THE BIG P

Undanfarnar vikur hef ég vitað að Pavarotti hefur verið mjög veikur og nú þegar hann dó var mér hugsað þrjátíu og sjö ár aftur í tímann, en það ár hélt hann tónleika í Reykjavík. Ég var staddur úti á sjó að vinna fyrir námi mínu í Verzlunarskóla Íslands og var fjarrri góðu gamni. Tveimur árum áður hafði ég leynilega byrjað að hlusta á óperurnar hans pabba og var mest hrifinn af Pavarotti, þótt Giuseppe di Stefano væri líka hátt skrifaður auk Beniamino Gigli og Enrico Caruso og reyndar fleiri.

 Svo byrjaði laumuspilið, þ.e.a.s. að kaupa óperur og óperuplötur og spila þær í laumi. Þetta gekk allt frá því ég byrjaði að spila plöturnar hans pabba þar til ég byrjaði í söngnámi við Söngskólann í Reykjavík og kom út úr skápnum.

 En hver kveikti þennan eld, sem ennþá er ekki slökknaður? Það var einfaldur sonur bakara frá Modena, sem gæddur var einhverri þeirri guðdómlegustu rödd, sem Guð almáttugur hefur gefið nokkurum manni fyrr og síðar. Fólk talar um háu C-in hans í óperunni Dóttur herdeildarinnar, Nessun dorma úr Turandot, en fyrir mig var það ástardútettinn úr Madame Butterfly eftir Puccini, sem leiddi mig út á braut óperunnar.

Ég vil meina að Luciano Pavarotti hafi raunverulega komið af stað þeirri ótrúlegu bylgju, sem hér fór af stað upp úr 1980 varðandi óperusöng. Þessi bylgja kom mér af stað og ég koma Gunnari bróður mínum af stað og Kolbeinn Ketilsson föðurbróðir minn fór af stað á sama tíma og við höfðum áhrif á Guðjón Óskarsson, o.s.fr.v.

 Mér þótti miður að einn okkar stærstu söngvara fyrr og síðar, Kristján Jóhansson, skyldi ekki einfaldlega viðurkenna "séní" meistarans og taka hattinn ofan. Þetta minnir mig á viðtal sem birtist við hann í Mannlífi fyrir u.þ.b. 25 árum síðan, þar sem hann óskapaðist yfir andfýlu Pavarottis og að hann þyrfti að bursta tennurnar oftar. Hvers vegna geta sumir ekki aðeins viðurkennt, að það eru til góðir söngvarar, tónsmiðir og aðrir góðir listamenn, sem maður stendur frammi fyrir og þakkar aðeins að Guð almáttugur hafi sent eitthvað af sér til að miðla okkur dauðlegum.

Hér stend ég og er þakkátur fyrir að fá að hafa hlustað á Luciano Pavarotti í þrjátíu ár.

 Guðbjörn Guðbjörnsson

óperusöngvari


mbl.is Luciano Pavarotti látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband