29.11.2009 | 10:39
Þjóðargjaldþrotið 2008
Það er mér ljósara með hverjum mánuði, að heiðarlegast hefði verið fyrir Íslendinga að viðurkenna strax sinn stóra ósigur haustið 2008 og lýsa yfir þjóðargjaldþroti. Það lýsti miklu óraunsæi og einfeldni þegar Davíð Oddsson, þáverandi bankastjóri Seðlabankans, lýsti því yfir í Kastljósinu, að við kæmumst upp með að neita að borga skuldir óreiðumanna með því að að skilja milli erlendrar og innlendrar bankastarfsemi, þ.e.a.s. taka innlendu bankastarfsemina með skuldum og eignum og færa undir ríkið, en láta erlendu starsemina bara "gossa". Hann bætti við að Íslendingar myndu standa uppi nær skuldlausir, því íslenska ríkið væri því sem nær skuldlaust, sem var reyndar satt og rétt á þessum tíma. Það er hreint með ólíkindum að halda að slíkt gangi upp og lýsir mjög vel hversu litla innsýn maðurinn hafði í þessi mál. Með því hins vegar að láta bankana bara "gossa" strax í gjaldþrot og yfirtaka þá ekki, þ.e.a.s. eftirláta erlendum kröfuhöfum bankana, hefði íslenska ríkið "einungis" staðið uppi með kröfur innistæðueigenda á Íslandi og erlendar kröfur innstæðueigenda.
Samfara því að lýsa yfir þjóðargjaldþroti hefði að mínu mati átt að lýsa yfir algjöru neyðarástandi í landinu. Í stað þess að biðja Guð að blessa Ísland, hefði Geir átt að fullvissa landsmenn um að innistæður þeirra væru tryggar upp að því marki sem innistæðusjóðurinn tryggði. Hann hefði jafnframt átt að lýsa því yfir að gripið hefði verið til ráðstafana til að tryggja "eðlilega" greiðslustarfsemi bankanna daginn eftir. Í kjölfarið hefði síðan því verið lýst yfir við erlenda kröfuhafa, að sökum þjóðargjaldþrots treysti Ísland sér aðeins til að greiða innlendum kröfuhöfum út þær innistæður í bönkum, sem tryggingasjóður innistæðna ábyrgist, og neita alfarið að greiða Icesave skuldbindingarnar. Skaðinn var hvort eð er skeður, þar sem allur heimurinn hefur litið svo á alla tíð frá hausti árið 2008 að Íslendingar væru gjaldþrota. Þetta sýndu Bretar mjög skýrt með notkun hryðjuverkalaganna og Gordon Brown lýsti því meira að segja yfir í heimspressunni. Þegar Bretar gripu til hryðjuverkalaganna hefðu Íslendingar átt að lýsa yfir skilningi á þessum aðgerðum þeirra gegn íslensku "útrásarglæpamönnunum". Um leið hefðum við átt að lýsa því yfir að með þessari aðgerð væru Bretar í raun að yfirtaka íslenska bankastarfsemi í Bretlandi ásamt Icesave skuldbindingunum þar í landi. Að auki værum við Íslendingar gjaldþrota og ekki borgunarmenn fyrir þessum skuldum - punktur.
Fyrri ríkisstjórnir og núverandi bitu síðan höfuðið af skömminni með því að samþykkja að standa við Icesave skuldbindingar Landsbanka Íslands. Þetta hefur eflaust leitt til þess að aðrir kröfuhafar vilja sitja við sama borð og Bretar og Hollendingar, enda að mínu mati lítill munur á því hvort kröfur eru frá einstaklingum, fyrirtækjum eða bönkum - krafa er krafa! Stundum er það þannig í lífi einstaklinga, fyrirtækja og þjóðríkja, að þau verða að viðurkenna að þeim hafi orðið á svo óbærileg mistök, að eina ráðið sé að lýsa því yfir að þau séu upp á náð og miskunn annarra komin. Vissulega gengu skilanefndir bankanna til samninga, sem líkja má við nauðasamninga, en auðsjáanlegt er að ekki hafa allir kröfuhafar sætt sig við þá niðurstöðu. Nú erum við aðeins að fresta því óumflýjanlega enn og aftur. Þá er að mínu mati eina ráðið að kyngja stolti sínu og ganga til nauðasamninga og því fyrr sem við gerum slíkt því betra.
Undirbýr mál gegn Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:43 | Facebook
Athugasemdir
en til að þóknast þér og öðrum ESB sinnum, þá sérstaklega í þáverandi samstarfsflokki Sjálfstæðismanna, Samfylkingunni, þá var allt gefið eftir.
Fannar frá Rifi, 29.11.2009 kl. 11:04
Góður pistill. Geir hefði átt að lýsa yfir greiðslustöðvun og setja landið í eins konar "chapter 11" eins og gert er í Bandaríkjunum. Í farmhaldinu hefðum við unnið með kröfuhöfum um að endurskipuleggja allar skuldir. Í staðinn var farið í illa úthugsaða leið sem getur komið okkur í koll seinna. Ef þetta hefði verið gert strax væru heimilin ekki í þessu óleysta vanda núna.
Andri Geir Arinbjarnarson, 29.11.2009 kl. 11:53
Ágætur pistill, en það er tvennt sem ég held við ættum að halda til haga.
Leiðin sem Davíð talaði fyrir í Kastljósviðtalinu var ekki farin.
Það var Björgvin G. Sigurðson sem notaði orðalagið að láta erlenda hlutann „gossa“ .
Kannski ekki mikilvægir punktar í samhengi við umfjöllun pistilsins, en ég held við þurfum að láta þeirra getið.
Sigurgestur Guðlaugsson (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 11:58
Já, ég er sammála þessu. Ísland er löngu gjaldþrota og því fáránlegt að láta sem landið sé það ekki. Hver sá aðili sem afskrifar skuldir er gjaldþrota og ætti sem slíkur að vera tekinn til skipta.
Ég er reyndar viss um að neyðarlögin verði dæmd ólögleg og þar með falla allar skuldir bankanna á landsmenn. Þá eru Icesaveskuldirnar einungis smámunir miðað við skuldir innlendu bankanna - og við auðvitað úrskurðuð gjaldþrota með það sama - eftir að hafa borgað allt sem við enn eigum.
Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 12:25
Það er alltaf hægt að vera vitur eftirá. Ég tel að neyðarlögin hafi verið fær leið en bara illa spilað úr þeim.
Offari, 29.11.2009 kl. 12:30
Fannar frá Rifi:
Ég er reyndar að hallast að því - retrospectively - að betra hefði verið að geyma aðildarumsóknina þar til gengið var frá Icesave.
Andri Geir:
Ég þakka þetta hrós, sem ég tek alvarlega af því að það kemur frá jafn mætum manni og þér! Ég þarf að lesa mer til um "chapter 11". Pistlar þínir eru eitthvað það besta sem maður les á vefnum!
Offari:
Það má vel vera að það sé rétt hjá þér og eitt útilokar alls ekki annað. Við hefðum getað sett neyðarlögin og síðan lýst yfir þjóðargjaldþroti eða greiðslustöðvun líkt og Andri Geir talar um síðar.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.11.2009 kl. 12:54
Þetta er alveg rétt hjá þér Guðbjörn Geir brast skynsemi, heiðarleik og kjark til að viðurkenna orðinn hlut. Núverandi stjórnvöld ættu auðvitað að skoða heildarmyndina en ekki Icesave eitt og sér.
Það er líka rétt hjá þér að aðildarumsókn núna er afleit tímasetning bæði frá sjónarmiði okkar sem ekki sjáum ávinninginn og ykkar sem bindið vonir við aðild. Vonandi þarf þjóðin ekki að klofna í þeim erfiðleikum sem framundan eru.
Sigurður Þórðarson, 29.11.2009 kl. 14:54
Sigurður:
Já, auðvitað brást Geir, en það brugðust svo margir á undan honum og á sama tíma og hann. Það er ekki einungis hægt að skella skuldinni á einn mann, þótt skipstjórinn beri mikla ábyrgð í þessu máli.
Ég held að þjóðin þurfi að klofna í þessu í ESB máli; hjá því verður ekki komist. Við eigum hins vegar eftir að sjá samninginn og málið snýst um hann og þær lausnir, sem verður að finna varðandi sjávarútvegsmálin. Sé sú lausn ásættanleg mun þjóðin - í ljósi erfiðleikanna - samþykkja samninginn!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.11.2009 kl. 20:13
ESB er ekki lausn við erum gjaldþrota bloggaði um það staks eftir hrun stend við það núna sem firr. Ekki nein heil brú í því að borga bara eitthvað út í loftið svo mikil er hítin. Það færi betur í landann ef við hefðum að einhverju að stefna ekki algerlega vonlaust kjaftæði.
Sigurður Haraldsson, 30.11.2009 kl. 01:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.