10.11.2009 | 07:46
Hættur við að hætta - nauðsyn brýtur lög
Ég hef ekki skipt um skoðun og tel það enn óheillaþróun að LÍÚ og skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins sé tekin við Morgunblaðinu og Sjálfstæðisflokknum. Ritstjórnargreinar Morgunblaðsins undanfarnar vikur sýna að ég hafði og hef á réttu að standa. Aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar hrekja mig til þess að kyngja stolti mínu og hefja að nýju blogg mitt hjá Morgunblaðinu, en að auki mun ég blogga á Eyjunni. Baráttuna gegn þessari vinstri stjórn verður að há á öllum vígstöðvum. Sjálfstæðismenn, félagar í Framsóknarflokknum og félagar í Borgarahreyfingunni verða að leggjast á eitt við að koma þessari skelfilegu ríkisstjórn frá völdum. Hagur þjóðarinnar í nútíð og framtíð er í voða. Það mun taka okkur a.m.k. 10-15 ár að komast upp úr kreppunni með þessu áframhaldi.
Málum er svo háttað, að alla aðra hluti verður að setja í annað sæti, hvort sem um er að ræða ESB-aðild eða önnur mál. Í fyrsta sæti verður að komast, að þessari hræðilegu ríkisstjórn sé umsvifalaust rutt frá völdum, ríkisstjórn sem hér er allt að eyðileggja með aðgerðaleysi í efnahagsmálum, aðgerðaleysi varðandi atvinnuuppbyggingu, framkvæmdasemi hvað skattahækkanir varðar og aumingjaskap í samskiptum við erlenda lánadrottna, hvaða nafni sem þeir nefnast. Það er í raun ótrúlegt að Íslendingar þurfi fyrst að upplifa á eigin skinni misheppnaða stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og síðan Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á liðnum 5-6 árum, en síðan finnist manni við vera að fara úr öskunni í eldinn. Ég hélt að þetta gæti ekki versnað, en sú kenning hefur verið afsönnuð, því við fórum úr öskunni í eldinn!
Hvað á ég að segja við krakkana mína núna þegar ríkið tekur vel yfir 50% af öllum tekjum yfir 500.000 - meira en önnur hver króna rennur til ríkisins! Hvernig kemst ég að þessari niðurstöðu, jú, ef börnin mín læra eitthvað og komast í álnir munu þau borga 97.186 kr. í fastagreiðslu til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og 3,75% af launum sínum, sem gera 50,6%. Við þetta bætast síðan önnur skattlagning ríkisins á vöru og þjónustu auk fjármagnstekjuskatta, sem börn mín þurfa kannski ekki að hafa áhyggjur af, þar sem þau munu aldrei eignast neitt með þessu áframhaldi. Hvernig á maður að geta hvatt þau til að fara í nám og búa hér?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:05 | Facebook
Athugasemdir
Velkominn aftur.
Hárrétt ákvörðun hjá þér myndi ég telja, allt annað er númer 2, ríkisstjórnin frá völdum strax.
Carl Jóhann Granz, 10.11.2009 kl. 21:54
Þú þarft ekkert að segja börnum þínum. þau geta lesið, hlustað, eða séð þetta sjálf. og ríkisstjórnina frá völdum strax, Forsetann líka
Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 00:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.