29.9.2009 | 12:17
Kveðjublogg - Davíð Oddsson þá og nú, auðsjáanlega ekki sami maður ...
Ég hef tekið þá ákvörðun að færa mig frá Morgunblaðinu yfir til Eyjunnar. Þetta er gert að vel yfirlögðu ráði í kjölfar þeirrar ákvörðunar eigenda Morgunblaðsins að ráða Davíð Oddsson sem ritstjóra blaðsins og opinbera þannig í verki fyrir hvað blaðið á að standa í framtíðinni, þ.e.a.s. grímulausum áróðri og lygaherferð gegn Evrópusambandinu, réttlátum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu og öðrum þeim umbótum, sem nauðsynlegar eru íslensku þjóðfélagi. Stjórnmálaskoðun mín hefur ekkert breyst og ef eitthvað er, hef ég á undanförnu ári fært mig lengra til hægri. Hægri markaðsstefna snýst nefnilega ekki um sérhagsmunagæslu fyrir ráðandi stéttir á borð við kvóta- og fjármagnseigendur, líkt og sumir virðast halda, heldur hvernig frelsið er virkjað til að úr grasrótinni spretti upp ný og framsækin íslensk sprotafyrirtæki. Yfirvalda er að tryggja - með góðri löggjöf og virku og ströngu eftirliti - að eðlileg samkeppni ríki á markaðnum og að lagaumhverfi tryggi jafnt hagsmuni fyrirtækja og neytenda, sem því miður mistókst undanfarin 5-6 ár með hörmulegum afleiðingum fyrir íslensku þjóðina. Þeir hægri menn, sem halda að sjálfstæðisstefnan snúist um sérhagsmunagæslu eru á miklum villigötum og komnir langt frá rótum stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þetta sama fólk á að leggjast yfir tímabilið 1991 - 2000, þegar sjálfstæðisstefnan var í heiðri höfð og viðskiptafrelsi og frelsi einstaklingins sýndi hvaða ótrúlegi kraftur býr í þjóðinni og hvernig slíkur kraftur er best leystur úr læðingi. Þetta sá Davíð á sínum tíma og vílaði ekki fyrir sér að á forsendum heilbrigðrar samkeppni yrðu bæði bæði Kolkrabbinn og Sambandið að víkja fyrir nýjum, öflugum viðskiptaöflum. Nú hefur Davíð hins vegar snúist á sveif með arftaka Kolkrabbans í baráttunni fyrir sérhagsmunum þeirra. Ég trúi því statt og stöðugt, að eina leiðin út úr þeim erfiðleikum, sem við svo sannarlega erum í, sé að hægri og miðju flokkar stýri landinu út úr hörmungunum. Blandað markaðshagkerfi með sterku atvinnulífi, sem m.a. byggir á frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar, öflugum sjávarútvegi og öðrum iðnaði, sé lausnin. Þetta er kannski engin töfralausn - enda engar slíkar á boðstólum - en þetta er samt lausnin.
Í kjölfar uppbyggingar í Helguvík og á Bakka verðum við síðan að leita að einhverju öðru en áli, fiski og landbúnaði til að sérhæfa okkur í, líkt og Webster Tarpley benti réttilega á í Silfri Egils sl. sunnudag. Gjarna má það tengjast áliðnaðinum, en ég hugsa þó frekar til umhverfistækni og lausna á ýmsum umhverfisvandamálum, líkt og margir hafa bent á, m.a. Ólafur Ragnar Grímsson. Leita verður sem mest má hagræðingar hjá ríkinu á næsta og þar næsta ári. Þar koma markaðslausnir ekki aðeins til greina, heldur eru þær forsenda þess að jafnvægi náist í ríkisrekstri. Auk nauðsynlegra sameininga stofnana og annarrar hagræðingar, þarf að huga að markaðslausnum, bæði í heilbrigðis- og menntakerfinu. Aðgangur almennings má að sjálfsögðu ekki breytast þrátt fyrir breytt rekstrarform og kostnaður fyrir almenning má heldur ekki aukast. Sömu rök og að frama greinir gilda fyrir menntakerfið. Öflugt heilbrigðis- og menntakerfi er dýrmætasta eign okkar Íslendinga og þannig á það að haldast. Það sem ég hins vegar óttast er að vinstri sveiflan nái flugi í landinu og að umsvif hins opinbera muni aukast eftir smávægilegan niðurskurð á næsta ári. Aðgerðaleysi vinstri stjórnarinnar í ríkisfjármálum, atvinnuuppbyggingu, skuldavanda fyrirtækja og almennings á þeim átta mánuðum, sem hún hefur verið við völd, sýnir glöggt hversu vanmegnug hún er til að leysa úr vanda þjóðarinnar.
Fyrir þjóðinni fer kona, sem vill eflaust vel, en hefur hvorki getu, kjark eða heilsu til að fást við vandann og hefur að auki ekki þann nauðsynlega eldmóð í brjósti, sem nauðsynlegur er til að blása þjóðinni kjark í brjóst til að berjast út úr vandanum. Þvert á móti hafa forsætisráðherra og fjármálaráðherra keppst við að mikla vandann fyrir þjóðinni, sem er fyrir full örvæntingar. Þeir hafa lýst komandi vetri fjálglega, líkt og Móðuharðindin væru að bresta á, þegar móða og eiturgufa lagðist á jörðina, gras sviðnaði og um 75% af búfénaði féll og fimmti hver Íslendingur dó Drottni sínum. Ég hef ekki trú á að næsti vetur verði jafn erfiður og liðinn vetur og ríkisstjórnin lýsir honum, en óttast þó að hann gæti reynst okkur skeinuhættur, t.d. varðandi brottflutning fólks, ef ekkert fer að gerast varðandi atvinnuuppbyggingu.
Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn átti sig á því, að með því leyfa Davíð Oddssyni - og heldri manna klúbbi hans - að stjórna flokknum á bak við tjöldin, er engum greiði gerður. Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verða að sýna að þau eru við stjórnvölinn en ekki gamla klíkan! Ef leiðtogar flokksins gefa eftir er það ekki leiðin út úr vandanum og til styrkingar, heldur vegurinn til sundrungar og togstreitu og táknar þar með endalok þeirra beggja sem leiðtoga. Leiðin sem á að fara var vörðuð í aðdraganda síðasta landsfundar, þar sem uppgjör fór fram á vegum endurreisnarnefndar flokksins. Það augljósa var viðurkennt, þ.e. mistökin sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar urðu á við einkavæðingu bankanna og mistök og aðgerðaleysi tveggja ríkisstjórna Geirs Haarde. Það er búið að viðurkenna mistökin og nú er að læra af þeim! Niðurstaða endurreisnarnefndar var rétt, eða að embættismenn og stjórnamálamenn hefðu brugðist, auk þess sem eftirlit ekki aukið í takt við stækkun bankanna og ekki stigið á bremsuna nógu tímanlega. Afleiðingarnar voru síðan auðvitað stórslys. Í stað þess að einblína á 4-5 ár í aðdraganda hrunsins getum við sjálfstæðismenn hins vegar byrjað á að benda stoltir á hvað rétt var gert á árunum 1991-2004, þ.e. þá staðreynd að við rifum landið upp úr tveggja áratuga efnahagslegu öngþveiti til stöðugleika og í röð fremstu landa heims hvað lífskjör varðar. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sáum við hvaða álit Davíð hafði á þeirri góðu vinnu, sem þar fór fram í endurreisnarnefndinni og þeim heiðarlegu, réttsýnu og grandvöru sjálfstæðismönnum, sem þar voru að verki. Hvorki Davíð eða Geir geta viðurkennt hreinskilnislega að þeir hafi gert mistök með einkavæðingu bankanna og í kjölfar henna eða með því að Davíð fór í Seðlabankann. Formenn Sjálfstæðisflokksins eru eins og páfinn, þeir gera ekki mistök, þótt við hin gerum það öll og neyðumst stundum til að viðurkenna það opinberlega og þykjumst fyrir vikið vera menn að meiri.
Nú sýna Davíð og hagsmunaaðilar tengdir honum, að þeim er ekkert heilagt í baráttunni gegn ESB aðild og öðrum nauðsynlegum breytingum í landinu. En þessi menn stjórnast ekki einungis af afturhaldssemi og stjórnsemi, heldur af grímulausri, ískaldri og skipulegri hagsmunagæslu fyrir eigendur fjármagns og fiskveiðiheimilda í landinu. Þeir sem eiga fjármagn á Íslandi og geta lánað almenningi og fyrirtækjum í verðtryggðum krónum á okurvöxtum hafa af eðlilegum ástæðum ekki áhuga á ESB, evru, lágum vöxtum og lágu verðlagi fyrir almenning. Nei, þetta myndi nefnilega kippa fótunum undan tilvist þessa fólks og þegar slíku fólki er stillt upp við vegg er því ekkert heilagt til að að verja sína sérhagsmuni. Nokkrir milljarðar, sem slíkt fólk eyðir í að kaupa sér fjölmiðla til að heilaþvo þjóðina með grímulausum áróðri, lygum og rangtúlkunum, sem nú beinist gegn ESB aðild en áður var notaður til að verja hagsmuni útrásarvíkinganna, er peningum sem er ekki aðeins vel varið, heldur er hreinn og klár fórnarkostnaður í stríðinu um sérhagsmuni þeirra.
Mér er hugsað til málflutnings Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, á Viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands 11. febrúar 2004, sem á jafn vel við fyrir fimm árum og núna, en kannski gildir ekki það sama um Jón og síra Jón:
Það verður einnig að spyrja þeirrar spurningar, hvort það skipti máli hverjir eiga fjölmiðlana. Undan þessari spurningu eigum við ekki að víkja okkur. Ekki er langt síðan blöðin hér á landi voru pólitísk málgögn sem einkum var ætlað að vera málsvarar stjórnmálaskoðana eigenda sinna. Við hljótum að vera sammála því að upplýsingagildi og áreiðanleiki margra flokksmálgagnanna var í besta falli umdeilanlegur, þó auðvitað hafi verið mikill munur á milli einstakra blaða. Þjóðviljinn sálugi, var til dæmis ekki eyða mikilli prentsvertu í að útskýra fyrir lesendum sínum ruglandina í málflutningi gömlu kommana, en var hún þó umtalsverð og efni til nokkurrar umræðu. Það var ekki tilgangur eigenda Þjóðviljans að þjóna lesendum sínum með slíkum hætti, þjónustan var við málstaðinn, málstað eigendanna og það máttu þeir eiga að ekki var siglt undir fölsku flaggi. En Þjóðviljinn var ekki einn á ferð. Á móti kom að önnur málgögn birtu öndverðar skoðanir. Tími flokksmálgagnanna er liðinn, sem betur fer. En nú virðist upp runninn annar tími hálfu verri, tími fyrirtækjamálgagna og þau hafa miklu dýpri vasa en gömlu flokksblöðin sem börðust einatt í bökkum. Þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar.
Hverjir eiga djúpa vasa nú um stundir? Jú, ekkja í Vestmannaeyjum og nokkrir aðrir útgerðarmenn. Mikið var ég einu sinni sammála Davíð Oddssyni!
Myndir:
- Svarta ekkjan - eitruð kónguló
- Umhverfistækni
- Eldgos
- Góðæri
- Vestmannaeyjar
Jóhanna: Þolinmæðin á þrotum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Facebook
Athugasemdir
Hárrétt ákvörðun Gubbi !
Halli (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 12:34
Sæll Guðbjörn.
Þó að við séum sjaldan sammála stjórnmálalega séð ( erum að held sammála í mörgu öðru ), þá finnst mér arfaslæmt að missa þig af blogginu.
Þú hefur hér birst mér sem heilsteyptur karakter sem stendur með þínum hugsjónum, og af Sjálfstæðismanni að vera virðist mér rúmast í þér meir húmanisti en hægt væri að kreista út úr öllum þingmönnum flokksins samanlagt.
Hugsjónir, sannfæring og að standa með eigin sannfæringu er því miður deyjandi þáttur í fari stjórnmálafólks í dag, og skýrir það eflaust að hluta það öngþveiti sem við sem þjóð höfum ratað í nú.
Ég bæði skil og ber mikla virðingu fyrir þessari ákvörðun þinni, en á sama tíma harma ég að sjá þig hverfa á braut.
Ég vona að rödd þín ( ekki bara söng ) megi hljóma sem áður á öðrum vettvangi.
Takk fyrir bloggsamskiptin.
kv.
hilmar jónsson, 29.9.2009 kl. 12:46
Hilmar:
Ég held að svipaðar tilfinningar hrærist með mörgum hægri mönnum á Íslandi, sem er ofboðið!
Ég hætti aldrei að blogga, en ég færi mig yfir á Eyjuna!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.9.2009 kl. 12:51
Þú ert greinilega í elítunni úr því að eyjan.is vill taka við þér! Amk miðað við sögur sem maður heyrir hjá þeim sem vilja komast þar inn. Það hefur oft verið gaman að lesa skrif þín þegar ég hef rekist á þau í tengslum við fréttir eða á vinsælustu umræðurnar en ég reikna ekki með að leita þig uppi á Eyjunni svo gangi þér allt í haginn.
Soffía (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 12:59
Ég tek undir kveðjur til þín og þakkir fyrir bloggin, þó maður hafi ekki alltaf verið sammála, þó samflokksmaður sé.
Ekki mun ég heldur leita þig uppi á eyjunni, því annar eins sóðaskapur og þar sést, held ég að viðgangist ekki annarsstaðar í bloggheimum.
Axel Jóhann Axelsson, 29.9.2009 kl. 13:09
Soffía:
Takk fyrir það, en ég veit ekki að ég sé í neinni elítu. Mér finnst ég vera "holdsveiki" maðurinn í Sjálfstæðisflokknum eða hrópandinn í eyðimörkinni og það er ekkert að því hlutverki - bara gaman!
Réttlætið sigrar alltaf að lokum!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.9.2009 kl. 13:10
Takk fyrir góð skrif, með þeim bestu..hreinskilin og fræðandi. Jú ég held ég kíki á Eyjuna..Ef þar er sóðaskapur fyrir eins og Axel segir, þá minnkar hann með betri bloggurum.
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 29.9.2009 kl. 13:59
Sæll vertu Guðbjörn minn
Ég ætlaði að þakka þér fyrir skelleg blogg hérna á Mogga-blogginu ... skemmtileg og fræðandi.
Ég flyt mig yfir á Eyjuna til að fylgjast áfram með skrifum þínum ...
Bestu kveðjur,
Páll
Páll Jakob Líndal, 29.9.2009 kl. 14:03
Sigurbjörg:
Takk fyrir það! Ætli flestir séu nú ekki á móti sóðaskap, hvar sem hann er að finna: í pólitíkinni, samfélaginu eða náttúrunni!
Sumir eru hins vegar "akívistar" og aðrir eru "inaktívistar" og það gildir jafnt um stjórnmálin, samfélagið og náttúruna!
"Aktívistarnir" þurfa hins vegar að haga sér innan skikkanlegra marka og það reyni ég að gera, en það er annarra að dæma um árangurinn.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.9.2009 kl. 14:04
Páll Jakob:
Nú er tími til kominn að sjást aftur yfir te- eða kaffibolla, þ.e. þegar þú ert á landinu!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.9.2009 kl. 14:13
Já, það er svo sannarlega kominn tími til ... við finnum tíma þegar ég kem til Eyjunnar fögru :)
Bestu kveðjur,
Páll
Páll Jakob Líndal, 29.9.2009 kl. 15:19
Heyrðu Guðbjörn bloggvinur! Ætlarðu að láta Davíð ráða hvar þú bloggar? Ekki fara
Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir, 29.9.2009 kl. 15:50
Guðbjörn, láttu ekki svona! Láttu ekki fra svona með þig flæma þig burt af Moggablogginu þó að Davíð hafi orðið ristjóri Moggans. Moggabloggið er einmitt áhrifaríkur vettvangur til að láta í sér heyra og hafa áhrif á umræðu mála.
Ps. Annars held ég, eftir að hafa lesið færslur þínar, að þú sért í raun ekki Sjálfstæðismaður, heldur Samfylkingarmaður. Skoðanir þínar eru einmitt í anda stefnu Samfylkingarinnar. Getur þetta útskýrt slakt gengi þitt í prófkjöri Sjálfstæðismanna sl. vor?
Þorgeir H. Haraldsson (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 16:20
Sóðaskapurinn á Eyjunni er barnastuff miðað við það sem öfgaliðið hér lætur út úr sér.
Andspilling, 29.9.2009 kl. 16:51
Hver er að flæma Guðbjörn burt? Þetta er hans ákvörðun mér vitanlega.
Hjörtur J. Guðmundsson, 29.9.2009 kl. 17:35
Þess utan, talandi um útrásarvíkingana. Nú vilja þeir ólmir í Evrópusambandið ;)
Hjörtur J. Guðmundsson, 29.9.2009 kl. 17:40
Mikið skil ég að þú skulir ekki leyfa komment á síðunni þinni Hjörtur......
hilmar jónsson, 29.9.2009 kl. 17:46
"Nú sýna Davíð og hagsmunaaðilar tengdir honum, að þeim er ekkert heilagt í baráttunni gegn ESB aðild og öðrum nauðsynlegum breytingum í landinu. En þessi menn stjórnast ekki einungis af afturhaldssemi og stjórnsemi, heldur af grímulausri, ískaldri og skipulegri hagsmunagæslu fyrir eigendur fjármagns og fiskveiðiheimilda í landinu."
Þetta er hárnákvæm lýsing hjá þér Guðbjörn og í raun allt sem segja þarf
Atli Hermannsson., 29.9.2009 kl. 17:49
Ég mun halda áfram að lesa bloggið þitt á Eyjunni.
Bestu kveðjur
Kama Sutra, 29.9.2009 kl. 19:42
Páll:
Ég hlakka til að sjá þig!
Snjólaug:
Davíð ræður engu í mínu lífi, hvorki hvar ég blogga eða öðru og þannig vil ég einmitt halda því! Af þessum sökum færi ég mig yfir á Eyjuna. Að auki er allt of mikil vinstri sveifla á Eyjunni og tími til kominn að hægri maður hressi þar aðeins upp á hlutina!
Andspilling:
Mikið til í þessu hjá þér og ég verð ekki var við sóðaskapinn í fólki, nema þá í athugasemdunum við blogg!
Hjörtur:
Alveg hárrétt hjá þér að enginn flæmir mig eitt eða neitt, hvorki Heimssýn eða sérhagsmunagæslusveitir kvótakónga og fjármagnseigenda!
Sjálfstæðismaður með mína afstöðu í Evrópumálum og sumum öðrum málum hefur ekki alltaf á sjö dagana sæla og lætur ekki flæma sig í burtu.
Þorgeir:
Sé ég ekki sjálfstæðismaður, er ég allavega knallharður hægri maður! Ég spyr mig hins vegar hvort allir sjálfstæðismenn séu hægri menn, eða hvort þeir eru heimóttarlegir þjóðernissinnar og sérhagsmunagæslusveit fjármagnseigenda og kvótakónga!
Atli:
Já, er þetta ekki sannleikurinn í málinu?
Kama Sutra:
Hlakka til að fá frá þér athugasemdir á Eyjunni!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.9.2009 kl. 20:21
"Þjóðviljinn sálugi, var til dæmis ekki eyða mikilli prentsvertu í að útskýra fyrir lesendum sínum ruglandina í málflutningi gömlu kommana, en var hún þó umtalsverð og efni til nokkurrar umræðu. Það var ekki tilgangur eigenda Þjóðviljans að þjóna lesendum sínum með slíkum hætti, þjónustan var við málstaðinn, málstað eigendanna og það máttu þeir eiga að ekki var siglt undir fölsku flaggi. En Þjóðviljinn var ekki einn á ferð"
En Moggin sagði alltaf sannleikann ekki satt og gerir enn því ekki er hann flokksmálgan og hefur aldrei verið eða hvað?
Það var Daví ð sem ákvað uppá sitt einsdæmi hverjir fengu að kaupa bankana og hvað gerði hann þegar tími ofurlauna hófst tók út fjögur hundruð þúsund og flutti í bankan hjá vinum sínum en hann gerði heldur ekkert annað.
"Það sem ég hins vegar óttast er að vinstri sveiflan nái flugi í landinu og að umsvif hins opinbera muni aukast eftir smávægilegan niðurskurð á næsta ári"
Ég held að þú ættir nú að hugsa þig betur um því að í hvert skipti sem Íhaldið hefur verið hér við völd þá hefur ríkisbáknið þanist út enda þarf að koma gæðingunum á jötuna og er hægt að nefna prófersora dómara og marga fleiri .
Nei staðreydin er sú að ykkar stefna hrundi og þið getið ekki viðurkennt það og kennið öðrum um.
Viðar Magnússon (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 20:35
Sæll Guðbjörn.
Það hefur verið afskaplega gaman og fræðandi að lesa skrif þín á þessum vettvangi. Ég geri ráð fyrir að ég muni leita þau uppi á Eyjunni og get reyndar ekki neita því að hafa undanfarna daga leitt hugann að því hvar maður gæti haldið til í framtíðinni. Er bæði með svæði á blogg.is og bloggcentral.is og hver veit nema að ég fari að nota þau meira en ég hef gert. Það hefur verið minnst á það í and-svörum að erfitt sé að komast að hjá Eyjunni og held að það sé nokkuð til í því, en ef þeir opna smugu fyrir meðaljónana þá mun ég athuga það.
Varðandi Davíð og Morgunblaðið, þá get ég trúað því að það sé töluvert áfall fyrir vel meinandi og hugsandi sjálfstæðismenn hvernig komið er fyrir blaðinu, en að fyrir okkur hin sé það meira á þann veginn að vonbrigðin séu minni vegna þess að maður hefur alltaf talið sig vita að blaðið stæði fyrst og fremst fyrir sjónarmið auðstéttarinnar, bæði fyrr og nú. Veit reyndar ekki nema að það sé meira áfall að ,Agnes segji' áfram en ýmsir aðrið og málefnalegri blaðamenn hafi verið látnir taka pokann sinn.
En hvað um það, kærar þakkir fyrir góð skrif á þessum vettvangi og mun reyna að finna þig á hinum nýja.
Ingimundur Bergmann, 29.9.2009 kl. 20:52
Viðar:
Morgunblaðið sagði kannski ekki alltaf satt og rétt frá. Ef við berum hins vegar þvæluna um Draumalandið í austri og hvernig fjöldamorð Stalíns og kúgun Sovétríkjanna var þögguð niður um áratuga skeið í "kommúnistasneplinum" Þjóðviljanum á árum Kalda stríðsins saman við gagnrýni Morgunblaðsins, þá er ljóst hver hefur vinninginn. Morgunblaðið stóð vörð um lýðræðið og gagnrýndi kúgun kommúnista um áratuga skeið og var fyrir vikið rægður að kommaliðinu. Rétt skal vera rétt í þessu sambandi!
Ingimundur:
Ég þakka þér fyrir athugasemdirnar í gegnum tíðina og vissulega er það áhyggjuefni fyrir okkur hægri menn hvernig komið er fyrir Morgunblaðinu.
Ég vonast til að sjá athugasemdir frá þér í framtíðinni á Eyjunni!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.9.2009 kl. 21:01
Í dag eru breyttir tímar, og tími Davíðs er liðinn. Hinsvegar kann Davíð ekki þá list að hætta með reisn, og hefur hann aldrei getað í raun hætt. Til þess er hann alltof stjórnsamur.
Mbl.is og blog.is eru hægt og rólega að detta út hjá mér, innan tíðar mun ég ekki lesa hvorugan vefinn. Þó er alltaf líklegra að ég muni lesa blog.is eitthvað frameftir, en reyndar er líklegt að þar verði tekin upp ritskoðun að hætti Davíðs innan skamms. Enda ekki annars að vænta frá manni sem þolir illa frjálsar skoðanir, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.
Jón Frímann (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 02:06
Alveg er með ólíkindum hvað ESB sinnar eru viðkvæmir fyrir staðreyndum.
Stefanía, 30.9.2009 kl. 02:09
Jón Frímann:
Ég mun lesa mbl.is og visir.is áfram og alla þessa vefi. Hjá mér var þetta meira ákvörðun til að mótmæla sérhagsmunagæslunni, sem hefur tröllriðið íslenskum stjórnmálum alla tíð.
Fyrst voru það nú aðallega framsóknarmenn og bændur og heildsalar, kaupmenn og útgerðarmenn, sem studdu Sjálfstæðisflokkinn. Kommúnistar og sósíalistar sem studdu Sósíalistaflokkinn og Alþýðubandalagið og verkalýðsfélögin og Alþýðuflokkurinn sem studdu Alþýðuflokkinn.
Að mínu mati væri best a stjórnmálaflokkar slitu sem mest á slík hagsmunatengsl og sérhagsmunagæslu. Þetta gildir jafnt um sérhagsmunagæslu VG fyrir öryrkja sem sérhagsmunagæslusveit Sjálfstæðisflokksins fyrir fjármagnseigendur og kvótakónga.
Það er nefnilega eitt að berjast að einhverju leyti fyrir ákveðna hópa eða stefnu, en gleyma ekki heildarmyndinni og hitt að berjast fyrir sérhagsmunum og vera gjörsamlega sama um afdrif allra annarra í þjóðfélaginu.
Stefanía:
Já, og hvað ESB andstæðingar eru alltaf rökfastir og málefnalegir, t.d. þegar þeir líkja ESB við Þýskaland nasismans eða Sovétríkin gömlu og segja eina hlutverk ESB vera að Þjóðverjar nái yfirráðum í Evrópu, líkt og Hitler dreymdi um!
Væri gaman að taka saman helstu lygar og óhróður ESB sinna og kynna fólki rök ykkar og hrekja þau síðan, bút fyrir bút!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 30.9.2009 kl. 08:01
Hvet þig til að taka þátt í mbl-bloggi , hvort sem þú verður á eyjuni líka.....
MBL-bloggið virðist mér vera aðallega fólk sem bendir á fréttamensku galla, eða bendi á freirri hliðar á hálfum sannleika fréttar....
Ég læri oft meira af umræðu fréttar heldur af fréttinni sjálfri...
Gunnar Þórbergur Harðarson (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 21:42
Sæll Guðbjörn,
mig langaði að segja eitt örstutt, án þess að ég sé neitt að vera ósammála þér. Það varðar margumtalað tímabil 1991-ca. 2004. Mér leiðist afar mikið að sjá vitnað í þetta sem skilgreiningu á því hvað hér hafi allt verið gert rétt.
Svo er Davíð eignað þetta bara vegna þess að svo vill til að hann var fors.ráðh. á þessum tíma.
Málið verður að skoðast í heildarsamhengi. Sannleikurinn er nefnilega sá að nákvæmlega sama má segja um velflest önnur Vesturlönd. Þetta var almennt hagsældarskeið í Vesturheimi, ekki síst vegna þess að ódýrt lánsfé var í umferð og mikið af því, birtist hér líkt og annars staðar. Hér var ekkert frábrugðið á ferðinni.
Og það verður að koma skýrt fram að upphafið af uppstokkun í efnahagslífi hér á landi er að lang mestu leyti inngöngu okkar í EES samstarfið að þakka. Þá fóru fjórfrelsisreglurnar að gilda hér, sem og ströng samkeppnislög, samevrópsk, og margt annað. Sem við urðum beinlínis að taka inn hér svo við gætum talist gjaldgeng í samfélagi evrópuþjóða. Sem dæmi um þetta var mannréttindakafli stjórnarskrár endurskoðaður í heild sinni 1995. Við þessa inngöngu í ESB ef svo má segja, með EES samn. við ESB, gerbreyttust hér allar aðstæður og forsendur í viðskiptalífi.
Það er engan veginn Davíð að þakka heldur má skrifa það á allt annan mann. Framsýnan og víðsýnan.
Það verður líka að koma fram að það orkar í besta falli tvímælis að taka niður einhverjar kannanir t.d árið 2001, ´03 eða 2005 sem sýndu að við vorum ,,ríkasta þjóð í heimi", eða næst ríkasta. Þvílíkt bull. Þetta var velmegun keyrð á lánsfé, lánsfé sem aldrei var grundvöllur fyrir að greiða til baka og var aldrei nokkurn tíma sjálfbær (sustainable). Ef maður fer út í banka og tekur 500 mill. lán, veitir svo fjölskyldu sinni allt það besta, stórt flott hús, sendir krakkana í fína einkaskóla, allir fá allt af öllu svo lengi sem það gengur. Má grípa niður á mörgum tímabilum í lífi þessa fólks og gera efnahagsreikning, á honum kemur fram að þetta fólk er blússandi vel efnað og lifir líka skv. því. En ef heildartímabilið er skoðað þá átti þetta fólk auðvitað aldrei krónu.
Nú er ég ekki að segja að sama gildi um Ísland, að við höfum aldrei átt krónu, en sá gífurlegi niðurskurður og skattahækkanir sem nú fara í hönd, eru ekki bara Icesave, alls ekki. Nú er komið að skuldadögum og fylliríið búið. Nú er kannski kominn grundvöllur til að meta í raun og veru hversu rík við erum, eins og staðan er núna.
Hún er ekki falleg og hún er ekki til komin vegna þess að meintum auði sem átti að vera til hérna kringum aldamót var eytt, á 6-8 árum.
Þetta var lánsfé.
Kv. S.
SH. (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 23:27
Gunnar Þórbergur:
Ég hef aldrei skellt dyrum, hvorki þar sem ég hef hætt vinnu eða horfið á braut á annan hátt. Ég útiloka aldrei neitt - ekki einu sinni að ég hendi bloggi inn á www.mbl.is!
Við skulum sjá hvernig blaðið þróast!
S.H.:
Ég er þér ekki sammála að Davíð Oddsson eigi ekki stóran hluta af þeim "kredit" að hér gekk allt upp á árunum 1991 - 2002.
Eitt útilokar ekki annað og ég get alveg tekið undir það með þér að EES samningurinn var gæfuspor og ég er handviss um að ESB aðild verður það einnig - að því skilyrði uppfylltu að aðildarsamningurinn sé ásættanlegur og okkur hagstæður!
Ég er hreint ekki sammála þér að góðærið hér á árunum 1991 - 2003 hafi verið keyrt áfram af lántökum. Það var ekkert að þeim lántökum sem gerðar voru á þessum tíma, enda voru þær til skynsamlegrar atvinnuuppbyggingar í landinu og uppbyggingar á "infrastrúktúr".
Öðru máli gegndi um yfirgengilegar lántöku einstaklinga og fyrirtækja eftir einkavæðingu bankanna og það góðæri var vissulega að stórum hluta keyrt áfram af erlendum lántökum - þó ekki að öllu leyti!!!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 1.10.2009 kl. 16:19
Sæll aftur,
ég sagði ekki að hagsæld frá ´91 til 2002 hefði verið keyrð áfram á lántökum umfram endurgreiðslugetu, ég sagði að þetta hefði verið almennt hagsældarskeið fyrir flest eða öll Vesturlönd. Það er staðreynd sem hægt er að staðfesta. Skoðaðu hagtölur þessara ríkja á þessum árum, það er alltaf sama sagan, almennur hagvöxtur og almenn vaxandi hagsæld. Í flestum af þessum löndum hafði efnahagur fólks aldrei verið betri en upp úr aldamótum, alveg eins og hér. Það var ekkert efnahagsundur hér í gangi. Mér finnst barnalegt að þakka einum manni á Íslandi þetta hagsældarskeið, sem var eins á Vesturlöndum. Á þessum tíma var breyttur hugsunarháttur að þróast hratt og Evrópa almennt að færast hratt til meiri markaðsvæðingar en áður hafði sést þar, meira til samræmis við USA.
Ég var að benda á að sú lífsgæðaaukning sem hér átti sér stað og meira frelsi í viðskiptum er ekki frá Davíð komin. Hann var í forsvari fyrir stjórnmálaflokk og stjórn með öðrum flokkum á þessum tíma almenns uppgangs í flestum ríkjum, það er allt annað. Þegar lánsfé er ódýrt skapast grundvöllur fyrir fjárfestingar og uppbyggingu. Nú er staðreynd, mælanleg og sönnuð, að flest íslensk fyrirtæki hafa fjármagnað sig með erlendu lánsfé gegnum tíðina. Ekki segja þá að lánsfé sem var hér í umferð hafi ekki verið erlent, það er ekki rétt. Nú liggur t.d. fyrir að efnahagslífið er stopp hérna ef ekki fæst erlent lánsfé, þess vegna er þessi mikli þrýstingur á að loka Icesave, ,,til að koma efnahagslífinu af stað aftur" sem mjög ítrekað hefur verið bent á. Þá erum við ekki að tala um lánsfé til að keyra einhverja útrás eða til að lána fólki til bílakaupa, heldur eðlilega nauðsynlega lánafyrirgreiðslu svo viðskipti geti gengið upp. Ekki segja þá að hér hafi efnahagslífið ekki verið keyrt á erlendu lánsfé.
HINS VEGAR er það alveg rétt hjá þér að þetta var ekki alltaf ,,unsustainable", það er þó erfitt að benda á einhvern tímapunkt og segja að frá og með honum hafi lánastefnan hætt að vera sjálfbær, og þar með að við værum farin að taka hagsældina að láni. Það er ekki hægt að benda á t.d. 2003 og segja, ,,hérna er upphafið, fyrir þennan tíma var efnahagslífið sjálfbært". Ef skoðuð er skuldastaða ríkissjóðs, eða kannski réttara sagt skuldastaða þjóðarinnar því skuldir ríkissjóðs voru færðar út í viðsk.lífið með einkavæðingu að stórum hluta, þá kemur í ljós að frá því Ísland varð lýðveldi, hafa skuldir vaxið í takt og samræmi við lífsgæði. Þá á eftir að telja inn fé eins og marshall aðstoð frá USA (,,...Íslendingar högnuðust mjög mikið á aðstoðinni, og mest miðað við höfðatölu. Aðstoðin gegndi lykilhlutverki í uppbyggingu landsins eftir stríðið...Wikipedia) sem hafði auðvitað gríðarlega mikið að segja, sem og alla uppbyggingu sem bæði Bretum og BNA mönnum fylgdi á og eftir stríðsár.
Þetta er ein samfelld saga sem þarf að skoða í heild sinni, átta sig á þróuninni hér og þróuninni almennt á Vesturlöndum.
Við gengum í EES vegna þess að breyttur hugsunarháttur (að vísu sáu ekki allir skynsemina í því til að byrja með) var ríkjandi. Þetta gildir almennt um evrópuríki líka, þar hafði þróast krafa um minni ríkisafskipti og meira frelsi, þetta var almenn vakning. Þetta var alls ekkert sem Davíð datt í hug, alveg hreint langt frá því. Í fyrstu stjórn Davíðs ´91 var Alþ.flokkurinn hinn flokkurinn og það var vegna hans sem við gengum í EES. Sá samningur tók gildi 1993 og þá gefur auga leið að viðræður við ESB og það markmið að fara þarna inn, var miklu miklu eldra en frá árinu 1993 og alls ekki frá Davíð komið.
Þannig að allar hugmyndir um mikið meira frelsi í viðskiptum og minni ríkisafskipti svo einstaklingurinn gæti blómstrað, voru mikið eldri, mikið eldri og víðtækari en koma Davíðs Oddssonar í ríkisstjórn. Það var alls ekkert þannig að hér var allt í einhverjum hjólförum gamalla tíma og svo kom Davíð með nýja sýn á málin og kom öllum hinum í skilning um það, alveg fjarri lagi. Þetta eru engin vísindi og hefur ekkert með mína skoðun á þessu að gera, þetta eru staðreyndir sem hvers sem er getur auðveldlega staðreynt. Það sama var að gerast í mörgum evrópuríkjum og sama þróun varð þar. Sem dæmi má nefna að lífsgæði í Danmörku höfðu aldrei verið meiri en 2007-2008 en skuldir hafa líka aldrei verið meiri. Alveg nákvæmlega sama má segja um fjöldann allan af evrópuríkjum, Bretland, Írland .... og svo mætti lengi telja.
Mig minnir reyndar að Þýskaland sé eina ríkið af þessum helstu sem engin fasteignabóla varð, enda fáar þjóðir í heiminum tregari til lántöku en þeir og sparsamari en flestar.
Það má því alls ekki eigna Sjálfstæðisflokknum almenna aukningu á lífsgæðum á þessum árum, hann tók auðvitað þátt í því en er ekkert honum að þakka sem slíkum. Það er bara málflutningur sem menn eins og við erum að gagnrýna viðhafa, menn eins og Davíð sjálfur.
Við erum sammála um miklu fleira en ósammála en þessi skýring verður líka að koma fram þegar talað er um þessa hluti, hina meintu hagstjórnarsnilld sjálfstæðismanna og Davíðs, sem er auðvitað ofnotaður og rangur frasi.
Takk fyrir mig,
kv. S.
SH. (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 18:21
SH:
Já, segi það sama að ég er sammála þér í mörgu og skrifaði einmitt um fasteignabóluna í Bretlandi um daginn, þar sem ég kom inn á bók sem ég las nýlega:
"The Storm - The World Economic Crisis & What It Means"
eftir Vince Cable.
Þar er mjög vel farið yfir þessa fasteignabólu í heiminum og afleiðingar hennar. Mér finnst oft gleymast að ekki er hægt að líta á sparnað á Íslandi öðruvísi en að taka lífeyrissparnaðinn inn í dæmið.
Þótt vissulega sé það rétt að við höfum notast við erlent fé í fjárfestingum, þá höfum við á sama tíma lífeyrissjóðirnir fjárfest erlendis og skv. grein í Morgunblaðinu í sumar námu erlendu eignirnar þá um 500 milljörðum króna, en hafa hækkað síðan vegna mikilla hækkana á hlutabréfamörkuðum undanfarna tvo mánuði.
Fáar þjóðir hafa úr að moða slíkum sjóðum sem lífeyrissjóðirnir íslensku eru, bæði hvað innlendar og erlendar eignir varðar!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 1.10.2009 kl. 18:58
Saga úr raunveruleikanum
Ég man að ég sagði við það fólk sem ég hafði mikil samskipti við á þessum tíma að fasteingaverð á Íslandi myndi hrynja. Þetta var á tímabilinu 2005 - 2007. Ég er 31 árs í dag og var á leigumarkaðnum á þessum tíma. Það var mikil pressa fyrir ungan mann að ganga inn í þann heilaga sannleika og manndómsvígslu sem húsnæðiskaup virðast vera á Íslandi. Ég sá aldrei sæng mína útbreidda í þessu máli.
Mig rekur samt svo vel í minni að þegar leigði rándýra stúdíóíbúð á Vesturgötunni að ég hugleiddi það að kaupa mér 2ja herbergja íbúð á Skúlagötunni þar sem Björnsbakarí er. Ber að nefna að á þessum tíma var ég einhleypur.
Þessi umrædda íbúð hentaði mér vel, miðsvæðis (átti ekki bíl), flott (hégómanum fullnægt), hentaði minni greiðslubyrði og fyrst og síðast virtist ég - eins og við flestir Íslendingar - taldi ég mig hafa efni á henni.
Til að gera langa sögu stutta var mér ráðlagt frá því að kaupa þessa íbúð ekki (kostaði 8 milljónir tæpar í háhýsinu á Skúlagötunni en samskonar íbúðar voru seldar á tæpar 30 milljónir þegar best lét.
"Maður kaupir sér ekki 2ja herbergja" fékk ég að heyra sífellt.
Þarna stóð og féll mitt viðskiptavit. Eftir þetta og þegar ég hélt áfram minni þrautagöngu sá ég fólk á mínum aldri fórna sér í íbúðakaupum, eyða sína litla nurli eða hreinlega gera bara það sem aðrir vildu.
Til að vera ekki að gera langa sögu stutta átti mitt meinta viðskiptavit einnig við um hlutabréfakaup. Allir í kringum mig sem áttu eitthvað aukareitis fóru að verzla með verðbréf. Jú jú, mig langaði í easy money en kannski átti ég hreinlega ekki efni á því að taka þátt í leiknum nema að slá inn m5.is. Þetta hrundi líka og ég tapaði engu.
Hvað varðar ESB, veru Guðbjarnar á Moggablogginu eða Davíðs sem ritstjóra vil ég bara segja eitt. Það er alltaf sagan sem dæmir mann. Allar stórar ákvarðanir eru "stórar" þess vegna á maður að reyna fara varlega. Hvað segja spekingar í HÍ eftir 100 ár um DO? Þetta á við líka um persónulegar ákvaranir okkur í lífinu þó smáar séu.
Að lokum vil segja að blogg yfirlýsts Sjálfstæðismanns eins og Guðbjörns sem skrifar frá hjartanu (og í flestum tilfellum heilanum) er nauðsynlegt. Þarna á Valhöll ekki hlut í máli. En væri það svo ef Guðbjörn væri þingmaður. Ég vona ekki. Guðbjörn er flottur málsvari alls þess sem hann hefur upp á bjóða og ég vona að hann haldi áfram sínu bloggi þó á eyjunni sé. Ég vil samt bara benda honum á blogspot, en þar hef ég bloggað í mörg ár með hléum.
Kveðja Brynjar Þ. Sigmundsson
Brynjar Þ. (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 00:56
Sæll Guðbjörn
Þó ég hafi ekki verið dugleg að skrifa athugasemdir við færslurnar hjá þér, hef ég ávallt haft gaman af að lesa þær. Það er alltaf gott að lesa skrif manna (og kvenna) sem lýsa skoðunum og hugsjónum sínum á málefnalegan og rökstuddan hátt (eða eins og Brynjar Þ orðaði það "skrifar frá hjarta OG heila").
Ég hef oft ekki verið sammála þér en hef alltaf borið virðingu fyrir skrifum þínum og skoðunum.
Leitt að missa þig af blogginu
Kveðja
Lilja
Lilja Ingimundardóttir, 2.10.2009 kl. 09:09
Líst afaar vel á þetta hjá þér Guðbjörn, mál að linni, gott hjá þér að flytja þig yfir á eyjan.is,
Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 13:52
Jæja, það tók Guðmund vin minn hjá Eyjunni tíma að innrétta bloggið hjá mér, en nú er það komið:
http://blog.eyjan.is/gudbjorn/
Kær kveðja,
Guðbjörn
Guðbjörn Guðbjörnsson, 9.10.2009 kl. 21:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.