Allt frá tímum Biblíunnar hefur verið erftt að vera tollheimtumaður

Ágætu bloggarar

Gaman að sjá að fleiri en ég hafa gaman af tollamálum.

Ég gat ekki orða bundist þegar ég sá af hve lítilli þekkingu var fjallað um tollamál og starfsmenn tollsins í þessu bloggi og athugasemdum þess. Það kann að vera að ástæða þess að ég er svona viðkvæmur fyrir þess sé að ég er formaður Tollvarðafélags Íslands, auk þess sem ég gegni stöðu yfirmanns hjá tollstjóra. Ég vil hins vegar taka skýrt fram að þessa grein skrifa ég ekki í umboði tollyfirvalda eða Tollvarðafélagsins, heldur er um sjálfstæða skoðun mína að ræða.

Svör við Kára Harðarsyni

Fyrir það allra fyrsta vil ég benda Kára Harðarsyni á að öllum er heimill innflutningur til Íslands, nema að sjálfsögðu ef um innflutningsbann eða – takmarkanir sé að ræða á varningnum. Ef þér finnast reglurnar of flóknar gerir þú líkt og þúsundir íslenskra fyrirtækja og einstaklinga: þú kaupir þér aðstoð tollmiðlara.Drífðu þig endilega til London og taktu með þér nokkrar ,,pallettur” af klementínum og seldu ódýrt – ég kem að kaupa af þér – ekki málið!Hvað boð og bönn eða takmarkanir varðar,þá styðjast slíkar innflutningstakmarkanir og –bönn við lög og reglugerðir. Því er við Alþingi að sakast, því lögin eru sem alþjóð veit sett af Alþingi en ekki stjórnvöldum. Alþingi ákvarðar jafnframt heimildir framkvæmdavaldsins til setningar reglugerða og annarra reglna. Að sakast við stjórnvöld á borð við tollstjóra (tollverði), sem einungis sinna skyldu sinni og framfylgja lögunum er ekki sanngjarnt.Þegar tollverðir eða aðrir starfsmenn tollstjóra tollflokka eru þeir einnig að framfylgja landslögum. Tollskráin er viðhengi eða viðauki við tollalögin og hefur lagagildi. Þegar tollstarfsmenn tollflokka eru þeir einungis að flokka varning í réttan tollflokk, þannig að rétt gjöld séu greidd í ríkissjóð og rétt leyfi liggi fyrir við innflutning (fyrir hvoru tveggja eru sem sagt lög sem fyrr segir).Tollskráin (Harmonized System) er notuð í yfir 200 löndum um allan heim og er gefin út af Alþjóðatollastofnuninni (World Customs Organization – WCO). Aðalmarkmið WCO og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization – WTO) – sem er aðal samstarfsaðli WCO og ekki þekkt fyrir að standa í vegi fyrir alþjóðaviðskipum – er að auðvelda og auka heimsviðskiptin. Tollskráin er einmitt tæki til að auðvelda viðskipti landa á milli, en ekki leið til hindrunar viðskipta landa á milli. Þegar ég sem tollari sé tollskrárnúmer, þá veit ég annaðhvort hvaða vara er á bak við númerið eða ég fletti því upp.Tollskráin er einnig mikilvæg fyrir hagtölur, en með númerunum er hægt að fylgjast með inn- og útflutningi á öllum varningi. Innflutnings- og útflutningsaðilar – og stofnanir hins opinbera – geta þannig fylgst með heildar-innflutningi í ákveðnum tollskrárnúmerum. Þetta nýtir sér heill her af fólki í þjóðfélaginu, bæði hjá fyrirtækjum og ríkisstofnunum.Íslendingar eru t.d. með eigin númer á alls kyns fisktegundum og öðru sem aðrar þjóðir hfa ekki og nýtir þær upplýsingar sem tollyfirvöld veita til margra hluta.Kalifornía hefur ekki áhuga á að flokka loðnu og síld í mismunandi tollflokka eða löngu og karfa eða þorsk, en í staðinn hafa þeir áhuga á ýmsum cítrus-ávöxtum s.s.: klementínum, satsúmum og tangerínum.Tollarar ákveða því ekki að í dag fari ,,i-pod” í þennan flokk og á morgun fari hann í annan tollflokk. Sé slíkt gert er það lögbrot, sbr. umfjöllun mína á undan, og það á að kæra til tollstjóra og síðan til ríkistollanefndar. Viljirðu hins vegar lækka gjöldin þarftu að tala við hið háa Alþingi – hér að neðan er 77.gr. stjórnarskrárinnar okkar, svo þetta sé á hreinu:

Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.

Veldi tollsins er sem sagt ekkert þegar að ákvörðunum um gjöld kemur eða varðandi tollflokkun – þar ræður blákaldur lagatextinn.Hvað lokakaflann hjá þér varðar, Kári minn, þá finnst mér leiðinlegt að valda þér vonbrigðum, því sama ,,skrifræðisóskapnaðinn”  er að finna í tollamálum innan ESB og einnig bölvaða tollskrána – sorry!

Svar við Hauki Nikulássyni:

Hárrétt Haukur:

 Við þurfum ekki að ganga í ESB til að fella niður tollana eins og sumir halda blákalt fram í einhverrri undarlegri minnimáttarkennd. 

Að fella niður tolla kemur tollinum ekkert við. Ef við göngum í ESB erum við alls ekki að fella niður tolla, þvert á móti erum við að ganga í tollabandalag, þ.e.a.s. það eru engir tollar innan ESB en hins vegar tollar á innflutning frá öðrum löndum, jafnvel á lönd sem við erum með fríverslunarsamninga við nú (og innflutningur er tollfrjáls frá).

 Svar við Sigurði Þór Guðmundssyni 

Þú heldur að amerískur pallbíll sé með 30% toll. Það er rangt hann er með 14% vörugjald. Bíll upp að 2.0 lítra vélarstærð er með 30% vörugjald og bíll með stærri vél en 2.0 lítrar er með 45% vörugjaldi.

Ég þekki engan í tollinum sem á pallbíl eða heldurðu virkilega að fyrir utan minn vinnustað geymi allir tollararnir 15 pallbíla - ,,come on get sensible” – bara pínu! 

Líkt og ég sagði áðan er það Alþingi sem ákveður hvað gjöldin eru há, ekki tollurinn.

 Svar við Jónasi Tryggva Jóhannssyni

Hárrétt hjá þér að:

,,Það er mjög erfið pólitísk aðgerð að fella niður verndartollana einhliða og mun aldrei vera samþykkt á hinu háa Alþingi, það held ég að sé fullreynt. Það er mun einfaldara að ganga í ESB og fá þaðan tollaumhverfið sem við viljum vera í ...”

Hvað bætur frá ESB varðar, þá hefur ESB í hyggju að skera niður styrki til bænda á næstu árum og skikka Evrópulönd til að minnka niðurgreiðslur sínar. Þetta mun auðvelda fátækari löndunum ESB innflutning til þeirra ríkari, en einnig mun þetta auðvelda þeim löndum, sem hafa frá náttúrunnar hendi betri skilyrði til að stunda landbúnað innflutning til annarra ESB.Ég er hins vegar evrópusinni – þótt ég vilji fara varlega en djarflega – og er þér hjartanlega sammála hvað lok greinarinnar varðar, þ.e.a.s. að við ættum að skoða alvarlega aðild að ESB – en ekki ganga inn í bili. Ég hef verið þó nokkuð í Brüssel sem formaður TFÍ og tekið þátt í samstarfi þar og hef það ekki á tilfinningunni að þar sé valtað yfir minni löndin innan ESB – þvert á móti.

Svar við Sveini Inga Lýðssyni

Sjá að ofan: Tollskráin er lög og verður því ekki breytt með reglugerð – kynna sér málin – Bitte!

Svar við bloggi Geirs Jónssonar:

Ekki sammála um að fella eigi niður tolla með öllu án þess að við fáum tollfríðindi á móti– málið er flóknara en þetta, án þess að ég geti útskýrt það í nokkrum setningum.Í grundvallaratriðum sammála þér hvað þetta varðar:

,,Frjáls alþjóðleg viðskipti eru góð fyrir flesta jarðarbúa, tollar þjóna bara takörkuðum sérhagsmunum á kostnað annarra. Tollar eru ekki réttlætanlegir.”

Jæja búinn að gera nokkra brjálaða og ekki í fyrsta skipti!

Kveðja,Guðbjörn Guðbjörnsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband