Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
21.6.2009 | 15:46
Þjóðflutningarnir miklu frá Íslandi – 2009-2011
Allt frá því að maðurinn varð í raun til hefur hann verið að flytja sig um set. Þannig fluttust forfeður okkar frá Afríku til Asíu og þaðan til Ástralíu og síðan fyrir um 40.000 árum til Evrópu. Fyrir 15-20.000 árum lagði maðurinn síðan undir sig Ameríkurnar báðar og þar með má segja að hann hafi verið búinn að leggja undir sig allar heimsálfurnar nema Suðuskautið.
Þessu til viðbótar hefur mannkynið sífellt verið að færa sig á milli svæða innan heimsálfanna. Á árunum 100-500 var t.d. einstaklega mikið um að vera í Evrópu hvað þjóðflutninga varðar. Allir voru á faraldsfæri, Vestur-gotar og Austur-gotar, Karþagómenn, Frankar, Vandalar, Húnar og Englar o.s.frv. Að þjóðflutningunum miklu til Ameríku, Ástralíu og Nýja-Sjáland undanskildum voru seinni tíma þjóðflutningar aðallega í kjölfar styrjalda, t.d. þegar landamærum var breytt í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinn. Þjóðverjar töpuðu héruðum, sem nú tilheyra Póllandi og Tékklandi, en Rússar hrifsuðu til sín stór landsvæði í Austur-Evrópu, sem Pólverjar höfðu átt.
Við Íslendingar erum m.a. afkomendur Germana, sem fluttu í þjóðflutningum frá norðurhluta Þýskalands og dreifðust um Skandinavíu fyrir um 12.000 árum síðan. Sjálfstæð þjóð urðum við Íslendingar síðan í kjölfar þjóðflutninga Norðmanna til Íslands. Norðmenn voru að flýja ofríki höfðingja, ofurskattheimtu og landþrengsli í Noregi. Við létum þó ekki hér staðar numið, heldur settist Eríkur rauði að á Grænlandi upp úr 982 vegna illdeilna hér heima fyrir. Sonur hans Leifur heppni gekk síðan enn lengra í útrásinni og settist að í Vesturheimi um 1000. Allar okkar útrásartilraunir á þessum tíma virðast þó mistakast, ef marka má söguna.
Ekkert að ráði var um fólksflutninga frá Íslandi næstu 800-900 árin, þangað til Íslendingar flykktust til Kanada og Bandaríkjanna á árunum 1850-1914. Árið 1870 voru Íslendingar um 70.000 manns og sárasta örbyrgð var örlög þeirra flestra, lítil sem engin framtíðarvon um að efnahagsástand þjóðarinnar myndi nokkurntíma batna. Ekki bætti úr skák að tíðarfarið var erfitt á seinni hluta 19. aldar: kaldir veturmánuðir og köld sumur, hafís, stormar, sandfok og snjókyngi, auk þess sem mikið var um náttúruhamfarir. Afleiðingar þessa voru landfok, uppskerubrestir, heyskortur og fall búpenings land allt. Annar landflótti brast reyndar er síldarbresturinn brast á árið 1967 og fluttu þá þúsundir Íslendinga til Norðurlandanna og einhver hundruð til Ástralíu. Einnig fluttu nokkuð margir Íslendingar á brott í kreppunni upp úr 1990. Segja má að seinni tíma þjóðflutningar hafi tekst betur, en Vestur-Íslendingunum vegnaði vel vestanhafs og Íslendingum á Norðurlöndunum og Ástralíu einnig.
Kreppan í Færeyjum og afleiðingar hennar hafa verið fréttaefni í vetur. Landflóttinn frá Færeyjum varð gífurlegur þegar fjórði hver Færeyingur missti vinnuna, en um 9000 manns eru taldir hafa yfirgefið eyjarnar á þessum tíma um 15% eyjaskeggja. Mikið af ungu, efnilegu og vel menntuðu fólki hvarf á brott og fáir hafa snúið til baka. Ef svipaður fólksflótti brestur á hér á landi eru sambærilega tölu á bilinu 40 til 50 þúsund manns. Við slíka fækkun myndi að mínu allt brotna saman hér á landi og erfitt að ímynda sér afleiðingarnar. Tekjufall ríkissjóðs væri gífurlegt og til langframa. Um yrði að ræða gífurlegt offramboð á íbúðar-, iðnaðar- og verslunarhúsnæði. Aldursskipting þjóðarinnar myndi breytast mjög til hins verra, sem gerði lífsskilyrði hér á landi verri til næstu áratuga. Hér á landi yrði ekkert byggt næstu áratugina, með tilheyrandi atvinnuleysi fyrir iðnaðarmenn, þjónustufyrirtæki, arkitekta, verkfræðinga, gatnagerðarfyrirtæki o.s.frv.
Ég er að eðlisfari mjög bjartsýnn maður, en mér segir svo hugur að ástandið sé svo alvarlegt ,að hér þurfi til ríkisstjórn, sem hefur getu og þor til að taka á hlutunum. Fara þarf í allar þær framkvæmdir, sem mögulegar og byggja á nýtingu okkar auðlinda. Gera þarf ríkisstjórnum Bretlands og Hollands grein fyrir ástandinu hér á landi og það sé þeim ekki í hag að knésetja okkur á þann hátt, sem fyrirhugað er að gera Icesave samningnum er liggur fyrir Alþingi. Einnig þarf að fara í nauðasamninga við aðra kröfuhafa, með það að leiðarljósi að Íslandi verði mögulegt að greiða sínar skuldir til baka án þess að hér leggist allt í auðn. Sækja þarf um aðild að ESB eins skjótt og hægt er. Sé aðild að ESB ekki möguleg án þess að samþykkja Icesave samninginn, skal hætt við aðild þar til Evrópusambandið hefur skipt um skoðun.
Ekki er hægt að bjóða þjóðinni upp á niðurskurð á ríkisútgjöldum upp á 30%, sem þýðir svipað velferðarkerfi og opinbera þjónustu og boðið er upp á í Austur-Evrópu. Þjóðin mun heldur ekki vilja búa við langvarandi 20% atvinnuleysi, hvað þá okurskattlagningu þá sem fyrirhuguð er. Þjóðin hefur aðeins eitt svar við slíkum aðgerðum, hún mun greiða atkvæði með fótunum og þriðji eða fjórði hver Íslendingur mun flýja land. Komi sá fólksflótti til, eru Íslendingar gjaldþrota og engum til gagns, hvorki ESB né lánadrottnum okkar. Ef stjórnvöld geta ekki gert alþjóðasamfélaginu þetta ljóst, eiga þau að segja af sér. Þýði þetta að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og þar með alþjóðasamfélagið snúi baki við okkur er lítið við því að gera, þar sem við höfum að mínu mati engan annan valkost í stöðunni.
Lifið heil!
Hætt við öll útboð í vegagerð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
19.6.2009 | 21:53
Sovét-Ísland óskalandið hvenær kemur þú?
Sovét-Ísland
Sovét-Ísland
óskalandið
hvenær kemur þú?
Er nóttin ekki orðin nógu löng
þögnin nógu þung
þorstinn nógu sár
hungrið nógu hræðilegt
hatrið nógu grimmt?
Hvenær...?
(Jóhannes úr Kötlum: Samt mun ég vaka, 1935)
Loksins hefur ósk eða draumur frænda míns og dalamannsins, Jóhannesar úr Kötlum, ræst og byltingin hefur haldið innreið sína á Íslandi. Allt hefur þetta gerst án nokkurra teljandi blóðsúthellinga! Í stað þess að fyrsta skotinu væri hleypt af frá herskipinu Áróru í höfninni í Sankti Pétursborg, byrjaði áhlaupið hér á Íslandi með því að eggjum og tómötum var kastað í Alþingishúsið.
Íslenska fólkslögreglan - vinur litla mannsins (þ. Die Isländische Volkspolizei) - stóð aðeins hjá og sópaði saman ruslinu þegar uppreisnarhetjurnar fóru. Á Íslandi var enginn hvítur her, heldur aðeins rauður, og því gátu uppreisnarmennirnir lagt undir sig landið án nokkurrar teljandi mótspyrnu.
Í margar vikur hefur forsætisráðherra hamast á því, að enginn hjá ríkinu eigi að vera á hærri launum en 900 þúsund krónum á mánuði. Ekki er á Jóhönnu Sigurðardóttur að heyra að einhverjar undantekningar verði gerðar á þessari reglu, hvort heldur er um að ræða eftirsótta lækna með langt sérnám að baki, forstöðumenn ríkisstofnana, forstjóra ríkisfyrirtækja eða annarra fyrirtækja í opinberri eigu eða aðra embættismenn ríkisins. Ég á nefnilega fastlega von á því að það sama gildi um öll fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkisins, en gera má ráð fyrir því að stór hluti fyrirtækja á Íslandi verði kominn í hendur ríkisins áður en árið er liðið.
Ríkisstjórnin þurfti ekki að að senda rauðliðana sína inn í framleiðslufyrirtækin til að yfirtaka þau. Nei, eigendur fyrirtækjanna afhenda ríkisbönkunum lyklana að fyrirtækjunum án nokkurrar teljandi mótstöðu. Við, sem hlutum menntun okkar fyrir austan járntjald, bíðum spennt eftir samyrkjubúunum! Um nokkurn tíma hefur Vinstri stjórnin unnið að 4 ára áætlun sinni og bíður þjóðin spennt eftir henni.
Örlög starfsmanna þessara nýju "ríkisfyrirtækja" hljóta að vera þau sömu og annarra ríkisstarfsmanna eða laun upp á 150.000 kr, þótt forstjórar megi búast við launum allt af 899.000 kr!
Almenningur tekur eignaupptökunni ekki síður vel en eigendur framleiðslufyrirtækjanna. Lyklar af íbúðarhúsnæði streyma inn til ríkisbankanna, en fyrir gæsku ríkisvaldsins og okkar miklu, óskeikulu og dáðu leiðtoga fær þetta fólk þó að fá að búa í eigin húsum fyrst um sinn. Einn hvítliði á Álftanesi eyðilagði reyndar eigur ríkisins fyrir skömmu og hafa ríkisbankarnir miklar áhyggjur ef slíkir hlutir myndu stigmagnast og endurtaka sig. Hugsanlegt er að beita lögregluvaldi til að koma í veg fyrir slík skemmdarverk. Í þetta hús hvítliðans, sem var eyðilagt, hefði t.d. einhver barnmörg, fátæk verkamannafjölskylda getað flutt í, en út í þetta hugsaði ekki þessi óvinur hinna vinnandi stétta (þ. Klassenfeind).
Ég bíð nú spenntur eftir næstu yfirlýsingu Vinstri stjórnarinnar. Hugsanlega mun næsta yfirlýsing fela í sér, að enginn beri meira úr bítum en venjulegur verkamaður (varla sjómaður). Læknar, hjúkrunarfræðingar, kennarar og aðrir menntamenn eða fólk í vinnu hjá fyrirtækjum ríkisins verður að sætta sig við afleiðingar byltingarinnar, enda var þessi sama borgarastétt menntuð á kostnað hinna vinnandi stétta, verkafólksins og sjómannanna.
Reyndar þurfum við menntafólkið að borga hverja einustu krónu verðtryggða til baka og með vöxtum, sem við þáðum í námslán og það án þess að vera á einhverjum sérstaklega háum launum. Mennt er máttur á Íslandi, en við Íslendingar höfum hins vegar ekki breytt þeirri skoðun okkar, að "bókvitið verður ekki í askana látið" og aldrei höfum við borgað íslensku menntafólki, sem vinnur hjá ríkinu, mannsæmandi laun, líkt og gerist annarsstaðar í heiminum.
Það sama hlýtur að gilda um alla starfsmenn ríkisins, hvort sem þá er að finna í ríkisbönkunum, fyrirtækjum sem nú þegar eru í eigu ríkisins, eða þau sem lenda í eigu ríkisins á næstunni.
Hvað gerist með þau útgerðarfyrirtæki, sem eru svo heppin að sleppa úr gráðugum krumlum kapítalistanna í opinn náðarfaðm ríkisins? Verða þeir sjómenn, sem þar vinna, með 150 - 399.000 kr á mánuði og skipstjórinn þá hugsanlega með 899.000 kr?
Ekki vilja menn segja okkur, þessum 9000 kjánum, sem unnum fyrir ríkið í góðærinu og létum hafa okkur að fífli á 50-200 % lægri launum en annað fólk með svipaða menntun í þjóðfélaginu, að eitt eigi að gilda um okkur en annað það fólk, sem vinnur hjá öðrum "ríkisfyrirtækjum"?
Lausnin á vandamálinu er auðsjáanlega að allir Íslendingar, sem starfa vegum ríkisins (vítt hugtak í dag), verði með 150.000 - 900.000 krónur í mánaðarlaun, en allt annað eru auðsjáanlega ofurlaun!
Nú, þegar nær öll fyrirtæki landsins eru á vegum ríkisins, hljótum við ríkisstarfsmenn að gera kröfu um að eitt gildi um alla "starfsmenn ríkisins":
- Almennir ómenntaðir starfsmenn verði þannig með þetta á bilinu 150.000 - 249.000.
- Háskólamenn og aðrir sérfræðingar án mannaforráða eða sérstakrar ábyrgðar verði með þetta á bilinu 250 - 399.000 - allt eftir menntun og ábyrgð o.s.frv.
- Millistjórnendur í öllum fyrirtækjum á vegum ríkisins verði með 400 - 699.000 - allt eftir menntun og ábyrgð.
- Forstöðumenn, forstjórar allra fyrirtækja í landinu og aðrir háir embættismenn með þetta 700 - 900.000 kr
Með þessu móti verða allir ánægðir, eða er það ekki annars?
- Mynd tekin er Rauði herinn hertók Berlín
- Plakat frá uppreisninni á Potemkin
- Plakat frá uppreisninni á Potemkin
- Iðnaðarmaður við störf hjá ríkisfyrirtæki í Austurþýska alþýðulýðveldinu
- Verkfræðingur við störf hjá ríkisfyrirtæki í Austuþýska alþýðulýðveldinu
- Tollvörður við störf í Austurþýska alþýðulýðveldinu
ÖBÍ: Siðlaus tekjulækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.6.2009 kl. 01:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
19.6.2009 | 10:58
Breskt efnahagslíf á hausnum og við í ábyrgð ...
Á vefnum visir.is segir að breskt efnahagslíf hafi orðið fyrir þreföldu kjaftshöggi í dag, smávöruverslun hafi minnkað um 1,6% í maí m.v. fyrri mánuð, nettóskuldir hins opinbera í landinu jukust upp í 19,9 milljarða punda og auki sýndu tölur að lán bankanna til fyrirtækja sem standa utan við fjármálageirann minnkuðu um 5,4% milli mánaða, sem er mesti samdráttur á þessu sviði í níu ár.
Í skýrslu Evrópuráðsins (e. European Commission) frá því í janúar kom fram að efnahagslífið muni dragast saman um 2.8 % í Bretlandi, sem hefur ekki gerst síðan árið 1946 og að atvinnuleysi fari í 8,2 %. Fullyrt er að landið muni verða í hópi þeirra ríkja innan ESB, sem versta fara út úr kreppunni. Evrópuráðið segir að þrátt fyrir fall pundsins, og bætta samkeppnisaðstöðu í kjölfar þess, sé framleiðslugeta landsins hreinlega ekki nógu mikil til að bæta upp fyrir efnahagslegan samdrátt. Á undanförnum árum hafi Bretland um of veðjað á fjármálalífið sem atvinnugrein og aðrar atvinnugreinar liðið fyrir það. Þannig er búist við því að breskt efnahagslíf sýni fyrst mjög lítinn bata á árunum 2010-2011.
Í maí 2009 staðfesti bandaríska matsfyrirtækið Standard & Poor lánshæfismat Bretlands, en lækkaði um leið framtíðarhorfurnar úr stöðugum í neikvæðar. Þetta mat var byggt á þeirri staðreynd, að skuldir Bretlands myndu að öllum líkindum ná 100% af þjóðarframleiðslu, þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum. Óttast jafnvel að önnur stór efnahagsveldi verði einnig lækkuð varðandi framtíðarhorfur.
Ég spyr því þeirrar eðlilegu spurningar, hversu mikils virði lánasafn Landsbankans og aðrar eignir séu miðað við þessar framtíðarhorfur í bresku efnahagslífi? Eru ekki meiri líkur en minni á því að stór hluti skuldbindinganna vegna Icesave endi á íslenskum skattgreiðendum?
Stærstur hluti þeirra peninga, sem Landsbankinn halaði inn á þessum Icesave reikningum, lentu á endanum í höndunum á breskum aðilum, sem lán til þeirra. Fari þessi fyrirtæki og auðjöfrar nú á hausinn hver af öðrum - sem er að mínu mati alls ekki svo ólíklegt - og verði kreppan í Bretlandi langvarandi, lendum við Íslendingar í raun að borga gjaldþrot breskra fyrirtækja með sköttum okkar næstu árin og áratugina. Bretar hafa áður lent í löngum kreppum og tekið mjög langan tíma að komast út úr þeim. Þeirra efnahagslíf er ekkert líkt því íslenska hvað þetta varðar, þ.e.a.s. að það geti jafnað sig á tiltölulega stuttum tíma. Hvaða réttlæti er í því að við Íslendingar borgum skuldir breskra fyrirtækja og auðjöfra og tökum á okkur efnahagslega skakkaföll Breta til viðbótar við okkar eigin?
Icesave: Útgönguákvæði ekki afdráttarlaust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.6.2009 | 16:16
Er þjóðin samdauna spillingu, valdhroka, óbilgirni, valdníðslu, siðleysi, kúgun, klíkuveldi og ættdrægni?
Fyrir 4-5 árum sat ég í fyrirlestri á námskeiði, sem dr. Gunnar Helgi Kristinsson kenndi, og hét Opinber stjórnsýsla. Hér var um nokkurskonar inngang að meistaranámi í Opinberri stjórnsýslu að ræða. Það sem við nemendur og prófessor fórum m.a. yfir var spilling í stjórnkerfinu. Gunnar Helgi var þeirrar skoðunar, að spilling væri kannski ekki alvarlegt vandamál í íslenskri stjórnsýslu, en ástandið væri þó engan vegin jafn gott og athuganir á þessu efni hefðu sýnt fram á, þ.e.a.s. að spilling hér væri því sem næst engin. Á þessum tíma var ég ósammála Gunnari, en af reynslu undanfarinna ára og eftir að hafa kynnt mér málið betur, verð ég að viðurkenna að dr. Gunnar Helgi hafði á réttu að standa og var - ef eitthvað var - sennilega of varkár í nálgun sinni í þessu máli.
Í ræðu, sem Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra, alþingismaður og sendiherra, hélt á Alþingi árið 1997, fór hann að venju mikinn. Hann talaði um helmingaskiptakerfi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og hvernig þetta kerfi hefði í raun verið við lýði allt frá árinu 1951-1956. Máli sínu til stuðnings talaði hann um félagskerfi landbúnaðarins, sem komið var á laggirnar með samningum þessara flokka á árunum 1946-1949. Svavar hélt því m.a. fram að þetta kerfi hafi að mörgu leyti verið undirstaðan undir valdakerfi Framsóknarflokksins á Íslandi um langt árabil. Annað sem Svavar nefndi var hvernig stórveldin í sjávarútvegi skiptu landinu á milli sín í áhrifasvæði líkt og stórveldi gerðu forðum daga. Það sama væri upp á teningnum varðandi skiptingu landsins í áhrifasvæði varðandi verslun og hefur hann þá líklega átt við Kaupfélögin og Sambandið.
Það sem kom mér á óvart var, að Svavar skyldi ekki minnast meira á bankana og skiptingu þeirra, olíufélaganna og hvernig þau skiptu á milli sín markaðnum o.s.frv. því af nógu var að taka í þessum efnum. Svavar talaði síðan um að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og sendiherra, hafi rifjað upp Kveldúlfsævintýrið og stöðu Ólafs Thors og Jónasar Jónssonar gagnvart Landsbankanum á sínum tíma í ræðu, sem hann hafði haldið á Alþingi. Í ræðu sinni fjallar þingmaðurinn, Svavar, síðan um hvernig flokkarnir kusu menn í bankaráð, í stjórnir fyrirtækja og áttu þannig aðild að þessu víðfeðma valdakerfi. Að sjálfsögðu sá Svavar erkióvininn í Sjálfstæðisflokknum og fulltrúum hans, en sá flokkur ætti fulltrúa í öllum ríkisfyrirtækjum, Ríkisútvarpinu, öllum verksmiðjum sem ríkið átti á þessum tíma, Áburðarverksmiðjunni, Sementsverksmiðjunni, auk þess sem hann átti þá undirstöðu valdanna sem öllu skipti, það var Morgunblaðið, líkt og Svavar orðaði þetta.
Þá víkur Svavar stutt að Framsóknarflokknum og aðild hans að ríkisstjórnum um langa tíð og hvernig sá flokkur hefði komið sínum mönnum að, eins og það er kallað, fyrir í þessu valdakerfi mjög skipulega og á mjög opinn hátt, að ég segi ekki meira. Þá víkur Svavar að Alþýðuflokknum og segir hann litlu betri, enda hafi foringjar þess flokks flestallir lokið sínum starfsdegi ýmist sem bankastjórar eða sendiherrar. Talandi um ættdrægni (e. nepotism - þegar valdhafar úthluta frændfólki og vinum stöðum eða embættum) Íslendinga, þá er það skemmtileg tilviljun að dóttir Svavars, Svandís Svavarsdóttir, sé orðin þingmaður og ráðherra umhverfismála. Hún heldur vonandi merki föður síns á lofti í þessum málum. Önnur skemmtileg tilviljun er einnig að Svavar endaði - líkt og Jón Baldvin - sinn feril sem sendiherra! Þá er ekki síður gaman að rifja það upp að Jón Baldvin er sonur Hannibals Valdimarssonar, alþingismanns og ráðherra, sem átti að bróður Finnboga Valdimarsson þingmann. Ég ætla nú ekki að fara í ættfræði Alþingis, en þar er af nógu að taka, sem og innan flokkanna, hvað ættdrægni og klíkuveldi varðar og þar er virkilega enginn flokkur undanskilinn.
Ég horfði á mjög góða sænska heimildarmynd í Danska ríkissjónvarpinu um daginn, þar sem farið var ofan í saumana á ættdrægni innan sænska stjórnkerfisins eða öllu heldur sænsku utanríkisþjónustunnar. Í ljós kom að þetta fyrirbæri var algengara en nokkurn grunaði og flestir í þjónustunni ráðnir vegna skyldleika eða í gegnum klíku, þótt Svíarnir fælu það betur en Íslendingar gera. Við Íslendingar stöndum hins vegar ekki í neinum feluleik með slíka hluti, hvorki innan kirkjunnar eða í stjórnsýslunni, en líkt og Jónas Kristjánsson orðar þetta á jonas.is:
... fjölskylda guðs á Íslandi af ætt Sigurbjörns Einarssonar, fyrrum biskups. Biskupsembættið gengur hér á landi í arf. Synir og tengdasynir ættarinnar hafa áratugum saman haft forgang að feitum embættum innan þjóðkirkjunnar og guðfræðideildar háskólans.
Einkavinavæðingin (e. cronyism) sem átti sér stað og náði hámarki með einkavæðingu bankanna fór einnig fram fyrir opnum tjöldum og allir vita í hvaða höndum þær eignir enduðu og hverjum þeir tengjast. Við erum nú þegar búin að sjá hverju misheppnuð einkavinavæðing bankanna skilaði okkur Íslendingum, þ.e.a.s. hruni efnahagslífsins hér á landi. Óhæfir embættismenn, sem ráðnir voru á grundvelli pólitískra tengsla eða ættdrægni og óhæfir stjórnmálamenn, sem ganga upp innan flokkanna á grundvelli ættdrægni eða klíkuveldis, voru síðan allsendis óhæfir til að sinna störfum sínum af einhverju viti.
Einkavinavæðing og ættdrægni eru því þjóðinni dýrkeypt í bókstaflegum skilningi þess orðs, hvort sem átt er við 900 milljarða skuldbindingu vegna Icesave reikninganna, 42 milljónir króna, sem það kostaði Þjóðkirkjuna að hafa tekið tengdason biskups, Sigurð Arnarson, fram yfir Sigríði Guðmarsdóttir sem prest í London eða einkavinkonuvæðingu Ingibjargar Sólrúnar og einkavinavæðingu Davíðs Oddssonar í utanríkisráðuneytinu, skipun héraðsdómara og hæstaréttardómara, ráðning stúlku sem flugstjóra, sem var fósturdóttir yfirflugstjóra Landhelgisgæslunnar, og svona mætti endalaust telja. Ættdrægnin nær því allt frá ráðningu starfsfólks á þyrlu gæslunnar til skipunar æðstu embættismanna og hæstaréttardómara ríkisins! Þegar ég vann hjá tollstjóranum á Keflavíkurflugvelli, varð ég vitni að því að nær engir aðrir en framsóknarmenn voru ráðnir hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar - allt frá húsverði upp í flugvallarstjóra. Allir sem vinna hjá ríkinu þekkja svipaðar sögur.
Ættdrægni hér á landi er ekki nýtt fyrirbæri, líkt og fram kom í þætti Gísla Jónssonar Íslenskt mál og haft var eftir Sigurði Eggerti Davíðssyni. Sigurður sagði að Þórhallur Vilmundarson prófessor hefði minnst á það, þegar Sigurður var í námi í Íslandssögu við Háskóla Íslands, að þetta fyrirbæri hérlendis mætti rekja allt til ættmenna Odds biskups Einarssonar um 1600, Stefánunga um 1800 og Thórsara á síðustu öld. Einn nemanda í fyrirlestrinum forðum daga á þá að hafa spurt, hvort ekki mætti segja það sama um Kennedya vestur í Ameríku. Ég spyr þá í framhaldi áratugum síðar: hvað með Bushana og Clinton fjölskylduna?
Í gagnrýni sinni, í vefritinu Stjórnmál og stjórnsýsla, um ævisögu Hannesar Hafstein, Ég elska þig stormur, eftir Guðjón Friðriksson, segir Auður Styrkársdóttir, að ýmsar vísbendingar megi finna í bókinni, að Hannes hafi stundað ættdrægni eða frændsemispólitík úr ráðherrastól og einnig að hann hafi fært sér í nyt hversu nátengdur hann var valdinu:
Þannig keypti Landsbankinn (þar var bankastjóri Tryggvi Gunnarsson móðurbróðir hans) hús Hannesar þegar hann þurfti að losa sig við það við flutninginn til Ísafjarðar (bls. 259). Landsjóður keypti hús hans við Tjarnargötu árið 1909 þegar hann lét af embætti og við blasti persónulegt gjaldþrot (bls. 541). Hætt er við að fjölmiðlar nútímans teldu sig komast í feitt ef upplýstist um álíka mál ráðherra nú. Allt er þetta mikill fróðleikur fyrir stjórnmálafræðinga og má skrifa um langar ritgerðir.
Fyrir 16 árum benti Þorvaldur Gylfason, prófessor og sonur Gylfa Þ. Gíslasonar prófessors, þingmanns og ráðherra, í bók sinni Hagkvæmni og réttlæti, á að ættdrægni sé útbreitt vandamál og þá sérstaklega í fátækraríkjum; t.d. Indlandi:
... ráðuneyti og ríkisstofnanir fleytifull af fákunnandi fólki, sem stjórnmálamenn hafa troðið þangað inn, þótt færri og færari starfsmenn gætu án efa rækt störfin betur. Tollverðir á indverskum alþjóðaflugvöllum eru iðulega fleiri en farþegarnir.
Síðan benti Þorvaldur á þá merkilegu staðreynd að forseta Bandaríkjanna sé bannað með lögum að skipa ættingja sína í embætti á vegum ríkisins. Í lok greinarinnar í Vísbendingu frá árinu 1993 er bent á að ættdrægni sé alvarlegt þjóðfélagsböl á Íslandi:
... margar mikilvægar stofnanir þjóðfélagsins séu verr mannaðar en þær þyrftu að vera og væru, ef stjórnendur þeirra og aðrir starfsmenn hefðu verið ráðnir eftir menntun, reynslu og öðrum verðleikum, en ekki í gegnum klíkuskap. Vandinn hér er ekki bundinn við alvarleg mistök, sem óhæfum stjórnendum og starfsmönnum hafa orðið á - til dæmis í rekstri banka og sjóða, sem hafa tapað stórfé á liðnum árum vegna viðskipta við fyrirtæki, sem ábyrgðarlausir stjórnmálamenn höfðu velþóknun á. Nei, vandinn er meiri en svo. Hann er líka fólginn í því ranglæti, sem hæfir starfsmenn eru beittir, þegar aðrir lakari menn eru teknir fram yfir þá í gegnum stjórnmálasambönd.
Og vandinn er síðast en ekki sízt fólginn í hættunni á því, að ungt og efnilegt fólk verði smám saman afhuga almannaþjónustu, ef það sér það í hendi sér, að bezta leiðin til að komast áfram í starfi á vegum ríkis og sveitarfélaga liggur í gegnum stjórnmálaflokka, sem njóta sífellt minni virðingar, því að þá er hætt við því, að virðing slíkra starfa þverri líka mjög með tímanum og mannvalið versni eftir því. Þessa sér nú þegar stað. Ungt fólk verður að geta gengið að því vísu, að verk þess séu metin að verðleikum án tillits til fylgispektar við stjórnmálaflokka.
Erum við orðin samdauna spillingunni, valdhrokanum, óbilgirninni, valdníðslunni, siðleysinu, kúguninni, klíkuveldinu og ættdrægninni? Er ekki kominn tími til að við opnum augun fyrir þessu mikla þjóðfélagsböli okkar tíma og fyrri og reynum að skapa umhverfi líkt og hjá Sameinuðu þjóðunum eða embætti forseta Bandaríkjanna, þar sem stranglega er passað upp á að ekki sé hægt að misnota aðstöðu sína á þann hátt, sem við höfum upplifað árhundruðum saman og tökum orðið sem sjálfsögðum hlut?
Heimildir:
- Gunnar Helgi Kristinsson, fyrirlestur í Háskóla Íslands haustið 2005.
- Svavar Gestsson, Vefur Alþingis, ræða haldin þriðjudaginn 22. apríl 1997, sótt 17. júní 2009.
- Danska ríkissjónvarpið, stöð 1, 14. júní 2009.
- Morgunblaðið, greinasafn, http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=184809, sótt 17. júní 2009.
- Vefritið Stjórnmál og stjórnsýsla - http://stjornmalogstjornsysla.is/index.php?option=com_content&task=view&id=123, sótt 17. júní 2009.
- Þorvaldur Gylfason, Hagkvæmni og réttlæti, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1993,
Vísbending, 11. árgangur, 3., 6. og 8. hefti, 20. janúar, 15. febrúar og 1. marz 1993, http://www3.hi.is/~gylfason/spilling.htm, sótt 17. júní 2009.
Myndir:
- Háskóli Íslands
- Bjarni Benediktsson
- Ólafur Thors
- Hannibal Valdimarsson
- Skálholt fyrr á öldum
- Jónas Fr. Jónsson
- Jón Steinar Gunnlaugsson
- Hvíta húsið í Washington
- Hannes Hafstein
Heyjum á ný sjálfstæðisbaráttu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
13.6.2009 | 10:00
Sjálfstæðisflokkurinn endurskoði afstöðu sína
Að tæp 60% landsmanna séu hlynntir aðildarviðræðum við ESB er niðurstaða sem kemur mér ekki á óvart. Þrátt fyrir að andstæðingar ESB hafi unnið mjög ötullega gegn aðildarviðræðum undanfarna mánuði og ár hafa landsmenn ekki látið glepjast af þeim ósanngjarna áróðri. Þannig hefur klúðrið með Icesave reikninga Landsbankans alfarið verið útskýrt með "meingallaðri" reglugerð ESB, en ekki með því að stjórnendur Landsbankans fóru offari í útrás sinni og gáfu út skuldabréf þar sem við - óafvitandi - reyndumst vera ábyrgðarmenn. Reglugerðin er að vísu stórgölluð, en það vorum við sem áttuðum okkur ekki á "gatinu" í reglugerðinni og það voru íslensk stjórnvöld, sem ekki stóðu sig ekki við eftirlit og í aðhaldi við þessar bankastofnanir.
Á sama hátt hefur ESB verið lýst sem ólýðræðislegu bákni og því haldið fram að við Íslendingar töpuðum sjálfstæði okkar við inngöngu í ESB. Því hefur verið logið að við töpuðum yfirráðum okkar yfir fiskimiðunum og öðrum auðlindum, að landbúnaður legðist af á Íslandi, að Jón Sigurðsson - einn frjálslyndasti og víðsýnasti maður sem landið hefur alið af sér - myndi snúa sér við í gröf sinni gengjum við til liðs við ESB og svona mætti lengi telja. Að gera látnum manni upp skoðanir er hjákátlegt og samlíking ESB aðildarsamnings við Gamla sáttmála er í besta falli grátbroslegur "málflutningur" að ég tali nú ekki um þegar ESB andstæðingar byrja að líkja ESB við Þriðja ríki Adolfs Hitlers eða Sovétríki Jósefs Stalíns! Málefnalegur rökstuðningur er þessum mönnum víðs fjarri og frekar er leikið á tilfinningar almennings með hræðsluáróðri, ýkjum og ósannindum.
Stærstur hluti þjóðarinnar veit að ESB er hvorki gallalaust né allsherjarlausn á vandamálum landsmanna eins og þau blasa við okkur í dag. Íslendingar sjá hins vegar að ESB aðild og evran gæti verið stór hluti af framtíðarlausn okkar mála, þar sem slík aðild gæti tryggt þann stöðugleika sem okkur bráðvantar nú sem svo oft endranær. Þannig mætti koma í veg fyrir hörmungar líkar þeim sem dundu yfir okkur í haust sem leið og riðið hafa yfir okkur með reglulegu bili frá stofnun lýðveldisins. Íslendingar vita einnig að aðild að ESB snýst ekki einungis um evruna, heldur um náið pólitískt samstarf, sem hefur göfug markmið að leiðarljósi. Slíkt samstarf hugnast þjóðinni vel og hún er hvergi bangin. Við höfum jafnan komið ár okkar vel fyrir borð í slíku samstarfi. Þjóðin sá að þegar hrunið varð í haust og við snérum okkur til Bandaríkjanna, ESB, Norðurlandanna, Rússlands eða Kína var takmarkaða hjálp að fá. Við vorum lítil, varnarlaus og vinafá þjóð í Norður-Atlantshafi, sem enginn hafði áhuga á að hjálpa, þótt sumir sæju sig tilneydda. Þjóðin hefur áður áttað sig á að einmitt litlar þjóðir þurfa á öflugum bandamönnum að halda, að alþjóðasamstarf og samstarf við aðrar Evrópuþjóðir hefur skilað okkur meiri árangri en að hokra hér ein og óstudd í einangrun langt norður í ballarauga.
Þegar kemur að því að greiða atkvæði um aðildarviðræður í sumar, og síðar um aðildarsamning við ESB, verður Sjálfstæðisflokkurinn að gefa þingmönnum sínum ótakmarkað frelsi til að greiða atkvæði eftir eigin samvisku. Hvorki þingflokkurinn eða aðrar stofnanir flokksins geta leyft sér að taka afstöðu með eða gegn aðild, því málið er alltof umdeilt innan raða flokksmanna og innan raða fyrrverandi og núverandi kjósenda flokksins.
Taki þingflokkurinn - eða aðrar stofnanir flokksins - einarða afstöðu gegn ESB aðild við umfjöllun málsins á Alþingi í sumar, eða lýsi hann fyrirfram slíkri afstöðu yfir varðandi aðildarsamning, mun ég fyrstur manna verða til þess að ganga úr Sjálfstæðisflokknum og stofna annan hægri flokk á Íslandi.
Ég veit að ég er ekki einn á báti í þessu máli.
58 prósent fylgjandi ESB-viðræðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (57)
12.6.2009 | 11:32
Hrunadansinn - dauðasyndirnar og höfuðdyggðirnar sjö
Ég átti afmæli 3. júní og þar sem móðir mín þekkir einfaldan smekk sonarins, gaf hún mér bókina Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing. Það er skemmst frá því að segja að bókin er reifara líkust, Þótt maður þekki að sjálfsögðu "plottið" og "karakterana" allt of vel kemur þar ýmislegt á óvart. Hefði einhver skrifað reifara með þessu innihaldi og gefið hann út fyrir jólin 2006 eða 2007 hefði hann í versta falli verið talinn landráðamaður en í besta falli fábjáni og úrtölumaður.
Hvað á maður að segja að loknum 240 síðum í þessari frábæru bók? Á hverju á maður að byrja og á hverju á maður að enda í þeim ótal mistökum, sem gerð voru á liðnum 5-6 árum? Ég er sammála Mats Josefsson, ráðgjafa stjórnvalda við endurreisn fjármálakerfisins, og fjármálasérfræðingnum Kaarlo Jännäri, en sá fyrrnefndi sagði eitthvað á þá leið að meginábyrgðin lægi hjá eigendum og stjórnendum bankanna, á meðan sá síðarnefndi sagði að hugmyndafræðin á bak við bankana "að vaxa eða deyja" hafi verið meingölluð.
Síðan verður maður að sjálfsögðu að víkja að þætti stjórnvalda. "Vanhæf ríkisstjórn" hrópaði fólkið en átti auðvitað að hrópa "vanhæfar ríkisstjórnir". Sakarinnar var ekki einungis að leita hjá báðum ríkisstjórnum Geirs H. Haarde, heldur einnig hjá ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar og þá ekki síður síðustu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Bankakerfið óx Íslandi yfir höfuð án þess að ríkisstjórnir, Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið, Viðskiptaráðuneytið eða Fjármálaráðuneytið gerði nokkuð í málinu. Að undanteknum nokkrum þingmönnum VG voru Alþingi og forsetinn stórir þátttakendur í klappstýruliðinu. Allar viðvaranir voru hunsaðar.
Á vísindavef Háskólans er smá pistill um dauðasyndirnar sjö, sem tóku að mínu mati um of völdin hjá okkur Íslendingum á undanförnum árum. Dauðasyndirnar sjö eru: hroki, öfund, reiði, leti, ágirnd, ofát og munúðlífi. Höfuðdyggðirnar sjö eru hins vegar: viska, hófstilling, hugrekki, réttlæti, von, trú og kærleikur.
Margir hafa talað um nauðsyn þess að við Íslendingar breyttum stjórnsýslu okkar og stjórnkerfi. Ekki ætla ég að efast um að þar þarf margt að skoða og margt sem má bæta. Aðrir tala um breytingar á lögum tengdum bönkum og fjármálafyrirtækjum og það er eflaust einnig rétt.
Ég vil þó meina að ekkert af því sem gerst hefur á Íslandi - og í heiminum öllum - hefði átt sér stað, hefðum við öll verið á varðbergi gagnvart dauðasyndunum sjö og kannski borið gæfa til að halda höfuðdyggðunum sjö hærra á lofti en við höfum gert undanfarna áratugi.
Horfum meira inn á við.
Myndir: Bankabyggingar og Martin Luther
Bankarnir tóku mikla áhættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
6.6.2009 | 13:01
Að standa frammi fyrir nokkrum slæmum kostum og þurfa að velja
Varðandi lausn Icesave deilunnar stóð ríkisstjórnin frammi fyrir nokkrum slæmum kostum og þurfti að velja milli þeirra. Ein leiðin - og sú sem myndi hugnast mér best, þ.e.a.s. ef hjartað eitt réði för - er að borga hreinlega ekki til baka þessar innistæður Hollendinga og Breta. Skuldir, sem óreiðumenn eða jafnvel landráðamenn og lygarar stofnuðu til í nafni þjóðarinnar. Skuldbindinga, sem vanhæf stjórnvöld virtust vart hafa gert sér grein fyrir, hvað þá reynt að koma í veg fyrir og leiddu þannig mikla ógæfu yfir íslenska þjóð.
Hjartað eitt getur hins vegar ekki alltaf ráðið för í lífi manns, þótt maður eigi að sjálfsögðu alltaf að hlusta á það við afgreiðslu mála. Nei, skynsemin verður að ráða í málum sem þessum. Hafa þeir sem saka allt og alla um landráð og lygar hugleitt afleiðingar slíks gjörnings? Langstærstur viðskipta okkar er við lönd ESB. Heldur fólk að viðbrögð sambandsins yrðu engin ef við neituðum að standa við þessar skuldbindingar, hversu óréttlátar þær eru í okkar augum?
Þetta snýst að mínu mati um mikið meira en "inngangsmiða" inn í ESB. Borgum við ekki þessar skuldir er viðbúið að AGS hætti allri samvinnu við okkur og þar með einnig Norðurlöndin. Allar erlendar lánatökur yrðu ómögulegar og erfitt - ef þá yfirleitt mögulegt - að endursemja um lán orkufyrirtækjanna, sjávarútvegsins að ég tali nú ekki um endurfjármögnun viðskiptabankanna. Heldur fólk að við sem lítil eyja í Norður-Íshafi gætum komist lengi af með litlum sem engum viðskiptum við önnur ríki. Halda menn að Bandaríkin, Rússland eða Kína komi okkur til hjálpar. Er þetta fólk ekki með öllum mjalla? Í hverslags draumaheimi býr það?
Það er kannski ljótt frá því að segja, en ég treysti engum betur en Steingrími J. Sigfússyni í þessu máli. Hafi hann komist að þessari niðurstöðu, er þetta líklega rétt niðurstaða. Þetta segi ég ekki af því að ég sé hrifinn af honum eða VG, heldur af því að hann er alltaf gjörsamlega fastur á sínu. Staðreynd er að Steingrímur og félagar vilja ekki inn í ESB og hafa því enga ástæðu til að vilja kaupa sig þar inn. Að auki er þeim félögum bölvanlega við AGS og þurfa því ekki að koma sér í mjúkinn hjá þeim. Þeir hatast út í innlenda sem erlenda fjármagnseigendur og þurfa því ekki að beygja sig í duftinu fyrir þeim. Síðan bætist við að afstaða þeirra til Breta í þessu máli hefur frá byrjun verið knallhörð. Ég þekki VG illa ef að þeir láta kúga sig til hlýðni í máli sem þessu, því það er of stórt til að fórna stundarhagsmunum fyrir, þ.e.a.s. að hanga í vinstri stjórn með krötunum.
Vinir mínir þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af því að ég sé genginn í VG! Nei, hér legg ég aðeins ískalt mat á hlutina eins og þeir blasa við mér. Nú er ég hins vegar á leið í sumarbústað og verð þar í viku og án tölvu.
Mynd: Der Bettler, Hans Wulz, 1949, Öl auf Leinwand, 130 x 130
Icesave-samningur gerður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.6.2009 | 07:19
Frekar lygar en einfeldni hjá fólkinu í fílabeinsturninum
Það var með ólíkindum að fylgjast með lygunum hjá frambjóðendum VG og Samfylkingar í síðustu kosningum, þegar þau lofuðu að nær ekkert yrði snert við velferðarsamfélaginu er skera átti niður um 25-30% í ríkisfjármálum. Því miður var boðskapur Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum einnig rýr sem enginn og boðskapur Framsóknarflokksins einkenndist af óframkvæmanlegu lýðskrumi.
Ég hef persónulega aldrei haft mikið álit á Jóhönnu Sigurðardóttur og skil ekki hversvegna Össur Skarphéðinsson tók ekki aftur við flokknum þegar Ingibjörg hætti. Ég er viss um að þeim hefði tekist að lokka meira af Sjálfstæðismönnum til sín með Össur og hans hægrikratastefnu en ruglinu í henni Jóhönnu. Össur er í raun mjög vinsamlegur atvinnulífinu, stóriðju, orkuvinnslu og því skyldari sósíaldemókrötum á Norðurlöndunum á meðan Jóhanna er draumóramanneskja.
Ég hef hins vegar alltaf haldið að Steingrímur J. Sigfússon væri afskaplega klókur og vel gefinn stjórnmálamaður og á sinni hátt strangheiðarlegur, þótt ekki sé ég honum oft sammála. Annað sem má segja um VG að þau hafa ekki logið að þjóðinni varðandi þessa kreppu. Þannig sögðust VG ætla að hækka skatta og skera niður, á meðan Jóhanna og félagar sögðust ekki þurfa miklar skattahækkanir og að ekki yrði skorið niður mikið í félagslega kerfinu. Því miður kemur það alltaf betur og betur í ljós, hversu miklir lýðskrumarar Samfylkingin er og hversu stórhættulegir VG eru með sinni skattahækkunarstefnu og ríkisvæðingu eru.
Það allra versta er að í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum hefur ekki farið fram sú hreinsun, sem hefði þurft að fara fram í prófkjörum í vetur og síðan auðvitað í kosningunum í vor. Enn sitja flestir þeir sömu eða menn sem eru þóknanlegir gömlu valdaklíkunum í valdastólum stjórnarandstöðunnar. Vissulega eru mörg ný andlit, en þetta er fólk með sömu skoðanir og þeir gömlu og aldir upp af þeim, heilaþvegið á sama hátt og þeir sem voru fyrir á þingi. Á meðan svo er og ekki hefur verið mokað út og flokkarnir hafa ekki tekið stefnumál sín og strúktúr flokkanna til rækilegrar endurskoðunar getum við ekki boðað til kosninga. Því líkt og í kosningunum í vor, þar sem lítil endurnýjun var, yrði þetta sami grauturinn í sömu skál, sem aðeins væri hrært í!
Íslensk stjórnmál eru í pattstöðu vegna óhæfra stjórnmálamanna á báðum vængjum og í miðju stjórnmálanna. Eigum við ekkert fólk í þessu landi eða í öllum heiminum, sem treystandi er til að reka þetta land og af heiðarleika og heilbrigðri skynsemi. Land sem er með auðlindum sínum og mannauði hálfgert "El Dorado" norðursins?
Forsætisráðherra: Erfiðleikarnir eru meiri en búist var við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.6.2009 | 07:18
Vandræðalegt fyrir málshefjendur
Ég hefði verið mjög hissa ef einhverjir tiltölulega lágt settir embættismenn í þýska fjármálaráðuneytinu væru farnir að senda íslenskum stjórnvöldum duldar hótanir í netpóstum um að bregða fyrir okkur fæti í samningaviðræðum við ESB vegna uppgjörs Kaupþings við Edge reikningseigendur bankans.
Mér hefði fundist slíkt bréf úr takti við góða stjórnsýslu og skiptir þá litlu máli hvort stjórnsýslan er hér á Íslandi eða í Þýskalandi. Ég bjó nógu lengi í Þýskalandi og hef unnið nógu lengi innan stjórnsýslunnar til að vita að skilaboðum er ekki komið til skila á þennan hátt. Góðir embættismenn eru varkárir í hvaða landi sem þeir starfa og slæmir embættismenn starfa ekki í samskiptum sem þessum, þar sem þörf er á háttvísi og diplómatískum hæfileikum. Að auki væri það ráðherra, ráðuneytisstjóri eða sendiherra, sem myndi koma slíkum skilaboðum á framfæri við íslensk stjórnvöld. Slíkri hótun hefði varla verið komið á framfæri við íslensk stjórnvöld í netpósti, heldur ýjað að slíku munnlega á fundi og þá undir rós. Eitt er víst að hafi embættismaðurinn ýjað að slíkum hlutum, hefði það varla verið gert að tilstuðlan þarlendra ráðherra og ekki með þessum hætti.
Það er óþarfi að éta upp allar kjaftasögur á þann hátt sem stjórnarandstaðan þarna gerir og það á Alþingi Íslendinga. Slíkt getur skaðað okkar hagsmuni á svo viðkvæmum tímum, þegar við eigum í samningaviðræðum, sem geta haft afgerandi áhrif á fjárhagslega stöðu okkar í framtíðinni og stöðu okkar meðal þjóðanna.
Mynd: Þýska fjármálaráðuneytið.
Þjóðverjar hafa ekki hótað Kaupþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2009 | 13:10
Við borgum ekki - eru þjóðargjaldþrot eða nauðasamningar valkostur
Ég er enginn hagspekingur og þótt ég og fleiri höfum bæst í hóp efasemdarmanna um hagspeki sem vísindagrein, þá er enginn annar kostur í boði en að treysta þeim hagfræðingum, sem eru í landinu. Eftir "ófyrirsjáanlega" hrunið síðastliðið haust, er ég þó tortryggnari í garð þessarar ágætu fræðigreinar en ég var.
Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur ritaði grein í Vísi 16. janúar 2009, Örþjóð á krossgötum, og bloggaði ég um hana í kjölfarið. Boðskapur bloggsins og greinarinnar voru efasemdir um burði okkar til að endurgreiða erlendar skuldir okkar. Ekkert hefur í raun enn komið fram, sem hefur breytt þessari skoðun minni.
Mér finnst þjóðin t.d. ekki hafa fengið svör við hvernig ríki og sveitarfélag ætla að greiða til baka skuldir, sem hafa rúmlega tvöfaldast. Einnig er ekki ljóst hvernig fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga - t.d. orkufyrirtækin - ætla að borga skuldir sínar til baka og endurfjármagna sig á þeim vöxtum, sem okkur verða boðnir á næstu árum? Vitanlega eru eignir á bak við skuldirnar, en þær eru sumpart í engu samræmi við skuldirnar. Það sem verra er, að endurgreiða verður skuldirnar meðan tekjustofnar ríkisins og sveitarfélaganna og fyrirtækjanna eru að stóru leyti brostnir eða mjög skertir. Endurgreiðsla lána ríkisfyrirtækja og sveitarfélaga var miðuð við óbreyttar eða auknar tekjur. Samkvæmt grein Haraldar var í raun um árabil ekkert samræmi í skuldaaukningu ríkisfyrirtækja og sveitarfélaga og raunaukningu á landsframleiðslu og útflutningstekjum og þar með auðvitað tekjum ríkis og sveitarfélaga.
Vissulega höfum við enn lánin frá AGS, Norðurlöndunum og Póllandi sem varasjóð ef illa fer og getum því endurfjármagnað með þeim fjármunum, en þessu á þá einfaldlega að lýsa yfir. Styrkir það okkur ekki frekar en að skaða að þrátt fyrir allt séum við með aðgang að lánum til að greiða til baka afborganir af lánum eða endurfjármagna Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur eða Hitaveitu Suðurnesja. Eða er kannski alls ekki ætlunin að greiða fyrir hjá þessum fyrirtækjum, leyfir AGS það ekki? Vill AGS kannski að þessi dýrmætu fyrirtæki okkar - fjöreggin - hafni hjá erlendum lánadrottnum?
Árið 2004 voru allar erlendar skuldir okkar um tvöföld landsframleiðslan, en við hrunið í september 2008 var hún orðin áttföld landsframleiðslan og nær tvöfaldar útflutningstekjurnar. Þessar tölur eru reiknaðar á gamla genginu og því er ástandið nú í raun miklu verra. Ég spyr því eins og fávís maður: hvað hefur breyst síðan þessar tölur birtust í sláandi grein Haraldar L. Haraldssonar? Eru tölurnar rangar? Hafa þessar skuldir að einhverju leyti verið afskrifaðar? Hafa útflutningstekjurnar ekki lækkað með lækkuðu afurðaverði? Rambar stór hluti íslenskra fyrirtækja og heimila ekki á barmi gjaldþrots? Er staðan ekki - ef eitthvað er - verri en hún var í janúar?
Samkvæmt grein Haraldar gætu vextir af erlendum lánum núna verið í kringum 5%. Vaxtagreiðslurnar af ofangreindum lánum, og þeim sem við þurfum að taka vegna Icesave reikningana, gætu numið 120 - 150 milljörðum króna af útflutningstekjum sem hafa farið lækkandi. Hafi ég hef skilið grein Haraldar rétt, þá er ekki tekið tillit til afborgana af lánunum.
Á vikulegum blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar, 17. mars 2009, fór Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra yfir íslenskan þjóðarbúskap og ríkisfjármál í kynningu, sem hann kallaði Íslenskur þjóðarbúskapur og ríkisfjármál. Á netinu eru aðgengilegar mjög greinargóðar og skilmerkilega glærur á mannamáli um þetta málefni. Þar koma fram ýmsar upplýsingar, m.a. um erlenda stöðu þjóðarbúsins með og án gömlu bankanna. Steingrímur kynnir þarna samtölu skulda heimila, fyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga, sem hann segir vera í kringum 200% af vergri landsframleiðslu og segir hann AGS staðfesta þá tölu. Steingrímur segir erlendar skuldir gömlu bankanna vega þungt en að þær muni hverfa smám saman vegna eignasölu og afskrifta á skuldum. Hann segir "hreina skuldastöðu" vera lítillega jákvæða, hvað sem það nákvæmlega þýðir í ljósi allrar óvissu um raunverulegar eignir gömlu bankanna? Því má aldrei gleyma að enginn veit hversu háar skuldbindingar okkar eru gagnvart Icesave reikningunum, þ.e.a.s. hvað hvað fæst út úr eignunum. Ekki má gleyma að á meðan eignir gömlu bankanna ekki seljast, þurfum við að greiða vexti af lánunum, sem Bretar, Hollendingar og Þjóðverjar "góðfúslega" lögðu út fyrir "okkur" eða öllu heldur íslensku "einkabankana". Ekki er ólíklegt að allar erlendar eignir okkar nemi rúmlega 3.000 milljörðum (spurning hvaða gengi er tekið) og skuldirnar rúmlega 3.000 miljörðum króna, en þarna var og er enn um algjöra ágiskun að ræða.
Ég get ekki séð hvernig fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins - eða nokkrir aðrir - geta nú þegar svarað þeirri spurningu, hvort Íslendingar geti staðið undir skuldabyrði hins opinbera til langframa. Óvissuþættirnir eru að mínu mati enn of margir. Ennfremur er allsendis óvíst á hvaða vöxtum lánin bjóðast og hvernig afborgunum verður háttað, nema að búið sé að semja um þetta allt saman og landsmenn ekki fræddir um það, sem kæmi mér svo sem ekki á óvart.
Ég get hreinlega ekki samþykkt að við þurfum að ráðstaka 20-30% af okkar útflutningstekjum næstu 10-15 árin til að losna úr skuldafjötum, sem einkaaðilar komu okkur út í. Þótt ég geti samþykkt opinberan niðurskurð upp á 10-20% get ég ekki skrifað upp á að við þurfum að loka hér sjúkrahúsum og skólastofnunum og skera alla opinbera þjónustu niður, þannig að við endum eins og hvert annað Mið-Ameríkuríki og það til að greiða niður skuldir útrásarvíkinganna.
Að sjálfsögðu verðum við að standa við skuldbindingar ríkis og sveitarfélaga og fyrirtækja á þeirra vegum. Ég hafna hins vegar alfarið að ríkið axli ábyrgð á gjörðum einkafyrirtækja og velti því þess vegna hér að samfara - eða í kjölfar - aðildarviðræðna við ESB, verði farið í nauðasamninga við skuldunauta okkar.
Við getum ekki samþykkt að fulltrúar lánadrottna - AGS - skipi okkur alfarið fyrir verkjum, hvernig við högum okkar málum til lengri eða skemmri tíma. Ég segi því líkt Davíð Oddsson sagði í frægu viðtali í Kastljósi 7. október 2008, sem vakti mikla hneykslun margra: "... ætlum ekki að borga erlendar skuldir óreiðumanna". Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra tók að hluta til undir þessi orð nokkrum dögum síðar, 10. október 2008:
... ríkisstjórnin hefur ekki leyfi til að skuldbinda komandi kynslóðir Íslendinga um mörg hundruð milljarða. Ekkert samráð sé haft við Alþingi um samninga við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Ríkisstjórnin sé raunverulega umboðslaus til slíkra samninga.
Ögmundur bætti við að Íslendingar ættu að leggja niður fyrir sér hverjar séu lagalegar og þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslensku þjóðarinnar séu í þessu máli, þar væru uppi álitamál og engin opinber eða lýðræðisleg umræða hefði í raun farið fram um málið. Nú eru liðnir 8 mánuðir og þessi umræða hefur í raun ekki farið fram enn, alla vega ekki fyrir opnum tjöldum.
Við þurfum á alvöru leiðsögn að halda - alvöru ríkisstjórn, alvöru Alþingi, alvöru stjórnmálaflokkum og allt þarf þetta að vera leitt af alvöru leiðtogum með framtíðarsýn og markmið og þor og getu til að fylgja þessu á eftir.
Eftir þessu er mikil eftirspurn meðal þjóðarinnar en lítið framboð!
Ísland stendur undir skuldum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)