3.12.2009 | 13:09
Árásir vinstri manna á oddvita sjálfstæðismanna í bæjarstjórnum landsins
Það er hreint með ólíkindum hversu árásargjarnir vinstrimenn eru gagnvart forystumönnum sjálfstæðismanna í stærstu bæjarfélögum landsins og á þetta á alveg sérstaklega við um Samfylkinguna. Sem dæmi um slíkar árásir - sumar ansi vel heppnaðar - má nefna aðsúginn að hægri meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur á meðan á REI málinu stóð, árásina á Gunnar Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóra í Kópavogi, árásina á Árna Sigfússon, bæjarstjóra í Reykjanesbæ og nú árásir á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra í Reykjavík.
Víða kasta þarna þarna liðsmenn Samfylkingarinnar steinum úr glerhúsi. Gott dæmi eru árásir Dags B. Eggertssonar núna á Hönnu Birnu. Ég spyr Dag B. Eggertsson hvað hafi farið hér úrskeiðis hjá Sjálfstæðisflokknum á tímabilinu 1991 - 2002? Um hvaða 18 ár er hann að tala? Að mínu mati byrjaði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrst að gera mistök árið 2002, þegar hún seldi bankana í hendur glæpamanna. Það voru síðan ríkisstjórnir Halldórs Ásgrímssonar og Geirs Haarde, sem bera stærstu ábyrgðina á hruninu og síðast en ekki síst ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrum formanns Samfylkingarinnar. Á árunum 1999 - 2006 var Hanna Birna vissulega aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, en mér finnst full langt gengið að gera hana ábyrga fyrir ákvörðunum Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, og Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi utanríkisráðherra vegna misheppnaðrar einkavæðingar bankanna. Menn skulu heldur ekki gleyma að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði að einkavæðing bankanna skyldi þannig framkvæmd að bankarnir færðust í dreifða eignaraðild.
Á sama hátt hafa forystumenn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ verið að reyna að ata Árna Sigfússon aur vegna fjármála bæjarins. Staðreynd er hins vegar að Reykjanesbær stendur nú síður verr fjárhagslega en önnur stærri bæjarfélög landsins og ef eitthvað er betur, þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður á undanförnum 10-15 árum. Árni Sigfússon hefur í raun gert kraftaverk varðandi uppbyggingu í Reykjanesbæ og það þrátt fyrir að umhverfið hafi verið honum jafn fjandsamlegt og það yfirleitt getur orðið. Árni tók að mörgu leyti við erfiðu búi í Reykjanesbæ, þar sem ljóst var upp úr lokum Kalda stríðsins árið 1990, að Bandaríkjaher myndi minnka umsvif sín hér á landi. Á svipuðum tíma og Árni settist í bæjarstjórastól var byrjað á lokun varnarstöðvarinnar, en herstöðinni síðan að öllu leyti lokað árið 2006. Þúsundir Íslendinga misstu vinnuna á árunum 1990 - 2006 og Suðurnes urðu af gífurlegum tekjum vegna þessa. Þá bera að nefna að Keflavík og Njarðvík voru framarlega í fiskvinnslu allt frá 19. öld og í byrjun 9. áratugarins var í þessum sveitarfélögum blómleg útgerð og fiskiðnaður. Í kjölfar kvótakerfisins fluttist kvótinn í burt frá Keflavík og Njarðvík og hefur bátum fækkað og flest fiskvinnslu- og frystihús hætt störfum.
Það má segja að fá ef nokkur sveitarfélög hafi orðið fyrir viðlíka blóðtöku á undanförnum áratugum þegar tveir af helstu undirstöðuatvinnuvegum hurfu á nokkrum árum. Þótt flugstöðin og önnur fyrirtæki hafi vissulega tekið við einhverjum af þessum störfum, þá verðum við að horfast í augu við þá staðreynd, að þau störf eru bæði færri og verr launuð en störf við sjósókn og hjá bandaríska varnarliðinu. Jafnaðarmenn ættu því að styðja baráttu Árna Sigfússonar og meirihluta sjálfstæðismanna í baráttunni fyrir auknum atvinnutækifærum á Suðurnesjum fyrir þá 1729 einstaklinga, sem eru atvinnulausir á Suðunesjum, en hætta árásum á menn, sem eru að vinna þarft en oft á tíðum vanþakklátt starf fyrir Suðurnesin.
Það virðist vera "taktík" Samfylkingarinnar að halda uppi stanslausum árásum á alla forystumenn Sjálfstæðisflokksins og tortryggilega á einn eða annan hátt og koma þannig höggi á flokkinn. Þetta eru ódrengileg stjórnmál, sem koma í bakið á fólki. Auðvitað var slíkur hráskinnaleikur auðveldur í kjölfar hrunsins, þar sem því miður fór ekki fram nægileg hreinsun í forystu flokksins á síðasta landsfundi eða í kosningum til Alþingis vorið 2009. Af þessum orsökum verður hægt að beita slíkum áróðri eitthvað áfram. Ég spyr hins vegar Dag á móti, hver ábyrgð Samfylkingarinnar sé á því 1 og 1/2 ári, sem Samfylkingin var í ríkisstjórn á árunum 2007 - 2009, þegar hið eiginlega hrun var í aðsigi. Ég spyr jafnframt um tengsl Samfylkingarinnar við þá glæpamenn, sem komu okkur í þá aðstöðu sem við erum í núna?
Dagur gagnrýnir borgarstjóra harðlega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:32 | Facebook
Athugasemdir
það má spyrja hver er ábyrgð Dags B. á því hruni og skuldsettningu sem varð í Reykjavík undir stjórn R-listans? hverjir stóðu að uppsprenginu lóðaverðs með útboðunum í Grafarholti? eða vanskappnaðinn sem hann kallast hringbraut? Dagur var kannski ekki í bæjarmálunum þá?
Fannar frá Rifi, 3.12.2009 kl. 13:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.