eins konar fræðslugrein og er í reynd vörn fyrir Samfylkinguna, líður fyrir grundvallar-ályktunarvillu í sjálfum forsendum sínum, eins og eg skal sýna fram á. En fyrst þetta:

Í greininni örlar hvergi á því að taka með skýrum hætti á því að reyna að rökstyðja með gildum rökum, að íslenzka ríkið beri ábyrgð á þessum einkabanka, Landsbankanum, og Icesave-innistæðum hans. Þó að Ólafur vitni þar í bréf frá fjármálaráðuneytinu dags. 14. ágúst 2008, þá er hann í 1. lagi að rangtúlka það bréf, og í 2. lagi væri það hvort sem er öldungis út í hött, að eitthvert bréf frá ráðherra eða ráðuneyti gæti búið til fjárskuldbindingu íslenzka ríkisins upp á 640 milljarða króna (sbr. textann frá Guðbirni Jónssyni, sem pistill minn HÉR endaði á), enda hefur það ekki verið fullyrðing erlendra Icesave-sinna hingað til, að til þeirrar fjárskuldbindingar hafi verið stofnað 14. ágúst 2008, heldur árið 1999, með innleiðingu tilskipunar Esb um tryggingasjóði innistæðueigenda.

En hér birtist þessi meiri háttar hugsunarvilla Ólafs Hannibalssonar:

"Þann 14. ágúst lýsir viðskiptaráðuneytið íslenska því svo yfir í tölvupósti til breska fjármálaráðuneytisins, að "það væri alveg skýrt að [Tryggingarsjóði innstæðueigenda] ber að greiða út kröfur allt að 20.887 evrum og því mundi stjórnin ávallt leita eftir láni til þess að sjóðurinn greiði út það lágmark". Með þessari yfirlýsingu er kirfilega búið svo um hnútana að íslensk stjórnvöld ábyrgist að nægilegt fé verði í Tryggingasjóði innstæðueigenda til að fullnægja evróputilskipuninni."

Þannig kveður hann að orði í Moggagrein sinni í gær. En hér var alls ekki "búið svo um hnútana að íslensk stjórnvöld ábyrgist að nægilegt fé verði í Tryggingasjóði innstæðueigenda," heldur "mundi stjórnin [þ.e. stjórn Tryggingasjóðsins, sem er sjálfseignarstofnun] ávallt leita eftir láni [eins og hún hafði heimild til skv. skipulagsskrá sjóðsins – en EKKI: skylduframlagi frá ríkissjóði!] til þess að sjóðurinn greiði út það lágmark." Orðið "stjórnin" misskildi Ólafur hér sennilega sem ríkisstjórnin, en hann einn er ábyrgur fyrir þeim rangskilningi sínum.

Það að auki gæti jafnvel öll ríkisstjórnin ekki ábyrgzt hundruð milljarða króna án þess að lög komi til frá Alþingi.

Þar með fellur "fræðsla" & rökfærsla Ólafs Hannibalssonar um sjálfa sig.

Jón Valur Jensson, 7.7.2009 kl. 01:12

22 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Þetta er alveg déskoti vandaður pistill frá þér eins og alltaf Guðbjörn. En ég hef nú reyndar alltaf verið mjög efins um tengingu á milli versalasamningsins og Icesave, þetta eru bara svo allt aðrar tölur. Maður heyrir oft menn tala um að versalasamningurinn gerði Þjóðverjum að borga svo og svo marga þúsundkalla á haus, en hafa verður í huga að þjóðarframleiðsla á mann á Íslandi er margfalt, eflaust tuttugfalt hærri en þjóðarframleiðsla á mann í Þýskalandi á þessum tíma. Ef íslendingar væru látnir borga 300 milljarða árið 1920, þá væri málið bara dautt, skuldin gæti aldrei verið greidd.

Samkvæmt mati manna er verið að tala um, með vöxtum, ef eignirnar gangi eftir eitthvað um 300 milljarðar, 30% af þjóðarframleiðslu eða svo. Svo gætu auðvitað eignirnar gengið skammt til og neyðarlögin brostið og fleira og þá væru þetta meiri peningar, en menn eru engu að síður á villigötum að líkja Icesave við versalasamningana, það er eiginlega móðgun við þær hörmungar sem þjóðverjar gengu í gegnum.

Við skulum heldur ekki gleyma að hér fóru menn af stað með fullu leyfi okkar kosinna fulltrúa og fengu tilslakanir á öllum kröfum frá fjármálaeftirliti og seðlabanka, kosnir fulltrúar okkar fara út um allan heim að fullvissa sparifjáreigendur um að þetta sé nú bara allt saman mjög frábært hér á landi og seðlabankastjóri sjálfur hælir Landsbankamönnum fyrir þessa reikninga í erlendum fjölmiðlum nokkrum mánuðum áður en þeir fara rakleiðis á hausinn.  Hvert fóru svo allir þessir peningar? Eitthvað í lélegar fjárfestingar út í heimi, annað liggur ennþá í lánum og svo framvegis og kemur til baka hægt og rólega, en annað hlýtur nú að hafa komið hérna til íslands. Menn voru hér að byggja allskyns draumaverkefni út um allan bæ, hvað skapaði það mörg störf og hvað miklar skattekjur, hvað var tekjuafgangur ríkissjóðs 2007, minnir mig 120 milljarðar. 

Sjálfur er ég ekkert á móti því að fresta þessu icesave dæmi og senda aðra samninganefnd út og reyna fá betri vexti og tryggingu fyrir því að neyðarlögin verði látinn standa. Persónulega gef ég ekkert fyrir að við verðum gerð að kúbu norðursins ef við reynum að semja upp á nýtt. En satt að segja held ég að við fáum bara ekkert betri díl. Icesave samningurinn sem slíkur er nú ekki verri en svo að ef okkur tekst vel til í uppbyggingu landsins þá ætti hagvöxturinn einn og sér að geta greitt fyrir þessar skuldir, byrðirnar eru nú kannski ekkert meiri heldur en þær.

Aðalvandamál okkar er klúður hérna innanlands að mér sýnist. Seðlabanki farinn á hausinn og þurfti að endurfjármagna, dæla þurfti meiri pening inn í nýju viðskiptabankana bæði til að tryggja innistæðu og svo auðvitað að bæta mönnum fyrir þjófnað í fjárfestingasjóðum bankanna. Kaupa nýja tónlistarhúsið, borga út gjaldþrot sjóvá. 10% minnkun á þjóðarframleiðslu vegna hruns í fjármálageira og byggingariðnaði og svo auðvitað halli á ríkissjóði þar af leiðandi. Það er allavega nokkuð ljóst að 300 milljarðar af Icesave, ef það gengur eftir, verður lítið brot af þeim 2500 milljörðum sem við erum talinn skulda núna. 

Allt í allt, þá er það miklum orðum aukið að líkja Icesave við versalasamninginn. En engu síður frábær pistill.

Jón Gunnar Bjarkan, 9.7.2009 kl. 23:33

23 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón Gunnar:

Þið misskiljið mig þvers og kruss. Mín skoðun er að við höfum engan annan valkost nema að skrifa undir samninginn.

Ég vil þó að Alþingi geri það með fyrirvara um greiðslugetur Íslendingar og að við áskiljum okkur fullan rétta til taka samningana upp og fara fram á niðurfellingu skulda ef við getum ekki staðið við skuldbindingarnar, líkt og Þjóðverjar gerðu. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 14.7.2009 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband