Bílalán eða bílarán - íbúðalán eða íbúðarrán?

Íslenskt bílalán eða - rán 

Líkt og þúsundir Íslendinga var ég fyrirhyggjulaus eyðsluseggur og keypti mér bíl fyrir rúmlega ári síðan. Fyrirhyggjulausir íslenskir bruðlarar safna ekki fyrir bílnum sínum, því ólíkt ráðamönnum þjóðarinnar hafa þeir ekki bíl og bílstjóra til að rúnta með sig. Ég átti þó fyrir útborguninni, en eftir stóðu einhverjar 3,5 milljónir og tók ég myntkörfulán fyrir því. Nú stendur þetta bílalán í eitthvað í 8 milljónum og bílinn er metinn á 4-5 milljónir - ef ég losna á annað borð við hann? Þessu láni var ekki þröngvað upp á mig, heldur tók ég það af fúsum og frjálsum vilja. Hins vegar var mér ráðlagt af Glitni - sem ég hafði átt í "góðum" viðskiptum við um árabil - að taka myntkörfulán í jenum og evrum. Ég tók lán til 7 ára og mig minnir, að ég hafi borgað rétt um 55.000 kr. af láninu í "góðærinu" fyrir um ári síðan, en nú er afborgunin um og yfir 110-120.000 kr. (veit það ekki nákvæmlega - lét frysta lánið!). Ekki virðast vera líkur á að gengi íslensku krónunnar styrkist og afborganir af láninu lækki þannig á næstunni, enginn getur sagt mér hver afborgun mín af láninu verður í næsta mánuði, hvað þá á næsta ári!

Dóttir mín er með bílalán með breytilegum vöxtum. Ekki vil ég ábyrgjast 100% þá útreikninga, sem eru hér að neðan og þeir eru í besta falli "óáreiðanlegir". Hér um lágt bílalán að ræða á gömlum bíl, sem var í byrjun árs 2008 600.000 kr., en var í lok ársins komið niður í um 500.000 kr. Vaxtaprósentan var í byrjun árs 16,7% og var núna í desember komin í 21,7%. Í byrjun árs borgaði hún um 18.000 kr. á mánuði og í desember um 20.000 kr. Ef ég margfalda þessa lánsupphæð með tölunni 6 fær ég út svipaða upphæð og ég tók á svipuðum tíma í myntkörfuláni og vonandi er samanburðurinn þá marktækur. Það verða örugglega einhverjir, sem leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál! Miðað við þetta var afborgunin í byrjun árs um 90.000 kr. fyrir 3,6 milljónir og er í lok árs um 110.000 kr. Lánið er til 4 ára með breytilegum vöxtum og því veit enginn hver afborgunin er í næsta mánuði, því hún vaxtaprósentunni í febrúar og sú vaxtaprósenta fer eftir stýrivöxtum Seðlabankans, sem ákvarðast af verðbólgu, gengi krónunnar og þenslu í þjóðfélaginu - eða er það ekki?

Íslenskt íbúðarlán eða -rán 

Eftir að hafa hlotið óvænta stöðuhækkun - og þar af leiðandi hærri laun - keypti ég mér hús fyrir 5 árum og ég held jafnvel að ráðamenn þjóðarinnar geti verið mér sammála um að þetta var ekki óráðsía. Ég gat ekki staðgreitt húsið - líkt og margir þeir, sem græddu sem mest á góðærinu - og því varð ég að taka íbúðarlán. Þegar ég flutti inn í húsið var söluverð þess um 32 milljónir og lánið stóð í 17 milljónum. Nú 4 1/2 ári síðar stendur lánið í 22,5 milljónum og húsið eru 35 milljóna virði ef ég losna þá við það. Allar horfur eru á að það lækki í verði og í hvaða upphæð lánið endar veit enginn, en næsta víst er að það lækkar ekki! Ég er með verðtryggt húsnæðislán frá Glitni með 4,15% vöxtum til 40 ára. Í "góðærinu borgaði ég um 100.000 kr. af láninu en í dag borga ég um 115.000 kr. af láninu og má prísa mig sælan fyrir að hafa ekki tekið erlent lán, því þá væri það a.m.k. tvöfalt hærra. Í hvaða upphæð lánið er að fimm árum veit enginn á Íslandi og enginn getur einu sinni sagt mér hver afborgunin af láninu mínu er í næsta mánuði, hvað þá á næsta ári!

Evrulands bílalán eða -rán 

Nú langar mig að athuga í hvaða stöðu ég væri í Evrulandinu Þýskalandi, þar sem ég bjó um langa hríð. Ég tala málið eins og innfæddur og þekki vel til í landinu og því lítið mál fyrir mig að kynna mér vaxtakjör og afborgunarskilmála á heimasíðu þess bílaframleiðanda, sem selur bílinn er ég ek á. Tæki ég í dag lán til 5 ára, myndi ég borga 430 evrur eða 73.100 kr. (170 kr. x 430 evrur) á mánuði í 5 ár fyrir lánið og þá ætti ég bílinn. Lánið var að sjálfsögðu ekki verðtryggt. Á "góðærisgenginu" (evran = 90) hefði afborgunin hins vegar verið 38.700 kr. í 5 ár. Ég get skoðað greiðsluáætlun mína og veit nákvæmlega hvað ég skulda í bílnum á hverjum tíma og hver næsta afborgunin, því hún er svipuð frá mánuði til mánaðar, frá ári til árs.

Evrulands húsnæðislán eða -rán 

Nú fór ég og leitaði eftir hagstæðasta húsnæðisláninu, sem ég gat fundið á netinu, í Þýskalandi. Ég tók söluverð hússins míns í dag - ef einhver vildi kaupa það - upp á ca. 35.000.000 kr. og reiknaðist til að það væri í evrum EUR 200.000. Ég á núna um 35% í húsinu og því yrði ég að taka lán upp á ca. EUR 130.000. Ég valdi að árleg afborgun mín af láninu yrði 3% og festi vextina í 5 ár og voru þeir þá 3,77%. Ég fékk reyndar sérstakan vaxtaafslátt, þar sem ég er skipaður embættismaður og telst því "öruggur greiðandi". Hæstu vextir voru samt lítið hærri eða rétt rúmlega 4,0%. Mánaðarleg afborgun mín af láninu yrði næstu fimm árin 726,92 evrur, sem eru á núverandi gengi (Evran = 170 kr.) 123.420 krónur. Á "góðærisgenginu" (EUR = 90) hefði afborgunin verið 65.423 kr. Að fimm árum liðinum hefði lánið mitt lækkað úr 130.000 evrum í 107.038,33 evrur. Ég get skoðað greiðsluáætlun mína og veit nákvæmlega hvað ég skulda í húsinu á hverjum tíma og hver næsta afborgunin, því hún er svipuð frá mánuði til mánaðar, frá ári til árs.

Samanburður fyrir venjulegan borgara

 

Afborganir af bíl og húsnæði í Evrulandi :

Evran á 90 kr.: 38.700 kr. / 430 evrur (bíll - óverðtr. lán) + 65.423 kr. / 726,92 evrur (hús - óverðtr. lán) = 104.123 kr. (samtals)*   **

Evran á 110 kr: 47.300 kr. / 430 evrur (bíll - óverðtr. lán) +  79.961 kr. /726,92 evrur (hús - óverðtr. lán) = 127.261 kr. *   **

Evran á 170 kr.:  73.100 kr. / 430 evrur (bíll - óverðtryggt lán) + 123.576 kr. / 726,92 evrur  = 196.676 kr. (samtals)*   **

 

** Ég veit að þetta er hæpinn samanburður og erfitt að bera saman, þar sem okkar lögmiðill er króna en ekki evra, en þar sem stór hluti þjóðarinnar hefur valið evruna sem sinn "kjörmiðil" vildi ég láta þennan samanburð fljóta með Wink

 

Afborganir af bíl og húsnæði á Íslandi:

Góðæri: 90.000 kr. (bíll - lán á breytil. vext.) + 100.000 kr. (hús - verðtr. lán) = 190.000 kr. *

Góðæri: 55.000 kr. (bíll - myntkörfulán) + 100.000 kr. (hús - verðtryggt lán) = 155.000 kr. *

Hallæri: 120.000 kr. (bíll - myntkörfulán) + 115.000 kr. (hús - verðtryggt lán) = 235.000 kr.*

Hallæri: 120.000 kr. (bíll - myntkörfulán) + 240.000 kr. (hús - myntkörfulán) = 360.000 kr. *

* Að auki er Evrulands bílalánið, sem af ofan getur til 5 ára en ekki 7 og Evrulands húsnæðislánið greiðist upp á 33 árum en ekki 40.

Ísland - verðbólga = 18%.

Evruland - verðbólga = 1,6%.

Ísland - atvinnuleysi í mars 2009 = 10%

ESB - atvinnuleysi í mars 2009 = 10%

 

Hvar vilt þú búa - hvar viltu að börnin þín búi?

Þú velur kannski að búa á myntkörfu/verðtryggingar Íslandi, en mjög líklega þarftu þá að leggja á þig ferðalag til Evrulands í framtíðinni til að heimsækja börnin þín og barnabörn! 

 


mbl.is Fréttaskýring: Skuldin situr öll eftir þótt bíllinn sé tekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Guðbjörn,

Það eru sömu einstaklingar sem sitja í sömu stöðum í nýju bönkunum(með nýja kennitölu) og eru nú að innheimta hjá okkur m.a. gengistryggðu lánin sem við tókum.
Erlendu skuldirnar urðu eftir í gömlu bönkunum og verði ekki greiddar fyrr en seint og síðar meir,(eða jafnvel adrei). Ef Davið hefur rétt fyrir sér greiðast ekki nema 5-15% af erlendu lánunum, en við eigum að borga að fullu.
Er ekki eitthvað bogið við þetta?

pbh (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 11:55

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Hélt eitt augnablik að þú værir frá Japan. Þeir rugla nefnilega erri og elli mjög illilega á köflum. Japanskur leiðsögumaður sem ætlaði að hitta okkur við rútu kl. 3 sagði þetta á annars fínni ensku: "Ret's meet at the bus at thlee o'crock!"

Ég er þeirrar skoðunar að vilja ekki ganga í ESB. En get alveg hugsað mér að taka upp annan gjaldmiðil og þá er dollar mér ofar í huga en Evra, vegna þess að hann er meira notaður í heimsviðskiptum. 

Haukur Nikulásson, 17.1.2009 kl. 17:11

3 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Það er ekki spurning um hvort við viljum fara ESB  verðum að gera það. Höfum ekkert val og því fyrr því betra fyrir allan almenning. 

Þórdís Bára Hannesdóttir, 17.1.2009 kl. 17:53

4 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Það vita allir sem hafa haft fyrir því að kveikja á fleiri en einni sellu að hagstjórnin hér er verri en allstaðar.  Það er til dæmis ekkert náttúrulögmál að það þurfi að vera 18% vextir, verðbætur og hvaðeina, þó gjörsamlega allir þessir pólitísku pjakkar vilji meina það.

Á hinn bóginn hef ég illan bifur á ESB.  Til dæmis veit ég ekki hvernig þeir fara að því að viðhalda 10% atvinnuleysi í mestu hagsæld. 

Við verðum ekkert að fara í ESB.  En við verðum að skifta um hvern einasta mann í Rikinu, og umbylta því öllu.  Það stöff virkar nefnilega ekkert. 

Ásgrímur Hartmannsson, 18.1.2009 kl. 00:25

5 Smámynd: Bó

Sæll Guðbjörn.
Hvernig datt þér í hug að gera svona lítið úr sjálfum þér á opnum miðli? Þú ert kannski bara svona rosalega heiðarlegur.

Það fer fátt eins mikið í taugarnar á mér og þegar fólk reynir að kenna ríkisstjórn íslands um sína eigin skuldastöðu. ÞÚ SKRIFAÐIR SJÁLFVILJUGUR UNDIR ÞÍN LÁN. Svo er það líka á þína eigin ábyrgð að "kaupa" þér rándýran bíl þegar þú þarft að taka lán fyrir meirihlutanum. Þínar ákvarðanir, þín er ábyrgðin. Það er hægt að verða sér út um ódýrari bíla.

Þetta snýst allt um að vera skynsamur og heill í hausnum. sníða sér stakk eftir vexti. Veistu, ég held að það sé ekkert eins heimskulegt og að "kaupa sér rándýran bíl sem maður fyrirfram veit að maður þarf að taka lán fyrir.

Í íbúðarmálum gilda sömu einföldu lögmál. Sníða sér stakk eftir vexti. Ekki reyna að toppa vinina í híbýlum og mublum og alltsaman á lánum. Hvað þá að reyna svo eftirá að kenna einhverjum ráðamönnum um sína eigin skuldastöðu.

Þú og allir hinir "fyrirhyggjulausu eyðsluseggirnir" ,sem þú kallar kallar ykkur, lærið þá kannski eitthvað á kreppunni - kannski eitthvað jákvætt við kreppuna bara. 

, 18.1.2009 kl. 09:09

6 Smámynd: Björg Árnadóttir

Fyrirhyggjuleysi.... ekki vil ég skrifa undir það - ekki fyrir alla. Ég tók lán fyrir litla fyrirtækið mitt fyrir rétt rúmu ári síðan. Þá buðust mér eingöngu erlend lán. Ég eyddi miklum tíma í að finna út hvaða mynt og hvernig lán hentuðu best. Ég sótti mánaðarlegt gengi myntanna næstu tvö ár á undan og reiknaði út hvernig greiðslubyrðin hefði sveiflast þau ár. Út frá því fann ég út hvað hentaði best og hver sveiflan gæti mest orðið. Munurinn á milli hæsta og lægsta gengis á þessum tveimur árum var 50.000 sem ég taldi viðráðanlegt. Þar að auki hugsaði ég með mér að gengislækkun upp á meira en 10% myndi gera allt vitlaust og kalla á hörð viðbrögð ríkisstjórnarinnar. Við vitum hvað gerðist.... ekki neitt!

Í september hækkaði afborgunin milli mánaða um 75þús og í október um 125.þús. Núna í desember er afborgunin sem var 270.000 orðin rúm 630.000. Það þarf sterkt fyrirtæki að standa undir því. Að auki er lánið sem var fyrir tæplega 80% tækisins núna vel 50% hærra en nývirði þess þrátt fyrir að greitt hafi verið af því skilvíslega í þennan tíma. Jafnvel stöndugustu fyrirtæki geta ekki með nokkru móti staðið svona nokkuð af sér. 

Hvað bíður okkar eiginlega?

Björg Árnadóttir, 21.1.2009 kl. 00:18

7 identicon

Sæll, geturðu sagt mér hvar þessi mynd er tekin. Hún er svo ofsalega falleg.

JRR (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 00:03

8 identicon

Frábær síðasta klásúlan hjá þér. Vakti mig til umhugsunar.

Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 15:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband