Við Íslendingar erum á alla mælikvarða dvergþjóð. Þegar við byrjuðum að braska í útlöndum vorum við blautir á bak við bæði eyru í samanburði við nær alla Evrópubúa aðra en kannski Austur-Evrópumenn. Þetta gildir jafnt um stjórnmálamenn okkar, eftirlitsstofnanir, bankamenn og þá sem kallaðir voru útrásarvíkingar. Að mínu mati voru embættismenn okkar, bankamenn og útrásarvíkingar "amatörar" á skákborði heimsviðskiptanna, en höguðu sér eins og skákmeistarar. Menn þurfa einfaldlega að kunna meira en mannganginn þegar teflt er við stórmeistara á alvöru skákmóti!
Í allan vetur hef ég hneykslast á hversu illa hefur verið haldið á almannatengslamálum okkar Íslendinga innan Evrópu og þó sérstaklega í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi. Það eina sem ég hef séð eru neikvæðar fréttir af bruðli okkar Íslendinga og mistökum bankanna og útrásarvíkinganna. Vissulega var bruðlað hér á landi, en þær skuldir sem við sitjum uppi með voru aðeins að litlum hluta notaðar í það bruðl og við værum ekki í vandræðum með borga þær skuldir á nokkrum árum. Það er í raun alvarlegt þegar íslenskir stjórnamálamenn, hvort sem þeir heita Geir H. Haarde eða Steingrímur J. Sigfússon, reyna að telja okkur Íslendingum trú um að skuldirnar séu einungis íslensku bruðli að kenna. Af erlendum og mörgum innlendum fréttum að dæma mætti halda að allir landsmenn gerðu þarfir sínar í gullslegin klósett í 400-500 fermetra nýjum einbýlishúsum, að risastórir flatskjáir væru í öllum herbergjum hjá okkur og að við ækjum öll um á Range Rover. Flestir þeir Íslendingar, sem erlendir fjölmiðlar hafa talað við, hafa tekið undir þessi sjónarmið og nægir þar að nefna "Besserwisserinn" Hallgrím Helgason. Eina undantekningu þekki ég þó, en það er bók Halldórs Guðmundssonar, Wir sind alle Isländer - Von Lust und Frust, in der Krise zu sein, en þar eru málin útskýrð af mikilli skynsemi og yfirvegun.
Jón Hákon Magnússon og fleiri sérfræðingar í almannatengslum hafa margoft bent á þá staðreynd, að við heyjum fjölmiðlastríð og að vopnin í því stríði séu umfjöllun og stríðsvettvangurinn fjölmiðlar. Það sem barist er um eru ekki landvinningar, heldur er barist um almenningsálitið í löndum Evrópu. Flestir stjórnmálamenn - hvar sem er í heiminum nema í Norður-Kóreu og Kúbu - hafa aðeins áhyggjur af einu og það er hvernig þeir koma út í fjölmiðlum, hvaða áhrif fjölmiðlaumfjöllun um ákveðin mál hefur á almenningsálitið. Þetta sást vel á lögbanni KB banka í síðustu viku og viðbrögðum stjórnmálamanna og viðbrögðum bankans í kjölfar ummæla stjórnmálamannanna. Fjölmiðlar og almenningsálitið geta gengið frá stjórnamálamönnum og stjórnamálaflokkum á nokkrum mánuðum, stundum nokkrum vikum og í einstaka tilfellum jafnvel á nokkrum dögum eða klukkustundum. Það er þetta stríð sem við verðum að reyna að vinna, því efnahagslega stríðinu erum við þegar búin að tapa.
Nú er ég búinn að lesa Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson og bókina Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarsson. Hrunið er að mínu mati mjög gott heimildarrit og Guðni fellur ekki í sömu gryfju og Ólafur að gerast leigupenni fyrir einhverja menn úti í bæ eða láta sínar persónulegu skoðanir lita alla frásögnina. Hatur útrásarvíkinganna - sem Ólafur Arnarsson vann fyrir - á Davíð Oddssyni er ótrúlegt og Ólafur velur eins og þeir að skella allri skuldinni á Davíð. Án þess að ég vilji gera of lítið úr sök Davíð - enda ber hann nógu mikla ábyrgð í þessu máli - þá held ég að sökin liggi hjá mikið fleiri mönnum.
Hvað sem hver segir, þá var Viðeyjarstjórnin umbótaríkisstjórn, sem kom hér á viðskiptafrelsi upp úr 1991, en oft gleymist þó að stór hluti þess frelsis fylgdi ókeypis með EES samningnum. Þetta frelsisferli gekk með mestu ágætum í byrjun, þótt vissulega hafi ríkisfyrirtækin mörg hver lent í höndum vina og vandamanna þessara sömu stjórnmálamanna og menn hafi í þessu sambandi talað um einkavinavæðingu. Þótt þjóðin hafi kannski ekki verið að fullu sátt við ástandið, var það alltént skárra en SÍS og Kolkrabbinn. Á þessum tíma vorum við ekki - og erum að vissu leyti ekki enn - þjóð, sem er spillt af lýðræði, upplýstri umræðu eða góðri stjórnsýslu. Vægi atkvæða var á þessum tíma svo kolrangt að það var með ólíkindum og stjórnsýslulög og upplýsingalög - sem voru búin að vera við lýði áratugum saman erlendis - tíðkuðust ekki hér á landi. Þessu kippti umbótastjórnin í liðinn og það var vel. Ísland var að nútímavæðast. Það gerðist margt gott á tímabilinu 1991 - 2000 og því virðist stór hluti þjóðarinnar því miður vera búinn að gleyma.
Stærstu mistökin urðu þegar þessir ágætu stjórnmálamenn - Davíð og Halldór - komu tveimur stærstu viðskiptabönkum landsins í hendur "sinna manna". Davíð Oddssyni sást ekki fyrir í þessu máli og hefndin lét ekki standa á sér, byltingin borðaði að vissu leyti börnin sín. Sumum þótti SÍS gamli og Kolkrabbinn slæmur, en það sem við tók var öllu verra - líkt og við höfum því miður nú orðið vitni að. Davíð sá menn taka sér laun sem honum fundust óhófleg og hann arkaði úr Stjórnarráðinu niður í Búnaðarbanka og tók sinn sparnað út. Davíð tók upp á þeim leiða ávana að vitna í ömmu sína í tíma og ótíma. Davíð sá að þessir menn voru búnir að sölsa undir sig nær alla smásölu í landinu, bankana, tryggingafélög og annað bitastætt. Davíð sá að þessir nýju herrar stofnuðu og keyptu fjölmiðla og framreiddu sannleikann - sem Morgunblaðið hafði til þessa haft einkarétt á - á þann hátt sem auðhringunum passaði. Um þetta vildi hann setja lög, en það mistókst hrapalega og það var ekki síst vegna þess að auðmennirnir áttu almannaumræðuna og gátu stjórnað henni að eigin vild og það gerðu þeir næstu árin, með hörmulegum afleiðingum fyrir okkur öll. Davíð hafði sumsé ekki lengur stjórn á einu né neinu og það líkaði honum mjög illa. Hann var veikur og þreyttur og ákvað að hætta í "aktívum" stjórnmálum, en stjórna landinu úr baksætinu. Þetta reyndi hann að gera í rólegu en vel borguðu "innistarfi". En allt var fyrir ekki, peningaöflin höfðu með "peningagjöfum" náð yfirhöndinni í 3/4 pólitísks lífs á Íslandi og Davíð og félagar réðu ekki neitt við neitt. Aðeins einn flokkur öfgaumhverfissinna, öfgavinstrisinna og öfgafemínista lét ekki tilleiðast, enda ólíklegt að útrásarliðið hafi viljað hreiðra um sig þar á bæ eða þetta fólk hafi áhuga á samneyti við útrásarliðið. Hin pólitísku vígin féllu öll.
Útskýra þarf fyrir þjóðum Evrópu, að Íslendingar voru fyrir nokkrum árum samansafn bænda, sjómanna og verkafólks. Að viðskipti hafi allt fram á byrjun 20. aldar verið í höndum Dana, sem hafi séð um að arðræna okkur á skipulagðan hátt öldum saman. Síðan hafi nokkrar íslenskar fjölskyldur tekið við keflinu ásamt Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Forvígismenn kolkrabbans og SÍS voru ekki bara eigendur Íslands hf, heldur einnig með meirihlutaeigu í flokkseigendafélögum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þetta ágæta fólk arðrændi almenning í landinu um áratuga skeið með mjög góðum árangri. Íslensk stjórnvöld fyrri tíma höfðu aldrei áhuga á að tækla SÍS eða Kolkrabbann sem vandamál, enda var hann ekkert vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn. Þessi fyrirbrigði döguðu uppi sem nátttröll í íslensku viðskiptalífi, þegar önnur og enn myrkari öfl tóku við stjórntaumunum á íslensku viðskiptalífi. Íslensk stjórnvöld höfðu í byrjun ekki áhuga eða vilja til að tækla þau viðskiptaveldi, sem tóku við af hinum fyrri. Vissulega voru sum þeirra, eins og t.d. Jón Ólafsson og Jón Ásgeir Jóhannesson, Davíð og félögum ekki þóknanleg, en það var nú samt látið viðgangast. Þegar Davíð og félagar ætluðu að bregðast við ógninni, sem um árabil hafði arðrænt íslenskan almenning og skuldsett landið svo mikið að við verðum næstu áratugi að borga þær skuldir, var það hreinlega orðið of seint.
Við Íslendingar berum að mínu mati ábyrgð á tveimur atriðum í öllu þessu máli. Það fyrsta er að hafa kosið yfir okkur slæma stjórnmálamenn undanfarin 7-8 ár. Þessa gagnrýni má þó ekki skilja sem svo að ég sé eitthvað óskaplega hrifinn af núverandi ríkisstjórn, því getuleysi hennar er ekkert minna en þeirra er setið hafa hér verið völd undanfarin 10 ár eða svo. Í öðru lagi berum við óbeina ábyrgð á því að spilltir stjórnmálamenn skipuðu vanhæfa embættismenn í æðstu stöður Seðlabankans og í Fjármálaeftirlitið, menn sem auðsjáanlega vissu ekkert hvað þeir voru að gera.
Ég vil þessum mönnum ekki svo illa, að þeir hafi áttað sig á því að með aðgerðarleysi þeirra hafi þeir verið að setja íslensku þjóðina á hausinn, þeir vissu bara ekki betur. Ólíkt Ólafi Arnarssyni í bók hans Sofandi að feiðarósi ætla ég ekki Davíð Oddsyni, að allar hans gjörðir undanfarin ár hafi verið ein allshverjar hefndaraðgerð gagnvart Jóni Ásgeiri og Baugi. Þessar alhæfingar eru í besta falli kjánalegar. Ég ætla heldur ekki íslenskum ríkisstjórnum, þingmönnum, embættismönnum eftirlitsstofnana eða ráðuneyta annað en að þeir hafi unnið samkvæmt bestu samvisku og dugnaði, bæði fyrir og eftir hrun. Þeir kunnu bara ekki til verka, höfðu ekki þá nauðsynlegu reynslu, sem þjóðir annarsstaðar í heiminum höfðu til að fást við alþjóðlegt fjármálakerfi eða bankakreppur. Þetta óx allt saman yfirvöldum yfir höfuð. Glæpaverkin hjá bönkunum byrjuðu að mínu mati fyrir alvöru þegar þessir menn sáu að spilaborgin var að hrynja. Glæpaverkin í útrásarfyrirtækjunum voru við lýði frá byrjun þeirra og víkingarnir höfðu æft sig í glæpamennsku hérna heima áður en þeir fóru út. Í algjörri "paník" var þá reynt að bjarga hlutunum á síðustu stundu. Líklega hafa þessir menn verið haldnir þeirri áráttu okkar Íslendinga að halda að hlutirnir "redduðust" á síðustu stundu. Svoleiðis menn vill maður ekki hafa við stjórn landsins, stjórn stofnana ríkisins eða við stjórn banka eða stórfyrirtækja.
Íslenska þjóðin ber því beina pólitíska ábyrgð á málum fyrir að refsa ekki stjórnmálamönnum í kosningum fyrir að skipa vanhæfa einstaklinga í æðstu stöður ríkisins. Íslendingar bera hins vegar ekki beina ábyrgð á þeim glæpaverkum, sem unnin voru í einkabönkum eða einkafyrirtækjum hér á landi eða erlendis og leiddu til algjörs hruns efnahagslífsins. Allt þetta þarf að útskýra fyrir þjóðum Evrópu. Ég hef fulla trú á að þjóðir Evrópu sýni málinu einhvern skilning þegar þeir átta sig á að við treystum fávísum stjórnmálamönnum fyrir landinu okkar og þessir fávísu menn skipuðu vanhæfa vini og vandamenn í æðstu stöður hjá ríkinu sem brugðust eftirlitshlutverki sínu og þetta varð til þess að ótýndir glæpamenn og ævintýramenn settu landið á hausinn.
Við vorum bara sveitamenn, sem kunnum að róa til fiskjar og eitthvað til ræktunar í okkar hrjóstruga landi, en viðskiptamenn vorum við ekki þegar við ætluðum að sigra heiminn upp úr árinu 2000. Kannski að þetta takist í tilraun tvö. Reynsluna höfum við náð í, þótt hún hafi verið dýrkeypt! Svo er spurning hvort þjóðin hefur áhuga á annarri úrás?
Tveir handteknir vegna ráns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:35 | Facebook
Athugasemdir
Gott yfirlit hjá þér Guðbjörn og ritað af skynsemi og innsæi.
Það er einmitt af þessari ástæðu sem ég óttast mjög aðildarviðræður og aðild að ESB. Það þarf að tefla fram ,,stórmeisturum" Íslands svo við notum áfram líkingamál úr skákinni í aðildarviðræðum og síðan í áframhaldandi samskiptum við stórveldið ESB ef ekki á illa að fara fyrir íslenskri þjóð. Sporin hræða eins og þú vitnar um í þínum stórgóða pistli.
Jón Baldur Lorange, 4.8.2009 kl. 13:13
Guðbjörn,
Fín grein hjá þér.
Kapp er best með forsjá. En hana vantaði. Þetta þurfum við því að læra. Fara okkur hægar, yfirvega hlutina, horfa til lengri tíma, gera upp við okkur hvers konar samfélag við viljum búa okkur og börnum okkar. Ég trúi því að hægt sé að búa til gott samfélag á Íslandi. Ísland er gott land. Fólkið sem landið byggir þarf hins vegar nauðsynlega að læra yfirvegun - og samfélagslega ábyrgð. Vægi efnishyggju þarf að minnka. Spillingu og einkavinavæðingu þarf að ryðja úr vegi. Gagnsæi þarf að ríkja í stjórnsýslunni allri. Ef okkur tekst að snúa ofan af vanköntum samfélagsins trúi ég því að framtíðin sé björt því tækifærin eru mörg og stór.
Eiríkur Sjóberg, 4.8.2009 kl. 13:21
Einhvernvegin langar mig ekkert í nýja útrás eða aðra tilraun með ógurlegt misvægi markaðsstærðar og stjórnkerfis. Við verðum annað hvort að fá betri stuðning við eftirlitskerfin okkar erlendis frá eða loka af gagnvart hinum sameiginlega innra markaði. Við höfum einfaldlega ekki efni á því að leifa aftur einkaaðilum að verða umtalsvert voldugri en stjórnsýslan sem á að hafa eftirlit með þeim.
Héðinn Björnsson, 4.8.2009 kl. 18:00
Jón Baldur:
Já, andinn er yfir okkur báðum þessa dagana.
Ég sé nú ekki betur en að Lúxemborg og Malta plummi sig vel í Evrópusambandinu og Möltu tókst að ná ágætis samningi, þrátt fyrir smæðina.
Þú mátt ekki gleyma að svona lítið land hefur færri hagsmuna að gæta og er ekki ógn fyrir einn eða neinn. Þannig eru engin önnur stór fiskframleiðslulönd innan sambandsins, allavega hvað hlutfall af þjóðarframleiðslu varðar.
Eiríkur:
Mikið er ég sammála þér og það var gott samfélag hér á árunum 1997 - 2002 og það án einhverrar útrásar.
ESB aðild mun tryggja hér þann pólitíska og efnahagslega stöðugleika sem okkur vantar.
Héðinn:
Við skulum ekki útiloka einhverja mini-útrás í framtíðinni í því sem við kunnum, s.s. fiskveiðum og þeim iðnaði sem við erum sérfræðingar í. Ég lít þar til Marel, Össurar og tölvuleikjaiðnaðar og síðast en ekki síst orkuvinnslu.
Þótt brennd börn forðist eldinn þá nálgast þau hann fyrr eða síðar á skynsamlegum nótum og varlegar en fyrr.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 4.8.2009 kl. 18:59
Þú gengur út frá því Guðbjörn að Bretum sé umhugað um velferð Íslendinga og þiggur að launum lof frá ESB sinnum.
Mér finnst alveg sjálfsagt að skattleggja núlifandi Íslendinga fyrir að kjósa sér vanhæfa og spillta stjórnmálamenn en það er ekkert réttlæti í því að þessi vanhæfu stjórnvöld, smokri sér undan ábyrgð með því að umbreyti afgöpum sínum í erfðasynd óborinna kynslóða sem skuli refsað fyrir með fátækt eða landflótta.
Sigurður Þórðarson, 4.8.2009 kl. 20:43
Sigurður:
Ég er nú ekki viss um að Bretum sé umhugað um velferð okkar.
Hins vegar er ég nokkuð viss um að þeir vilji ekki leggja hér allt í rúst, því þá fá þeir ekkert af þessum peningum til baka.
ESB hefur heldur ekki áhuga á að hér gangi allt á afturfótunum, því þau lönd sem komið hafa í sambandið undanfarin 20 ár eru - fyrir utan Norðurlöndin - allt fátæk ríki.
Ég er sjálfur ESB sinni þannig að ég þarf ekkert á lofi ESB sinna að halda.
Ég legg kalt mat á stöðuna eins og hún er og það kalda mat segir mér að réttast sé að semja um Icesave og setja fyrir ríkisábyrgðinni ákveðna fyrirvara er byggjast á mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands í dag.
Skynsemi mín sagði mér líka að rétt hafi verið að sækja um aðild að ESB. Niðurstöður aðildarviðræðnanna leiða síðan í ljós hvort það er aðlaðandi kostur fyrir okkur Íslendinga.
Náum við góðum samningi og fáum síðan einhverja efnahagslega hjálp ESB, sem ekki þarf að vera í beinum fjárframlögum, heldur stuðningi við krónuna og í formi lánalenginga o.s.frv. Aðild að ESB gæti að mínu mati hjálpað mjög mikið til við að komast út úr þessari lægð og tryggt framtíðarhorfur hér til lengri tíma og þannig komið í veg fyrir fólksflótta. ESB mun hjálpa okkur við að koma hér upp réttum ramma utan um efnahagsmálin, en við þurfum síðan sjálf að vinna vinnuna. Þetta gerði ESB á Spáni, Írlandi og í Austur-Evrópu, þar sem kraftaverk hefur verið unnið á þeim 20 árum sem liðin eru frá falli járntjaldsins.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 4.8.2009 kl. 23:50
Rétt er það að Bretar hafa engann áhuga á okkar velferð sem slíkri, ekki frekar en fyrrverandi nýlendum sínum.
Þess vegna tel ég að ef við borgum ekki í þóknanlegum gjaldmiðli verður einfaldlega gengið yfir okkur og auðlindir okkar arðrændar líkt og fyrrverandi nýlenduherrum er einum lagið.
Miðað við framgöngu Breta og niðurlendinga þá eiga þeir eftir að túlka þetta icesave plagg eins og þeim sýnist. Burt séð frá því að þeir sjálfir lána okkur fyrir skuldunum... Þvílík endaleysa... Fyrr má rota en dauðrota.
Sindri Karl Sigurðsson, 5.8.2009 kl. 00:11
Sæll Guðbjörn, það er vel þekkt í lánaviðskiptum að kröfuhafi þénar á ógjaldfærni skuldarans, því þá getur hann gjaldfellt skuldabréfið samkvæmt skilmálum þess. Skilmálarnir eru þannig að Bretar hafa ríkar gjaldfellingarheimildir og þeir geta gegnið að öllum eignum Íslands burtséð frá því hvert eðli þeirra er eða í hvaða tilgangi þær þjóna. Samkvæmt samningnum afsala Íslendingar sér friðhelgi ævarandi og óafturkallanlega. Samt gefur þú þér að Bretar græði ekki á að gera Íslendinga ógjaldfæra. Af hverju? Ekki frýja ég þér vits en hef þig grunaðan um að gera þér upp einfeldningshátt.
Nú liggur fyrir að allt uppbyggingarstarf frestast í tvö ár vegna þess að Samfylkingunni tókst með ýtni að fá Alþingi til að samþykkja aðildarumsókn og það á versta tíma fyrir Ísland. Maður hefur heyrt það sjónarmið að rétt sé að koma þessu máli út úr heiminum og það mætti til sanns vegar færa að nokkuð væri til þess vinnandi að snúa sér að raunverulegum verkefnum til heilla því ekki veitir af. En þetta er ekki svona einfalt Alþingi felldi þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn og aftur bindandi þjóaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning þegar hann liggur fyrir. En jafnvel þó við tryðum því að æstustu ESB sinnar myndu taka tillit til ráðgefandi atkvæðagreiðslu almennings og fella samninginn þá er málinu ekki endilega lokið því þeir eru vísir með að halda þessu áfram. En út komumst við ekki með góðu móti. Best væri að kjósa aftur svo hægt sé að snúa sér að uppbygginu Íslands af fullum krafti.
Sigurður Þórðarson, 5.8.2009 kl. 01:25
Sindri Karl:
Hvernig ætla þeir að sækja auðlindirnar?
Koma með skip í okkar landhelgi og veiða fiskinn?
Leggja kapal úr Búrfellsvirkjun til Skotlands?
Fylla bresk tankskip af vatni eða vikri?
Sigurður:
Bretar eru kannski harðir í horn að taka, en þeir eru ekki villimenn og Norðurlöndin, Evrópusambandið (sérstaklega ef við verðum aðildarríki) og alþjóðasamfélagið mun ekki leyfa Bretum eða Hollendingum að valta yfir okkur á þann hátt, sem þið haldið.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 5.8.2009 kl. 20:27
Þeir notfæra sér klausuna í IceSave "samningnum" til þess að fylla upp í gatið sem við getum ekki borgað. Til þess er sú klausa og einskis annars.
Já þeir gætu mögulega mætt á "miðin aftur" ef ekki er haldið í eyrun á stjórnvöldum.
Og já þeir gætu lagt kapal til Skotlands og tekið eina virkjun eða svo upp í skuld, með sömu rökum.
Þeir eiga nóg af vatni, amk. í Skotlandi, þannig að það er ekki gróðavænlegt.
Kannski kominn tími á að ræsa Jón Væna...?
Sindri Karl Sigurðsson, 8.8.2009 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.