Minnkum þjóðarframleiðsluna, horfum á fossa, förum til læknis, menntum okkur og verðum hamingjusöm ...

Jeanne d'ArcEf marka má þá snillinga, sem RÚV grefur upp einhverstaðar í útlöndum, má vera að hamingja okkar Íslendinga hafi enn aukist á því ári sem liðið er frá hruninu. Í Silfri Egils fyrir um tveimur vikum var rætt við Nóbelsverlaunahafann, Joseph Stiglitz, en hann og félagar hans hér á landi breiða núna út sama fagnaðarerindi og Vinstri græn hafa gert undanfarin ár, þ.e.a.s. að verg þjóðarframleiðsla sé ekki viðunandi leið til að mæla velferð og vellíðan manna. Það er ekki furða þótt Svíar hafi sæmt þennan mann Nóbelsverðlaunum, því hann hefur nær einn frægra hagfræðinga lofað og prísað sænska velferðarkerfið í áratugi, á meðan aðrir hagfræðingar trúðu á markaðslausnir. Tími Stiglitz og skoðanabræðra hans er auðsjáanlega kominn - allavega á Íslandi - á sama hátt og tími þjóðhetjunnar Jóhönnu af Örk er kominn - eða er það ekki annars? Lítið fer samt fyrir hetjudáðum kvenhetjunnar margrómuðu!

Kauphöllin í New YorkÍ kastljósinu í kvöld ræddi fréttamaður síðan við Bandaríkjamanninn Robert Costanza visthagfræðing, sem ótrúlegt nokk er algjörlega sammála Stiglitz. Costanza benti í viðtalinu á hversu margt vantar inn í útreikninga á vergri landsframleiðslu til að mæla velferð og lífshamingju fólks, t.d. mælingu náttúru- og félagsauðs. Með því að reikna út þennan náttúru- og félagsauð megi fá betri mynd af velferð og lífshamingju fólks en með hefðbundnum mælingum á þjóðarframleiðslu. Þá benti Robert Costanza á að einmitt núna sé tækifærið til að breyta stöðnuðum hagvaxtarhugsunarhætti og taka upp nýjar mælistikur. Þarna væri t.d. hægt að telja til hamingju, langlífi og möguleika fólks til langlífis, öryggis, skólagöngu, menntunar og annarrar opinberrar þjónustu og aðgang að náttúrunni. RÚV virðist hafa fengið magnafslátt af hagfræðingum af sama sauðahúsi og dembir þeim yfir okkur þessar vikurnar. Það er síðan einkennileg tilviljum, að menntamálaráðherra - yfirmaður RÚV - og flokkur hennar skuli vera algjörlega sammála þessum hagfræðikenningum? Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands heimta stóriðjuframkvæmdir og stuðningur almennings við slíkar framkvæmdir eykst hratt. Nú reyna hins vegar vinstri fjölmiðlar hvað þeir geta - líkt og undanfarin ár - til að heilaþvo almenning að nýju í átt að hreinum og tærum umhverfispólitískum rétttrúnaði.

Old hippiesÞetta eru athyglisverðar hugmyndir, en kannski ekki alveg nýjar af nálinni. Kristin kirkja hefur boðað þessar fallegu og góðu kenningar í um 2000 ár og sama máli gegnir reyndar um mörg önnur trúarbrögð: „Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki. Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa. Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða." o.s.frv. (Matt.5.1-11). Kommúnistar, sósíalistar voru einnig með svipaðar kenningar á takteinum og nutu þær mikilla vinsæla allt fram á miðja síðustu öld, þegar flestum var ljóst, að sú samfélagstilraun mistókst hrapalega. Upp úr 1960 kom síðan hippahreyfingin fram með svipaða „möndru", er beindist aðallega gegn „smáborgaralegu" umhverfi eftirstríðsáranna. Vitundarvakning  varð á þessum árum í víðtækara samhengi, bæði pólitísk og þjóðfélagsleg. Birtingarform þessar vakningar kom síðan fram í sinni endanlegu mynd í hinni svokölluðu 68-hreyfingu og til varð hin svokallaða 68-kynslóð. Stúdentauppreisnirnar hófust í París, en voru endurteknar í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn og öðrum borgum Evrópu, þar sem fjöldi vinstrisinnaðra íslenskra stúdenta drakk í sig „menningarbyltinguna". Stúdentauppreisnirnar voru af svipuðum toga og beindust gegn „stöðnuðum" hugsunarhætti borgarastéttanna.

Uppbygging, friður, vinna og brauð!Undanfarin ár hafa ungir sem aldnir umhverfissinnar haldið fram svipuðum skoðunum og á undanförnum árum hafa þær notið mikillar hylli meðal Íslendinga. Stjórnleysingjar og kommúnistar hafa síðan bæst í hópinn. Mótmæli stjórnleysingja og vinstri manna hér á landi undanfarin ár og skrílslæti og múgæsingur liðins veturs líkist að mörgu leyti þessum tíma frá 1960 - 1970. Að mínu mati stefnir í upplausnarástand og pólitíska óvissu næstu árin, þar sem vinstri sveiflan gæti styrkst með slæmum áhrifum á efnahagslífið, stöðnun, lítinn hagvöxt, mikið atvinnuleysi og þjóðfélagslegan óróa. Athygli vekur að Stiglitz er fæddur árið 1943 og Costanza árið 1950 og eru þeir því báðir af þessari svokölluðu hippakynslóð eða uppreisnarstúdentakynslóðinni. Ögmundur Jónasson var tvítugur 1968 og Steingrímur J. Sigfússon þrettán ára bráðþroska sósíalisti og námsviljugur lærlingur Svavars Gestssonar stúdents, sem útskrifaðist með láði úr námsflokkum Sameinaða sósíalistaflokksins (þ. SED/Sozialistische Einheitspartei Deutschlands) í Austur-Berlín. Lengi lifir í gömlum glæðum og þetta eru vissulega góðir lærimeistarar í þessum efnum, enda er það á allra vitorði að „mótmælunum" í vetur var stjórnað frá höfuðstöðvum VG og þau mótmæli felldu ríkisstjórnina. Sama gildir um mótmæli umhverfissinna undanfarin ár. Lítill hópur mótmælenda felldi í raun hinn lýðræðislega kjörna meirihluta Alþingis - lifi lýðræðið!  

RómarklúbburinnÁrið 1968 stofnuðu ítalski iðnjöfurinn Aurelio Peccei og skoski vísindamaðurinn Alexander King Rómarklúbbinn og árið 1972 gaf Rómarklúbburinn síðan út skýrsluna Takmörk vaxtar. Í þessari skýrslu var því haldið fram, að hagvöxtur gæti ekki haldið áfram endalaust vegna takmarkaðra auðlinda, einkum og sér í lagi olíu. Skýrslan vakti gífurlega athygli og seldist í yfir 30 milljónum eintaka. Allt frá því að þessi skýrsla kom út hefur hún verið gagnrýnd fyrir taumlausar ýkjur og óra höfunda. Á þessum árum vaknaði pólitísk vitund í menntaskólum og háskólum hér á landi og þó alveg sérstaklega erlendis m.t.t. umhverfisverndar og Græningjarnir urðu til. Þessi þróun var að mörgu leyti til góða og beindi sjónum manna að þessum mikilvæga málaflokki. Í framhaldi af þessu settu vinstri menn - þetta mikla hugsjónafólk - á dagskrána að berjast á móti gróðurhúsaáhrifum. Gróðurhúsaáhrif voru fyrst uppgötvuð árið 1824 af Joseph Fourier, en voru fyrst rannsökuð af Svante Arrhenius árið 1896. Án gróðurhúsalofttegunda væri meðalhiti á jörðinni um 30 ° C lægri en hann er í dag og jörðin þar með óbyggileg. Sveiflur í hitastigi hafa alltaf verið miklar. Ég man t.d. eftir því að þegar ég var unglingur upp um 1989, voru allt aðrar kenningar uppi eða að ný ísöld væri að ganga í garð. Mjög hafði kólnað á jörðinni á árunum 1945-1980 og vísindamenn drógu þá „rökréttu" ályktun að ísöld væri að bresta á.

Kjóstu til hægri og andrúmsloftið er dauttVinstri menn eru mjög gjarnir að einfalda hlutina mikið og taka einhvern boðskap upp á arma sína og boða hann sem heilagan sannleik. Þetta getur verið jöfnuður, jafnrétti, friður eða ófriður í formi byltningar, umhverfismál eða massívur þungaiðnaður, herinn burt eða herinn inn til að koma á kommúnisma o.s.frv. Sum þessara mála hafa verið mjög þörf og breytt heimsmyndinni til frambúðar og til hins betra, önnur hálfgerð della og öllum til óþurftar. Oft er ekkert hugmyndafræðilegt samhengi á milli þeirra hluta, sem þeir boða og setja saman í stefnuskrá, heldur er þetta einhverskonar „lýðskrumarablanda", sem vænleg er til sölu og skapar þeim mikla sérstöðu. Vinstri menn eru upp til hópa vel gefið fólk og með hjartað á réttum stað og meinar vel. Það hefur undantekningalaust alltaf sterkar skoðanir á öllum málum og í þeirra augum eru aldrei til neinar málamiðlanir. Ég þekki þetta mjög vel, af því að í minni fjölskyldu er mikið af vinstri mönnum og ég hef umgengist þá allt frá því ég fæddist eða í tæp 50 ár og rifist við þetta fólk frá því ég var unglingur. Það er skemmtilegt til þess að hugsa, að öfgafrjálshyggjufólk er að mörgu leyti mjög líkt vinstri mönnum og lýsingin á persónueinkennum vinstri manna hér að framan á einnig mjög vel við um öfgamenn til hægri. Ég veit að hér er um alhæfingar, sem standast kannski ekki algjörlega við nánari skoðun, en stundum er þörf á að skerpa sýnina til að koma auga á kjarna hlutanna.

Fallegur foss að horfa á ...Ekki ætla ég að gera lítið úr því að gott heilbrigðis- og menntakerfi og óspjölluð náttúra er þjóðinni ekki aðeins mjög mikilvæg, heldur felast í þessu kerfi og óspilltu landi gífurleg gæði fyrir allt þjóðfélagið, fólkið jafnt sem atvinnuvegina. Leyndarmálið á bak við þá velferð og lífshamingju, sem hér ríkir felst að stórum hluta í þessu kerfi og náttúr landsins. Hitt er svo annað mál, að ég læt ekki gamla sófakomma, hippa eða uppreisnarstúdenta af 68 kynslóðinni segja mér, að undirstaða þess velferðarsamfélags, sem við búum hér við, byggist ekki fyrst og fremst á þeim gífurlega hagvexti, sem hér hefur verið á undanförnum 70 árum, heldur sé þetta á einhvern hátt hálf sjálfsprottið fyrirbæri! Það er yndisleg tilfinning að njóta náttúrufegurðar og annarra lífins gæða, sem landið og þjóðfélagið hefur upp á að bjóða. Staðreynd er hins vegar að fólk, sem ekki býr við atvinnuöryggi, góð laun og getur ekki framfleytt sér og fjölskyldu sinni og staðið við sínar skuldbindingar, hefur enga ánægju af því að horfa á fallega fossa, hvað sem fréttamanni RÚV finnst um það! Fyrst þarf að fullnægja frumþörfunum, síðan kemur röðin að öðrum þörfum! Hellisbúar á steinöld máluðu ekki veggmyndir sínar á fastandi maga, heldur eftir að hafa slafrað í sig heilum vísundi! 

Myndir:

  1. Jóhanna af Örk
  2. Verðbréfahöllin í New York
  3. Eldri hippar á aldri við Stiglitz, Costanza, Jón Bjarnason og Ögmund
  4. Minningar frá Þýska alþýðulýðveldinu: Þitt atkvæði til uppbyggingar, fyrir friðinn, atvinnu og brauð
  5. Rómarklúbburinn
  6. Græningjar í Þýskalandi: svart (Kristilegir hægri demókratar), gult (Frjálslyndir), rautt (Sósíaldemókratar) - þetta eru einnig fánalitir Þýskalands - þýðir dauða andrúmsloftsins. Sjálfbæran orkubúskap í stað kjarnorku. Hitt atkvæði þitt er fyrir betra andrúmsloft.
  7. Fallegur foss, sem má njóta þess að horfa á í stað þess að hafa atvinnu eða brauð 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel skrifað. Gaman að heyra aftur heilbrigða hægrimennsku :)

Freyr B (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 09:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband