2. lýðveldi Íslendinga - byltingu eða breytingar

Það er skemmtilegt að sjá öll þessu nýju andlit í Silfri Egils og er þetta í raun sá vettvangur í þjóðfélaginu, þar sem sannleikurinn kemst mest á flug þessa dagana. Egill vill auðsjáanlega gefa nýjum röddum tækifæri til að koma fram með algjörlega ferska sýn á hlutina. Það hefur tekist fullkomlega.

 

Smáborgarar eða stjórnleysingjar

Í Silfri Egils í dag spurði þáttastjórnandi Hörð Torfason, hvort hann teldi rétt að þessir grímulausu stjórnleysingja væru lykilþátttakendur í öllum mótmælum, þar sem slíkt hefði eflaust þau áhrif, að "smáborgarar" treystu sér ekki til að koma fram og mótmæla. Svar Harðar var einfalt: að allir væru velkomnir til að mótmæla og hvar ætti yfirleitt að enda, ef byrjað væri að útloka fólk frá mótmælum. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig, þótt ekki sé ég sammála.

Mér fannst þessi spurning Egils einmitt mjög góð, því ég veit að nær allir "smáborgarar" sem ég þekki - og þeir eru allnokkrir - langar í sjálfu sér til að mótmæla. Enginn þeirra hefur hins vegar áhuga á að standa hlið við hlið á skemmdarvörgum og stjórnleysingjum. Kannski erum við "smáborgararnir" svona hrokafull, en þetta er ástæðan fyrir því, að ég og 100.000 aðrir af sama sauðahúsi erum til í styðja Gay Pride gönguna, en sjáum ekki ástæðu til að mótmæla þjóðargjaldþroti og stærstu kreppu, sem landið hefur nokkurn tíma upplifað. Þessar raddir óánægðra "smáborgara" á borð við sjálfan mig vantar ekki aðeins i mótmælin á Austurvelli, heldur í alla umræðuna, hvort sem hún er í Silfri Egils eða annarsstaðar. Það er miður, því við erum sennilega stærstu áhrifavaldarnir í íslenskum stjórnmálum.

Það eina sem þeir hræðast er uppreisn smáborgaranna

Það sem Egill og fleiri blaðamenn ekki skilja, er að það eina sem forustufólk Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í raun hræðist er uppreisn okkar "smáborgaranna"! Þeir eru ekki vitund hræddir við þetta fólk á Austurvelli, því venjulegir íslenskir stjórnmálamenn eru ekki með pólitískt umboð frá þessu fólki. Nei, það hafa þeir frá okkur "smáborgurunum", það erum við sem höfum haldið þessu fólki við völd, við erum það fólk sem situr í stjórnum félaga stjórnmálaflokkanna, í fulltrúaráðum, í kjördæmisráðum, í miðstjórnum flokkanna og síðast en ekki síst sem förum á landsfundi og ákveðum hver stefna flokkanna verður og hverjir eru í forystuliðinu!

Það sem allir virðast gleyma - andstæðingar okkar "smáborgaranna" og þeir sem á okkur treysta - er að við erum bara venjulegt fólk, með okkar erlendu bílalán eða vísitölutryggðu íbúðalán, það erum við sem erum að lækka í launum eða jafnvel að missa vinnuna! Við erum jafn reið og þetta fólk á Austurvelli, en fáum hvergi nokkurs staðar útrás fyrir þá reiði!

Það versta af öllu er þó, að mínu mati, að við "smáborgarnir" - og við skiptum tugum þúsunda - erum okkur ekki meðvituð um þau völd, sem við í raun höfum. Við gerum okkur ekki grein fyrir, að við höfum alla þræði í hendi okkar til að breyta stjórnmálaflokkunum, til að breyta stefnumálunum, til að breyta því hverjir eru í forystu og hverjir sitja á Alþingi! Já, við "smáborgararnir ráðum í raun hvernig okkar þjóðfélag lítur út ef við höfum áhuga á því!

Margar góðar hugmyndir en mikið af þvættingi

Það sem pirrar mig þessa dagana eru öfgarnar í allri umræðu. Það er næstum á hverjum degi, að gamlir "sófakommar" koma fram og segja frjálshyggjuna - sem er í raun aðeins annað orð yfir markaðshyggju - dauða! Við "smáborgararnir" erum að mínu mati alls ekki sammála þessari yfirlýsingu og teljum allar fréttir af dauða kapítalismans stórýktar!

Er fólk ekki að fara aðeins fram úr sér? Vill fólk 5 ára áætlanir og sovéskan áætlunarbúskap? Hvaða valkosti höfum við aðra en einhverskonar markaðshyggju, þótt hún vissulega muni taka á sig aðeins breytta mynd eftir bankahrunið? Auðvitað brást ríkisvaldið, hvað löggjöf og eftirlit varðar, en brást markaðshagkerfið í grunninn? Ég segi nei, það brást alls ekki! Ég, sem hófsamur hægri maður og markaðssinni, hef alltaf gert mér grein fyrir annmörkum og takmörkunum markaðarins. Ég og fleiri héldum satt best að segja, að sett hefði verið nægilega sterk löggjöf varðandi samkeppni og fjármálamarkaðinn og að þær eftirlitsstofnanir, sem settar voru á stofn, væru að vinna vinnuna sína. Það að löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið stóðu sig ekki í stykkinu er eins og kenna bílum um ofsaakstur, brennivíni um áfengissýki eða mat um offitu! Lausnin er einföld: þeir sem voru blindfullir við stýrið missa ökuskírteinið fyrir lífstíð, alkahólistarnir fara í afvötnun og við átvöglin í hjáveituaðgerð eða megrun!

Lausnin mikið nær en fólki grunar

Margt af því, sem fram hefur komið að undanförnu varðandi breytingar, t.d. varðandi aðskilnað framkvæmdavalds, dómsvalds og löggjafarvalds get ég heilshugar tekið undir. Flestar af þessum hugmyndum eru ekki nýjar af nálinni og hafa reynst vel erlendis. Það sem þjóðin vill sjá er að kjörnir fulltrúar á Alþingi ráði í raun ferðinni á Íslandi en ekki einstakir ráðherrar. Það sem þjóðin vill sjá er aðskilnaður milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds verði tryggður, t.d. með því að ráðherrar sitji ekki á þingi. Það sem þjóðin vill sjá er aðskilnaður milli framkvæmdavalds og dómsvalds, t.d. við skipun dómara. Það sem þjóðin vill sjá er meira aðhald þingsins við framkvæmdavaldið og meira aðhald dómsvaldsins við framkvæmdavaldið. Þetta er sem fyrr sagt ekkert frumlegt og langt frá því að vera nýtt undir sólinni!

Til þess að ná fram þessum breytingum þarf ekki að fara fram bylting í landinu, líkt og margir virðast halda. Í langan tíma hefur verið ljóst að fara þarf í gagngerar breytingar á stjórnarskránni og kosningalöggjöfinni. Þetta verður hins vegar ekki gert á nokkrum mánuðum, þótt það sé hægt!

Takið virkan þátt í stjórnmálaflokkunum

Það fyrsta sem fólk þyrfti að gera í lýðræðislegu þjóðfélagi til að ná slíkum breytingum fram á lýðræðislegan hátt, er að taka virkari þátt í stjórnmálum eins og þau þekkjast í dag. Það er því miður engin önnur leið. Við erum með flokkakerfi og því verður ekki breytt á einni nóttu. Borgararnir geta annaðhvort orðið virkari innan þeirra flokka, sem nú eru við lýði og eiga við þeirra áherslur. Þar geta þeir kynnt sínar hugmyndir um breytingar. Síðan er auðvitað möguleikinn að stofna hreinlega nýjar stjórnmálahreyfingar.

Fljótari og vænlegri leið er að mínu mati sú fyrri, þ.e.a.s. að finna sínum málum framgang innan eigin flokks. Þetta hafa ég aðrir gert innan Sjálfstæðisflokksins, t.d. varðandi Evrópumálin. Næsta mál á dagskrá hjá mér innan Sjálfstæðisflokksins er að milda þá öfgafrjálshyggju, sem ríkt hefur innan flokksins um árabil og ég hef haft megnustu óbeit á. Jafnframt vil ég sjá virkara lýðræði innan flokksins og minni ákvarðanatöku að ofan, að meira sé hlustað á okkur í grasrótinni. Það var seinlegt að koma ESB umræðunni af stað innan flokksins, en það tókst. Ytri aðstæður munu nú hjálpa okkur, sem viljum breytingar innan Sjálfstæðisflokksins, við að koma öðrum breytingum á.

Dauðadá eða virka grasrót

Grasrótin í flokkunum á ekki einungis að virka sem kosningasmalar og liggja þess á milli í hálfgerðu dái. Hlutverk stjórna, fulltrúaráða og miðstjórna er ekki einungis að halda uppi einhverju smá félagslífi innan flokksins og styðja við þá, sem völdin hafa innan flokksins, heldur eiga að fara fram virkar stjórnmálaumræður í grasrótinni, umræða sem forusta flokksins á að fylgjast með og taka þátt í með flokksmönnum. Þetta á ekki að vera vandamál í svo litlu landi. Landsfundir á tveggja ára fresti duga ekki fyrir stjórnmálamenn til að finna púlsinn hjá félögum sínum í flokkunum.

Ágætu lesendur, tækifærin til breytinga eru mun nærri en þið haldið og hvet ég fólk, hvort sem það er í flokkum eða ekki, til að ganga í þær stjórnmálahreyfingar, sem standa nærri þeirra hugmyndum og leggja hönd á plóginn. Góðir leiðtogar stjórnmálaflokka munu fagna nýjum meðlimum og nýjum hugmyndum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær pistill hjá þér Guðbjörn. Ég er orðin hundleið á því að flestir þeir sem rætt er við og blogga gefa í skyn hrun markaðshyggjunnar. Það var fjármálakerfið sem hrundi því leiðtogar þess spiluðu ekki rétt og eftirlitslítið hagkerfi er vont kerfi. Við þurfum að tryggja að leikreglurnar séu ákveðnari og eftirlitið betra og hunskast af stað aftur. Við þurfum að taka til í flokkunum, sópa úr hornunum, velta við steinum og krefjast þess að þingið sé annað og meira en afgreiðsla tilbúinna mála á færibandi frá ráðherrum. Við þurfum ekki aðeins að ræða ESB á Landsfundinum heldur móta stefnuna í heild. Hvert erum við að fara? Hvernig Ísland viljum við? Hvernig er hag þjóðarinnar best borgið að okkar mati? Sofum ekki lengur á verðinum og hlustum á fólkið okkar og á framtíðarsýn þess. Afhverju eru Vinstri Grænir svona áberandi í allri umræðunni og hvar er fólkið sem trúir á markaðshyggjuna og bjartari framtíð? Hefur enginn neitt til málanna að leggja í fjölmiðlum nema bylta stórnarskránni og fara í marxisma?

Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 17:24

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Þakka þér Adda!

Já, mér finnst eins og allt fólk á miðjunni og hægra megin við hana sé hálf lamað!

Við þurfum að taka okkur saman í andlitinu, fara í smá naflaskoðun og endurskilgreina okkar hægri stefnu.

Kannski breytast áherslur eitthvað, en við erum ekki dauð úr öllum æðum!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 11.1.2009 kl. 18:09

3 identicon

Pistill þinn er vel skrifaður og þú rökstyður sjónarmið þitt sem "smáborgara". Hins vegar finnst mér þú falla í þann pytt að finna leið frá því að taka þátt í mótmælunum á Austurvelli í stað þess að finna leið til að taka þátt í þeim. En þetta er val: Valið um að vera með vs. valið um að finna leið til að vera ekki með.

Sjálf er ég á móti því að fólk leyni því hvert það er á almannafæri (hvort heldur fólk notar pólitík sem afsökun eða trúarbrögð). Það er mitt sjónarmið að við eigum öll skýlausan rétt á því að vita hverjir eru nálægt okkur í opnu almenningsrými: Þetta er hreinlega spurning um öryggi fólk. En ég vel að láta fólk með klúta og blæju fyrir andlitinu ekki fæla mig frá því að taka þátt í mótmælunum. Það geta "smáborgararnir" líka gert, ef þeir vilja vera með.

Helga (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 20:03

4 Smámynd: Rauða Ljónið

Hér er pistil vikunnar á ferðinni, á eining eina í blöðunum.

,, Enginn þeirra hefur hins vegar áhuga á að standa hlið við hlið á skemmdarvörgum og stjórnleysingjum."

Þetta einmitt það sem rætt er á mínum vinnustað og fleiri vinnustöðum sem ég þekki til.

Eitt af stærstu vandamálum grasrótarinnar er hversu lítið hún tekur þátt í stjórnmálum og verkalýðsmálum en láta svo aðra gera þá vinnu fyrir sig en sitja svo heima og væla, meðan svo er myndast enginn nógu sterkur hópur eða öfl til að þrista á þær lagfæringar sem væri þjóðinni til hagsbótar og hugmyndir að góðum máli verða færi og fátækari, hér verðar að ráða bót á og koma því inn hjá þjóðinni  ,,að ef þú gerir ekki hlutina sjálfur þá gerir það enginn fyrir þig.,,

 Guðbjörn væri ekki ráð að koma pistlinum í blöðin.

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 11.1.2009 kl. 20:12

5 Smámynd: Rauða Ljónið

Á að vera svona ,,Hér er pistil vikunnar á ferðinni, á eining heima í blöðunum."

Rauða Ljónið, 11.1.2009 kl. 20:14

6 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ég er búinn að vera virkur í sjálfstæðisflokknum í nokkur ár og mætt á síðustu 4 landsfundi. aldrei hef ég rekist á þessa frjálshyggju sem allir eru tönglast á, nema kannski annaðslagið innan SUS.

Sjálfstæðisflokkurinn og sú stefna sem hefur verið rekinn á Íslandi síðastliðin 17 ár er sósíalismi og núna undanfarið hræðsla við almenningsálit/fjölmiðlana sem er beitt í áróðursskyni fyrir útrásarvíkingana. 

en það hefur ekki verið nein frjálshyggja á Íslandi. markaðurinn virkaði ekki þar sem hluthöfum var mismunað. innan forystunar hefur engin frjálshyggjar verið til staðar nema sem orðagjálfur í þeim sem er illa við flokkinn og finnst gott að krípa til einhverra slagorða. 

Fannar frá Rifi, 11.1.2009 kl. 20:47

7 Smámynd: Þór Jóhannesson

Góður pistill og ég fagna Sjálfstæðismönnum sem spyrja krefjandi spurninga og vilja vinna að réttlátara samfélagi - þótt ég deili ekki hugmyndafræði með þér ágæti pistlahöfnundur.

 Væri gaman að heyra hvað þer finnst um ábendingu Njarðar P. Narðvíkur í Silfri Egils um að það væri ekkert lýðræði á Íslandi í dag heldur flokksræði - persónulega er ég á því að allir íslendingar - burt séð frá flokkum - ættu að hópa sér að baki hugmynda Njarðar um nýtt lýðræði og hvernig hægt sé koma því á. Annars lifum við áfram í valdflokkaríki þar sem öryggi formanna og leiðtoga er svo tryggt að það er ekki nokkur lýðræðisleg aðferð til við að steypa þeim - ef þeir standa sig ekki í stykkinu - eins og svo augljóslega hefur gerst nú.

Ef flokkadrættir verða lagðir niður um stund - til að bjarga lýðræðinu frá því að þóast í skelfilegar áttir - þá eigum við örlitla von. Annars verða landfluttningar ekki undantekning heldur eitthvað sem annar hver sjálfbær maður mun raunverulega framkvæma. Ég held því að það sé ekki rétt að hópa sér í núverandi flokka - eða stofna nýja - heldur sé einmitt núna - sem aldrei fyrr rétti tíminn til að umbylta kerfinu sem gat af sér spillinguna og ónýtt regluverk (og þú veist hvaða þátt þinn flokkur á í því). Neyðarstjórn í 1 ár sem semur nýja stjórnarskrá er lífsnauðsyn ef Ísland á ekki að deyja fyrir fullt og allt.

T.d. væri Páll Skúlason fyrrum rektor Háskóla Íslands kjörinn til að leiða slíka neyðarstjórn.

Takk aftur fyrir góðan og málefnalegan pistil.

Þór Jóhannesson, 11.1.2009 kl. 21:18

8 Smámynd: Atli Hermannsson.

"Grasrótin í flokkunum á ekki einungis að virka sem kosningasmalar og liggja þess á milli í hálfgerðu dái. Hlutverk stjórna, fulltrúaráða og miðstjórna er ekki einungis að halda uppi einhverju smá félagslífi innan flokksins og styðja við þá, sem völdin hafa innan flokksins, heldur eiga að fara fram virkar stjórnmálaumræður í grasrótinni,"

Sæll Guðbjörn, það er ekki annað hægt en að vera sammála þér og mikið gæfi ég fyrir að að hlutirnir gætu gengið fyrir sig eins og þú lýsir.

En þessa dagana er einmitt verið að handtína “gasrótina” eða þá sem fá að feta þröngan stíginn inn Landsfund Sjálfstæðisflokksins sem senn verður haldinn. Á landsbyggðinni gengur “tínslan” þannig fyrir sig að það eru kvótaeigendur í viðkomandi plássi eða þeirra nánustu sem verða fyrir valinu. Aðeins örlar þó á mönnum frá stærri þjónustufyrirtækjum eða öðrum sem einnig eiga allt sitt undir því að þóknast útgerðinni. Þar hittast síðan kollegarnir og fulltrúar annarra hluthafa sem gjarnan eru forkólfar sjóða - olíu- og tryggingafélaga sem raða sér í stólana í sjávarútvegsnefndinni. Álpist þangað einhver "sérvitringurinn" er honum góðlega klappað á öxl, boðinn drykkur og spurður hvort allt sé nú ekki í góðu lagi heima hjá honum. Svo eru þar nokkrir sem enga þekkingu hafa á sjávarútvegsmálum og gangast upp við að fá að standa við hliðina á "stórmennunum" - þó ekki sé nema þegar þeir míga. Því er það löngu ljóst hverjir fá að sitja fundinn af landsbyggðinni.

Árangurinn af þessu fína fyrirkomulagi er öllum ljós. Við erum með fiskveiðikerfi sem engu skilar nema sífellt minni afla, útgerð sem er á gjaldþrota og landsbyggð sem er á mörkum þess að vera byggileg.

Guðbjörn;verði  einhverri grasrót fyrir að fara á Landsfundinum verður hún örugglega fótum troðin.

Atli Hermannsson., 11.1.2009 kl. 21:51

9 Smámynd: Heidi Strand

Guðbjörn, ég skora á þig að mæta á Austurvelli næst. Ég hef verið í öll skiptin nema í gær .
Á Austurvelli eru fólk úr öllum stéttum á á öllum aldri. Ég sé aldrei neinn með andlitsklút og hef  aldrei orðið fyrir neinu óþægilegu, svo þú verður í góðum félagsskap.
Samstöðu er það sem þarf.

http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/767334/

Heidi Strand, 11.1.2009 kl. 23:14

10 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég hlustaði á Njörð P. Njarðvík og fannst margt af því, sem hann sagði ágætt. Ég sé hins vegar ekki fyrir mér að einhver "neyðarstjórn" taki við völdum á meðan "lýðræði" er komið á í landinu. Hverlags bull er það? Hver á að skipa í slíka stjórn og hvernig á að verða sátt um slíka stjórn. Ég er mikill aðdáandi Páls Skúlasonar og hlustaði nokkrum sinnum á viðtal hans og Evu Maríu, því mér fannst það svo frábært. En Páll sem forsætisráðherra og svo einhverja prófessora sem ráðherra? Ég segi nei! Höldum okkur við lýðræðið, höldum okkur við flokkakerfið, en gerum breytingar á því og breytingar á stjórnkerfinu, Alþingi o.s.frv.

Hvað stjórnskipun landsins varðar búum við við "lýðræði". Það er að sumu leyti okkur sjálfum að kenna, hvernig málum er fyrir komið. Við höfum ekki axlað nógu miklu ábyrgð áratugum saman. Þetta gildir um nær alla þjóðina, nema kannski vinstri menn, umhverfissinnar og femínistar, sem hafa virkilega látið til sín taka. BRAVO fyrir þeim, þótt ég aðhyllist síður en svo þeirra hugmyndafræði. Ég tek ofan af fyrir fólki, sem berst fyrir mannréttindum, kvenréttindum og er í stéttarbaráttu.

Sjálfur er ég formaður stéttarfélags og hef reynt að berjast fyrir réttindum míns fólks og innan stjórnar BSRB fyrir réttindum vinnandi fólks í landinu. Það er hægt að gera á ýmsum forsendum og ég geri það sem hægri maður og sjálfstæðismaður. Allstaðar í heiminum - og einu sinni á Íslandi - er til armur innan hægri flokka, sem berst fyrir vinnandi fólk. Það hafa verið hræðilega mistök innan Sjálfstæðisflokksins að gefa vinnandi mönnum ekki eftir þingsæti. Við vitum að Það sem Njörður sagði er að hluta til rétt.

Hins vegar höfum við ekki búið við Flokksræði, því þá hefði "flokkurinn" sem slíkur eitthvað að segja. Nei, það sem við höfum búið við er "flokkseigendafélagsræði" og "ráðherraræði" og það gildir um alla flokka. Það er í öllum flokkum til lítil flokkslíka, sem verður að komast inn í eða í mjúkinn hjá til að komast til valda í flokknum, fá þingsæti eða komast í valdastöður, sem að mestu leyti úthlutað til slíkra gæðinga. Þetta sá ég vel á Keflavíkurflugvelli, þar sem ég hef unnið undanfarin ár. Fyrst úthlutaði Framsóknarflokkurinn nær öllum stöðum frá flugvallarstjóra niður í húsvörð eftir flokksskírteini. Þar áður voru það kratarnir, sem stunduðu nákvæmlega sama leik. "Valdatími" Sjálfstæðisflokksins var ekki nógu langur til að þeir kæmu sínu fólki að.

Nú setja meðlimir VG um vandlætingarsvip og segja ekki við. Já, það er rétt, en einungis af því að þeir eru nær hvergi við völd. Það verður ekki auðvelt að breyta þessu, en með breytingum í þá átt að skilja betur á milli valdanna þriggja og tryggja virkt aðhald fjölmiðla og dómstóla við að lögum sé framfylgt, t.d. varðandi jafnrétti eða menntun eða reynslu.

Allt vald spillir, algjört vald gjörspillir!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.1.2009 kl. 00:34

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fínn pistill Guðbjörn. Auðvitað þurfa sem flestir að mæta á Austurvöll. Til þess þarf eitthvað að breytast í umgerð fundanna. Aðalatriðið með stjórnarfarsbreytingar eins og þær sem Njörður P. Njarðvík talaði um er að þær komist á. Ekki hvernig þær komast á. Að núverandi valdhafar fari bara frá og einhver neyðarstjórn taki við er óraunhæft að láta sér detta í hug.

Sæmundur Bjarnason, 12.1.2009 kl. 01:01

12 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Góð grein Guðbjörn. Vandamálið virðist m.a. liggja hjá skipuleggjendum mótmælendanna, hugsanlega eru þeir að sigla undir öðru flaggi en þeir gefa sig út fyrir. Ég hef skrifað nokkuð um þetta á blogg mitt og gert mótmæli á þeirra mótmælafundi til að hrista búrið. Í dag skrifaði ég bréf til Harðar Torfasonar og bíð eftir svari hans: Opið bréf til Harðar Torfasonar

Ég hef verið að benda á nauðsyn þess að virkja lýðræðið og aðstoðað við að setja í loftið vettvang um þetta á vefnum www.lydveldi.is

Hugmyndin er að skapa lista með 126 frambjóðendum sem kæmu úr öllum áttum, úr öllum flokkum og stigum þjóðfélagsins. Hver og einn frambjóðandi yrði með sína sjálfstæðu stefnu í farteskinu og ekki bundin sameiginlegri stefnu með öðrum nema það að opna á beint og milliliðalaust lýðræði.

Val frambjóðenda verður með forvali með beinu lýðræði yfir netið, með nýrri tækni sem komin er fram á sjónarsviðið. (ATH ekki viss um að ég gefi kost á mér sem frambjóðanda þótt ég hjálpi við að koma hugmyndinni á framfæri, ég er í öðrum verkefnum).

Hér er úrtak af vefnum lydveldi.is:

Við viljum að Ísland verði leiðandi í þróun á beinu og milliliðalausu lýðræði. Við viljum að frjálsir einstaklingar verði kosnir á þing sem ráðgjafar fyrir þjóðina í stað fólks án eigin skoðana í flokksfjötrum undir misvitrum leiðtogum. Fyrsta skref okkar í þessa átt er að setja fram lista við næstu alþingiskosningar og veita þannig frambærilegum einstaklingum sem vilja taka þátt í stjórnmálum kost á framboði án þess að gangast undir sérstakar skoðanir eða hugmyndafræði annarra.  Hver og einn frambjóðandi okkar mun því kynna sín baráttumál fyrir kjósendum á eigin forsendum án flokkafjötra.

Eina sameiginlega baráttumál okkar er að þróa lýðræðið nær þjóðinni. Við viljum endurskoða kosningalög og lög um fjölmiðla með því markmiði að hver einasti Íslendingur verði fullvalda og kosið verði milliliðalaust um mikilvæg mál á Alþingi.

Ástþór Magnússon Wium, 12.1.2009 kl. 02:39

13 identicon

Fannar frá Rifi - tek undir orð þín - það hefur ekkert markaðskerfi eða stefna hrunið.

Það sem hrundi var siðferði fárra einstaklinga sem báru ekki gæfu til þess að fara að leikreglum með þeim hætti að skaða ekki þjóðfélagið.

Sjáumst á landsfundinum - spyrjum þeirra spurninga sem á okkur brenna - t.d. hversvegna gerir formaður okkar ekki grein fyrir því hve langt er um liðið frá því að hann fór að vinna varnarvinnuna? Er það ekki orðinn drjúgur tími? Hversvegna sluppum við undan árás Vogunarsjóðanna fyir nokkrum mánuðum? Hvað réði því að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn sagði nei við okkur á sma tíma og hann sagði já við aðrar Norðurlandaþjóðir? Bretar hafa ráðist á okkur í Þorskastríðunum og svo núna með hryðjuverkalögunum. Verkamannaflokknum virðist sérstaklega illa við okkur. Aðrar Evrópuþjóðir komu okkur ekki tll varnar í Þorskastríðunum og núna taka nokkrar þeirra þátt í aðförinni að okkur. Fyrir þeim eru þetta smáaurar sem þarf að greiða þótt þeir geti sett okkur á hausinn.

Spurningin er -

Hvaða samleið eigum við með þessum þjóðum???

Þær sinntu ekki heldur sínu eftirlitshlutverki - kerfi þeirra er sniðið að Þýskalandi og siðlausir peningamenn óðu útum all svæðið - það var talað um þetta í fjölmiðlum landanna en eftirlitskerfin þeirra virðast ekkert hafa gert. Svo situr 330.000 manna þjóð uppi með skaðann en stóru þjóðirnar með sína tugi milljóna þegna - sem ætluðu líka að græða - taka okkur kyrkingartaki.

ég spyr aftur - HVAÐA SAMLEIÐ EIGUM VIÐ MEÐ ÞESSUM ÞJÓÐUM?

Enn og aftur - sjáumst á Landsfundinum og áður en fólk fer að hlaupa upp um fjöll og firnindi og hrópa húrra fyrir hugmyndum Njarðar - skoðið hugmyndir hann hingað til -

Ólafur I Hrólfsson - fulltrúi á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins og stoltur flokksmaður

Ólafur I Hrólfsson (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 08:20

14 identicon

Það verður æ ljósara að þjóðin er ofmettuð af andlegum kútlingum og hvíslandi smáborgurum. Ef þessi þjóðarlausn verður ekki styrkt með meiri frumleika og skynsemi og planhærri hugsunum, þá er ekki von til að nokkuð gerist. Þessi pistill þinn, Guðbjörn, er einmitt uppskrift að  umbótasinnuðum sofendahætti einsog hann hefur tíðkast hér á landi síðustu 50 árin. Hann er svona í hnotskurn:

 Það á að gera eitthvað, lífið skal tæklað með nýjum hætti en samt með gamla laginu og ermarnar eru brettar upp að öxlum. Það er hrópað á nýja tíma og betra þjóðlíf, og allir skulu í flokka og hrista hugmyndir fram úr erminni. En svo sofna menn yfir útvarpsfréttunum og vakna svo við það að einhver óvænt hetja breytti kommu í punkt í stjórnarskránni og menn lyfta annarri augabrúninni upp á mitt enni og hrista hausinn yfir æskunni.

Þetta er ástæðan fyrir því að þjóðin býr við holgrafið stjórnkerfi og gráðuga smápöddustarfsemi, latar og heimskar hetjur, óuppdregna menntamenn og geispandi æsku.

eggi (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 09:16

15 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Allir:

Fyrirgefið hvað ég svaraði seint, en ég ligg heima í kvefflensu, sem ég ætla bara ekki að losna við.

Ástþór:

Þessi hugmynd er í sjálfu sér góðra gjalda verð og minnir á lýðræði Grikkja til forna eða alla þær hugmyndir, sem ég geri mér um það.

Ég leyfi mér hins vegar að efast um að kerfið virki án stjórnmálaflokka, sem hafa skýra stefnu, markmið og aðgerðaáætlun.

Ólafur I. Hrólfsson:

Já, forysta flokksins hefur mörgum spurningum að svara, t.d. hvernig við gátum flotið sofandi að feigðarósi á þann hátt sem við höfum gert undanfarin 5-6 ár.

Ég er stoltur af verkum míns flokks allt til ársins 2001-2002. Hvað höfum við verið að gera undanfarin ár, sem er ástæða til að vera stoltur að eða réttara sagt hvað höfum við verið að gera? Hvers vegna hefur ekki ný stefna verið mótuð allt frá því kringum árið 1990? Er eðlilegt að stjórnmálaflokkur keyri á sömu stefnumálunum áratug eftir áratug og þá er ég ekki að tala um hina sígildu sjálfstæðisstefnu, heldur stefnu, markmið og aðgerðaáætlun? Einu verkin sem liggja eftir síðustu ríkisstjórnir er álverið á Reyðarfirði (gott mál), tvöföldun Reykjanesbrautar (gott mál), nokkur jarðgöng (ekki öll jafn góð að mínu mati) og hrunið bankakerfi og gjaldþrota land og íbúar þess!

Ég bið fólk um að opna augun, þrátt fyrir að það sé sjálfstæðisfólk og þetta þýðir alls ekki að ég sé ekki stoltur sjálfstæðismaður!

Mínar skoðanir ganga alls ekki á skjön við flest hina gömlu sígildu sjálfstæðisstefnu, en það gera ýmsar gjörðir stjórnvalda undanfarin ár!

Eggi:

Ætlum við Íslendingar nú enn einu sinni að "sýna heiminum"  hvernig á að búa til alvöru lýðræðisþjóðfélag! Persónulega held ég að við höfum sýnt heiminum alveg nóg í bili.

Eggi, þú misskilur mig, því ég vil breyta ýmsu, t.d. varðandi aðskilnað löggjafar-, dóms- og framkvæmdavalds. Ég sé einnig fyrir mér að líkt og Bandaríkjunum víki  ráðuneytisstjórar og jafnvel fleiri starfsmenn ráðuneyti þegar nýir ráðherrar koma til starfa. Ég sé fyrir mér að ráðherrar eigi ekki sæti á þingi. Ég sé fyrir mér breytingar á stjórnarskrá í til þess að aukið vald og sjálfstæði færist til þingsins og það sé þannig það aðhald gagnvart framkvæmdavaldinu, sem það á að vera. Það er margfalt meira aðhald viðhaft gagnvart framkvæmdavaldinu af "undirstofnunum" þingsins (Umboðsmaður Alþingis, Ríkisendurskoðun) en þinginu sjálfu.

Vissulega er það hlutverk þessara stofnana að aðstoða Alþingi, en allt of sjaldan hefur Alþingi sjálft frumkvæði varðandi aðhald við framkvæmdavaldið. Það er t.d. litið á það sem móðgun ef stjórnarþingmaður gagnrýnir verk stjórnarinnar. Auðvitað er kannski meiri kænska að koma slíkri gagnrýni á framfæri við ráðherra, en stundum er fólk einfaldlega ekki sammála um framkvæmd mála á þingi, jafnvel þótt það sé í sama stjórnmálaflokki. Hvers vegna má ekki leyfa smá ágreining um mál innan stjórnmálaflokka og útkljá hann á lýðræðislegan hátt. Þessi ofuragi á þingflokkunum - og ég held að þetta sé innan allra flokka - er að mínu mati óeðlilegur og allt of mikill og ýtir undir "einræði" ráðherra í sínum málaflokkum og einræði flokksklíkna innan allra stjórnmálaflokka.

Allir vita hvernig Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson stjórnuðu sínum flokkum og það er ekki í anda stjórnarskrárinnar, þar sem skýrt er tekið fram í 48. gr. stjórnarskrárinnar:

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.

Að sjálfsögðu eru alþingismenn þaðan af síður bundnir við reglur eða tilmæli sinna foringja.

Hitt er svo annað mál að stjórnmálaflokkum er ekki hægt að stjórna án þess að um sæmilega samstæðan hóp sé að ræða - það er ljóst að einhver flokksagi verður að vera fyrir hendi! Það sem ég á við er, að eðlilegt er að allir þingmenn innan sama flokks hafi sömu skoðun á þingmálum og forusta flokksins, að eðlilegt sé að eitt og eitt mál ráðherra nái hreinlega ekki fram að ganga innan þingflokksins vegna þess að menn séu hreinlega ósammála ráðherra eða ráðherrum í eigin flokki. Ég hef rökstuddan grun um að þetta komi nær aldrei fyrir, t.d. hjá Sjálfstæðisflokknum, heldur séu þingflokkarnir í raun "afgreiðslustofnanir" fyrir löggjöf ráðherra og hátt settra embættismanna innan ráðuneyta. Í raun held ég að hátt settir embættismenn innan ráðuneyta hafi í "sínum" málaflokkummun meiri völd en þingmenn eða hreinlega heilu þingflokkarnir á Alþingi! Er þetta eðlilegt, þ.e.a.s. að skipaðir embættismenn hafi meiri völd en kjörnir fulltrúar þjóðarinnar?

Þetta finnst mér koma skýrast fram í afstöðu þingmanna til ESB aðildar og skiptir þar einu hvort ég á við VG, Framsókn eða Sjálfstæðisflokkinn.

Eggi, ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að "flokkamódelið" sé alls ekki úrelt og að við ættum að einungis að "reformera" það módel með breytingum á kosningalöggjöfinni í þá átt að tryggja betur að kjósendur ráði röð þingmanna og velji sér þingmenn, en ekki þröngar flokksklíkur. Það sama á við um kosningar til sveitarstjórna. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.1.2009 kl. 11:39

16 Smámynd: Gísli Tryggvason

Hér er grein Jóns að finna:

http://www.visir.is/article/20090112/SKODANIR/427010674

Þar er útfærð hugmyndin um stjórnlagaþing.

Gísli Tryggvason, 12.1.2009 kl. 23:21

17 Smámynd: Gísli Tryggvason

Hér er uppskrift mín að stjórnlagaþingi í 12 skrefum: Þjóðfundurinn 2009 í kjölfar greinar formanns stjórnarskrárnefndar. Beinna verður lýðræðið ekki en að þjóðin sjálf ákveði grundvöll nýs þjóðskipulags. 

Gísli Tryggvason, 13.1.2009 kl. 08:50

18 Smámynd: Tryggvi Hjaltason

Sæll Guðbjörn..

Þakka þér fyrir kommentið á greinina mína, hef ekki heyrt þetta varðandi að Þjóðverjar hafi sent fyrsta mannin á tunglið, kem með að skoða það betur. Er ekki alveg sammála þér með hversu lítið þú villt gera úr þætti Bandaríkjamanna í uppbyggingu Þýska og Japanska efnahagsins, en algerlega sammaál þér með tæknimálin.

Þakka þér fyrir

Virðing

Tryggvi

Tryggvi Hjaltason, 15.1.2009 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband