Skynsamlegt stjórnarfrumvarp Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar

Ljóst er að ríkisstjórnin þurfti að gera einhverjar ráðstafanir til að hindra fjármagnsflótta úr landi, t.d. í ljósi þeirra hundruð milljarða króna í "Jöklabréfum", sem þarf að greiða út á næstu mánuðum.

Slíkir fjármagnsflutningar hefðu getað leitt til algjörs gengishruns krónunnar á næstu vikum og mánuðum, með hrapalegum afleiðingum fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Ljóst er að þegar við horfum upp á tæp 100% gengisfellingu krónunnar á einu ári, munu íslenskir og erlendir fjármagnseigendur reyna að losa sig við þær krónur, sem þeir eiga í verðbréfum eða öðrum inneignum.

Okkur er einnig öllum ljóst að loka þarf algjörlega fyrir þann möguleika, að óprúttnir Íslendingar - eða útlendingar - geti enn einu sinni gert íslensku krónuna að féþúfu með löglegum en siðlausum gjaldeyrisviðskiptum, enda eykur það enn á óstöðugleika krónunnar.

Jafnframt er ljóst, að enginn hefur lengur trú á blessaðri krónunni okkar, hvorki Íslendingar né útlendingar. Með slíkri löggjöf er hins vegar hægt að senda skýr skilaboð út í heim, að við - hin íslenska þjóð - látum ekki lengur bjóða okkur þessa svikamyllu með okkar eigin mynt.

Við erum sterk útflutningsþjóð, sem höfum nú þegar dregið innflutning okkar saman um 50%, og ætlumst til, að okkar mynt rétti fljótt úr sér í kjölfarið. Við erum ekki til í að einhverjir "spekúlantar" notfæri sér veikleika okkar til að græða á því!

Þess vegna viljum við Íslendingar sjálf hafa svolitla stjórn í nokkurn tíma á því, hverjir selja og kaupa íslenskar krónur. Ég spyr ykkur, hvort eitthvað athugavert sé við það, sérstaklega eftir að viðskiptabankarnir og erlendir aðilar hafa um nokkurn tíma hafa bein áhrif á gengi krónunnar til að græða á því?

Er eitthvað að slíku, þegar tryggt er að almenningur og fyrirtæki munu fá gjaldeyri í hendur - vonandi á eðlilegu gengi - til sinna nota, t.d. til innkaupa á varningi fyrir okkur Íslendinga og til ferðalaga erlendis?

Í fyrrnefndum lögum er einnig tekið á þeim gjaldeyri, sem fæst fyrir vörur seldar til útlanda, t.d. fiskinn okkar allra, sem er sameign þjóðarinnar. Undanfarna tvo mánuði hafa fiskútflytjendur aðeins flutt inn hluta þess gjaldeyris, sem þeir hafa fengið fyrir vöru sína. Afganginn af þessum gjaldeyri hafa þeir selt " á svörtum markaði" erlendis, t.d. eflaust til þeirra, sem fjárfestu í íslenskum "krónubréfum", eða annarra sem þurftu á gjaldeyri að halda.

Földum við íslenskum útgerðarmönnum "varanleg" yfirráð fiskistofnanna í hendur til að þeir stælu af okkur þeim gjaldeyri, sem þeir fá fyrir afnot af þjóðareign Íslendinga?

Þessar aðgerðir eru bráðnauðsynlegar til að koma "réttu" gengi á krónuna og til þess að Íslendingar geti keypt þær nauðsynjar frá útlöndum, sem okkur öllum eru lífsnauðsynlegar!

Ég styð þessa tímabundnu aðgerð!


mbl.is Geta stöðvað gjaldeyrisflutninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hagbarður

Ég held að þetta sé mjög hættuleg aðgerð. Afhverju má markaðurinn ekki ráða? Eru embættis- og stjórnmálamenn betur til þess fallnir að verðleggja gjaldeyri en markaðurinn? Við skipum okkur á bekk með löndum eins og Belarus og með þessum lögum "stútum" við þeirri litlu tiltrú sem við áttum gagnvart erlendum fjármögnunaraðilum. Þetta eru vond lög sem ganga á réttindi okkar.

Það sem gerist jafnframt er að til verða reikningar erlendis hjá þeim aðilum sem flytja inn vörur. "Kommission-kerfið" er endurvakið.

Hagbarður, 27.11.2008 kl. 22:00

2 Smámynd: Hákon

Ég er nú ekki með neinar háskólagráður, en segðu mér afhverju það væri ekki fínt að láta krónuna falla, losa þar jöklabréfin á hagstæðu verði fyrir okkur og byggja síðan upp krónu án utanaðkomandi þrýstings þar sem enginn erlendur aðili mun vilja krónu? Ég sé fyrir mér rétt gengi krónu eftir að öll jöklabréf hafa verið leyst út, ekki fyrr. En ég er ekki meiri hagfræðingur heldur en næsti náungi (orðnir margir hagfræðingar núna :).

Hákon , 27.11.2008 kl. 22:07

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Hagbarður og Hákon:

Öllu jafnan er ég maður markaðarins eins og þið báðir sennilega vitið!

Finnst ykkur við búa við eðlileg markaðsskilyrði um þessar mundir á gjaldeyrismarkaði eða öðrum mörkuðum? Um þetta snýst í raun málið í hnotskurn!

Þið hafið eflaust einhvern tíma heyrt um markaðsbresti. Við slíkar aðstæður þarf og verður ríkisvaldið að spila inn í. Það á auðvitað aðeins að gera tímabundið og ekki er ég að mæla með að þetta verði til frambúðar!

Vegna ójafnvægis í efnahagslífinu, í kjölfar bankakreppunnar, erum við hins vegar að horfa upp á 20-70% verðbólgu, 10-20% atvinnuleysi og 100-150 milljarða halla á ríkissjóði!

Við slíkar aðstæður er fullkomlega eðlilegt, sjálfsagt og í raun skylda ríkisvaldsins og Alþingis að bregðast við á þennan hátt.

Við eigum í efnahagslegu stríði og líkt og öðrum stríðum verður ríkisvaldið að taka að sér stjórnina á sumum sviðum og markaðurinn er þá stundum - því miður - settur í annað sæti!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.11.2008 kl. 22:32

4 Smámynd: haraldurhar

   Við erum bara lengja í henginarólinn með því að innleiða haftastefnu hér á landi.

   Auðvitað veit ég að talið er að kr. komi til með að falla verulega er krónan verður sett á flot, en ég álít það bara tækifæri fyrir okkur til að greiða upp Jöklabréfin á stórafslætti.  Vitaskuld þarf að taka lánskjaravísitöluna úr sambandi meðan þessu stendur.  Það er sérkennilegt að sjá yfirlýstan stjálfstæðismann vera hvatamann haftastefnu.

haraldurhar, 28.11.2008 kl. 01:35

5 identicon

Þessi haftastefna er því miður hafinn. Nú í vikunni þurfti ég að fá 500 danskar krónur jafngildi um 11.500 íslenskum krónum á núverand gengi. Ég þurfti þessar krónur til þess að borga umsóknargjald í skóla sem ég er að sækja um nám hjá í Danmörku og átti hann að leggjast inn á danskan bankareikning skólans.

Það var ekki hægt að gera þessa millifærslu og bankinn vísaði mér á Seðlabankann sem átti að hafa valdið til að leyfa gjaldeyriskaup mín. Seðlabankinn vísaði mér síðan á bankann minn því þeir yrðu að gefa mér leyfi til millifærslunnar ef að Seðlabankinn átti síðan að geta framkvæmt hana. Báðir aðilar vísuðu á hvorn annan. Þrátt fyrir að ég útskýrði mikilvægi þessarar millifærslu fyrir mig kom allt fyrir ekki. Hana var ekki hægt að framkvæma. Skólinn sem um ræðir tekur nemendur inn á tveggja ára fresti.

Ég gat þó bjargað málunum með því að leita á náðir ættingja í útlöndum og láta þá borga fyrir mig þessar 500 dönsku krónur svo ég gæti sótt um skólann.

Ef að námsmaður getur ekki fengið að kaupa gjaldeyri fyrir 10 000 krónur til að sækja um skóla í útlöndum þá eru alvarleg höft á gjaldeyrisviðskiptum þjóðarinnar. Ég sé því ekki að ástandið eigi eftir að versna mikið meira þrátt fyrir þessa lagasettningu.

Grímur Jón Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 03:06

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

haraldurhar:

Þú mátt trúa því, að mér er ekki ljúft að viðurkenna að markaðskerfið virki ekki alltaf, en sú er raunin í dag!

Að fleyta krónunni í dag myndi þýða gífurlegt gjaldeyrisstreymi út úr landinu og þau lán, sem við erum að taka á dýrum vöxtum, myndu hverfa eins og dögg fyrir sólu. Þetta hefur gerst í öðrum löndum við svipaðar aðstæður og við erum í núna.

Ég ítreka að þetta er tímabundin ráðstöfun og að hana beri að afnema sem allra fyrst eða um leið og markaðurinn er tilbúinn til að raunverulega "fleyta" krónunni.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 28.11.2008 kl. 07:34

7 Smámynd: Hagbarður

Velkomnir í "nýja tíma". Svona verður þetta áfram hjá okkur Grímur! Ungur að árum var ég áskrifandi af American Scientific, sem kostaði $12 á ári. Til að endurnýja áskriftina þurfti unglingurinn að fylla út umsókn í viðskiptabankanum sínum. Umsóknin fór síðan fyrir gjaldeyrisnefnd bankans sem fundaði vikulega. Einhver árin gat nefndin ekki tekið afstöðu og man ég að faðir minn hringdi í einhverja nefndarmenn til að reyna að hafa áhrif. Við höfum færst 30 ár aftur í tímann með þessum "nýju" lögum.

Hagbarður, 28.11.2008 kl. 07:47

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Hagbarður:

Þetta er ekki rétt hjá þér, heldur er sannleikurinn sá, sem birtist á mbl.is fyrr í morgun:

Seðlabankinn hefur afturkallað tilmæli frá því snemma í október um tímabundna temprun á útflæði gjaldeyris. Það þýðir, að engar hömlur eru lengur á gjaldeyrisviðskiptum sem tengjast inn- og útflutningi vöru og þjónustu. vöxtum, verðbótum og afborgunum af lánum. 

Þetta er í raun gert til að koma í veg fyrir brask með íslensku krónuna, sambærilegt við það, sem átt hefur sér stað undanfarin ár, sbr. frétt mbl.is áðan:

Takmarkanir eru settar á fjármagnshreyfingar aðila sem hyggjast skipta íslenskum krónum í erlendan gjaldeyri.

Einnig felst í reglunum að viðskipti á milli innlendra og erlendra aðila með verðbréf og aðra fjármálagerninga, sem gefin eða gefnir hafa verið út í íslenskum krónum, eru óheimil. Erlendum aðilum er óheimilt að kaupa fyrir milligöngu innlendra aðila verðbréf sem gefin hafa verið út í krónum. Þetta á þó ekki við um erlenda aðila sem þegar eiga krónur. Einnig er erlendum aðilum óheimilt að gefa út verðbréf hér á landi.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 28.11.2008 kl. 11:13

9 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ljóst er að þegar við horfum upp á tæp 100% gengisfellingu krónunnar á einu ári


Íslenska krónan (ISK) er fallin með 49,89% á síðustu 365 dögum gangvart evru (EUR). Þetta er ívið meira en evran féll á 22 mánuðum árin 2000-2001, en hún fell rúmlega 30% þá. Ekkert getur fallið um 100% nema að verða að engu. Það myndi hjálpa (greinilega mörgum) að kunna þann reikning sem var kenndur í barnaskólum hér einu sinni.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 28.11.2008 kl. 14:53

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Evra er fallin um 19% gagnvart dollar á 4 mánuðum

.

Dollari Nýja Sjálands er fallin um 32% gagnvart US dollar á 9 mánuðum og 35% gagnvart yen á nokkrum mánuðum.

.

Ástralski dollarinn er fallinn um 40% gagnvart yen á fimm mánuðum og 32% gagnvart US dollar á sama tíma.

.

Í engum af þessum löndum orsakaðist fallið þó vegna þess að 90% af bankakerfinu þessara þjóða færi á hliðina og yrði gjaldþrota sökum fíflagangs.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 28.11.2008 kl. 15:11

11 Smámynd: Egill M. Friðriksson

Gunnar: Ekki veit ég við hvaða gengi evru þú miðar við fyrir ári síðan. En skv. skráðu gengi Seðlabankans fyrir ári síðan: http://sedlabanki.is/default.aspx?PageID=7 þá var gengi evrunnar 92kr. Í dag er það umþabil 182kr. Gengi krónunnar myndi því hafa fallið um liðlega 98% gagnvart evru.

Að auki var stærstu hluti fallsins kominn áður en bankarnir hrundu.

Egill M. Friðriksson, 28.11.2008 kl. 16:51

12 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gunnar:

Ég reiknaði þetta út eins og Egill, en líklega hefur Gunnar meira vit á þessu en við tveir!

Þarna er á ferðinni maður, sem fæst við prósentureikninga daginn út og inn, en þetta voru tæknileg mistök af minnu hálfu.

Eigum við ekki að segja að evran kosti tvöfalt meira en á síðasta ári, þ.e.a.s. ég fær 1/2 evru fyrir sömu krónur og fyrir ári síðan og þetta var "pointið" sem ég var að reyna að benda.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 28.11.2008 kl. 17:25

13 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þá er kanski að fara í barnaskólann aftur. Þegar talað er um að eitthvað hafi fallið í virði á mörkuðum þá nota markaðir ALLTAF sömu reikniformúluna. Þegar talað er um að eitthvað hafi hækkað í verði þá nota markaðir einnig ALLTAF sömu formúlu.

Þetta passar því upp á aurabort þetta sem þú kemur með:

(92-182)/182 = -0,494505494505495 => mínus 49,54 prósent

Þíð hljótið að geta séð það í hendi ykkar að ekkert getur orðið minna en núll án þessa að breytast í neikvætt gildi. Hefur þú einhverntíma séð mynt sem hefur kostað minna en ekki neitt ? Gegnið getur aldrei orðið minna en núll. Gegnið getur hinsvegar hækkað óendanlega (svona eins og svo magrir virðast vilja á Íslandi núna). Svo Egill, næst þegar þú heyrir einhvern segja á CNN eða RUV að eitthvað hafi fallið um x eða y prósent þá er það reiknað út samkvæmt dæminu um PRÓSENTUBREYTINGAR þarna að ofan!

Svo að segja að íslenska krónan sé fallin um nær 100% er því staðleysa og kolvitlaust. Það er alrangt og getur varla orðið meira vitlaust. Þetta er jafn heimskulegt eins og þessi gengis og myntumræða sem fer fram í þjóðfélaginu núna, byggt á fáfræði og ímyndunarveiki. Afsakið innilega tóninn, en þetta hefst af svona vitleysu.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 28.11.2008 kl. 17:33

14 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Jú mikið rétt Guðjón, kostar mikið meira en fallprósentan í prósentum, en það gildir þá einnig um alla aðra gjaldmiðla einnig. Bera saman epli og epli og svo appelsínur og appelsínur.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 28.11.2008 kl. 17:40

15 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Afsakið, ég skrifaði nafnið þitt vitlaust Guðbjörn, ég biðst velvirðingar á því.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 28.11.2008 kl. 17:41

16 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gunnar Rögnvaldsson:

Það má vel vera - og ég viðurkenni það formlega hér að ofan - að mér hafi orðið á mistök í prósentuútreikningum mínum, miðað við hvernig verðbólguútreikningar eru gerðir. Ég er stúdent úr hagfræðideild Verslunarskólans, en minnist þess ekki að farið hafi verið í % reikning á verðbólgu. Þetta 90-100% gengisfall lapti ég upp úr einhverjum fjölmiðli og biðst enn og aftur forláts á því.

Ég veit að þú vilt senda mig aftur í barnaskóla, en ég tel þess varla þörf. Ég útskrifaðist með fullnaðarpróf með um 9,0 fyrir 33 árum síðan, grunnskólapróf með um 8,0, með verslunarpróf um 7,5, með stúdentspróf um 6,0, með burtfararpróf í söng um 8,5, með BA próf í þýsku upp á tæpa 9,0 og með masterspróf upp á 8,5 og þarf því ekki á ráðleggingum frá einhverjum að halda, sem flosnaði upp úr hagfræðinámi í Árósum!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.11.2008 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband