13.12.2009 | 14:41
Umbótum í ríkisrekstri endalaust frestað...
Það er ljóst að þær umbætur, sem löngu eru tímabærar í ríkisrekstri, verður frestað og þá ekki aðeins fram á vor, heldur til hins óendanlega. Þetta gildir ekki aðeins um fækkun sýslumanna, heldur einnig um fækkun lögreglustjóra, fækkun og stækkun sjúkrahúsa og fækkun ríkisstofnana. Nú eru landsbyggðar þingmennirnir byrjaðir að hamast innan sinna þingflokka til að verja sína sýslumenn og skattstjóra. Þarna skiptir í raun engu hvað flokkurinn heitir, því þarna er algjör samstaða meðal allra þingflokka. Ég hef ekkert á móti ríkisrekstri, því sum verkefni eiga einfaldlega heima hjá ríkinu og hvergi annarsstaðar. Rétt er þó að benda á að við þá endurskipulagningu í ríkisrekstri, sem við blasir á næstu árum, er nauðsynlegt að horfa meira til einkareksturs, t.d. í menntamálum og heilbrigðisþjónustu.
Ég hef mikla óbeit á bruðli í ríkisrekstri, líkt og ég hef óbeit á bruðli í einkarekstri. Munurinn á þessu tvennu er hins vegar að í einkarekstri minnkar bruðlið hagnað eigenda - svo framarlega sem ekki er hægt að ýta slíku bruðli yfir á almenning líkt og gert var í útrásinni - á meðan að bruðli hjá ríki og sveitarfélögum er velt yfir á skattborgara. Af þessum sökum skal ávalt unnið að því eilífðarverkefni að bæta rekstur opinberra stofnana, hvort sem það er hjá ríki eða sveitarfélögum. Að mínu mati þyrfti að styrkja Ríkisendurskoðun enn frekar til að sú stofnun sé betur í stakk búin til að fara enn betur ofan í saumana á rekstri opinberra stofnana. Í raun þyrfti að vera til svipuð stofnun eða deild á vegum eða innan Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins eða á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem færi ofan í rekstur sveitarfélaga og fylgdist með rekstri þeirra. Hér er ég að tala um eitthvað öflugra batterí, en nú er til staðar með í eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.
Það er hreint með ólíkindum að við skulum á 21. öld enn reka 24 sýslumannsembætti um land allt, á sama tíma og samskipti og samgöngur hafa tekið byltingarkenndum framförum. Með þessu er ég ekki að tala um að loka eigi afgreiðslum sýslumanna, heldur skoða hvar virkilega er þörf á afgreiðslum og hvar þær mega leggjast af. Sömu sögu er að sjálfsögðu að segja um skattstjóra landsins, en þeir eru 9 talsins á meðan að skattskil eru nær eingöngu rafræn. Það sem ber að varast við slíka endurskipulagningu er að störfin færist öll á suðvesturhorn landsins, sem virðist því miður vera tilhneigingin þegar um sameiningar er að ræða. Með fjarvinnslu og nútímatækni má vinna mörg verkefni hvar sem er á landinu og það er mun betri aðferð hvað byggðarstefnu varðar, en margt það sem menn hafa tekið sér fyrir hendur á undanförnum áratugum. Það er einmitt vegna þess að allri opinberri starfsemi er hrúgað á suðvesturhornið, að andstaðan við slíkar breytingar er svo mikil á landsbyggðinni. Sé á einhvern hátt tryggt að starfsemin færist ekki til Reykjavíkur og nágrennis, er ég sannfærður um að andstaðan við slíkar þarfar breytingar mun minnka.
Breytingum á sýslumannsembættum frestað til vors | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:43 | Facebook
Athugasemdir
Detta mér nú allar dauðar lýs úr haus - Guðbjörn !
Ertu kominn aftur á Mogga-bloggið ?
Hefur eitthvað fleira breyst hjá þér ?
Ertu kominn í Heimssýn ?
Benedikta E, 13.12.2009 kl. 17:08
Nei, ég ákvað að blogga áfram um fréttir hér af og til, en hef pistlana mína á Eyjunni!
Er ekki genginn í Heimssýn og annað hefur nú ekki breyst frá því í sumar!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.12.2009 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.