Klofnir "afturhaldskommatittir" að stjórna landinu úr aftursætinu ...

AftursætisbílstjóriMunurinn á því að stjórna landi og vera í aftursætinu og reyna að stjórna landinu er töluverður. Ég man að þegar ég var lítill var karl faðir minn ákaflega lítið hrifinn af þeim, sem vildu stjórna bílnum úr aftursætinu. Þetta skildi ég betur þegar ég varð fullorðinn og kynntist þessu af eigin raun. Munurinn felst aðallega í því að sá sem er við stýrið verður axla ábyrgð á akstrinum, en hinn sem er aftur í getur þvaðrað án nokkurrar ábyrgðar. Bílstjórinn verður að vega og meta hvað er rétt í stöðunni þegar litið er skammtímahagsmuna og langtímahagsmuna við aksturinn, t.d. hvaða leið á að fara, hvenær á að hemla og hvenær þarf að gefa í eða taka fram úr og síðast en ekki síst hvenær þarf að taka bensín. Þegar maður er í bílstjórasætinu þýðir ekki að gaspra og beita lýðskrumi, líkt og VG hefur verið svo tamt alla tíð frá stofnun þess flokks. Eini maðurinn innan VG, sem virðist hafa áttað sig á þessu er Steingrímur J. Sigfússon, þótt ekki vilja ég kvitta upp á vinnubrögð hans í Icesave málinu. Klofnu "afturhaldskommatittirnir" í mínum eigin flokki, Sjálfstæðisflokknum, virðast ekki heldur átta sig á því hvar lausnina er að finna!

 

Fischer & Spassky

Þegar allt hrundi síðastliðið haust og í vetur var tefld hér hálfgerð hraðskák og þá getur nú ýmislegt farið illa og menn leikið af sér. Við Íslendingar lékum því miður af okkur trekk í trekk og höfum alla tíð síðan verið í hálfgerðri "Sikileyjarvörn" og jafnvel enn ekki útséð með hvort við séum bara ekki hreinlega heimaskítsmát. Stjórnmálamenn í fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn hafa ítrekað reynt að breiða yfir slóð sína, en með misjöfnum árangri þó. Enn virðast íslenskir stjórnmálamenn stunda þetta þrátafl, sem þjóðin er algjörlega búin að fá upp í kok af.

 

Ég hef ítrekað lýst því yfir, að við landsmenn séum aðeins að sjá hluta af þeim samningi eða þeirri áætlun, sem við urðum að samþykkja til að hljóta fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, ESB, Bretum og Hollendingum og Norðurlöndunum, Rússum og Pólverjum. Sú stóra áætlun, sem sett var fram til bjargar Íslandi, er eitthvað á þá leið, sem getur hér að neðan. Björgunaráætlunin verður að fara fram í ákveðinni tímaröð, til að allir sem að áætluninni koma - ESB, AGS, Norðurlöndin - samþykki að vera með í henni:

  1. Umsókn um aðild að ESB er lögð inn.
  2. Icesave samningurinn samþykktur.
  3. Gengið frá erlendum lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Norðurlöndunum, Rússlandi og Póllandi (beðið eftir því að Icesave samningurinn verði samþykktur).
  4. AGS fer yfir og samþykkir áætlun ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. (beðið eftir samþakki Icesave samnings).
  5. Endurfjármögnun bankanna lokið með þátttöku erlendra lánadrottna (beðið eftir Icesave, erlendum lánum og samþykki AGS).
  6. Hröð endurreisn efnahagslífsins, m.a. með framkvæmdum (álver í Helguvík og á Húsavík og stækkun í Straumsvík, Kísilverksmiðja í Helguvík, gagnaver á Varnarsvæðinu og fleiri framkvæmdir). Að þessu koma nýir erlendir eigendur bankanna, auk þess sem erlend lán frá AGS, Norðurlöndum o.s.frv. verða notuð og peningar frá lífeyrissjóðunum.
  7. ESB aðildarviðræður, þar sem komið verður á móts við okkur Íslendinga í flestum efnum.
  8. Evrópski Seðlabankinn byrjar að styðja við krónuna, annaðhvort um leið og aðildarviðræður fara af stað eða þegar aðild hefur verið samþykkt. 
  9. Aðildarsamningur, þar sem viðurkennt er að ESB reglugerðinni um ábyrgðasjóðinn hafi verið ábótavant og því verði málin leyst á grundvelli Evrópusambandsins, þ.e.a.s. með þátttöku ESB í kostnaði (afskriftir á hluta Icesave skuldbindinganna), lækkun vaxta og lengingar í lánum o.s.frv.
  10. Aðild Íslands að ESB og hröð uppbygging íslensks efnahagslífs, m.a. vegna upptöku evru og aukinna fjárfestinga ESB landa á Íslandi.

Þetta er allavega eins og ég sé þetta í augnablikinu. Auðvitað lítur þetta út eins og einhverskonar töfralausn, en það hlýtur eitthvað bitastætt að liggja að baki umsnúningi Steingríms J. og sumra félaga hans í VG, í afstöðu þeirra til ESB og AGS. Þeir eru að leggja pólitíska framtíð sína og flokksins undir - ekkert minna.

ESB umsókn- Auðsjáanlegt er að umsókn Íslands að ESB kom engum á óvart innan sambandsins. Þetta sýndu m.a. jákvæð viðbrögð framkvæmdastjórnar ESB við aðildarumsókn Íslands, jákvæð viðbrögð utanríkisráðherra ESB og síðast en ekki síst jákvæð ummæli Joe Borg, framkvæmdastjóra fisveiðimála hjá ESB og Olli Rehn, framkvæmdastjóra stækkunarmála hjá ESB, þegar íslenskar sérlausnir hafa borið á góma í allan vetur. Þarna hefur Samfylkingin unnið ötullega að málum, allt frá því hún komst í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki.

Icesave samningur- Auðheyrilegt er að Icesave samningurinn tengist öllum þeim málum, sem nú eru til úrlausnar hjá ríkisstjórninni (ESB aðild, AGS láni og öðrum erlendum lánum, fjármögnun íslensku viðskiptabankanna).

Erlend lán- Svar Norræna fjárfestingarbankans við ósk Landsvirkjunar sýnir að hvergi verður lán að fá án þess að öll fyrrgreind mál komist í höfn. Samtal Steingríms J. Sigfússonar og Kristínar Halfvorsen, fjármálaráðherra Noregs, þar sem hún tilkynnir honum að öll sund séu lokuð án samþykktar Íslendinga á Icesave samningnum, segir sömu sögu.

Fjármögnun viðskiptabankanna - átti að vera lokið í febrúar en hefur verið margfrestað. Nú liggur í raun samkomulag fyrir, en ekki var hægt að ganga formlega frá því, hvers vegna? Er því ekki auðsvarað: ganga verður frá Icesave samningunum.

Fjármögnun HS orku og álversins í Helguvík og kísilverksmiðjunnar og gagnaversins- hefur verið á ís síðan í hruninu. Ég skal veðja að þetta kemst allt á skrið um leið Icesave er úr sögunni.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn & Franek Rozwadowski, sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi. Ummæli herra Rozwadowsky þess efnis að endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands yrði fyrst tekin fyrir í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar gengið hafi verið frá lánum Norðurlandanna til Íslands koma ekki á óvart í þessu samhengi. Íslenska ríkisstjórnin hefur hins vegar sagt að fyrst verði gengið frá lánum Norðurlandanna til Íslands þegar búið er að leysa Icesave deiluna við Hollendinga og Breta. Er þetta ekki mjög augljóst.

ÞotuliðiðÉg veit að mörgum finnst að okkur sé stillt upp við vegg, en var við öðru að búast þegar íslenskir glæpamenn (stjórnendur bankanna og útrásarvíkingarnir) höfðu rænt sparifé hundruð þúsunda Breta og Hollendinga og að auki svikið út nokkur þúsund milljarða úr bönkum og vogunarsjóðum um heim allan, skuldir sem felldar voru niður við gjaldþrot bankanna.

Heldur fólk að erlendar ríkisstjórnir og erlendir bankamenn séu himinlifandi yfir því að Íslenski seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið leyfðu íslensku bönkunum okkar að skuldsetja sig um 12 falda þjóðarframleiðsluna? Auðvitað eru mörg ef og kannski í kenningu minni, en höfum við nokkuð annað hálmstrá til að halda í en vonina um að þessi mál leysist einhvernvegin, t.d. á þann hátt sem ég teikna upp hér að framan? 

 

 

 


mbl.is Vill fresta umsóknarferli ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ég tek ofan. Eitthvað á þessa leið hefur mér sýnst að málin geti verið að þróast. Skil vel að Sjálfstæðisflokkurinn vinni gegn þessu á meðan núverandi stjórn situr. Þá veitir þeim ekkert af Birgittum Borgaranna og Sigmundum Frammaranna.

Verst finnst mér bjartsýnin á virkjanaframkvæmdirnar sem ég tel persónulega hafi verið illa ígrundaðar. Sérstaklega þær sem taka til gufuafls. Það eru vafasamara áætlanir því miður.

Gísli Ingvarsson, 26.7.2009 kl. 16:15

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gísli:

Það er fólk úr öllum flokkum að vinna gegn þessu á einn eða annan hátt.

Ég er heldur ekkert á því að við verðum að samþykkja þennan Icesave samning án þess að vera með einhverjar mótbárur, t.d. sterka fyrirvara og skilyrði.

Það sem mér finnst verst er þegar verið er að stöðva þjóðþrifamál vegna pólitískra keiluspila og skiptir þar einu hvort það er til vinstri, hægri eða á miðju stjórnmálanna. Við erum fyrst Íslendingar og síðan sjálfstæðismenn, samfylkingarfólk, vinstrigræn, framsóknarfólk eða meðlimir Borgarahreyfingarinnar.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.7.2009 kl. 16:51

3 Smámynd: Snorri Magnússon

Heill og sæll Guðbjörn.

Flott, nákvæm og góð færsla hjá þér.  Nákvæmlega svona hafði ég einmitt séð hlutina fyrir mér þegar ég bloggaði þetta (http://www.snorrima.blog.is/blog/snorrima/entry/916288/), þetta (http://www.snorrima.blog.is/blog/snorrima/entry/916864/), þetta (http://www.snorrima.blog.is/blog/snorrima/entry/920333/) og þetta (http://www.snorrima.blog.is/blog/snorrima/entry/920520/).  Ég er algerlega sammála töluliðunum 1 - 10 hjá þér og röðinni líka.  Nú er bara að bíða og sjá hvort kjöftugum ratist ekki rétt orð í munn.

Snorri Magnússon, 26.7.2009 kl. 17:27

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Snorri:

Já, þetta er eitthvað sem ég er búinn að benda á í nokkra mánuði, þótt enn séu að bætast við ný stykki í þetta flókna - eða í raun einfalda - púsluspil.

Ég vona að við höfum á réttu að standa í þessu máli, því það ríður á að koma hlutunum af stað.

Þótt ég myndi helst vilja segja við Breta og Hollendinga að stinga þessum samningi þú veist hvert, þá er það hreinlega ekki það skynsamlegasta og ábyrgasta í stöðunni  

Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.7.2009 kl. 18:20

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sigurbjörg:

Já, þetta er auðvitað rétt hjá þér, en á móti má segja að það fólk, sem var að ávaxta sína peninga á ofurvöxtum hefði mátt hugsa sinn gang aðeins fyrr. Sveitarfélög og góðgerðastofnanir voru víst varaðar við íslensku bönkunum.

Því miður fóru bæði formenn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í ferðir út um allar trissur til að verja þessa bölvaða glæpamenn og líkt og ég segi í færslunni erum við ábyrg fyrir aðgerðaleysi Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Hitt er svo annað mál, hvort við getum verið gerð algjörlega ábyrg fyrir skuldbindingum einkabanka á þennan hátt, þ.e.a.s. þegar um algjört hrun banka- og efnahagskerfisins er að ræða. Tryggingasjóðurinn var auðvitað ekki miðaður við slíka hluti, hvorki hjá okkur Íslendingum eða nokkurs staðar annarsstaðar í heiminum.

Að mínu mati þyrftu Evrópuþjóðirnar að lýsa því yfir að þær væru á sama hátt ábyrgar ef bankakerfið hrynur hjá þeim. Þá verður að skoða hvort við erum borgunarmenn fyrir þessum skuldum eða ekki. Ég bíð spenntur eftir skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þetta mál, en fyrirvarar Alþingis ættu m.a. að taka mið af útkomunni í þeirri skýrslu. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.7.2009 kl. 22:03

6 Smámynd: Björn Heiðdal

Einstök lönd fjárfesta ekki heldur fyrirtæki eða ertu að meina að ríkisstjórnir t.d. Finnlands séu að bíða eftir græna ljósinu til að fjárfesta á Íslandi?  Í hverju ættu þessi fyrirtæki síðan að fjárfesta?  Fara í samkeppni við Bónus eða setja á stofn fjölmiðla?

Björn Heiðdal, 27.7.2009 kl. 10:49

7 Smámynd: Héðinn Björnsson

Það voru greiddir fjármagnstekjuskattar til breskra og hollenskra yfirvalda af þessum reikningum og því lýsi ég algerri ábyrgð á hendur þeim. Íslenskur almenningur ber á þeim enga ábyrgð.

Héðinn Björnsson, 27.7.2009 kl. 12:37

8 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Sigurbjörg segir: "Við erum ábyrg samkvæmt lögum um tryggingasjóð". Þetta er eins rangt Sigurbjörg og hægt er að hugsa sér. Tilskipun 94/19/EB, sem fjallar um innistæði-trygginga-kerfin á Evrópska efnahagssvæðinu, segir skýrum orðum að aðildarlöndin bera enga ábyrgð á trygginga-kerfunum, ef þau koma þeim á fót í samræmi við tilskipunina. Fjölmargar skýrslur frá Seðlabanka Evrópu sega einnig hið sama. Varla viðurkennir þú að ESB sé að ljúga ?

Um þetta hef ég fjallað til dæmis hér: http://altice.blog.is/blog/altice/entry/908389/

Og einnig hér: http://carlbildt.wordpress.com/2009/07/22/valkommen-island/

Loftur Altice Þorsteinsson, 27.7.2009 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband