Siðblinda í íslensku samfélagi

Nicolo MacchiavelliÞótt ekki sé ég níhilisti hef ég í nokkur ár haft áhuga þessu fyrirbæri. Áhugi minn vaknaði í BA námi í þýsku, þar sem þessi mál bar – eðli málsins samkvæmt – nokkrum sinnum á góma. Í meistaranámi mínu í Opinberri stjórnsýslu var okkur ráðlagt, af dr. Gunnari Helga Kristinssyni, að lesa bókina Furstinn eftir Macchiavelli. Ég hafði lesið bókina nokkrum árum áður og haft mjög gaman af. Ég las hana aftur árið 2005 og hafði ekki jafn gaman af. Ég sá sem var, að Ísland var að mörgu leyti ekki ósvipað litlu borgríki á Ítalíu á miðöldum, þar sem algjör aðskilnaður hafði orðið milli stjórnmála og siðferðis og það sem verra var algjör aðskilnaður milli stjórnmála og kristilegs siðferðis. Þeir sem lesið hafa bókina hljóta að samsinna mér í þessu efni. Hugleiðingar mínar í dag eru sprottnar upp úr Kastljósviðtali Sigmars Guðmundssonar við Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, fyrir nokkrum dögum, hugleiðingum mínum og pælingum í vetur um hrunið, nepótisma og aðra pólitíska spillingu, níhilisma, siðblindu, hvar sem hún finnst og bókina Furstann eftir Macchiavelli. Mér finnst þetta allt saman tengjast órjúfanlegum böndum.

TurgenevNíhilismi dregur nafn sitt af latneska orðinu „nihil”, sem þýðir í raun „ekkert”. Níhilismi er þannig einhverskonar heimspeki orðsins „nei”. Níhilistinn heldur því blákalt fram, að siðferði eða þekking byggist aðeins á huglægu mati eða vali viðkomandi, sem byggist á tilfinningu en ekki staðreyndum og séu því í raun ekki til og því ekki marktæk. Stjórnmálaleg útgáfa níhilisma er svipuð, eða að eyðileggja beri allar valdastofnanir þjóðfélagsins án þess að eitthvað eigi að koma í stað þeirra. Siðmenning okkar, sem byggir að stórum hluta á trúarbrögðum, heimspeki og svo auðvitað ofangreindu huglægri þekkingu og siðalögmálum sé aðeins tilraun til að fela þá staðreynd að lífið sé tilgangslaust. Ég spyr í framhaldi af þessu, hvort sú ágæta stefna frjálshyggjan hafi ekki gengið of langt á Vesturlöndum á undanförnum árum líkt og kommúnisminn gerði á sínum tíma. Breyttist ekki hugmyndin um frjálsa verslun og viðskipti í meðförum misviturra stjórnmálamanna margra Vesturlanda í hálfgerðan pólitískan níhilisma? Með sömu rökum og félagshyggjumenn halda því fram að vinstri stefnan sé ekki dauð úr öllum æðum, þrátt fyrir skipbrotið sem stefnan leið í formi kommúnismans, vil ég leyfa mér að fullyrða, að „hófleg” frjálshyggja sé heldur ekki dauð úr öllum æðum, þrátt fyrir að kapítalismann hafi steytt á skeri!

ENRONÞað sem einkennir siðblinda einstaklinga er skeytingar- og virðingarleysi þeirra gagnvart óskrifuðum og stundum jafnvel skrifuðum reglum samfélagsins og gagnvart meðborgurum sínum. Siðblinda einskorðast þó ekki aðeins við einstaklinga, heldur magnast hún jafnvel upp þegar margir koma saman. Þetta kom mjög skýrt fram í ENRON málinu fræga, sem Kristján G. Arngrímsson blaðamaður gerir mjög góð skil í grein sinni í Morgunblaðið 7. júní 2006. Kristján lýsir þar niðurstöðum rannsókna „siðblindusérfræðinganna” og sálfræðinganna Robert Hare og Paul Babiak á siðblindu innan fyrirtækja. Þar er skýrt frá því, að siðblinda sé ekki geðveiki, heldur sé um persónuleikabrest að ræða. Grundvallareinkenni brestsins séu algjört samviskuleysi og fullkominn skortur á hluttekningu og samúð. Siðblindingjar séu: „ ... gráðugir, sjálfselskir, svikulir, óáreiðanlegir og gjarnir á að fá óhamin reiðiköst. Þeir eru rándýrin í mannfélaginu. En við fyrstu kynni eru þeir algjörlega heillandi, skilningsríkir og sjálfsöryggið skín af þeim.” Ég spyr ykkur lesendur góðir á þessi lýsing ekki vel við um viðbrögð útrásarvíkingana okkar, viðbrögð stjórnenda bankanna og viðbrögð stjórnmálamanna, sem sök eiga að máli?

Big Business & CrimeAf þessu leiðir, að ekki er hægt að lækna siðblindu eins og hvern annan sjúkdóm. Það sem er enn verra, er að það fer eftir stað og stund og gildismati þjóðfélagins hverju sinni, hvað við teljum siðblindu og hvað ekki. Mér er t.d. hugsað til þess þegar styrjaldir eða náttúruhamfarir dynja yfir og allt mat manna breytist eins og hendi sé veifað. Menn, sem við myndum telja miskunnarlausa og kaldrifjaða, eru hetjurnar í stríðinu, en verða síðan afbrotamenn og úrhrök eftirstríðsáranna eða kaldrifjaðir, miskunnarlausir stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar þeirra sömu ára, sem allir hafa í miklum metum. Þeir Hare og Babiak rekja þær miklu breytingar, sem orðið hafa á umhverfi stórfyrirtækja í Bandaríkjunum á undanförnum árum, sem fólust m.a. í því að gömul og stór fyrirtæki skruppu saman og og runnu saman við önnur auk þess sem samkeppni hafi mjög harðnað. Allt þetta hafi í raun búið í haginn fyrir fólk haldið siðblindu án þess að til þess hafi verið ætlast. Hare heldur því fram, að nær eina leiðin til frama innan fyrirtækja sé að ganga siðblindingjunum á hönd. Þjóðfélagið ýti síðan undir þessa þróun með meiri áherslu á hluti á borð við „ ...yfirborð og stíl á kostnað áherslu á innihald og grunnatriði”. Ef þetta á ekki við um árin 2002 - 2008 sérstaklega hér á landi, en þó einnig víða á Vesturlöndum?

Siðblindir einstaklingar færa sig upp á skaftið með tímanum. Í byrjun eru brotin smávægileg og ekki mjög tíð, þeim fjölgar síðan hratt og stöðugt hraðar auk þess sem þau vaxa að umfangi og alvarleika. Þetta gerir síðan siðblindingjum auðveldara fyrir að halda sínu striki án þess að brjóta lögin eða jafnvel fremja glæpi í skjóli eða með tilstilli laganna líkt og hér á Íslandi varðandi Icesave reikningana. Enn heldur Kristján áfram:

Ekki svo að skilja að allir sem komast til metorða innan stórfyrirtækja séu fyrirlitlegir siðleysingjar. Fyrr mætti nú vera. Metorðin segja ekkert um siðgæði fólks, það eru aðferðirnar sem það beitir, og þá fyrst og fremst viðhorf þeirra til samstarfsmanna sinna, sem skera þar úr. Hare segir að líklega sé erfðagalla um að kenna - en vissulega hafi félagslegt umhverfi áhrif - að siðblint fólk finnur ekki tilfinningar á borð við depurð, ótta, sektarkennd og iðrun, þótt það hafi fullkomlega vitsmunalegan skilning á þessum tilfinningum.
 
En siðblindingjarnir upplifa aldrei tilfinningarnar sjálfar og geta þar af leiðandi ekki haft eiginlegan skilning á því hvernig öðru fólki - sem hefur þessar tilfinningar - raunverulega líður. Og þar af leiðandi geta siðblindingjarnir ekki sett sig í spor þessa fólks. Það mætti líkja þessu við að maður myndi lesa og læra allt sem hægt er að læra um tannpínu, en maður myndi samt ekki í raun og veru skilja þjáningu þess sem haldinn er tannpínu ef maður hefði aldrei fengið hana sjálfur.
 
Hare telur að í Norður-Ameríku sé um það bil eitt prósent íbúanna siðblint. Þótt siðblint fólk sé í sumum tilfellum vissulega fært um að fremja morð sé það í flestum tilvikum greint og vel upp alið og "nýti" því þennan eiginleika sinn fremur til að öðlast völd, virðingu og peninga. Siðblindingjar séu því í fæstum tilvikum beinlínis hættulegir. 


Hér að neðan gefur síðan að líta ýmsar tegundir persónuleikatruflana af andfélagslegri gerð, sem byggist á grein Gylfa Ásmundssonar, sálfræðings, í tímaritinu Geðvernd, 1 tbl. 1999. Ég tel hana lýsa mjög vel ýmsu því, sem við Íslendingar höfum upplifað í stjórnmálum og viðskiptum áundanförnum árum:

Persónuleikatruflanir af andfélagslegri gerð:

• Tillitsleysi við aðra og hneigð til að brjóta á öðrum í eiginhagsmunaskyni.
• Virðingarleysi fyrir siðum, reglum og lögum sem leiðir oft til afbrota.
• Viðkomandi beita ofbeldi ef það þjónar eigin stundarhagsmunum.
• Beita lygum og blekkingum auðveldlega.
• Hafa litla stjórn á löngunum, framkvæma fljótt það sem þeim dettur í hug en sjá ekki fyrir afleiðingarnar og læra ekki af reynslunni.
• Hafa grunnar tilfinningar og hafa ekki samúð með öðrum nema á yfirborðinu.
• Hafa ekki hæfileika til að tengjast öðrum tilfinningaböndum.
• Samviskuleysi.
• Siðblinda.

Geðhrifa persónuleikaröskun (hystrionics)

Helstu einkenni:

• Ýkt geðbrigði.
• Athyglissýki.
• Framkoma þeirra hefur stundum á sér kynferðislegt yfirbragð.
• Sjálflæg persónuleikaröskun (narcissistisk)


Einkenni: 

• Sjálfmiðaðir og sjálfumglaðir einstaklingar.
• Hafa lítið innsæi í eigið sálarlíf.
• Eiga erfitt með að setja sig í spor annarra og taka tillit til þeirra.
• Eiga erfitt með að taka gagnrýni og sjá yfirleitt ekki sök hjá sjálfum sér.
• Þegar þessir eiginleikar verða mjög áberandi í fari manns, sérstaklega ef þeir hafa truflandi áhrif á samskipti hans við annað fólk, flokkast það undir persónuleikaröskun.


Heimildir:

Kristján G. Arngrímsson, Viðhorf - Snákar í jakkafötum - Morgunblaðið, 7. júní, 2006 .
Gylfa Ásmundssonar, sálfræðingur, Andfélagsleg persónuleikaröskun (antisocial) 
Geðvernd, 1 tbl. 1999.
Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við við Háskóla Íslands, (http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=247)


mbl.is Hagar í gjörgæslu Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Guðbjörn!

Enn á ný eru hugleiðingar þínar áhugaverðar og viðeigandi.  Raunar er umræðuefnið afar mikilvægt!  Eins og ég hefur áður líst tel ég orsökina að hruninu að leita fyrst og fremst í siðfræðilegum efnum - að hinar efnahagslegu hamfarir séu afleiðingarnar.

Siðferðisbrestur getur verið afleiðing skilgreinds sjúkdóms eða afbrigðileika í mönnum.  Siðferðisbresturinn kemur líka fram í sjúku samfélagi.  Einmitt í þessu ljósi verður að gagnrýna frjálshyggjuna sem næsta óbundin hefur sett risa stórt mark sitt á samfélagið og hugsun manna. 

Spyrja verður þess hvers konar samfélag við viljum búa okkur og börnum okkar.  Og hver sé leiðin að slíku markmiði.

Það segir í ritstjórnargrein Morgunblaðs morgundagsins, sunnudagsins 23. ágúst, að höfða þurfi til siðferðiskenndar þeirra sem stundi viðskipti þegar reglusetningar verða endurskoðaðar og endurbyggðar.  En gengur það?  Hefur það borið tilætlaðan árangur?  Er mönnum treystandi óbundnum og frjálsum?  Höfum við eitthvað lært?

Eða verður ekki að setja skýrar leikreglur?  Þarf ekki að skerpa á hinni samfélagslegu ábyrgð okkar allra?  Erum við ekki alltaf í samfélagi?  Erum við ekki fædd og alin í samfélagi við annað fólk?  Við erum í rauninni ekki eylönd í þessum skilningi heldur er allt samhangandi, ég og þú og samfélagið og náttúran.  Maðurinn einn er ei nema hálfur, en með öðrum meira en hann sjálfur.

Hugmyndafræði sú sem stýrir samfélaginu tekur breytingum í rás tímans.  Hugarfar okkar mótast af menningunni, og menningin mótast af hugarfarinu.  Hugmyndir takast á, thesan og anti-thesan.  Svo verða til nýjar synthesur, í eilífri hegelískri díalektík. 

Hrunið er lexía sem við hljótum að taka tillit til.  Lærdómurinn er fyrst og fremst bundin við siðfræði; gildismat okkar og hugarfar.

Eiríkur Sjóberg, 22.8.2009 kl. 21:28

2 Smámynd: Sævar Finnbogason

Sæll Guðbjörn

Ég er eiginlega sammála þér og held að það sé óhætt að nota svo sterkt orð sem siðblinda um þetta viðtal við Hreiðar Má. Ég fór í framhaldinu að velta þessu fyrir mér varðandi samfélagið og lýðræðið.

Siðferðishugmyndir samfélaga er vissulega breytilegt og þróast með tíðarandanum og umhverfinu. Leiðtogar og smærri hópar innan samfélaga. Hér á Íslandi varð varð siðrof, það gerðist ekki yfir nóttu, heldur síðasta áratugin.  Við sjáum til að mynda hvernig Íslensk yfirvöld og þjóðin sjálf hefur tekið á Icesave málinu. Lengi vel leit út fyrir að meirihluta Íslendinga fyndist í góðu lagi að byrgðinni af aulagangi lýðræðislega kjörinna stjórnvalda á Íslandi yrði borin af annaðhvort innistæðueigendum eða skattgreiðendum í Bretlandi og Holland. Á sama tíma gerðu sömu einstaklingarnir kröfu um að innistæður sem það átti á bók í sama banka væru tryggar að fullu og að ríkið bætti það sem tapast hafði í hlutabréfasjóðum í Landsbankanum. 

Þessi afstaða ber ekki vott um siðferðisþrek. Þetta fyrirbæri hef ég kallað frekju-siðferði. Við sem höfum lært siðfræði þekkjum að menn hafa verið að reyna að svara spurningunni "hvað er réttlæti" frá ómunatíð og hvers vegna við ættum að vera réttlát. Vandinn var, er og líklega verður um langa hríð sá að hvorki heimspekinum né trúarbrögðunum, sem þó hafa þann aðstöðumun fram yfir heimspekina að hafa gríðarlegt andlegt vald yfir fylgjendum sínum, veitt aflausn og fyrirgefningu og einnig refsað, vakið sekttarkennd og ótta hafa geta lagt fram nægilega sterk rók til þess að fólk hegði sér eða hugsi með siðferðilegum hætti ef hagsmunum þess er ógnað.

Það er því ævinlega viðbúið að tómhyggju gæti hjá einhverjum hópi fólks. Það fólk spyr ekki hvort það sé réttlátt í gjörðum sínum neinum skylningi öðrum enlformlegum (lagalegum) og útfrá sinni eigin sjálfs-varðveislu. Þessi hópur fólk á sér málsvara í Ríkinu, eftir Platón í náunga að nafni Þrasímakkós sem hélt því fram að réttlætið væri hins sterka. Eftir að Sókrates hefur drekkt honum í retórikki um það hvað það sé alltaf  gott og göfugt að vera réttlátur spyr segir Glákon honum söguna um hring Gígesar sem átti að gera menn ósýnilega svo þeir gætu tekið sér hvað sem þeir vildu án þess að nokkur yrði neins vísari og lifað í vellistingum. Myndi einhver búa við sult og seyru ef hann ætti slíkan hring, myndi hinn sami ekki nýta sér hann?

Ég held að spurningin sé bara hversu mikla freistingu þarf til að fólk renni hringnum á fingurinn! Ég held að við getum skipt orðinu hringur út fyrir banka og hugsað okkur að í staðin fyrir að sögusviði sé Grikkland til forna sé það Ísland 2500 árum síðar.  

Mín niðurstaða er engu að síður að maðurin sé í eðli sínu siðrænn og í sinni einföldustu mynd nægir að skoða dæmi um einstakling sem stendur frammi fyrir því að ná einhverju marki, og að því eru tvær leiðir. Báðar kosta hann jafn mikið í peningum og tíma en að fara aðra leiðina þýðir að einhver bíður skaða. Í slíku tilfelli veldu allir siðlega kostinn, leiðina sem skaðaði engann. 

Við skulum því athuga siðferðisþrek getur tapast og Íslendingar þurfi að taka sig á í þeim efnum, sérstaklega í stjórnmálalífinu og viðskiptalífinu og í framhaldinu að búa til samfélag sem ýtir undur siðlega breytni. Því eins og áður sagði mótar umhverfið og reglaurnar sem við búum við hvernig við bregðumst við og högum okkur. 

Sævar Finnbogason, 23.8.2009 kl. 03:54

3 identicon

Þetta finnst mér mjög athyglisverð pæling.  Ég hef velt fyrir mér þegar verið er að skipa fólk í embætti, t.d. tengdum skilanefndum bankanna, hvað hafi orðið um hugtakið "vanhæfi"?  Ég býst við að það sé lögfræðilegt hugtak, en er augljóst og skiljanlegt orð öllum almenningi.  Ég set spurningarmerki við það að hámenntaðir menni kunni ekki að meta það sjálfir hvort þeir séu hæfir til að taka að sér verkefni, heldur þurfi utanaðkomandi aðilar aftur og aftur að hafa uppi á þeim vegna vensla við hagsmunaaðila eða beinna peningalegra hagsmuna þeirra sjálfra í störfum fyrir opinbera aðila.  Ég hef stundum á tilfinningunni að það hafi tapast einhver skynjun fyrir heiðarleika og þeirri vellíðan að geta sagst vera heiðarlegur maður og að allstór hluti þjóðarinnar sé orðinn illa innrættur lýður.

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 09:12

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég þakka ykkur öllum fyrir góðar athugasemdir og umræðan er einmitt á því plani sem ég óskaði mér.

Ég var með tvo tónleika í Gallerí Fold á Rauðarárstíg í gær kl. 16.00 og 20.30 og hafði því engan tíma til að sinna blogginu í gær og vona að þið fyrirgefið það! 

Kristinn:

Ég get tekið undir margt sem þú segir og gagnrýni þín á kvótakerfið er um margt hárrétt, enda hef ég aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi þess.

Vandamálin við að afnema það eru hins vega svo mörg að það verður mjög erfitt að snúa ofan af þeirri vitleysu, sem hefur viðgengis um áratuga skeið!

Ég skil alveg hvað þú ert að fara í gagnrýni þinni á Hafró og vísindakenningar þær sem uppi eru í fiskifræðinni. Langafi minn, afi minn og karl faðir minn voru sjómenn og síðustu 20 árin var pabbi togaraskipstjóri og bróðir minn var einnig stýrimaður og skipstjóri. Af þessum sökum þekki ég þína hlið á málinu og þeir gagnrýndu alla tíð nálgun fiskifræðinga og vonuðust til að þau fræði næðu lengra en þau hafa gert. Í raun eru þetta hálfgerð "spákúluvísindi" og fiskifræðingar taka sínar afdrifaríku ákvarðanir út frá mjög hæpinni aðferðafræði.

Vandamálið er hins vegar að við höfum ekkert betra í höndunum og það er það sem við þurfum að huga að!

Eiríkur:

Ég skil alveg hvert þú ert að fara. Það sem ég á við er að ekki er hægt að skella allri skuldinni á frjálshyggjuna sem slíka eða einkavæðingu bankanna. Frekar er hægt að segja að illa hafi verið staðið að einkavæðingu bankanna, líkt og Kristinn bendir réttilega á.

Það fór sem fór af því að illa var staðið að einkavæðingu bankanna og þeim var komið í hendurnar á mönnum, sem ekki áttu að hafa með höndum stjórn bankastofnana. Þessu til viðbótar var hér einfaldlega afleit efnahagsstjórn undanfarin 5-7 ár. Við bættist síðan að allt eftirlit og aðhald með viðskiptabönkunum í algjöru ólagi. Ofan á þetta bættist síðan að ýmsir viðskiptajöfrar höguðu sér eins og bandítar á markaði og komust upp með það án þess að þær stofnanir, sem eftirlit áttu að hafa, gerðu einhverjar athugasemdir. Flóknara er þetta ekki!

Siðblindan var alls ráðandi í stjórnmálum, Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu, Viðskiptaráðuneytinu og síðan hjá þeim sem mesta og raunverulega ábyrgð bera á efnahagshruninu: Viðskiptabönkunum og útrásarvíkingunum.

Sævar:

Ég þakka þér fyrir einstaklega góða athugasemd, sem hefði eiginlega átt fullan rétt á að vera sjálfstætt blogg! Miklar þakkir!

Gísli:

Alveg hárrétt hjá þér: "... að það hafi tapast einhver skynjun fyrir heiðarleika og þeirri vellíðan að geta sagst vera heiðarlegur maður ... "

Þetta er mjög vel að orði komist! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 23.8.2009 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband